Kastljósinu beint að stríðsnauðgunum

 Höfundur: Guðrún Sif Friðriksdóttir

rape as weapon

Um þessar mundir stendur yfir alþjóðleg ráðstefna í London undir yfirskriftinni „Global Summit to End Sexual Violence in Conflict“. Gestgjafar á ráðstefnunni eru þau William Hague, utanríkisráðherra Bretlands og Angelina Jolie, sérlegur erindreki Flóttamannastofnunar Sameinuðu Þjóðanna og markmiðið er að ná leiðtogum heimsins saman  til þess að stemma stigu við nauðgunum í stríði. Göfugt og gott markmið, og þótt fyrr hefði verið, hugsa líklega mörg okkar sem hafa unnið að þessu málefni.

Reyndar er það ekkert nýtt að alþjóðasamfélagið reyni að taka á þessum málum. Í október árið 2000 var ályktun 1325 samþykkt í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, en það er fyrsta ályktunin um konur, frið og öryggi. Margar ályktanir hafa fylgt í kjölfarið, en lítið hefur breyst á stríðshrjáðum svæðum. Ályktun 1325 var viðtæk og sérstök að því leyti að hún tók að sjálfsögðu á kynbundnu ofbeldi gegn konum, en einnig á þátttöku kvenna í friðarumleitunum, friðaruppbyggingu, kosningum og ákvarðanatöku eftir stríð. Ályktunin var einnig sérstök fyrir það að frjáls félagasamtök og kvennahópar  áttu að mörgu leyti frumkvæðið að henni og tóku virkan þátt í gerð hennar. Markmiðið var að hluta til að reyna að breyta þeirri rótgrónu  ímynd að konur séu einungis þolendur í stríði (og karlar þar með gerendur).

Því miður hafa ályktanirnar sem hafa fylgt í kjölfarið (1820, 1888, 1889, 1960, 2106, 2122) leitað í fyrra horf og einkum beint sjónum að nauðgunum, og þá konum sem þolendum. En auðvitað er núverandi ráðstefnu  í London ekki ætlað að taka á kvennavandamáli per se og skipuleggjendur hennar virðast hafa gætt þess í ræðum og yfirlýsingum að tala ævinlega um að stríðsnauðganir séu glæpur sem konur, karlar, stúlkur og drengir verði fyrir. Hinsvegar draga þau myndbönd sem finna má á YouTube í tengslum við eða á vegum ráðstefnunnar upp þá mynd að konur séu aðeins þolendur og karlar alltaf gerendur í stríði. Myndbandið sem Stuart Gill sendiherra Breta á  Íslandi hvatti Íslendinga til að skoða í grein á vísi 10. júní (http://www.visir.is/stodvum-stridsnaudganir/article/2014706109949) er dæmi um þetta og einnig dæmi um það þegar gerendur eru birtir sem skrímsli. Með þessu er dregin fjöður yfir þá staðreynd að karlar og drengir eru líka fórnarlömb nauðgana í stríði. Stundum er því haldið fram að nauðganir á karlmönnum séu best geymda leyndarmál stríðsreksturs, enda veigra karlar sér oftast enn meira en konur við því að tilkynna slíka glæpi, gjarnan vegna ríkjandi hugmynda um karlmennsku og/eða vegna þess að karlar eru einfaldlega ekki spurðir þegar gerðar eru kannanir eða úttektir á fórnarlömbum stríðsnauðgana.

Dæmi um jákvæða nálgun á þetta viðfangsefni á  ráðstefnunni í London núna um helgina er að lögð er áhersla á að nauðganir eigi ekki að teljast óhjákvæmilegur fylgifiskur stríðsátaka, en sú afstaða hefur lengi vel verið samofin orðræðunni um þetta efni. Fræðikonan Elisabeth Jean Wood  (2011) hefur til dæmis sýnt fram á það í rannsóknum sínum að nauðganir eru alls ekki alltaf fylgifiskur átaka. Nauðganir eru ekki óhjákvæmilegar  í átökum þó að ofbeldi sé almennt mikið notað gegn borgurum (átök  í Palestínu eru dæmi um slíkt), nauðganir eru ekki einu sinni óhjákvæmilegar hjá vopnuðum hópum þó að andstæðingar þeirra í átökunum nýti sér slík stríðsvopn. Norður-Víetnamar notuðu til dæmis ekki nauðganir í nándar nærri sama mæli og Bandaríkjamenn gerðu í Víetnamstríðinu og uppreisnarhermenn í borgarastyrjöldinni í El Salvador ekki heldur, þótt stjórnarherinn þar í landi hafi gert það. Hinsvegar er það ekki alveg rétt eins og talað virðist um á ráðstefnunni að nauðganir séu alltaf notaðar sem vopn. Stundum eru nauðganir framdar sem afleiðing agaleysi og ringulreið í herjum eða herdeildum, fremur en að þær séu notaðar kerfisbundið sem stríðstækni. Þegar fólk er neytt til þátttöku í stríði, frekar en að hafa haft um slíkt einhvers konar val, eru hópnauðganir stundum notaðar til að efla hópandann. Í Sierra Leone  voru hópnauðganir notaðar markvisst af uppreisnarhernum Revolutionary United Front, að því er virðist í einmitt þeim tilgangi, og talið er að í um 25 % af hópnauðgunum sem þar voru framdar hafi konur verið virkir þátttakendur í ofbeldinu. Það sýnir að staðalímyndin af körlum sem gerendum og konum sem þolendum er ekki með öllu raunsæisleg.

Foreign Ministers Gather In London For G8 Meeting

Að lokum er rétt að benda á tvær mikilvægar staðreyndir sem vert er að hafa í huga; 1) Stríð elur af sér ofbeldi. „Skrímslin“ sem YouTube-myndband ráðstefnunnar sýnir eiga sér líka sína sögu. Flest stríð, eftir kalda stríðið, hafa verið borgarastyrjaldir og í þeim löngu og oft flóknu átökum verður bilið milli gerenda og þolenda oft óskýrt, margir gerendur hafa líka verið þolendur grófs ofbeldis. 2) Nauðganir eiga sér einnig stað í friðsamlegum samfélögum.

Á Vesturlöndum hefur hvorki tekist að útrýma þeim né að gera réttarkerfi nokkurs vestræns ríkis almennilega í stakk búið til að takast á við vandamálið, þó að þar sé meira fjármagn en í flestum þeim löndum þar sem Hague og Jolie vilja efla ákæruvaldið gagnvart gerendum. Það er því ljóst að öllum þeim sem vilja binda enda á stríðsnauðganir bíður ærið verkefni og að langtímasýnin hlýtur að byggjast á þeim stóru og metnaðarfullu markmiðum að koma í veg fyrir stríð í heiminum og koma á kynjajafnrétti. Þangað til slíkt verður mögulegt verður nauðsynlegt að auka vitund og skilning á þeim mörgu og flóknu þáttum sem koma saman í að skapa stríðsnauðganir svo hægt sé að finna heildstæðar lausnir.

Heimildir Wood, E. J. (2011) Rape is Not Inevitable during War. Í Kathleen Kuehnast, Chantal de Jong Oudrat og Helga Hernes (ritstj.) Women and War: Power and Protection in the 21st Century.Washington DC: US Institute of Peace Press.  

Höfundur er doktorsnemi í mannfræði og hefur starfað hjá UN Women í Líberíu, Suður-Súdan og Laos

Ein athugasemd við “Kastljósinu beint að stríðsnauðgunum

  1. Þakka þér kærlega fyrir þessa grein. Ég gladdist mjög þegar ég áttaði mig á því að það væri verið að fjalla um karlmenn, stríð og nauðganir á sanngjarnan hátt (á Knúzinu!) og af skilningi. Mér finnst sorglegt að nauðganir og ofbeldi gegn konum er oft notað í pólitískum tilgangi; sem áróðurstæki í „jafnréttisbaráttu.“

    Þetta er vönduð umfjöllun og til fyrirmyndar, finnst mér. Takk.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.