Höfundur: Guðrún Sif Friðriksdóttir
Um þessar mundir stendur yfir alþjóðleg ráðstefna í London undir yfirskriftinni „Global Summit to End Sexual Violence in Conflict“. Gestgjafar á ráðstefnunni eru þau William Hague, utanríkisráðherra Bretlands og Angelina Jolie, sérlegur erindreki Flóttamannastofnunar Sameinuðu Þjóðanna og markmiðið er að ná leiðtogum heimsins saman til þess að stemma stigu við nauðgunum í stríði. Göfugt og gott markmið, og þótt fyrr hefði verið, hugsa líklega mörg okkar sem hafa unnið að þessu málefni.
Reyndar er það ekkert nýtt að alþjóðasamfélagið reyni að taka á þessum málum. Í október árið 2000 var ályktun 1325 samþykkt í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, en það er fyrsta ályktunin um konur, frið og öryggi. Margar ályktanir hafa fylgt í kjölfarið, en lítið hefur breyst á stríðshrjáðum svæðum. Ályktun 1325 var viðtæk og sérstök að því leyti að hún tók að sjálfsögðu á kynbundnu ofbeldi gegn konum, en einnig á þátttöku kvenna í friðarumleitunum, friðaruppbyggingu, kosningum og ákvarðanatöku eftir stríð. Ályktunin var einnig sérstök fyrir það að frjáls félagasamtök og kvennahópar áttu að mörgu leyti frumkvæðið að henni og tóku virkan þátt í gerð hennar. Markmiðið var að hluta til að reyna að breyta þeirri rótgrónu ímynd að konur séu einungis þolendur í stríði (og karlar þar með gerendur).
Því miður hafa ályktanirnar sem hafa fylgt í kjölfarið (1820, 1888, 1889, 1960, 2106, 2122) leitað í fyrra horf og einkum beint sjónum að nauðgunum, og þá konum sem þolendum. En auðvitað er núverandi ráðstefnu í London ekki ætlað að taka á kvennavandamáli per se og skipuleggjendur hennar virðast hafa gætt þess í ræðum og yfirlýsingum að tala ævinlega um að stríðsnauðganir séu glæpur sem konur, karlar, stúlkur og drengir verði fyrir. Hinsvegar draga þau myndbönd sem finna má á YouTube í tengslum við eða á vegum ráðstefnunnar upp þá mynd að konur séu aðeins þolendur og karlar alltaf gerendur í stríði. Myndbandið sem Stuart Gill sendiherra Breta á Íslandi hvatti Íslendinga til að skoða í grein á vísi 10. júní (http://www.visir.is/stodvum-stridsnaudganir/article/2014706109949) er dæmi um þetta og einnig dæmi um það þegar gerendur eru birtir sem skrímsli. Með þessu er dregin fjöður yfir þá staðreynd að karlar og drengir eru líka fórnarlömb nauðgana í stríði. Stundum er því haldið fram að nauðganir á karlmönnum séu best geymda leyndarmál stríðsreksturs, enda veigra karlar sér oftast enn meira en konur við því að tilkynna slíka glæpi, gjarnan vegna ríkjandi hugmynda um karlmennsku og/eða vegna þess að karlar eru einfaldlega ekki spurðir þegar gerðar eru kannanir eða úttektir á fórnarlömbum stríðsnauðgana.
Dæmi um jákvæða nálgun á þetta viðfangsefni á ráðstefnunni í London núna um helgina er að lögð er áhersla á að nauðganir eigi ekki að teljast óhjákvæmilegur fylgifiskur stríðsátaka, en sú afstaða hefur lengi vel verið samofin orðræðunni um þetta efni. Fræðikonan Elisabeth Jean Wood (2011) hefur til dæmis sýnt fram á það í rannsóknum sínum að nauðganir eru alls ekki alltaf fylgifiskur átaka. Nauðganir eru ekki óhjákvæmilegar í átökum þó að ofbeldi sé almennt mikið notað gegn borgurum (átök í Palestínu eru dæmi um slíkt), nauðganir eru ekki einu sinni óhjákvæmilegar hjá vopnuðum hópum þó að andstæðingar þeirra í átökunum nýti sér slík stríðsvopn. Norður-Víetnamar notuðu til dæmis ekki nauðganir í nándar nærri sama mæli og Bandaríkjamenn gerðu í Víetnamstríðinu og uppreisnarhermenn í borgarastyrjöldinni í El Salvador ekki heldur, þótt stjórnarherinn þar í landi hafi gert það. Hinsvegar er það ekki alveg rétt eins og talað virðist um á ráðstefnunni að nauðganir séu alltaf notaðar sem vopn. Stundum eru nauðganir framdar sem afleiðing agaleysi og ringulreið í herjum eða herdeildum, fremur en að þær séu notaðar kerfisbundið sem stríðstækni. Þegar fólk er neytt til þátttöku í stríði, frekar en að hafa haft um slíkt einhvers konar val, eru hópnauðganir stundum notaðar til að efla hópandann. Í Sierra Leone voru hópnauðganir notaðar markvisst af uppreisnarhernum Revolutionary United Front, að því er virðist í einmitt þeim tilgangi, og talið er að í um 25 % af hópnauðgunum sem þar voru framdar hafi konur verið virkir þátttakendur í ofbeldinu. Það sýnir að staðalímyndin af körlum sem gerendum og konum sem þolendum er ekki með öllu raunsæisleg.
Að lokum er rétt að benda á tvær mikilvægar staðreyndir sem vert er að hafa í huga; 1) Stríð elur af sér ofbeldi. „Skrímslin“ sem YouTube-myndband ráðstefnunnar sýnir eiga sér líka sína sögu. Flest stríð, eftir kalda stríðið, hafa verið borgarastyrjaldir og í þeim löngu og oft flóknu átökum verður bilið milli gerenda og þolenda oft óskýrt, margir gerendur hafa líka verið þolendur grófs ofbeldis. 2) Nauðganir eiga sér einnig stað í friðsamlegum samfélögum.
Á Vesturlöndum hefur hvorki tekist að útrýma þeim né að gera réttarkerfi nokkurs vestræns ríkis almennilega í stakk búið til að takast á við vandamálið, þó að þar sé meira fjármagn en í flestum þeim löndum þar sem Hague og Jolie vilja efla ákæruvaldið gagnvart gerendum. Það er því ljóst að öllum þeim sem vilja binda enda á stríðsnauðganir bíður ærið verkefni og að langtímasýnin hlýtur að byggjast á þeim stóru og metnaðarfullu markmiðum að koma í veg fyrir stríð í heiminum og koma á kynjajafnrétti. Þangað til slíkt verður mögulegt verður nauðsynlegt að auka vitund og skilning á þeim mörgu og flóknu þáttum sem koma saman í að skapa stríðsnauðganir svo hægt sé að finna heildstæðar lausnir.
Heimildir Wood, E. J. (2011) Rape is Not Inevitable during War. Í Kathleen Kuehnast, Chantal de Jong Oudrat og Helga Hernes (ritstj.) Women and War: Power and Protection in the 21st Century.Washington DC: US Institute of Peace Press.
Höfundur er doktorsnemi í mannfræði og hefur starfað hjá UN Women í Líberíu, Suður-Súdan og Laos
Þakka þér kærlega fyrir þessa grein. Ég gladdist mjög þegar ég áttaði mig á því að það væri verið að fjalla um karlmenn, stríð og nauðganir á sanngjarnan hátt (á Knúzinu!) og af skilningi. Mér finnst sorglegt að nauðganir og ofbeldi gegn konum er oft notað í pólitískum tilgangi; sem áróðurstæki í „jafnréttisbaráttu.“
Þetta er vönduð umfjöllun og til fyrirmyndar, finnst mér. Takk.