Lana Del Rey: Ég er enginn femínisti

Höfundur: Emily Shugerman

 

Lana Del Rey

Dægurlagasöngkonan Lana Del Rey segist ekki vera femínisti. Með þeirri yfirlýsingu fylkir hún liði með þeim Shailene Woodley, Lady Gaga  og Taylor Swift, sem allar hafa undanfarið gefið út svipaðar yfirlýsingar og hafnað því að vera kallaðar „femínistar“ vegna þess að þær „elski karlmenn“ eða vegna þess að þær „vilja ekki samþykkja þetta strákar-gegn-stelpum dæmi“.

Það sem þessar stjörnur virðist skorta er skýr og nákvæm skilgreining á hugtakinu femínismi. Og hvað sem þær kjósa að kalla sig eru margar þessara ungu kvenna afar sýnilegar og áberandi fyrirmyndir birtingarmyndir femínisma í verki. Því miður, eins og sjá má á síðustu plötunni hennar, er Lana Del Rey ekki sérlega góð fyrirmynd.

Hvort sem Del Rey hafði eða hafði ekki skýran skilning á merkingu orðsins „femínismi“ áður en hún kaus að hafna tengslum við það í þessu viðtali hafa yfirlýsingar hennar, textar laga hennar og tónlistarmyndbönd hennar sannað með skýrum hætti að hún vill hreint ekkert af þeirri hugmyndafræði vita. Á nýjasta diskinum hennar, sem er að koma í verslanir þessa dagana, heldur Del Rey ekki aðeins áfram á lofti þeirri ímynd sem hún hefur áður skapað sér, af bjargarlausri stúlku í vanda, heldur beinlínis hvetur til ofbeldis gegn konum í textum sínum. Ef við sem samfélag samþykkjum þá kvenímynd sem Del Rey stendur fyrir – valdalausa og niðurlægða – eru ungar konur sannarlega illa staddar.

Allt frá því að fyrsta lagið hennar,Video Games, sló í gegn, en þar reynir hún að lokka ástmanninn sem vanrækir hana aftur til sín með því að fara í „uppáhalds sumarkjólinn hans“, hefur Del Rey leikið hlutverk valdalauss fórnarlambs sem reiðir sig á samþykki og stuðning karlmannsins. Í meirihluta tónlistarmyndbandanna sem skoða má á opinberu Youtube-rásinni hennar hengir hún sig ástúðlega á handlegg karlmanns og emjar texta á borð við „You went out every night, and baby that’s all right / I told you that no matter what you did, I’d be by your side”. Það er áhugavert að bera texta sem þessa saman við texta frá söngkonum á borð við Beyoncé, sem kryddar sín lög með valdeflandi setningum á borð við “I’m reppin’ for the girls who taking over the world / Help me raise a glass for the college grads” (úr laginu Who Run The World (Girls)).

Í rauninni skiptir engu máli hvort Del Rey trúir sjálf á textana í lögum sínum, og þá mynd sem þeir draga upp af konum sem bjargarlausum, athyglissjúkum smástelpum – þessir textar sýna hana sem varnarlaust og valdalaust fórnarlamb illra karlmanna og í tónlistarmyndböndunum virðist hún aðeins hafa það hlutverk að vera augnayndi. Eins og söngkonan Lorde orðaði það, þegar hún var spurð um álit sitt á tónlist Del Rey:

Svona „plís, ekki yfirgefa mig“-væl, þar sem örvæntingarfull stelpa togar sífellt í blússuna sína og mænir út í loftið, það er ekki góður boðskapur fyrir ungar stelpur, eða bara ungt fólk yfirhöfuð.

Það er vissulega mikilvægt fyrir ungar konur að heyra stjörnur, sem hugsanlega eru fyrirmyndir þeirra, skilgreina sig sem femínista, en það er jafnvel enn mikilvægara fyrir ungar konur að sjá femínísk gildi og hegðun í verki í birtingarformum dægurmenningarinnar.

Del Rey gerir í raun afar lítið til að láta í ljósi einhverja persónulega afstöðu en þá sjaldan að það gerist birtist það í ímynd hennar sem kynveru (svo sem í laginu Fucked My Way Up to the Top á nýjasta diskinum hennar). Femínistar geta vissulega deilt um, og hafa deilt um, hvort grímulaus kynþokki er jákvætt eða neikvætt afl fyrir konur en útgáfa Del Rey af kynverund grefur ekki aðeins undan valdeflingu heldur getur beinlínis verið skaðleg. Titillag nýja disksins, Ultraviolence, er lofgjörð til heimilisofbeldis og inniheldur textabúta svo sem „He hit me and it felt like true love“ (sem er augljós vísun, þótt upprunans sé ekki getið, til lags með sönghópnum Crystals frá 7. áratug síðustu aldar, þar sem heitir He Hit Me And It Felt Like A Kiss. Það er skýr markalína á milli þess að vera jákvæður í garð óhefðbundinna kynlífsiðkana (sem dæmi má nefna lagið S&M með Rihönnu) og þess að gera kynbundið ofbeldi spennandi og rómantískt og Del Rey fer langt yfir þau mörk með þessu lagi.

Myndband við Ultraviolence hefur enn ekki verið gefið út, en hér má hlusta á lagið og lesa textann.

Del Rey er einnig þekkt fyrir að líta á bókmenntapersónuna Lolitu úr samnefndri skáldsögu Vladimir Nabokov, sem einhvers konar fyrirmynd – en það er persónugerving sem hún notar til að skýra það hvers vegna hún kýs fremur eldri karlmenn sem ástmenn og hvers vegna hún bregður oft fyrir sig barnamáli í söngtextum sínum. En hver sá eða sú sem hefur lesið Lolitu veit auðvitað að bókin er ekki um fullvaxta konu sem tekur sjálfstæða ákvörðun um að vera í sambandi við eldri karlmann, heldur fjallar um karlmann sem misnotar barn kynferðislega. Hér tekur Del Rey annað risaskref yfir mjög afgerandi markalínu.

Í sama viðtali og Del Rey segist hafna alfarið femínisma setur hún fram sína eigin skilgreiningu á „alvöru femínista“ – en það er að hennar mati “kona sem finnst hún hafa frelsi til að gera nákvæmlega það sem hún vill“. Með því að fullyrða að alvöru femínisti myndi einfaldlega haga sér nákvæmlega eins og henni sýnist er Del Rey að hunsa þann veruleika sem konurnar í hópi aðdáenda hennar lifa við að stórum hluta. Kynjamisrétti og kvenhatur hindrar konur í að „gera það sem þær vilja“ og ótal steinar eru lagðir í götu þeirra, svo sem kynbundinn launamunur, mismunun á vinnumarkaði, kynferðisleg áreitni og kynferðisofbeldi, svo fátt eitt  sé nú nefnt. Ef stjörnurnar gætu einfaldlega hætt að leika bágstödd og bjargarlaus grey og farið að tala máli kvenréttinda og kvenfrelsis gætum við kannski farið að þokast eitthvað í átt til þess sem Lana Del Rey skilgreinir sem „alvöru femínisma“.

Emily Shugerman stundar nám í stjórnmálafræði við Occidental College og er í starfsnámi hjá tímaritinu Ms. Það má líka fylgjast með henni á Twitter. Þessi pistill birtist fyrst hér og er birtur með góðfúslegu leyfi.

Halla Sverrisdóttir þýddi.

 

 

2 athugasemdir við “Lana Del Rey: Ég er enginn femínisti

  1. Flott greining hjá Shugarman og margt áhugavert sem hún setur fram. Hins vegar spyr ég mig hvort texti Dal Ray „ltraviolence“, fjalli ekki nákvæmlega um ofbeldissamband og hvernig ofbeldismaðurinn útskýrir hegðun sína með því að ofbeldið sé merki um ást. Það gæti líka verið raunsönn lýsing á réttlætingu ofbeldismannsins og hvernig konan tekur þá réttlætingu gilda til að finna einhvern farveg til að lifa ofbeldið af. Oft er búið að mylja þá svo undan sjálfsvirðingu hennar að hún jafnvel trúir því að hún eigi þetta skilið. Í textanum segir að Jim (ofbeldismaðurinn) hafi alið hana upp. Hann hefur sagt henni hvaða augum hún á að líta lífið og höggin sem hann gefur henni. Þá verða höggin eins og kossar, merki um ást ofbeldismannsins sem „elskar“ svo mikið að hann ræður ekki við sig.

    Það er líka alltaf umræða hvort að listamenn yfir höfuð eigi að vera einhverjar fyrirmyndir. Því oft eru þeir sem slíkir alls ekki góðar og er eðlilegt að við gerum þá kröfur á þá?
    Kannski er það svo, í það minnst hefur mér fundist það sem móður að popplistamenn beri ákveðna ábyrgð. Hins vegar er líka spurning hvort að það sé ekki alveg eins á ábyrgð mína sem foreldri að útskýra fyrir barninu mínu að listamenn séu ekki fyrirmyndir, þetta sé ákveðið alterego sem þau nota til að skilgreina sinn veruleika. Og sannarlega er það svo að margar ungar stúlkur afneita femínisma (stundum vegna þess að þær skilja hann ekki) og hafa fullt leyfi til þess.
    Mér finnst tónlist Del Ray góð og hef oft hlustað á hana. Ég hef tekið textum hennar frekar sem ádeilu á veruleikann en einhverjar yfirlýsingar. Ég hef heldur ekki kynnt mér nægilega hvað liggur á bak við og hvaða viðhorf hún hefur til textanna sinna. Eftir yfirlýsingu hennar og lestur greinar Shugerman hef ég valið að endurskoða dálæti mitt á henni og hlusta á texta hennar með gagnrýnni eyrum. Takk fyrir góða grein sem vekur mig svo sannarlega til umhugsunar.

    • Hárrétt, hjá Önnu, ef að listamaður þarf sífellt að ritskoða sjálfan sig eða vera ritskoðaður eða gagnrýndur ella, fyrir að fylgja ekki einhverri ákveðinni „ríkjandi“ hugmyndafræði erum við komin út á hættulegar götur skoðunarkúgunar, og með vísun til misbeitingar listar hjá alræðisstjórnum síðustu aldar í Evrópu og Asíu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.