Áminning vegna útihátíða

Höfundur: Þóra Kristín Þórsdóttir

**VV**/ **TW** Fjallað um nauðganir.

Nýverið féll dómur í nauðgunarmáli en umrædd (meint) nauðgun átti sér stað á útihátíð. Meintur gerandi var sýknaður. Án þess að tekin sé efnisleg afstaða til þessa tiltekna máls hér er þessi dómur mjög mikilvæg áminning, nú við upphaf útihátíðatímabilsins. Dómurinn er nefnilega ekki aðeins dæmi um það hvernig dómstólarnir íslensku setja sönnunargögn upp í stigveldi (efnisleg sönnunargögn á móti sálfræðilegum vitnisburði, svo dæmi sé tekið) og byggja dóma sína á fyrirframgefnum hugmyndum um fólk sem ekki standast skoðun (svo sem um eðlileg viðbrögð í aðstæðum) heldur sýnir hann svart á hvítu hversu erfitt það er að fá geranda sakfelldan þegar nauðganir verða á djamminu almennt og á útihátíðum sérstaklega.

 

DSC700_(75)

1. Nú eru vitni, þótt óvímuð séu, mjög óáreiðanleg og sömuleiðis er fólk mjög misnæmt á ástand annarra. Útihátíðir eru fylleríisamkomur og sumir drekka frá morgni til kvölds á meðan aðrir blanda jafnvel öðrum efnum samanvið. Þar með eru útihátíðir aðstæður þar sem sérstaklega erfitt er að treysta á að upplifun vitna sé í samræmi við upplifun þolanda, og eins þarf alls ekki að vera samræmi á milli vitna. Hvernig fór á með þeim X og Y, vel eða illa?  Hvernig var ástandið á manneskjunni þegar hún kom út úr tjaldinu,var hún bara hress eða var hún niðurbrotin?

2. Umræddur dómur er dæmi um hið vandræðalega hugtak trúverðug viðbrögð en dómurinn ályktar að viðbrögð þolanda strax eftir (meinta) nauðgun hafi ekki verið trúverðug. Nú er auðvitað ekki hægt að segja til um rétt eða trúverðug viðbrögð við áfalli í sjálfu sér, því hvert okkar bregst við á sinn hátt og sami einstaklingur getur brugðist ólíkt við mismunandi áföllum, en í útihátíðarsamhenginu verður málið flóknara. Vel má ímynda sér að manneskja verði dofin og haldi bara áfram að djamma, eða harki af sér og haldi andliti til að skemma nú ekki djammið fyrir hinum.

3. Dómurinn bendir líka á annað vandamál sem er þetta með líkamlega áverka, því það er erfitt að sanna að um ofbeldi hafi verið að ræða ef engir eru áverkarnir. Þetta, eins og hin atriðin sem hér eru nefnd, á auðvitað við í nauðgunarmálum almennt, en hugmyndin að baki er sú að áverkar verði við nauðgun vegna þess til dæmis að þolanda er þröngvað til samræðis og ber þess þá merki (sem stenst ekki endilega ef kelerí átti sér stað fyrir nauðgun) og vegna þess að þolandi bregst við ofbeldinu með því að berja eða streitast á móti. Þó er vitað að það að frjósa eru einmitt mjög algeng viðbrögð í þessum aðstæðum. Þá má búast við töluverðum aflsmuni á konum og körlum til að byrja með sem aðeins eykst ef þolandi er drukknari en gerandi (jafnvel í samspili við lyf) svo það getur verið rökrétt fyrir þolanda að gefast upp gagnvart ofbeldinu frekar en að streitast á móti. Þetta minnkar líkur á áverkum þó ofbeldið sjálft sé klárlega til staðar. Í þessu samhengi er líka vert að benda á að tjaldútilegum á útihátíðum fylgir aukið varnarleysi. Viðkomandi er ekki á sínu heimasvæði og erfitt getur verið að ákveða skyndilega brottför, tjaldið sjálft veitir enga vernd gegn innbrotsþjófum og á svona samkomu má allt eins búast við því að hitta ofbeldismanninn aftur sömu nótt eða næsta dag. Þolandi getur því ímyndað sér, eða réttilega ályktað, að það að streitast á móti gerandanum geti haft meira ofbeldi í för með sér síðar á hátíðinni.

logonei

Lógó Karlmenn segja nei við nauðgunum, átaks karlahóps Femínistafélags Íslands.

Þetta mál sem Héraðsdómur Suðurlands dæmdi nýlega í er þannig þörf áminning um tvennt: a) Fólk nauðgar á útihátíðum. Um það þarf áframhaldandi vitundarvakningu en líka stóraukna gæslu á hátíðunum sjálfum. b) Jafnvel þó þjóðfélagslega sé mikilvægt að sem flestir kæri kynferðisbrot er þetta enn eitt dæmið um að fyrir einstakling borgar sig sjaldnast að kæra nauðgun. Réttarkerfið okkar er máttlaust gagnvart þessum ofbeldisglæpum. Það er auðvitað ekki líðandi að það þurfi allt að gerast undir réttum kringumstæðum og að viðbrögð allra viðstaddra séu rétt til að geta talist trúverðug, því  það eru engin rétt viðbrögð þegar einhver beitir þig ofbeldi. Kæruferlið sjálft er erfitt ferli sem viðkomandi þarf að hafa trú á til að leggja á sig. Dómurinn minnir okkur því á ef ekki er um mikla líkamlega áverka að ræða er almennt vafasamt að kæra nauðgun og sérstaklega ef nauðgunin er framin á útihátíð. Það eru nefnilega aðstæður þar sem afskaplega ólíklegt er að annað sem þurfa þykir til að sakfella geranda, svo sem vitni, trúverðug viðbrögð og minni um atburðarrás frá a til ö,  sé til staðar.

3 athugasemdir við “Áminning vegna útihátíða

 1. Þetta er ágæt að ræða þessar útihátíðir að því leiti að það er margt sem við eigum ólært með hvernig á að standa að útihátíðum, sérstaklega þegar horft er til að nauðganir eru ekki nálægt því eins algengar á mörgum erlendum hátíðum eins og hér.

  Ég verð hinsvegar að gera smá málsvörn fyrir dómskerfið okkar, sem ég tel maklaust að gera að sökudólginum í þessum efnum.

  Það er ekki rétt að setja þetta þannig upp að dómstólar séu að gera kröfur um að “ allt [þurfi] að gerast undir réttum kringumstæðum“ — Dómstólar eru í þeirri stöðu að þurfa að greina og skoða sönnunargögn og málsflutning frá bæði verjanda og saksóknara. Þeir mega ekki sakfella þann ákærða nema að gögn frá báðum aðilum sýni fram á sekt umfram skynsamlegan vafa. Þegar kemur af málum sem þessum, þar sem oftast engin vitni eru , þá standa dómstólar eftir með lítið í höndunum. Ef framburður sakbornings er þokkalega heilsteiptur, þá neyðast dómarar til að skoða framburð meints fórnarlambs í samanburði. Í sumum tilfellum er lítið annað að segja í dómsúrskurði en vankanntar á framburði meints fórnarlambs í samanburði við sakborning. Í öðrum tilfellum er þessu öfugt farið – dómurinn sakfellir á þeim forsendum að framburðir sakbornings hafi verið minna trúverðugur en meints fórnarlambs (Og nóg til að slíkum dæmum).

  Þessi grein virðist vera með þann ingangs og útgangspunkt að dómskerfið sé að leita sérstaklega í að skrumskæla vitnisburð meints fórnarlambs… Það er gróf mistúlkun á dómskerfinu, sem stenst ekki skoðun.

  Það er líka talað um í greininni að „Nýfallinn dómur Héraðsdóms Suðurlands er þannig þörf áminning um…. [að] Fólk nauðgar á útihátíðum“ — Hér virðist vera einfaldlega gert ráð fyrir að það geti alls ekki verið að sakborningur hafi verið saklaus, og virðist vera sem greinar-höfundur þykist vita að hér hafi dómskerfið gert mistök — Eitthvað sem er augljóslega jafn ómögulegt fyrir hann að vita með vissu og dómstólinn sjálfann. Og greinarhöfundur lætur sem hann viti þetta án þess að færa fyrir því rök.

  Að leggja það þannig upp að um leið og sjáist í dóms-úrskurði að dómur horfi krítískt á framburð meints fórnarlambs, þá sé hann sjálfkrafa að mismuna þeim aðila (ef það er í raun skoðun höfundar) þá er það afhjúpun á þekkingarleysi greinarhöfundar á dómskerfinu, en segir lítið um þetta mál, og enn minna um þennan málaflokk.

  Það verður hinsvegar ekki gert lítið úr því að þessir alvarlegu glæpir (og sakargiftir), sem í eðli sínu skilja ekki eftir mikið af sönnunargögnum né markverðum vitnisburðum þó brot hafi sannarlega átt sér stað, eru ofboðslega erfiðir meðferðar; Bæði fyrir dómstóla og samfélagið. Dómskerfið er ekki fullkomið. Stundum sleppa sekir menn, og stundum eru saklausir menn sakfelldir. Nóg er til af dæmum um hvortveggja.

  Mikilvægasta prinsip mál varðandi dómskerfi í siðuðum ríkjum er hinsvegar það sem William Blackstone benti á eftir nornafárið 1769 (í lauslegri þýðingu) „Skárra er að tíu sekir sleppi, heldur en að einn saklaus sé sakfelldur“

  Þetta kann að hljóma „karllægt“ og skringilegt fyrir feministum, en ástæðan fyrir því að þetta prinsip-mál er ennþá mikilsvert er sú staðreynd að þó þetta sé stór galli, að sleppa hættulegum mönnum útí samfélagið, þá er þetta aldrei eins mikill galli, og eins hættulegt, og Ríki sem leyfir sakbendingum einum saman að ákvarða sakfellingu.

  P.s Það er lauslega imprað á því í byrjun greinarinnar að sálfræðilegum vitnisburðum sé ekki gert nógu hátt undir höfði, og að efnisleg sönnunargöng ( og vitnisburðir reyndar líka) séu stigi hærra í sönnunargagna stiganum. Þetta er sagt eins og slíkt sé eitthvað skrítið , og því þurfi að breyta? — Í prófum þar sem reynt er á getu fagmanna (Sálfræðinga, Geðlækna, rannsóknarlögreglumanna, Presta og fl) til að meta hvort fólk sé að segja satt eða ósatt þá enda fagmenn yfirleitt ekki mikið hærra en stýrihóparnir – þ.e. ekki langt yfir giski (50%)
  — Þetta þýðir einfaldlega að ef við myndum breyta dómskerfinu í þá átt að vitnisburður sálfræðings væri gert hærra undir höfði, þá væri verið að gera sömu mistök og á öldum áður þegar prestar voru látnir vera karakter vitni. M.ö.o. Sú hugmynd að þetta verði reynt er virkilega vond og hættuleg fyrir siðað réttakerfi, enda hefur verið dregið úr vægi slíkra vitnisburða í restini af hinum vestræna heimi á síðustu áratugum.

 2. Sæll Víðir

  1. Dómstólarnir bera klárlega ábyrgð, enda er það þar sem lögin eru túlkuð, fordæmi eru gefin, og hlutir eins og skynsamlegur vafi eru skilgreind. Það var samt ekki markmiðið hjá mér að setja dómstólana upp eins og sökudólga heldur hitt að lýsa því , byggt á þessum dómi, hvað aðstæðurnar sem skapast á útihátíðum eru ill samræmanlegar þeim kröfum sem gerðar eru í kynferðisbrotamálum til að gerandi sé sakfelldur.

  2. „Þessi grein virðist vera með þann inngangs og útgangspunkt að dómskerfið sé að leita sérstaklega í að skrumskæla vitnisburð meints fórnarlambs“
  Þetta er algjörlega þín túlkun, eða ég amk hafði ekki þennan útgangspunkt við skrifin. Hins vegar er dómskerfið allt annað en þolendavænt og um það hefur verið skrifað margt og mikið. Í því samhengi er þessi dómur líka athyglisverður enda er þolandi mun meir settur undir smásjána í þessu máli en meintur gerandi. Um það hefur Ingimar Karl (síðasti leiðari Reykjavík Vikublaðs) skrifað.

  3. „Það er líka talað um í greininni að “Nýfallinn dómur Héraðsdóms Suðurlands er þannig þörf áminning um“
  Takk fyrir ábendinguna. Hér var ekki meiningin að vísa í dóminn heldur málið sjálft, og hefur það nú verið leiðrétt. Málið sjálft er sem sagt ábending, en ekki endilega dómurinn sjálfur.

  4. Í þessum pistli nota ég þetta mál sem útgangspunkt til að sýna fram á hversu erfitt það er fá geranda sakfelldan í nauðgunarmálum sem gerast á djamminu almennt eða á útihátíðum.Í því samhengi skiptir engu máli hvort þessi tiltekni meinti gerandi er sekur eða saklaus, það eru aðstæðurnar sem ég er að skoða og hvaða rök eru tiltekin fyrir sýknu.

  5. Já ég impra á því að sálfræðilegum vitnisburði sé ekki gert nægilega hátt undir höfði. Það er rannsóknarefni (fyrir einhvern annan) að skoða þetta atriði, hvernig dómskerfið notar sálfræðilega vitnisburði og við hvaða aðstæður slík gögn hafa meira/minna vægi. Ég hins vegar treysti mér ekki til að fjalla um þetta atriði.

 3. Sæl Þóra og takk fyrir svarið.

  Þú segir:

  „Það var samt ekki markmiðið hjá mér að setja dómstólana upp eins og sökudólga heldur hitt að lýsa því , byggt á þessum dómi, hvað aðstæðurnar sem skapast á útihátíðum eru ill samræmanlegar þeim kröfum sem gerðar eru í kynferðisbrotamálum til að gerandi sé sakfelldur.“

  – Já ég held að við séum alveg sammála um að útihátíðir á íslandi eru í hörmulegu formi, en fókusinn á þá að mínu mati að vera á útihátíðum… því það væri algjör vitleysa að byrja að krefjast af dómskerfinu að það gefi afslátt á sönnunarkröfum útfrá því hvar meintur glæpur átti sér stað. Sumar aðstæður eru þannig að „blindsvæðið“ fyrir þá sem eiga að bera hlutlægt mat á atburði, er stærra.

  Þú segir:

  „Þetta er algjörlega þín túlkun, eða ég amk hafði ekki þennan útgangspunkt við skrifin. Hins vegar er dómskerfið allt annað en þolendavænt …“

  Þetta orð „þolendavænt“ er ‘weasel word’… Hvað á ég að skilja þegar einhver segir að eitthvað sé ekki „þolendavænt“? Ef dómskerfið er ekki „þolendavænt“ er það þá í staðinn „gerandavænt“? Dómskerfið er einfaldlega með mikilvæg prinsip, sem ég hef imprað á áður, sem eru þarna af góðri og gildri ástæðau, en það er auðvitað ekki gaman fyrir neinn að eiga eitthvað undir í réttarsal, það er alveg rétt.

  „…og um það hefur verið skrifað margt og mikið. Í því samhengi er þessi dómur líka athyglisverður enda er þolandi mun meir settur undir smásjána í þessu máli en meintur gerandi. Um það hefur Ingimar Karl (síðasti leiðari Reykjavík Vikublaðs) skrifað.“

  Það er hlutverk dómstóls að skoða öll sönnunargöng. Ef dómstóll er með meira af gögnum frá öðrum hvorum aðila, þá á hann ekki að jafna út þau gögn (þ.e. sleppa að skoða sumt í stærri bunkanum) enda væri það fáránleg krafa. Þegar þú talar um að „setja undir smásjá“ þá get ég ekki betur séð en að þú sért aftur farinn að láta eins og dómstólar séu að leita í að skrumskæla einn fram yfir annan. Það eru haldlausar, órökstuddar, og óupplýstar getgátur.

  Hvað varðar Ingimar, þá gerir hann sömu mistök og þú (og einmitt margir aðrir)

  Ingimar skrifar:

  „Mér finnst hins vegar magnað að sú sem verður fyrir ofbeldi og kærir skuli í reynd verða sú sem réttað er yfir. “

  — Hann semsagt gefur sér að meintur þolandi hafi orðið fyrir ofbeldi (án sönnunargagna né rökstuðnings), og að dómsmeðferðin hefði átt að gefa sér það sama, og síðan væri það bara formalitet að stimpla þá skoðun — Það er gróf mistúlkun á hlutverki dómskerfa, og Ingimar hefur engar forsendur til að gefa sér þetta.

  Þegar dómskerfi tekur fyrir ákæru, þá er það ekki búið að gefa sér að glæpur hafi átt sér stað. Það notar (öll) sönnunargöng til að meta hvort sannað sé umfram skynsaman vafa hvort ákv glæpur hafi átt sér stað. Ef gögnin eru ekki nógu góð, og ef sum af þeim benda jafnvel í hina áttina (að framburðir meints þolanda þyki ekki trúverðugur), þá er auðvitað sýknað.

  Að dómskerfi skoði framburð meints þolanda krítískt er ekki „dómur“ yfir þeim aðila, því meintur þolandi á ekki í hættu á sekt eða refsun þó dómur geri athugasemd við framburð hans. Það er auðvitað óþæginlegt þegar málstaður manns er rengdur (tala nú ekki um ef maður er að segja satt) , en að líkja því við dóm er fávissa.

  „Málið sjálft er sem sagt ábending, en ekki endilega dómurinn sjálfur.“

  Ef málið sjálft er þörf ábending um nauðganir, þá get ég ekki betur séð en að þú gefir þér að þetta mál geti alls ekki hafað verið ‘false positive’, því ef málið var þess eðlis, þá er auðvitað ekki rökrænt að tala um það sem „ábending um nauðgun“ – Það væri ábending um eitthvað allt annað.

  Ég vil taka það fram hér að ég skil áhyggjur um að nauðganir (og reyndar miklu fleiri tegundir glæpa) eru þess eðlis að erfitt er að fá sekt sannaða. Ég er ekki á móti slíkri umræðu almennt. Það er hinsvegar allt annað mál að gefa sér að vegna þess að við getum verið sammála um að slíkt fyrirbæri sé almennt til staðar, að þá getum við notað þá almennu niðurstöðu til að leggja mat á sértæk dæmi. Harðstjórar í einræðisríkjum nota slíkar slump aðferðir í réttarsölum („Það er mikið af þjófum, þessi er sakaður um þjófnað, enough said, af með hendurnar á honum“) . Siðuð ríki gera þetta ekki.

  “ Í þessum pistli nota ég þetta mál sem útgangspunkt til að sýna fram á hversu erfitt það er fá geranda sakfelldan í nauðgunarmálum sem gerast á djamminu almennt eða á útihátíðum.“

  Já, og eins og ég segi, þá er fáránlegt að nota sértæk mál sýknana í almennan rökstuðning um ákv tegund sektar. Þú hefur engar forsendur til að gefa þér að þetta sértæka mál styrki málstað þinn.

  „Í því samhengi skiptir engu máli hvort þessi tiltekni meinti gerandi er sekur eða saklaus,…“

  Þetta er einfaldlega rökleysa. það myndi enginn fræðimaður í einni einustu fræðigrein nota „undecided“ (hvað þá ef þetta er í raun false positive) , sem rökstuðning fyrir fyrirbæri eða málstað.

  „það eru aðstæðurnar sem ég er að skoða og hvaða rök eru tiltekin fyrir sýknu.“

  Eins og áður sagði: Dómur notar þau gögn og rök sem hann hefur, og ber ekki skylda til að nota jafn mörg rök gegn sakborningi og brotaþola ef þau eru ekki til staðar öðru hvoru megin við borðið.

  “ Já ég impra á því að sálfræðilegum vitnisburði sé ekki gert nægilega hátt undir höfði. Það er rannsóknarefni (fyrir einhvern annan) að skoða þetta atriði, hvernig dómskerfið notar sálfræðilega vitnisburði og við hvaða aðstæður slík gögn hafa meira/minna vægi. Ég hins vegar treysti mér ekki til að fjalla um þetta atriði.“

  þetta hefur verið vel rannsakað, og sterkur consensus hefur myndast um allan hinn vestræana heim. Eftir að DNA varð dómstólum nothæft sem sönnunargögn, hafa dómstólar útum allan vestrænann heim þurft að sýkna í fjölda mála, jafnvel menn á dauðadeildum, sem voru sakfelldir á áttunda og níunda áratugnum útfrá sálfræðingum og sérfræðingum sem karakter vitnum. Fullt að frægum dæmum til um þetta. Að reyna að snúa aftur í sama horf er fáránleg krafa fyrir öllum sem þekkja eitthvað um nútíma réttarsögu, og sést ekki sem krafa nema frá idealískum hópum sem vita ekki betur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.