Óvænt uppgjör

**VV/TW Lýsingar á heimilisofbeldi **

Höfundur: Ástríður Ólafsdóttir

Fyrir nokkrum mánuðum stóð yfir 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi. Ýmsar greinar voru skrifaðar til að vekja athygli á átakinu, allar mjög góðar að mínu mati. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og umræða spratt upp. Umræða er alltaf af hinu góða, en harkaleg varnarviðbrögð margra komu mér í opna skjöldu. Umræðan var túlkuð sem árás á alla karlmenn, fórnarlambavæðing kvenna og helvítis væl. Ég var fljót að mynda mér þá skoðun að gagnrýnisröddunum væri ég ekki sammála. Ég tók þátt í rökræðum um málið, eins og ég geri oft varðandi hin og þessi mál. En mér var orðið heitt í hamsi og að vissu leyti sjálf komin í vörn. Samt áttaði ég mig ekki á því hvers vegna. Það var ekki fyrr en að ég hafði – óvart – í miðjum Facebook-rökræðum við ókunnugt fólk, skrifað þessi orð:

Þið skiljið augljóslega ekki þá ömurlegu upplifun sem það er að lenda í kynbundnu ofbeldi. Ofbeldi sem ég og margar aðrar konur þekkjum. Mikið eigið þið gott.

Ég eyddi þessu út úr samræðunum. Vissulega hafði sérfræðingur staðfest fyrir mér þá staðreynd að ég hafði lent í grófu ofbeldi í sambandi sem ég var í. En mér fannst það samt svo smávægilegt að ég sagði aldrei frekar frá því. Fyrr en allt í einu þarna.

0
Það var ekkert meira en sem svo, að áður en ég varð einu sinni orðin sjálfráða bannaði hann mér að hitta foreldra mína um helgar. Ég átti að vera hjá honum, en ekki fara út á land til þeirra.

Það var ekkert meira en bara rétt sem svo að ef ég ætlaði að hitta vinkonur mínar, varnaði hann mér útgöngu úr íbúðinni okkar með því að taka svo fast á mér að ummerki urðu eftir.

Það var ekkert mál þegar hann braut fyrir mér eigur mínar og hótaði mér ef mig langaði frekar að eyða degi með systkinum mínum en honum. Aðrar konur eru lamdar sundur og saman svo þetta var ekki neitt. Ég var bara óþekk við hann.

Það var líka frekar lítilvægt þegar hann ítrekað hótaði sjálfsmeiðingum ef ég færi á framhaldsskólaball niðri í miðbæ.

Það var alveg skiljanlegt að hann reiddist ef gert var símaat í mér á nóttunni og ég gat alveg skilið að hann ásakaði mig þar af leiðandi um að halda framhjá sér. Þegar hann kallaði mig hóru og ógeð var hann bara svo reiður og ég skildi það vel. Síminn minn hafði vakið hann og það var annar strákur á línunni.

Ég átti svosem líka alveg von á því einn sunnudaginn þegar ég hafði gengið þvert á hans orð um að ég ætti ekki að fara út með stelpunum kvöldið áður að hann henti mér upp í bíl, læsti og keyrði út úr bænum á 140 km hraða, rykkjandi í stýrið og mig til skiptis, hótandi að hann myndi keyra út af ef ég viðurkenndi ekki að ég væri viðbjósleg drusla sem gæti aldrei gert neitt rétt.

Það var líka ekkert að því þó hann vildi sofa hjá mér þegar ég sagði nei. Ég var hans og það var hans réttur, þrátt fyrir að ég væri ekkert ástfangin af honum og löngun mín væri engin.

Eftir 3 mánuði með honum vildi ég út. En þegar ég bar það upp kom hótun um sjálfsmorð til tals og ég hugsaði að ég gæti aðstoðað hann við að losna við þessar hugsanir. Eftir það gæti ég farið.

Það liðu 6 ár.

Ég bæði vældi og skældi þegar, í kjölfar rökræðna á Facebook, allar þessar ömurlegu minningar helltust yfir mig. Minningar sem höfðu miklar afleiðingar og áhrif á mitt tilfinningalíf og þroska. Því þær voru, eftir allt saman, alls ekki lítilvægar og ómerkilegar. Hinsvegar hafði ég verið mjög ung og mjög hrædd og því náð að sannfæra mig um hið andstæða.

Rétturinn til að finna til og segja frá er minn.

Rétturinn til að segja mér hvenær ég eigi að hætta að væla er EKKI ykkar.

En ef þið viljið berjast með mér fyrir því að enginn upplifi þann veruleika sem ég hef lýst – verið þá mest velkomin!

Greinin var upphaflega birt án þess að nafns höfundar væri getið, en höfundur ákvað síðar að koma fram undir nafni.

Forsíðumynd: Jose Manuel Casalla (creative commons).

8 athugasemdir við “Óvænt uppgjör

  1. Mér finnst þetta sorgleg saga og því miður óttast ég að svona samskipti séu nokkuð algeng.
    Ég tel svona ofbeldi þó almennt ekki kynbundið.

    Hótun sem er ásættanlega í sambandi finnst mér vera;
    Ef þetta á að vera svona er ég farinn.

    Mér finnst fólk verði að hafa rétt á að fara útúr kringumstæðum sem það telur sjálft skaðlegar.

  2. Ég var í sambandi í mörg ár þar sem ég var beittur umtalsverðu andlegu ofbeldi, og eiginlega gjörsamlega brotinn niður. Ég var í mörg ár að átta mig á því að þetta hefði ekki verið eðlilegt. Og ég er enn að vinna í sjálfsmyndinni.

    Takk fyrir þessa grein.

  3. Reyndar er ég ósammála því að hótunin „Ef þetta á að vera svona þá er ég farin“ sé ásættanleg. Ég var sjálf í þannig sambandi að ég var algjörlega háð hinum aðilanum fjárhagslega (hélt ég gæti ekki séð um mig sjálf) og hann notaði þessa hótun hvað eftir annað til þess að fá mig til þess að láta að stjórn. Þetta kom upp aftur og aftur og að lokum var ég orðin svo taugaveikluð og óviss um hvað væri rétt og hvað væri rangt að ég endaði á að fá taugaáfall.
    Hótanir eru bara engan veginn ásættanlegar í samböndum, hverjar sem þær eru og ef þér finnst að þú þurfir að hóta maka þínum þá ertu að reyna að stjórna…

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.