Grípum til aðgerða gegn klámvæðingu ungra stúlkna

Höfundur: Halldóra Björt Ewen pornification 1 Málþingið Út fyrir boxið var haldið þann 4. júní sl. Málþinginu var ætlað að varpa ljósi á valdeflandi starf með börnum og unglingum til að reyna að sporna við neikvæðum áhrifum klámvæðingar og útlitsdýrkunar á líf barna og unglinga. Málþingið var samstarfsverkefni skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, Landlæknisembættisins og Jafnréttisstofu.

Í erindi Sigrúnar Daníelsdóttur, sálfræðings og eins forsprakka Samtaka um líkamsvirðingu,  kom fram að margar rannsóknir sýna að líðan stelpna og sjálfsálit þeirra versnar mikið þegar þær komast á unglingsár. Þeim finnst þær of feitar, ljótar, ekki klárar, ekki vinsælar og almennt ómögulegar. Afleiðingarnar eru m.a. þær að fleiri og fleiri stelpur eiga við alvarlegar átraskanir að stríða og önnur hver stelpa telur sig þurfa að fara í megrun eða hefur farið í megrun (einn af hverjum fimm strákum telur sig þurfa í megrun eða hefur farið í megrun). Þótt útlitsdýrkun og óeðlilegar hugmyndir séu um líkama karla er engum blöðum um það að fletta að áreiti sem stelpur verða fyrir er margfalt meira. Nægir að nefna áróður snyrti- og tískubransans sem beinist í miklum meirihluta að stelpum og konum.

Aðalfyrirlesari á málþinginu var Dana Edell. Hennar erindi fjallaði fyrst og fremst um klámvæðingu og áhrif hennar á stelpur en einnig mögulegar leiðir til að bregðast við og breyta heiminum til hins betra. Og það var sá hluti erindis hennar sem blés mér von í brjóst og vakti upp í mér aktívistann!

Þessi bolur eða bolur með mjög svipaðri hönnun var á einhverjum tíma í sölu hjá Hagkaupum, í unglingastærð.

Bolur sem þessi var á einhverjum tíma í sölu í verslunum hérlendis, í unglingastærð.

Í upphafi fór Dana yfir stöðuna eins og hún blasir við öllum sem vilja hafa augun opin. Mjög margt sem birtist okkur er klámvætt, konur og stelpur birtast varla í auglýsingum öðruvísi en að kynferðisleg skírskotun sé áberandi. Í þessu samhengi mætti t.d. nefna nærföt fyrir smástelpur (4-7 ára) sem eru með brjóstapúðum og g-strengsbrók. Í slíku tilfelli er augljóst að markmiðið er að gera börnin fullorðinslegri, eða eins og kynþroska konur. En haldarinn og brókin eru ætluð börnum, munum það! Mörg munum við líka eftir bolunum sem voru ætlaðir smástelpum og á stóð Porn star in training! Þessi stöðugi áróður um að konur og stelpur eigi að vera kynþokkafullar, mjóar og sætar er ástæða þess að konur og stelpur eru óánægðar með sjálfar sig. Við fáum stöðugt þau skilaboð að við séum of hrukkóttar og þess vegna þurfum við þetta eða hitt hrukkukremið, við erum of þungar og þess vegna eigum við að gera 100 magaæfingar svo við getum látið sjá okkur í bíkiní, við erum of hitt og van þetta og þess vegna heldur kærastinn fram hjá okkur. Og já, við erum að sjálfsögðu allar gagnkynhneigðar! Eftir fremur valdletjandi mynd af stöðunni snéri Dana blaðinu við og sagði okkur málþingsgestum frá Spark. Spark er hreyfing sem valdeflir stelpur og hjálpar þeim að standa á móti áróðrinum sem hellist yfir þær á hverjum degi. Í hreyfingunni eru fullorðnar konur, aktívistar, femínistar, kennarar, sálfræðingar og síðast en ekki síst stelpur, alls konar stelpur! Þær fá alls konar þjálfun sem eflir þær, t.d. í því að koma fram í fjölmiðlum, lesa fjölmiðla með gagnrýnum augum og að brynja sig fyrir hatursfullri orðræðu í þeirra garð. Stelpurnar eru allar virkar, þær blogga um það sem þær hafa áhuga á, það sem þeim gremst eða það sem þeim þykir ánægjulegt og þær skipuleggja eitt og annað til að vekja athygli á málstaðnum. Og þessar stelpur eru orðnar ánægðari með sig, þeim finnst þær vera fínar eins og þær eru og ekki þurfa að breyta sér til að uppfylla afar strangar og þröngar útlitskröfur samfélagsins. Það sem situr í mér eftir málþingið er sú ábyrgð sem við, sem erum fullorðin, berum á líðan stelpnanna. Það eru ekki börn sem búa til stelpubrjóstahaldara með púðum eða auglýsingaherferðir þar sem smástelpur eru klæddar upp eins og kynþokkafullar fullorðnar konur (náttúrlega ekki of fullorðnar þó!). Og ekki búa vörurnar sig til sjálfar. Það erum við fullorðna fólkið sem búm til auglýsingarnar, snyrtivörurnar, fötin, tónlistarmyndböndin, bíómyndirnar og unglingablöðin. Við sitjum á löngum fundum þar sem við ákveðum að einmitt svona vöru ætlum við að búa til og að einmitt svona eigi að auglýsa hana. Við berum ábyrgð á því að unglingsstelpum líður illa með sjálfar sig og okkur ber skylda til að bregðast við. Og við verðum einfaldlega að hafna klámvæðingunni og nota til þess allar aðferðir sem okkur dettur í hug. Dana Edell sagði frá nokkrum árangursríkum aðgerðum sem allar hafa leitt til ögn betri heims, en það er mikið verk að vinna og við þurfum öll að gerast femínískir aktívistar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.