Fjallkonan fríð

250px-Arnason-frontFósturlandsins Freyja,
fagra Vanadís,
móðir, kona, meyja,
meðtak lof og prís!
Blessað sé þitt blíða
bros og gullið tár;
þú ert lands og lýða
ljós í þúsund ár.

(Matthías Jochumsson)

 

Engin kvenmynd er tengdari íslensku þjóðarsálinni en „Fjallkonan fríð“, eins og Bjarni Thorsteinsson nefndi hana í ljóði í upphafi nítjándu aldar og sem mörgum þykir best lýst í ljóði Matthíasar hér að ofan. Fjallkonan gegnir stóru hlutverki á sautjánda júní, hún kemur fram og flytur ljóð um ættjörðina, ýmist gamalt eða glænýtt, á hátíðlegustu stund dagsins, þegar forsætisráðherra flytur ræðu á Austurvelli. En hvaðan kemur þessi hefð? Á vísindavefnum má lesa þennan fróðleik:

Á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum 17. júní 1944 var búið að ráðgera að fjallkonan, ung stúlka í skautbúningi, skyldi hylla fána Íslands. Sú útvalda var Kristjana Geirsdóttir Thorsteinsson, dótturdóttir Hannesar Hafstein fyrsta ráðherra Íslands. Hið alræmda slagviðri þennan dag kom þó í veg fyrir að af þessu gæti orðið. Árið 1947 var ávarp fjallkonunnar flutt í fyrsta sinn við hátíðahöldin 17. júní í Reykjavík. Í hlutverkið valdist Alda Möller leikkona. Sú hefð hefur haldist og oftast komið í hlut ungrar leikkonu að flytja ávarpið. Í Winnipeg hefur jafnan verið valin roskin kona sem lagt hefur eitthvað af mörkum fyrir hið vestur-íslenska samfélag. Þetta má kallast eðlileg verkaskipting þar sem í Ameríku var fjallkonan tákn gamla landsins en í Reykjavík tákn hins unga lýðveldis.

Fjallkonur höfðu komið fram á 17.júní  í Vestur-Íslendingabyggðum frá árinu 1924, svo hefðin er fengin þaðan hingað heim. Á vef Reykjavíkurborgar má finna ítarlegar upplýsingar um Fjallkonur frá upphafi, þar er hlutverkið skilgreint svo:

Fjallkonan er tákngervingur Íslands. Í hátíðardagskrá á Austurvelli kemur leikkona fram í hlutverki hennar og les ljóð. Fjallkonan klæðist skautbúningi sem er í vörslu Árbæjarsafns og við hann er forláta stokkabelti með vínviðarmunstri úr silfri og brjóstnæla í stíl.

Það er gaman að benda á það hér að Fjallkonan klæðist sama skautbúningnum ár eftir ár, þó það séu ólíkar leikkonur sem taka á sig hlutverk hennar eins og sjá má á upptalningunni á síðu Reykjavíkur. Þessi staðalbúningur virðist því passa á allar konur, óháð hæð, þyngd og lögun. Sem ber að fagna. Fjallkonan er því, eða getur verið, allar íslenskar konur. Eða hvað?

elsa_og_tinna

„Tvöföld“ fjallkona árið 2006 – önnur talar íslensku, hin íslenska táknmál.

Þegar þetta er ritað, er ekki enn vitað hver hlýtur hlutverk Fjallkonunnar í ár. Í fyrra var Fjallkonan mun eldri en þær sem á undan hafa farið. Árið 2006 var ákveðið að hafa tvær og láta þær flytja sama ljóð samtímis á táknmáli og talmáli. Sú sem talaði var í staðalskautbúningnum samkvæmt ljósmyndum.  Enn hefur ekki sést Fjallkona með dökka húð, en getum hér rifjað upp að fyrir nokkrum árum komst í fréttir að Þjóðdansafélagið hikaði þegar Grapevine bað um þjóðbúning að láni fyrir myndatöku. Það stóð í fólki að fyrirsætan var svört!¹

Dökk fjallkona

Þeldökk fjallkona á forsíðu Reykjavik Grapevine frá 2004

Það er ágætt að staldra við og spá aðeins í þessar fyrirmyndir, Fjallkonuna og aðrar staðlaðar ofurþjóðlegar ímyndir eins og til dæmis víkinginn. Er þetta eitthvað sem við eigum að viðhalda, er þörf á þessum fígúrum í upplýstu 21. aldar samhengi? Hvernig er til dæmis að pæla í þessu nýlega upphlaupi með endurvakningu á keppni um Ungfrú Ísland? Gæti Fjallkonan skráð sig í þá furðulegu keppni? Hún uppfyllir vissulega nokkur skilyrði um fríðleik, blíð bros og gullin tár en nei, sorrí gott fólk, Fjallkonan er nefnilega sjálfkrafa úr leik, hún er sko mamma!

¹Sjá t.d. Fréttablaðið 18. júní 2004.

Pistillinn birtist fyrst á knúzinu 17. júní 2013.

5 athugasemdir við “Fjallkonan fríð

  1. Fjallkonan á sér eldfornar rætur í konunni sem fer með umboð lands og þjóðar í vígslu nýs konungs og gefur að súpa af sérstökum miði. Konungur sækir umboð sitt til þessarar konu. Vígslan er síðan staðfest í samförum þeirra. Konungur sáir sæði í leg fjallkonunnar/valkyrjunnar/landsins.

    Því miður er þetta lítil vinstrimennska að halda svona fram og allra síst feminismi.

  2. Sæl verið þið.
    Það er merkilegt hvað upphlaup Grapevine út af húðlit virðist lifa góðu lífi. Þau sem lánuðu búninginn hikuðu aðeins en það hafði nákvæmlega ekkert með húðlit fyrirsætunnar að gera og allt með þóðbúninginn að gera, að lána hann án þess að höfuðfatið fylgdi og yrði notað. Grapevine setti þetta í rasistabúning algerlega óverðskuldað. Valur Gunnarsson fór þar offari.

    http://www.mbl.is/frettir/innlent/2004/06/17/thjoddansafelagid_engar_reglur_til_um_ad_ekki_skuli/
    http://www.visir.is/asakanir-um-fordoma-rakalausar/article/2004406170366

  3. Eða eins og segir í yfirlýsingum Þjóðdansafélagsins: „Þegar starfsmenn RGV lýstu hugmyndum sínum um notkun búningsins fyrir umsjónarkonu búningaleigu lét hún í ljós að henni þætti hugsanlegt að vegið væri að heiðri búningsins og notkunin væri vart viðeigandi.“

  4. Athugið að það gerist eitt og annað ljómandi gott utan borgarmarkanna. Dökk fjallkona var í Hafnarfirði árið 2001 minnir mig. Ég var þá í æskulýðsnefnd sem ákvað hver sinnti hlutverkinu. Fjallkonan atóð sig með prýði auðvitað.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.