Uppskeruhátíð hvítra millistéttarkvenna í Malmö

Höfundur: Auður Lilja Erlingsdóttir

 

Gerum meiri kröfur!

photo 2„Kæru gestir. Nú er kominn tími til að gera meiri kröfur“ sagði Jackson Katz * á málstofu um ofbeldi á ráðstefnunni Nordiskt Forum sem nýverið var haldinn í Malmö.

Í erindi sínu ræddi hann um karlmenn sem telja sig jafnréttissinnaða en láta málflutning femínista fara fyrir brjóstið á sér í því sem lýtur að ofbeldi gegn konum. Karlmenn sem telja að sér vegið því í raun séu þeir góðir strákar. Þeir hafi engri nauðgað og geti þar af leiðandi ekki setið undir umræðu og staðhæfingum um að karlar nauðgi, karlar beiti ofbeldi.

„Nú er kominn tími til að hækka viðmiðin. Það er ekki nóg að hafa ekki nauðgað til að vera góður strákur.“

Þetta var á fyrstu málstofunni sem ég fór á í Malmö og ég stóð upp með hjartslátt og klappaði. Ég stóð upp og upplifunin var mjög ólík því sem ég hafði ef til photo 1vill gert mér í hugarlund þegar við vinkonurnar blöðuðum í dagskránni, skáluðum í kampavíni og gæddum okkur á brauðtertu milli þess sem við ræddum um borgaralegt yfirbragð ráðstefnunnar.

Eftir málstofuna setti ég þetta í samhengi við annars konar baráttu. Finnst okkur til að mynda nóg að á tímum aðskilnaðarstefnu í Suður Afríku hafi fólk engan skotið, engum misþyrmt eða bara verið rosalega gott við þá sem voru undirokaðir í samfélaginu? Eða gerum við þá kröfu í slíkum kringumstæðum að fólk taki þátt í baráttunni, viðurkenni kúgunina, horfist í augu við hana og leggi sitt af mörkum til að berjast gegn henni.

Viljum við ekki setja markið hærra?

Borgaralegt eða róttækt?

Einhvers staðar hef ég lesið þá gagnrýni á Nordiskt Forum að ráðstefnan hafi verið æði borgaraleg og fyrst og fremst miðuð að þörfum hvítra millistéttarkvenna. Þá beinist gagnrýnin bæði að því að ekki hafi  endilega verið á færi annarra en vel stæðra kvenna að mæta og dagskráin taki mið af því.

Jú, það var dýphoto 3rt að fara. Ráðstefnugjaldið var 1000 sænskar og þá áttu margir eftir að koma sér á staðinn og greiða fyrir gistingu. Sem betur fer báru margir þátttakendur ekki allan kostnað sjálfir heldur voru styrktir af vinnuveitendum eða verkalýðsfélögum til fararinnar og reynt var að koma til móts við ákveðna hópa með afslætti sem og að bjóða fría gistingu í svefnpokarými.  Þetta er þó vissulega gagnrýni sem á rétt á sér og þarf að íhuga fyrir hvern merkilegan viðburð, þ.e. hvernig er hægt að tryggja sem best aðgengi allra óháð efnahag. Ég velti því þó fyrir mér hvort það sé ekki dæmigert að sú gagnrýni sé óvenjulega hávær þegar femínistar safnast saman. Að minnsta kosti hef ég misst af æði mörgum viðburðum og ráðstefnum víðs vegar um heiminn í gegnum tíðina vegna skorts á peningum.

Það er einnig satt að stofnanalegar og borgaralegar ræður og málsmiðjur voru svo sannarlega í boði á Nordiskt Forum enda úr nægu að velja líkt og má sjá hér. Á dagskránni voru eftirfarandi höfuðþemu, en innan hvers og eins þema voru fjölmargir fyrirlestrar í boði.

 • Kynjuð hagstjórn, hagfræði og félagsleg þróun.
 • Friður og öryggi
 • Pólitísk þátttaka og samfélagsþróun
 • Framtíð femínisma á Norðurlöndum og kvennahreyfingar
 • Hælisleitendur og innflytjendur
 • Ný tækni og miðlar
 • Konur á vinnumarkaði, laun, menntun og frami
 • Ofbeldi gegn konum og stelpum
 • Umhverfi, loftslag og sjálfbærni
 • Umönnunarstörf og velferðarþjóðfélag.

En um leið og margt borgaralegt var í boði var margt róttækt, nýtt og spennandi í boði. Að minnsta kosti var margt nýtt fyrir mér. Það sem ég saknaði þó helst í dagskránni voru dýpri fyrirlestrar um staðalmyndir, fegrunaraðgerðir, megranir,  o.s.frv. Eitthvað í líkingu við „heilbrigði en ekki holdafar“ hefði t.d. verið fyrirlestur sem ég hefði gjarnan vilja sitja en það má þó vel vera að um það hafi verið rætt á einhverjum fyrirlestrinum sem ég sat ekki. Og það hefði svo sannarlega ekki verið mjög róttækur fyrirlestur samanborið við margt sem í boði var.

Ableismi, friðarstefna og fasismi

photo 5Valkvíði er gott orð til að lýsa frammi fyrir hverju ráðstefnugestir stóðu. Mig langaði á köflum að klóna mig til að geta setið nokkra fyrirlestra í einu sem og geta tekið nægan tíma til að sitja úti í sólinni og ræða við fólk um það sem lá mér á hjarta. Það er nefnilega lygilega stór hluti af upplifun af svona ráðstefnum að sitja saman, ræða, túlka og melta saman það sem hefur verið á dagskránni hverju sinni.

Stundum gerast hlutir sem vekja fólk til umhugsunar líka bara af einskærri tilviljun eins og þegar ég gekk fram hjá málstofu þar sem hreyfihamlaðar konur sögðu frá reynslu sinni af feminískri baráttu. Þar lýsti ein framsögukonan sinni reynslu meðal annars þannig að hennar helsta baráttumál væri á köflum að fá að vera kona, fá að vera kynvera en ekki bara manneskja í hjólastól. Þessi umræða fékk mig verulega til að hugsa um forréttindi mín og svo náði Embla Guðrúnar Ágústsdóttir að hjálpa mér að öðlast enn betri skilning á forréttindum mínum og á tímum fordómum í fyrirlestri á vegum Stígamóta sem var einn af þeim fyrirlestrum sem stóð upp úr hvað mig varðar. Ég bý á Íslandi, hef hitt Emblu nokkrum sinnum en var í alvöru að heyra hugtakið „ableismi“ í fyrsta skipti á kvennaráðstefnu í Malmö. Já ég skammast mín.

photo 4Að sitja á ráðstefnu þar sem Berit Ås spurði Ann Wright út í hlutverk kvenna í friðarbaráttu í heiminum var svo nokkurs konar rokkstjörnuupplifun fyrir mig. Þarna náði ég að sameina tvær af mínum helstu grunnstoðum, friðarmál og femínisma, og tvær konur sem ég lít afar mikið upp til. En ég lærði svo sem ekkert nýtt í þeim fyrirlestri þó hann væri afar áhugaverður. Hann styrkti einungis þá trú mína að stríð væri aldrei lausn til að frelsa fólk og það myndi ekkert breytast með framgangi kvenna í hernum og tengdum stofnunum. En það er svo sem efni í sér grein.

„Femínismi vinnur gegn fasisma“ sagði Asta Busingye Lydersen í inngangi að umræðum stjórnmál haturs þar sem sérstaklega var tekið á uppgangi fasisma víðs vegar um heiminn. Maria Sveland, rithöfundur, fjallaði á sérstaklega áhrifaríkan hátt um ólaunaða vinnu karla, eða þá gríðarlega vinnu sem virðist fara í það hjá sumum karlmönnum að rökræða við femínista (lesist: kenna þeim hvernig hlutirnir eru í raun og veru) í kommentakerfum víðs vegar um netið. Ég velti því upp í framhaldinu hvort ekki væri við hæfi að Knúzið veitti árlega verðlaun fyrir þess konar ósérhlífni. Að öllu gamni slepptu held ég þó að tengslin milli fasisma og viðhorfa til réttinda og hlutverks kvenna sé nokkuð sem við þurfum að fara að ræða alvarlega hér á landi.

Að endingu – hvað um karlana ?

„Hvar eru allir karlarnir“ var spurning sem stundum var varpað fram. Of oft að mínu mati. Ég hef reynt að venja mig á að hætta að skamma þá sem eru mættir fyrir þá sem ekki mæta og var þar með fyllilega sammála Söru Eriksson, ritstjóra femíniska tímaritsins Astra  þar sem hún horfði yfir sal þar sem hundruðir kvenna víðsvegar af Norðurlöndunum sátu og spurði „Erum við ekki nóg? Myndu karlarnir orða þetta betur?“

* Knuz.is birti í vetur sem leið þýðingu á rómuðum TED-fyrirlestri Jackson Katz, Kynbundið ofbeldi er karlamál. Fyrirlesturinn og þýðinguna er að finna hér.

Myndir eru fengnar úr einkasafni höfundar.

Ein athugasemd við “Uppskeruhátíð hvítra millistéttarkvenna í Malmö

 1. Þessi gagnrýni, að ráðstefnan væri útilokandi borgaraleg samkoma, kom nú mest – það ég varð var við – frá vinstrisinnuðum róttækum sænskum femínistum. Ég sá engan annan gagnrýna þetta reyndar. Þess vegna er feministiskt festival haldið á sama tíma, til mótvægis.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.