10 aðferðir til að gera lítið úr útliti annarra

Ragen Chastain mynd1. Segjum til dæmis „Hún væri svo falleg ef …“

Hefurðu einhvern tímann sagt eitthvað á borð við „En hún er svo andlitsfríð“ eða „Hún væri miklu fallegri ef hún bætti á sig nokkrum kílóum“? Þá ertu að takmarka hugmyndir þínar um fegurð við menningarbundnar staðalímyndir. Fegurð er ekki skilyrt. Ef þú getur ekki sagt eitthvað fallegt er kannski tími til kominn að læra það.

2. Dæmum klæðaburð annarra

Þér er fullkomlega frjálst að velja hvaða föt sem þér sýnist en enginn annar þarf að fylgja þínum smekk. Manneskjan sem klæðir sig svona ber fötin reyndar vel, sama þótt þér finnist hún of flatbrjósta, brjóstamikil, lágvaxin, hávaxin, feit eða mjó. Og feitt fólk þarf ekki að einskorða sig við dökka liti og langröndótt, þótt aðrir vilji það kannski. Og spandex? Það er sjálfsögð réttindi, ekki forréttindi.

3. Setjum málin fram sem „við gegn þeim“

Orðalagið „Alvöru konur hafa bogalínur“ er afar erfitt viðfangs. Það var fundið upp sem svar við þeirri gríðarlegu niðurlægingu sem feitar konur þurfa að þola en engu að síður hefur það sömu áhrif í gagnstæða átt. Vegurinn til sjálfsvirðingar er líklega ekki varðaður hræsni. Orðalagið „drengjalegur vöxtur“ er ekki síður snúið, enda getur falist í því að fáar bogalínur geri okkur einhvern veginn minna kvenlegar. Hugmyndin um að fegurð sé ekki allra, að sjálfsvirðing sé ekki allra, er eintóm lygi. Alvöru konur eru til í öllum stærðum og gerðum, óháð öllum bogalínum.

4. Forðumst orðið „feitur“

Þegar við förum í kringum lýsingarorðið feitur eins og köttur í kringum heitan graut gefum við í skyn að það sé svo hræðilegt að við getum ekki einu sinni sagt það. Það eina sem er verra en að kalla feitt fólk „stórbeinótt“ eða „þrýstið“ er að nota veigrunarorð sem gefa til kynna að líkamsvöxtur sýni heilsufar okkar eða hvort við hugsum vel um okkur. Um leið og þú einsetur þér að hætta að gera lítið úr útliti annarra skaltu reyna að forðast orðalag á borð við „hún virðist vera við góða heilsu“ eða „mér sýnist hún hugsa vel um sjálfa sig“ og „hún lítur úr fyrir að svelta sig“ þegar þú átt í rauninni við að kona sé grönn.

5. Líkjum fólki við mat

Við myndum öll lifa betra lífi ef við heyrðum aldrei framar orðin rúllupylsa, kálfslappir, skinka, súkkulaðikleina, melónur, eplalögun eða perulögun notuð um fólk. Við erum ekki matur.

6. Óskum fólki til hamingju þegar það grennist

Þú veist ekki hvernig stendur á hjá annarri manneskju. Kannski horaðist hún út af veikindum. Þú veist ekki heldur hvort hún bætir aftur á sig kílóunum (um það bil 95% fólks gerir það) en þá gæti hrósið sem hún fékk áður virkað eins og gagnrýni. Ef einhver bendir á að manneskja hafi grennst væri til dæmis hægt að bæta við „Þú hefur alltaf verið falleg. Það skiptir öllu máli að þú sért sjálf ánægð“. Þú ættir samt ekki að nefna að einhver hafi grennst nema viðkomandi minnist sjálfur á það. Finndu eitthvað annað til að hrósa.

7. Notum gervihrós

„Mikið ertu hugrökk að klæða þig svona.“ Og vel á minnst, það krefst ekki hugrekkis að klæða sig í ermalausan bol eða bikini. „Þú ert ekki feit, þú ert falleg.“ Þetta tvennt útilokar ekki hvort annað – manneskja getur verið bæði feit og falleg. „Þú mátt alveg við því að borða þetta, þú ert svo mjó.“ Þú veist ekki nema viðkomandi sé haldinn átröskun eða einhverjum öðrum kvilla; það er óþarfi að gera athugasemd við líkama annarra eða það sem fólk borðar. „Þú ert ekkert svo feit“ eða „þú ert ekki feit, þú stundar líkamsrækt“ skaltu þurrka alveg út úr orðaforðanum. Það er líka móðgandi að gefa í skyn að það sé neikvætt að vera feitur.

8. Lítum á konur sem útungunarvélar

Einn lesandi minn hafði það eftir kvensjúkdómalækninum sínum að hún væri „góð til undaneldis“. Annað ekki skárra: „barneignamjaðmir“. Verst er samt þegar fólk spyr feitar konur hvenær þær eigi von á sér. Einhver sagði einhvern tímann að maður ætti ekki að ganga út frá því sem vísu að kona væri ófrísk fyrr en sæist í kollinn á barninu.

9. Skiptum okkur af líkamsrækt annarra

Það ber ekki mikið á þeirri líkamsniðrun sem felst í að fólk gefur sér hvað aðrir stunda mikla hreyfingu eða stingur upp á líkamsþjálfun fyrir aðra. Ekki spyrja feita manneskju: „Hefurðu prófað að fara í gönguferðir?“ Ekki segja við granna manneskju: „Þú hlýtur að vera allan daginn í ræktinni.“ Fólk í líkamsræktarstöðinn minni hefur óskað mér til hamingju með að vera byrjuð í líkamsrækt þegar raunin er sú að ég byrjaði 12 ára gömul og hef aldrei hætt því. Ég á granna vinkonu sem fór að æfa lyftingar og fékk að heyra: „Farðu varlega, þú mátt ekki massa þig.“ Hvernig væri að fara ekki yfir strikið og hætta öllum dónaskap og afskiptasemi?

10. Leikum næringarfræðinga

Ef þú veist ekki því betur hvað einhver borðar eða þjálfar sig mikið ættirðu ekki að segja viðkomandi að borða minna og hreyfa sig meira eða leggja til að hún/hann bæti á sig holdum. (Og láttu það eiga sig, jafnvel þótt þú vitir hvað hún/hann borðar.) Ertu viss um að hún/hann sækist eftir að fá næringarráðgjöf frá þér eða vilji fá að heyra um nýja megrunarkúrinn sem þú last um á Smartlandi?

 

Höfundur: Ragen Chastain

Fyrst birt hér og þýtt með góðfúslegu leyfi höfundar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.