Vændi, „val“, „frelsi“ og „öryggi“

**TW/VV: vændi, ofbeldi, tenglar á greinar og rannsóknir sem innihalda oft lýsingar frá þolendum vændis**

 Höfundur: Elísabet Ýr Atladóttir

(Svar við grein Þórdísar Sveinsdóttur)

Ég fagna umræðu um vændi en um leið hryggir það mig mjög að sjá hversu margir kokgleypa glansmyndir kynlífsiðnaðarins gagnrýnilaust. Ég efast ekki um að það er mun auðveldara að telja sér trú um að vændisfólk sé oftast nær í þessum aðstæðum og þessari stöðu á eigin forsendum, að konur í þessum iðnaði hafi valið það nauðungarlaust að stunda vændi, að þær njóti vinnu sinnar og fagni hverjum viðskiptavini, að þær eigi snurðulaust og faglegt samband við melludólginn sinn. Það er mun auðveldara að henda fram setningum eins og frelsi til að velja og öryggi í starfi en að rannsaka vel og vandlega hvaðan þetta fólk í raun kemur, hvað það er í raun að gera, hver hefur valdið yfir þeim og hverjum vinna þeirra gagnast í raun. Það er auðveldara að láta eins og reynsla forréttindavændisfólks sé saga meirihluta þeirra sem stunda vændi en að lesa og hlusta á sögur þeirra sem komust við illan leik úr þessum iðnaði, með tættar sálir og vondar minningar. Sum voru seld af fjölskyldu sinni. Mörg voru tæld og þvinguð af ókunnugu fólki sem bauð þeim betra líf í nýju landi. Önnur kúguð til að selja sig til að þóknast elskhuga. Mörg í stórkostlegum fjárhagslegum vanda. Ótrúlegur fjöldi þessa fólks var og er beitt ofbeldi á einhverju tímabili í lífi sínu, reynsla sem gjarna aftengir þolandann frá líkama sínum. Einhver þeirra eru að berjast við erfiða fíkn. Rasismi, stéttaskipting, kvenhatur lita þennan iðnað. Og kynlífsiðnaðurinn gerir hvað sem er til að slá ryki í augu fólks og viðhalda blekkingarleiknum þar sem hamingjusama hóran er normið, en kúgunin, fíknin og ofbeldið eru frávikið. Og það versta er að þetta virkar. Fólk étur þetta upp í einfeldningslegri óskhyggju og klappar sér svo á bakið fyrir að vera baráttufólk fyrir frelsi til að velja. Þessu sama fólki þætti hins vegar óhugsandi að barnið þeirra stundaði vændi.

Það er ekki réttur fólks að stunda kynlíf ef enginn er viljugur til að stunda það með þeim. Þessi iðnaður byggist upp á því að halda í hávegum forréttindum karla til að nota líkama kvenna að vild. Það ýtir undir hugmyndir um að fullnæging karla sé mikilvægari en geðheilsa og líkami kvenna. Fyrst þetta er svona mikið val, hvernig stendur á því að það eru alltaf stúlkur og konur með langminnst af valkostum sem enda í þessum iðnaði? Hvers vegna telst eðlilegt að konur í neyð „velji“ að selja líkama sinn til að ná endum saman? Það er ekki talið eðlilegt að karlmaður noti þessa aðferð, jafnvel ekki til að komast úr stórkostlegum fjárhagslegum vanda. Það er aldrei talað um rétt þeirra til að selja sig. Það er einungis talað um konur, því heterónormatívt forréttindakerfi feðraveldisins krefst þess að karlmenn hafi greiðan aðgang að líkama kvenna, en sykurhúðar það sem „val“, „rétt“, „frelsi“. Það krefst þess að konur veiti þessa þjónustu þar sem það gefur út þau skilaboð að kynlíf sé réttur karla og það sé hlutskipti kvenna að veita það, hvort sem þær eru viljugar eða ekki. Fyrir feðraveldinu, fyrir kapítalismanum, fyrir þau sem nýta sér neyð vændisfólks, jafngilda peningar samþykki. Skítt með það hvaða áhrif það hefur á vændisfólkið sjálft eða samfélagið í heild.

prostitution

Lögleiðing vændis hefur ekki virkað. Þýskaland er enn miðstöð vændis, þar sem vinnuveitandi hefur meiri stjórn yfir líkama vændisfólks en þau sjálf og vændisfólk þjáist. Í Ástralíu hefur komið fram að 64% vændiskvenna myndu vilja losna úr vændinu strax, og í Hollandi er sú tala 75%. Af 854 manneskjum í vændi í 9 löndum vildu 89% úr vændi en gátu ekki farið af einni eða annarri ástæðu (val! Frelsi!). Þegar Amnesty International gaf út lögleiðingarskjalið sem var mjög umdeilt í hópum þolenda og innan Amnesty, mótmæltu þolendur vændis kröftuglega. Í mörgum tilvikum hefur komið í ljós að þau sem tala einna hæst um lögleiðingu eru í raun, eða hafa verið, melludólgar sjálf. Fólk sem berst fyrir lögleiðingu hefur jafnvel logið blákalt og fiktað í rannsóknum til að koma málefni sínu á framfæri. Sænska leiðin hefur sannað gildi sitt og réttmæti ítrekað, en enn talar fólk um mýturnar sem koma beint frá kynlífsiðnaðinum til að þagga niður í þeim sem hafa raunverulega einhverju við umræðuna að bæta. Þessi iðnaður hefur aftur og aftur sýnt og sannað að hann er skaðlegur öllum þeim sem stunda vændi innan hans, en enn er talað um hamingjusömu hóruna. Það er nefnilega svo miklu auðveldara.

Hlustum á þolendur vændis. Tökum mark á rannsóknum og hættum að gefa forréttindavændisfólki og melludólgum svona mikið pláss í umræðunni. Fólk í forréttindahópum má ekki einoka umræðuna á meðan það eina sem það hefur til að styðja mál sitt er einstaka vændiskona sem finnst vændi bara alveg æðislegt. Öryggi og réttindi vændiskvenna er nákvæmlega það sem sænska leiðin berst fyrir. Hættum að hugsa um vændi sem eitthvað óumflýjanlegt náttúrulögmál og að eina leiðin til að hjálpa fólkinu sem þjáist vegna vændis sé að lágmarka skaðann sem það verður fyrir. Kynlífsiðnaðurinn veltir milljörðum á ári og græðir gríðarlega á lögleiðingu vændis og þöggun þolenda.

Útrýmum vandamálinu með því að berjast markvisst gegn því, með því að rannsaka það, ræða það og leita lausna, í stað þess að leita leiða til enn frekari normalíseríngar.

9 athugasemdir við “Vændi, „val“, „frelsi“ og „öryggi“

 1. Það er auðvitað að berja höfðinu við steininn að ræða þetta málefni að viti hér. Allt málað hvítt eða svart. Ekki minnst einu orði á bestu rannsóknina á þessu sviði sem gerð hefur verið sem er danska rannsóknin. Þá rannsókn vilja feministar ekki vita af.
  Ætla bara að leiðrétta eitt atriði af mörgum villum. Sænska leiðin er ekki að virka. Norðmenn munu á næstunni breyta um stefnu. Eftir standa 2 ríki þá.
  Finnar og Danir höfnuðu þessari leið eftir gaumgæfulega umhugsun, ólíkt íslendingum sem öpuðu þetta eftir sænskum feministum óritskoðað.
  Svíar þurftu að herða refsingar um kaup á vændi um helming f. 3-4 árum þar sem vændi var að aukast hratt. Þetta hefur samt ekki minnkað vændi og mikil aukning af starfandi sænskum escortum og nuddstofum. Þetta kemur ekki fram í ritskoðuðum skýrslum svía um þetta, enda má ekki gagnrýna páfann þar. Í byrjun sást greinileg fækkun vændismála en nú er staðan orðin eins og hún var fyrir lagleysuna. Hins vegar hefur vændið breyst, fra götunum yfir á netið og nuddstofur. Þeir lögreglumenn sem þora að tjá sig um málið telja að banna verði einnig sölu á vændi ef þetta á að virka. Sænska leiðin virkar vel fyrir hvítar háskólamenntaðar konur, sem sækja ráðstefnur í Malmö.

 2. Hvaða dóma hafa kaupendur vændis á Íslandi fengið eftir að þessi sænska leið var tekin upp?

  Ég tel þessa aðferð ekki virka. Aftur á móti gæti það virkað sem fælandi að „viðskiptavinirnir“ yrðu nafngreindir þegar fjallað er um þessi mál eins og í annars konar sakamálum væri þessi sænska leið kannski að virka.

  Einstaklingar undir 18 ára aldri eru samkvæmt lögum ekki fullorðnir og mér þætti áhugavert að heyra í fólki sem finnst í lagi að persóna undir 18 selji aðgang að líkama sínum. Ætli einhver sem á ungling gæti hugsað sér þetta sem framtíðarvinnu barnsins?

  Meirihluti þeirra (18 ára og eldri)sem „starfa“ í kynlífsiðnaðinum hafa brenglaða tilfinningu gagnvart eigin líkama.

  • Sæl Hildur,

   Þessi aðferð virkar, ef lögregla og dómstólar fylgja þeim eftir. En lögregla og dómarar eru manneskjur eins og aðrir, og þar leynast fordómar gegn vændi og þeim sem leiðast út í það af einni eða annarri ástæðu, eða trúin að þetta sé „val“. Það er auðveldara að þykjast að vændiskonan hafi valið þetta og að vændiskaupandinn sé bara litla greyið sem er svo einmanna heldur en að taka hart á þessum málum frá byrjun og sjá það frá hlið vændisfólks.

   Ég efast líka ekki um að fælingamátturinn væri enn meiri ef nafngreint væri vændiskaupendur.

 3. Góðfúsleg ábending frá Íslandsdeild Amnesty International er eftirfarandi:
  Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa enga afstöðu tekið varðandi lögleiðingu vændis.

  Okkur þætti vænt um að það kæmi skýrt fram í greininni.

  Kveðja,

  Anna Lúðvíksdóttir
  Skrifstofustjóri Íslandsdeildar Amnesty International

 4. „Hlustum á þolendur vændis. Tökum mark á rannsóknum og hættum að gefa forréttindavændisfólki og melludólgum svona mikið pláss í umræðunni.“

  Hvers vegna á aðeins að hlusta á þá sem ýta undir þínar hugmyndir, en hætta að gefa öðrum pláss í umræðunni? Sérðu virkilega ekki hve brengluð nálgun það er ef maður virkilega vill vita hvernig hlutirnir eru?

  Ef þú skilgreinir þá sem samræmast þínum hugmyndum sem þolendur vændis og þá sem gera það ekki sem forréttindavændiskonur og að það eigi bara að hlusta á fyrri hópinn þá þarf engan snilling til að sjá hvaða niðurstöðu þú munt alltaf komast að… hugsanlega er sú niðurstaða rétt, en þessi nálgun er samt sem áður handónýt (confirmation bias, selective reading, etc…)

 5. Bakvísun: Þess vegna er vændi nauðgun | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.