Barnavændið í Brasilíu

child prostitueStórmót í íþróttum heilla margan og mikið er gert til að kynda undir áhuga alþýðu manna.Í Brasilíu hefst boltasparkið á HM 12. júní og stendur í mánuð.  Þetta fer ekki fram hjá neinum sem fylgist eitthvað með boltaíþróttum í fjölmiðlum og mikið er gert út á áhuga alþýðu manna á setu við sjónvarpsskjáinn um hásumar. Þetta er sá atburður sem mest er fylgst með í fjölmiðlum og allt kapp lagt á að gera „íþróttinni fögru“ eins og knattspyrnan er oft nefnd, sem best skil. En ekki er allt gull sem glóir. Stórmótin eiga sér aðrar hliðar sem stundum eru dregnar upp við mismikla hrifningu þeirra sem vilja hafa sínar glansmyndir hreinar.

Fyrir Ólympíuleikana í Aþenu 2004 vakti nokkra athygli hvað skipuleggjendur leikanna tjáðu sig opinskátt um hve nauðsynlegt væri að sinna kynlífsþörfum þeirra sem kæmu þar til keppni, innan vallar sem utan og hvöttu til fjölgunar á kvenfólki sem væri til með að selja gestum og gangandi blíðu sína meðan á leikunum stæði. Heilbrigð sál í hraustum líkama verður líka að fá fullnægingu og skipuleggjendur ÓL dreifðu verjum í tugþúsunda tali til keppenda, sem mæltist vel fyrir því íþróttamenn eru félagslyndir með afbrigðum.

Fyrir HM í knattspyrnu í Þýskalandi 2006 hugsuðu menn stórt og hugðu á innflutning á konum til að fylla bæði ný og gömul vændishús þar í landi fyrir mótið, enda er vændi löglegt í Þýskalandi og einboðið að líta á það eins hvern annan rekstur þar sem mæta þyrfti eftirspurn með nægu framboði. Þetta sætti nokkurri gagnrýni fyrir mótið en svo var byrjað að sparka og eftir það komst ekkert annað að.

Í aðdraganda keppninnar í Brasilíu hefur fátt komist að annað en boltinn en þar er fátt sparað til að gera allt sem best úr garði. Fátækt er mikil þarna syðra og því hafa mikil útgjöld stjórnvalda vegna mótsins leitt til harðrar gagnrýni þeirra sem telja fénu betur varið í þágu þeirra sem minnst mega sín. Þessi gagnrýni má sín lítils en blaðamenn Die Welt kynntu sér eina hlið stórmótsins sem til þessa hefur nær enga umfjöllun fengið.

„Í skugga vinsælasta íþróttaviðburðar heims blómstrar barnakynlífsiðnaður í Brasilíu.  Þangað koma álíka margir „kynlífsferðamenn“ og til Taílands. Þar geta þeir keypt barn fyrir nokkrar evrur og þetta hefur skapað eftirspurn í neðanjarðarhagkerfi landsins; fjöldi barna í vændi í Brasilíu er talinn hafa fjórfaldast á undanförnum tíu árum og er um 400.000 núna. Flest barnanna falbjóða líkama sinn vegna þrýstings frá foreldrum. Stundum eru þau einfaldlega seld, eða jafnvel afhent glæpahópum…

Áætlað er að um 600.000 erlendir ferðamenn komi til Brasilíu vegna HM, ásamt 3 milljónum innlendra ferðamanna. Sagt er að tekjur barns af kynlífssölu þessar fjórar vikur sem mótið stendur yfir, nægi fjögurra manna fjölskyldu til framfærslu í heilt ár.“

Margt fleira kemur fram í þessari úttekt blaðamanna Die Welt og miður fallegt. Steinsnar frá glæstum leikvöngum standa  barnungar stúlkur í röðum og engum leynist hvað þarna fer fram. Þrátt fyrir vilja stjórnvalda verður lítið við þessu gert því fátækt verður ekki bætt með holhljóma loforðum og neyðin rekur marga út í sölu á líkama sínum.

Mörgum þykir sjálfsagt ekkert að þessu og veifa væntanlega rökum um að konur ráði sjálfar yfir líkama sínum, sem er auðvitað rétt. Þetta sama fólk gerir engan greinarmun á  vændi og öðrum störfum þar sem launþeginn þarf að nýta líkama sinn á einhvern hátt og trúir staðfastlega á hamingjusömu hóruna sem eigi að fá að starfa í friði. Lengi býr að fyrstu gerð og kannski fellur börnunum þetta svo vel í gerð að þau gera þetta að framtíðarstarfi með gleðibros á vör.

Á eftir bolta kemur barn. Þetta slagorð þekkjum við úr umferðarfræðslu. Í Brasilíu kemur líka barn á eftir bolta. Bara öðruvísi.

10 athugasemdir við “Barnavændið í Brasilíu

 1. Fín og þörf grein. Það er reyndar eitt sem stakk mig:

  „Mörgum þykir sjálfsagt ekkert að þessu og veifa væntanlega rökum um að konur ráði sjálfar yfir líkama sínum, sem er auðvitað rétt.“

  Er þessi grein ekki um barnavændi? Er ekki umræðan um fullorðnar vændiskonur allt önnur? Eða er verið að segja að konur og börn tilheyri sama hópnum, sem þurfi að vernda og hafa vit fyrir?

 2. Þetta er vissulega alvarlegt mál sem vert er að huga vel að. Þó má hugga sig við reynsluna frá HM í Þýskalandi 2006, þar sem búist hafði verið við mikilli aukningu í vændiskaupum, kynlífstúrisma og stórfelldu mansali í tengslum við mótið. Í mjög ítarlegri rannsókn Evrópusambandsins eftir mótið (sjá tengil) þá varð ekki vart við aukið mansal í tengslum við mótið og vændisviðskiptin virðast hafa valdið dólgunum miklum vonbrigðum.

  http://register.consilium.europa.eu/doc/srv?l=EN&f=ST%205008%202007%20INIT

  Ég efast um að sambærileg rannsókn hafi verið gerð eftir mótið í Suður-Afríku 2010, en mig rámar þó í skrif um að þar hafi kynlífsiðnaðurinn ekki vaxið á þann hátt sem búist var við. Skýringar á þessu liggja ekki ljósar fyrir, þótt ýmsar tilgátur séu á lofti, t.d. að HM-ferðirnar séu svo dýrar að hópurinn sem geti leyft sér þær sé öðru vísi samansettur og innstilltur en þegar um er að ræða hefðbundnar „gauraferðir“. Eins séu fótboltabullurnar þaulsetnari á börunum að góna á leiki og þamba bjór sem letji menn heldur til verka á kynlífskaupasviðinu.

  • Í greininni eru tenglar á þrjár heimildir. Aðalheimildin er grein 3 blaðamanna Die Welt, eins og þarna kemur skýrt fram. Aðrir sem hér hafa tjáð sig hafa sett inn tengla, sem er vel.

   • Ef þetta væri kepni í hversu margar heimildir maður vísar í þá væri ég samt ennþá að vinna með þessari einu grein, sem tvístrast í tugi linka.

    Staðreyndin er sú að greinin sem ég vísa í grefur undan því sem hefur verið linkað hér.

    Þá er ekki þar með sagt að vændi og sérstaklega barnavændi sé ekki alvarlegt (auðvitað ekki) – það er eingöngu verið að segja að ekki er hægt að taka fullt mark á alarm-istum, þó þeir tali fyrir góðu málefni

   • Þetta er ekki keppni í neinu. Ég bendi einfaldlega á aðalheimildina sem er grein þriggja blaðamanna, er heimsóttu Brasilíu og kynntu sér þetta mál. Þetta er þeirra frásögn. Aðrir miðlar hafa fjallað um þetta á tengdum nótum. Ef þér er mikið í mun að sýna fram á að þetta sé ekki eins mikið vandamál og þessir téðu blaðamenn segja, þá er þér það frjálst. Það breytir ekki upplifun þeirra sem fóru á vettvang.
    https://www.google.is/search?q=child+prostitution+brazil&oq=child+prostitution+brazil&aqs=chrome..69i57.9208j0j4&sourceid=chrome&es_sm=93&ie=UTF-8

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.