Forréttindavændi og femínismi

**TW/VV: vændi, mansal og ofbeldi**

Höfundur: Elísabet Ýr Atladóttir

Vegna greinar sem birtist í Kvennablaðinu, þar sem spurt er hvort vændi geti átt heima í hugmyndafræði femínisma, fannst mér ástæða til að svara nokkrum mikilvægum punktum í greininni. Ég mæli með að fyrri greinin sé lesin fyrst til að halda samhengi: Um verkalýðsbaráttu vændiskvenna og femínisma. Gott er að taka fram að femínismi er víðtæk og fjölbreytt hugmyndafræði sem rúmar alls konar fólk og að ég tala ekki fyrir það allt.

mynd1

Myndin er fengin héðan

Það sem kom strax fram í greininni er mikilvægur partur af þessarri umræðu, en greinarhöfundur tekur fram að hún hafi fylgst mikið með umræðu vændis og klámiðnaðarfólks (þá helst kvenna, og greinin fjallar aðallega um þeirra sjónarmið) á samfélagsmiðlum. Til að rannsaka aðeins málið skoðaði ég þau hashtög sem voru mest notuð til að miðla skoðunum vændisfólks (eða sex workers eins og það vill kalla sig á ensku), og tók einkum eftir því að einkum hvítar, millistétta, sís-kynja, ófatlaðar konur tjáðu sig um þessi mál. Mikið var talað um “whorephobia”, helst varðandi bandarískt samfélag, þar sem vændisfólk er glæpavætt og jafnvel ofsótt, lokað á það af opinberum stofnunum, og ofbeldi gegn því normalíserað. Það var á stundum erfitt að koma auga á hver tengslin væru við  femínisma sem slíkan, en það kom svo í ljós að þetta virðist oft vera deilumál milli “kynlífsjákvæðs” femínisma (sex-positive feminism) svokallaðs og annarra hópa og einstaklinga innan femínisma. Þessi deila virðist snúast mestmegnis um grundvallarmisskilning „kynlífsjákvæðs” femínisma á almennum femínisma.

Allt bendir þetta til þess að þær vændiskonur sem greinarhöfundur fylgdist með tilheyri ákveðnum forréttindahópi. Þær hafa „val”, þær geta jafnvel gengið út úr þessum aðstæðum hvenær sem þær vilja án þess að hafa áhyggjur af því hvernig þær geti séð fyrir sér og fjölskyldu sinni, þær þurfa jafnvel ekki að losna við fíkn eða komast úr ofbeldisfullu kúgunarsambandi við melludólga. Þær eru yfirleitt í sjálfstæðri starfsemi án aðkomu þriðju aðila og hafa því fullt vald yfir sér, fjárhag sínum og því hvernig þær hátta sinni starfsemi. Þetta er ekki algengt í vændi kvenna. Mér þykir því erfitt að líta á þennan litla, en háværa, forréttindahóp sem veigamikinn aðila í baráttunni gegn ótrúlegu kerfi kúgunar og ofbeldis gegn fólki.

Líta verður á staðreyndir þegar talað er um að vændisfólk vilji taka þátt í gerð laga um sín mál, en að ekki sé hlustað á það eða að aðstæður hvers og eins sé einstök og því geti enginn einstaklingur talað  fyrir heildina. Saga hvers einstaklings í vændi er einstök, slík saga verður aldrei lýsandi fyrir líf allra sem lifa í vændi. Rannsóknir virðast allar benda til að meirihluti vændisfólks (sérstaklega kvenna) stundi vændi af algjörri neyð, og í þeim löndum þar sem vændi er löglegt með öllu vill það ekki einu sinni skrá sig sem vændisfólk því það lítur á þetta sem tímabundna lausn við stórkostlegum (fjárhagslegum) vanda og vill ekki fá á sig stimpilinn “hóra”. Jafnvel í þeim samfélögum þar sem vændi  er löglegt og samþykkt er óvirðing við fólk sem stundar vændi jafn ríkjandi og annars staðar, eini munurinn er að melludólgar og kaupendur vændis eru allt í einu skilgreindir sem “kaupsýslumenn” og “viðskiptavinir”, með virðingarverðum formerkjum. Hverjir eru það í raun sem berjast fyrir samþykki vændis og hverjir eru það í raun sem græða einna mest á lögleiðingu og normalíseríngu vændis? Rannsóknir virðast benda í allar áttir aðrar en til vændiskvenna.

Mansal og kynlífsþrælkun eru gríðarstór hluti af vændi í samfélaginu. Það er einfaldlega staðreynd, og algjörlega ómögulegt að ræða annað án þess að líta til hins. Greinarhöfundur talar um að vændiskonurnar sem hún hefur fylgst með vilji að þessu sé ekki skeytt saman, því vændið sem þær stundi séu viðskipti milli tveggja eða fleiri lögráða einstaklinga og val þeirra sem það iðka. En hvað er í raun falið í þessu vali? Það verður að líta til samfélagsstöðu, þjóðernis, litarháttar og stéttar. Hvaða val hefur manneskjan í vændi frá byrjun? Ef valið stendur á milli þess að vera fátækur, jafnvel svelta, eða að selja sig getur það ekki kallast mikið val. Raddir þessarra forréttindavændiskvenna hafa náð að bergmála gegnum klám- og kynlífsiðnaðinn eins og hann leggur sig, og iðnaðurinn og fólkið sem þrífst á þessum röddum notar þær óspart til að fela skítinn. Í löndum þar sem vændi hefur verið lögleitt með öllu hefur mansal aukist gríðarlega, einfaldlega því markaðurinn er stærri og erfiðara er að greina hvort um er að ræða mansal eða löglegt vændi. Þessar fáu forréttindavændiskonur geta þá stundað sín viðskipti án afskipta, en réttlætir það ofbeldið á meirihlutanum?

Það er áhugavert að sjá að mjög fáar af þessum röddum eru raddir transfólks eða karla í vændi. Raunveruleiki karla er töluvert öðruvísi en kvenna í þessum iðnaði, t.d. eru mansal og nauðung eða kúgun ekki jafn stór hluti af iðnaðinum og hjá konum. Rannsókn var gerð í Hollandi um vændi karla sérstaklega og í ljós kom birtingarmynd þess er gríðarlega frábrugðin vændi kvenna. Líkt og hjá vændiskonum eru langflestir kaupendur vændis enn karlmenn, en ósýnileiki þessarar hliðar af iðnaðinum kann að stafa af viðloðandi hómófóbíu og höfnun á öllu því sem fylgir ekki hinu fullkomna heterónormatíva karlmennskumynstri. Þótt vændi karla sé ekki jafn algengt og kvenna er það stór hluti af þessum iðnaði, hlutgervingin er engu  minni og þjáning þeirra sem eru neyddir í þetta vegna erfiðra aðstæðna eða af öðrum er jafn raunveruleg. Það er samt lítið talað um þá hlið á peningnum, og transfólk er nánast algjörlega ósýnilegt í umræðu um þessi mál.

Greinarhöfundur talar líka um sænsku leiðina og telur upp ástæður fyrir því að þessar vændiskonur telji hana misheppnaða. Þetta getur vel verið sýn þessarra kvenna á lögin og að þær hafi heyrt að þetta virki svona eða hinsegin úr fjarlægð, en rannsóknir einfaldlega sýna fram á allt annað. Það er samt sem áður satt að sænska leiðin hefur gert mörgum vændiskonum erfiðara fyrir, og líf þeirra jafnvel í einhverjum tilfellum hættulegra, því þeir sem kaupa vændi svífist oftar einskis og þær sætti sig jafnvel við skilyrði sem þær eru ekki ánægðar með, þar sem þeim finnist þær ekki geta neitað vegna þess að eftirspurnin sé orðin svo lítil. Þeirra “val” virðist þó mikið stjórnast af fíkn. Sænska leiðin hefur samt aldrei gert þeim erfiðara að kæra eða leita hjálpar, heldur einmitt þveröfugt. Kúnninn hefur engin völd lagalega séð og reynt er að finna hjálparúrræði fyrir þau sem vilja.

Það er svo sannarlega pláss fyrir vændisfólk og eftirlifendur vændis innan femínisma. En það er ekki pláss fyrir vændisiðnaðinn innan femínisma. Sá iðnaður er fullur af ofbeldi og kúgun, rasisma, stéttaskiptingu og misrétti. Hann ýtir undir þá hugmynd að fólk séu hlutir sem karlmenn* geti keypt, að kynlíf sé eitthvað sem karlmenn eigi rétt á og eigi skilið og að konur sérstaklega skuldi þeim það. Hann viðheldur þeirri skelfilegu hugmynd að kynferði karla sé það eina sem skiptir máli og að konur eigi að stunda kynlíf á þeirra forsendum, en ekki sínum eigin. “Kynlífsjákvæður femínismi” spilar beint í hendurnar á feðraveldinu með því að styðja við þennan iðnað í orðum og gjörðum og það er ekki hægt að gefa röddum forréttinda of mikið pláss þegar þær raddir yfirgnæfa raddir þeirra sem hafa aðra sögu að segja, þeirra sem venjulega hafa enga rödd. Það gagnast engum að bregða upp glansmynd af vændi þegar raunveruleiki svo margra er ofbeldi og kúgun. Það er ekkert frelsi falið í því að bæla niður sína eigin þarfir og langanir til að gangast við óskum kúnnans og kynlífsiðnaðarmilliliða.

Vændi á rót sína í feðraveldinu og femínismi veitir ekkert rými fyrir feðraveldishugmyndir. Hvort hægt er að breyta vændi og finna því eitthvert ásættanlegra form en nú þekkist er önnur umræða. Í núverandi mynd er það skaðlegt samfélaginu í heild og lögleiðing og normalísering á því hefur hjálpað öllum öðrum en fólkinu sem það þykist ætla að vernda.

 

Athugasemdir

*Karlmenn eru í ótrúlegum meirihluta kaupendur vændis. Það þýðir ekki að kaupendur af öðrum kynjum séu ekki til.

http://www.stigamot.is/is – hægt er að finna upplýsingar og fá ráðgjöf og hjálp hjá Stígamótum

Góð lesning um algeng rök og mótrök um vændi: http://www.prostitutionresearch.com/Speaking-of-Prostitution%202013%20Sweden.pdf

 

8 athugasemdir við “Forréttindavændi og femínismi

 1. Jú, þetta er flókið mál.

  Ég las greinina í kvennablaðinu á sínum tíma og þótti sumt vera áhugavert í henni en að um talsvert mikla einföldun á vændi væri um að ræða. Og ég er sammála þeirri greiningu sem hér kemur fram að það vændi sem um er rætt í greininni í Kvennablaðinu væri dæmi um high-paying vændi, eða escort service.

  Ég er hins vegar mjög hlynntur praktískum lausnum við að hjálpa sem flestu fólki jafnvel þótt það kosti að maður sé ekki nógu hreinn í trúnni eða jafnvel að eitthvað sem manni þyki siðferðilega ógeðfellt fái að grassera. Ég þekki ekki sænsku leiðina út og inn en sumt í henni er ég hræddur um að valdi því að vændi færist neðar í undirheimana og verði ósynilegra en síst minna en áður. En ég gæti líka vel haft rangt fyrir mér.

  Tvær fullyrðingar koma fram í lok greinarinnar sem ég er ekki alls kostar sáttur við. Önnur er sú að kynlífsjákvæður femínismi spili beint í hendurnar á feðraveldinu með því að styðja við þennan iðnað í orðum og gjörðum. Ég er kynlífsjákvæður femínisti og ég hef ekkert nema andstyggð á vændi eins og langstærstur meirihluti annarra kynlífsjákvæðra femínista. Við erum hins vegar tilbúin að opna umræðuna um praktískar lausnir handa fólki sem stendur höllum fæti, eitthvað sem róttækir femínistar virðast ekki vilja gera. Þetta er því ómakleg blammering.

  Hin er að vændi á rót sína í feðraveldinu og femínismi veitir ekkert rými fyrir feðraveldishugmyndir. Ég er sammála því að vændi á uppruna sinn í kvennakúgun en það hvernig stöðugt er tönnlast á feðraveldinu fer í taugarnar á mér. Veit einhver einu sinni lengur hvað er verið að tala um? Feðraveldið er aldrei skilgreint, það er bara orðið einhvers konar catch-all frasi fyrir allt það sem er vont í veröldinni. Þessi málflutningur róttækra femínista minnir mig ekki lítið á málflutning kommúnista á árum áður um kapítalismann enda hef ég oft séð líkindi með róttækum femínisma og marxisma-lenínisma.

  • Sæll Sveinbjörn.

   Ég mæli með því að þú lesir þetta sem ég linkaði í greininni: http://www.niassembly.gov.uk/Assembly-Business/Official-Report/Committee-Minutes-of-Evidence/Session-2013-2014/January-2014/Human-Trafficking-and-Exploitation-Further-Provisions-and-Support-for-Victims-Bill-International-Union-of-Sex-Workers/

   Þarna kemur t.d. í ljós að á 15 ára tímabili hafa 125 vændiskonur dáið í Hollandi, en einungis ein í Svíþjóð. Það gefur augaleið að eitthvað er að virka fyrir fólkið í Svíþjóð, en að vandamálið sé enn stærra í Hollandi. Það er nokkuð augljóst að skaðinn er töluvert meiri í Hollandi. Það gefur líka augaleið að til þess að vændi virki þá þurfi það að vera að einhverju leiti sýnilegt, til að draga að kúnna. Þessvegna er undarlegt að tala um að vændi fari svo langt niður í undirheima að það verði ósýnilegt. Vændi hefur alltaf undirheimastarfsemi, sérstaklega í löndum sem hafa lögleitt þetta.

   Ég byggi álit mitt á kynlífsjákvæðum femínisma af talsverðrum lestri frá alheimsnetinu, og ég átti oft erfitt með að halda áfram lestri, svo mikil var firran og victim blaming á eftirlifendur vændis sem komu vændisglansmyndinni í hættu með sögum sínum. Mér hefur þótt umræðan algjörlega skelfileg, sérstaklega þegar hún beinist sérstaklega að því að gera eftirlifendur ótrúverðuga og gera lítið úr þeirra reynslu til að upphefja einhverjar fáar forréttindavændiskonur. Ég mun aldrei leggja minn stuðning við slíkt.

   Ég mæli með því að þú lesir þér aðeins til um feðraveldið. Að kalla sig femínista en hafa ekki hugmynd um hvað feðraveldið er tel ég mjög undarlegt. Það er svo sannarlega til skilgreining á því.

   Svo þykir mér þessi líking þín í endann alveg fremur grátleg. Er engin leið að tala um femínisma nema maður sé ásakaður um furðulegar pólitískar skoðanir? Ég gæti t.d. sagt að kynlífsjákvæður femínismi sé svolítið eins og pólitík í Bandaríkjunum, öll áhersla er lögð á einstaklinginn algjörlega án þess að líta til heildarinnar og skaðinn á mörgum er hundsaður til að verja gróða og vöxt fárra. Er þetta skemmtilegt? Finnst þér þú vitrari? Fannst þér þetta uppbyggilegt?

   Endilega lestu eitthvað af þessum linkum sem ég setti í greinina, það er töluvert af fróðleik sem tengist þessum málefnum.

   • Sæl Elísabet.

    Nei, ég get ekki sagt að þetta hafi verið skemmtilegt, uppbyggilegt eða að mér finnist ég vitrari nú. Ég á að vísu eftir að fara yfir linkana sem þú sendir á mig svo það er kannski ekki öll nótt úti enn. Ég er litlu nær eftir þennan pistil sem þú sendir á mig enda lærir maður lítið á því þegar manni finnst eins og verið sé að tala niður til manns. Kannski er það mér sjálfum að kenna og of ónákvæmum spurningum, ég skal ekki segja til um það.

    Ég hef einfaldlega ekki plássið hér til að tjá mig um feðraveldið í löngu máli. Ég sé það fyrst og fremst sem birtingarmynd yfirráða karla yfir konum sem hjá okkur flestum er ómeðvitað. Ég er hins vegar ekki sammála því að feðraveldið sé einhvers konar alheimssamnefnari yfir allt það sem er slæmt. Ef það er alpha og omega alls hefur það enga merkingu lengur nema sem einhvers konar þægilegt stikkorð. En í hvert skipti sem maður kallar eftir að feðraveldið verði skilgreint nákvæmar er umræðan drepin í fæðingu eins og núna.

    Ef ég hef gefið í skyn að róttækir femínistar væru marxistar-lenínistar byðst ég forláts. Líkindin milli stefnanna finnst mér vera þau að báðir hópar boða prógramm sem nær yfir allt, allt frá stærstu samfélagsmálum niður í smæstu persónulegu hluti. Auk þess leggja báðar stefnurnar mun meiri áherslu á hóparéttindi en einstaklingsréttindi. Margt er hins vegar mjög ólíkt með þeim. Til dæmis að róttækir femínistar virða lýðræðislegar leikreglur og opið samfélag ólíkt gömlu kommunum sem höfðu fyrirlitningu á báðum hlutum. Þú gengur hins vegar út frá því að allir sex-positive femínistar séu einhvers konar Ayn Rand proto-fasistar. Ég mæli með að þú kynnir þér einnig það mál betur.

    Annars finnst mér við farin að fjarlægjast upphaflegu umræðuna sem snýst um vændi. Ég vil praktískar lausnir sem virka og læt mér í léttu rúmi liggja hvort þær séu hugmyndafræðilega hreinar eða ekki. Ég treysti varlega öllum tölum því mjög auðvelt er að teygja þær út og suður auk þess sem erfitt er að afla nákvæmra gagna, sérstaklega í svona málum. Ef sænska leiðin virkar er það mjög gott mál og ég skal halda kjafti. Sú statistík sem ég hef lesið virðist benda til þess að vændi hafi minnkað en hafi einnig gert það þeim mun hættulegra gagnvart þeim sem það stunda enn. Tilgangurinn helgar kannski meðalið en það er hálf nöturleg tilhugsun að fórna hópi fólks á altari „the greater good“

    En eins og ég segi, ég gæti vel haft rangt fyrir mér. Ég vona það satt best að segja því ekki er ég bjartsýnn að eðlisfari.

 2. Það sem er satt í þessari grein er að vændisheimurinn er flókinn og þær vændiskonur/menn sem standa í umræðunni gætu líklega fallið undir „forréttindavændisfólk“ Engu að síður að þau málefni og það lagaumhverfi sem það fólk talar um gagnast einnig þeim sem verst hafa það, það er ekki síst það sem það fjallar um. Það að setja það ofar að ljótir kallar eigi erfiðara með að nálgast vændið en öryggisnet þess sem stundar vændi nauðugur er galið, það er min skoðun, að banna er það sama og að senda með biluðum töfrasprota til undirheimanna eða að binda fyrir augun á sér. Það einhvern veginn gleymist alveg hér.

  • Sæl Helga.

   Sænska leiðin hefur virkað mjög vel, ekki bara til að uppræta mansal heldur líka til að breyta viðhorfi almennings til vændis og kvenna. Það er ekki lengur talið jafn sjálfsagt að kaupa aðra manneskju til að svala eigin fýsnum og það er svo sannarlega erfitt fyrir mansalsglæpamenn og melludólga að koma upp starfsemi sinni. Þú mættir endilega lesa þér meira til um málið, þar sem það er enginn að tala um einhverja töfralausn, heldur einhverskonar langtímalausn sem hjálpar þeim sem virkilega þarf á því að halda. Eins og kemur fram í greininni er það ekki vændisfólk sem græðir á lögleiðingu, heldur mellúdólgar og mansalsglæpamenn. Sænska leiðin, þótt hún hafi að einhverju leiti gert vændi hættulegra þar sem kúnnarnir svífast frekar einskis, hefur verndað vændisfólk mun meira en lögleiðing. Á 15 ára tímabili voru 125 morð á vændisfólki skráð í Hollandi en einungis 1 í Svíþjóð. Það segir sitt, ekki satt?

   • „Á 15 ára tímabili voru 125 morð á vændisfólki skráð í Hollandi en einungis 1 í Svíþjóð. Það segir sitt, ekki satt?“
    T.d. að vændi og glæpirnir gegn vændiskonum séu undir yfirborðinu í Svíþjóð og fái því ekki rétta skráningu?

 3. Bakvísun: Þess vegna er vændi nauðgun | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.