Franska slæðubannið

Höfundur: Elín Pjetursdóttir

Hættum að segja konum hvernig þær eiga að klæða sig

Ég bíð, bjartsýn og æsispennt, eftir deginum þegar heimurinn lætur af þeim ósið að segja konum hvernig þær eigi eða eigi ekki að klæða sig. Fátt þykir mér vitlausara en að gera ráð fyrir því að af því að kona klæði sig á ákveðinn máta, þá hljóti hún að hafa ákveðna manneskju að bera. Hún er kúguð ef hún gengur með slæðu, hún er lauslát ef hún gengur í flegnum bol, og hún er vitlaus ef hún málar sig mikið. Þessar skrítnu mýtur könnumst við örugglega öll við, hvort sem við trúum þeim eða ekki, en við könnumst líka við orðatiltæki „ekki dæma bókina eftir kápunni“. Mér þykir skynsamlegt að gera ráð fyrir því að ég geti ekki dæmt einstakling út frá því hvernig viðkomandi klæðir sig. Við erum öll undir áhrifum frá því samfélagi sem við erum hluti af, svo vissulega ganga margar múslimskar konur með slæðu einmitt af því að í þeirra samfélagi er eðlilegt að konur gangi með slæðu. Rétt eins og okkur þykir eðlilegt að konur gangi í buxum því það er eðlilegt í okkar samfélagi í dag. Ég er þó ekki að afneita því að einhverjum konum sé gert að klæða sig á einn eða annan hátt, það getur vel verið að til séu múslimskar konur í Evrópu sem séu neyddar til að klæðast einhverskonar slæðu. Þrátt fyrir það þykir mér arfavitlaust að gera ráð fyrir því að allar konur með slæðu séu neyddar til að klæðast henni, rétt eins og mér þætti skrítið að segja að konur á Íslandi séu neyddar til að ganga í buxum.

Höfuðbúnaður búrkur niqabEr eðlilegt að banna konum að ganga með slæðu eða klæðast búrkum?

Árið 2004 tóku gildi lög í Frakklandi sem bönnuðu öll trúartákn í skólum, að háskólum undanskildum. Frönsk stjórnvöld héldu því fram að nýju lögin væru réttlætanleg í ljósi aðskilnaðs ríkis og kirkju í Frakklandi, þó sá aðskilnaður hafi reyndar verið til staðar þar í landi í hartnær hundrað ár án þess að þörf hafi þótt á lagasetningu sem þessari.  Lagasetning var mikið gagnrýnd þar sem flestum þótti augljóst að lögin beindust í raun gegn múslimum og þar með þeim konum og stúlkum sem hylja hár sitt og/eða andlit með slæðu. Þrátt fyrir harða gagnrýni frá bæði trúarleiðtogum, trúarhópum, femínistum, sem og þeim sem sögðu lagasetninguna bera vitni um fordóma gagnvart múslimum, sat franska ríkistjórnin við sinn keip. Ríkisstjórnin lét ekki þar við sitja því árið 2010 tóku í gildi lög sem banna fólki að hylja andlit sitt á almannafæri.  Líkt og með fyrri lagasetninguna þótti mörgum augljóst að lögin beindust nær einvörðungu að múslimskum konum þar sem sumar múslimskar konur klæðast niqab eða búrku, en hvorutveggja hylur hár konunnar sem og stærstan hluta andlits hennar. Nýja lagasetningin var einnig mikið gagnrýnd enda þótti hún bera vitni um íslamafóbíu, hún þótti hefta trúfrelsi einstaklingsins, og hún þótti bera vitni um forræðishyggju gagnvart konum. Andsvör voru á þá leið að með slæðubanninu væri í raun verið að standa vörð um jafnrétti kynjanna og virðingu kvenna.Persónulega þykir mér hæpið að segja að lög sem banna konum að klæða sig á ákveðinn máta ýti undir jafnrétti kynjanna, enda er ég þeirrar skoðunar að jafnrétti kynjanna byggi ekki á klæðaburði kvenna.

Nýverið fór 24 ára gömul frönsk kona með þessa lagasetningu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Hún hélt því fram að búrkubannið svokallaða frá 2010 bryti í bága við trúfrelsi hennar og fæli í sér mismunum og hún benti ennfremur á að henni þætti niðurlægjandi að vera neydd til að taka niður slæðuna á almannafæri. Hún væri þó reiðubúin að sýna andlit sitt af öryggisástæðum (t.d. á flugvöllum), og síðast en ekki síst staðfesti hún að hún væri ekki neydd til að klæðast búrku. Þar með svaraði hún tveimur helstu rökunum til stuðnings banninu, sem voru þau að konur væru neyddar til að hylja andlit sitt annarsvegar, og hinsvegar að banna ætti búrkur og niqab af öryggisástæðum.  Í upphafi þessa mánaðar úrksurðaði Mannréttindadómstóll Evrópu hinsvegar franska búrkubanninu í hag. Mannréttindadómstóll Evrópu er semsagt þeirrar skoðunar að það sé í lagi að segja konum hvernig þær eiga eða eiga ekki að klæða sig.

Um hættur lambhúshetta í borgaralegu samlífi

Vandamálið við búrkubannið er tvíþætt. Annarsvegar er vegið að rétti konunnar til að klæða sig eins og hún kýs að klæða sig, og hinsvegar þykir mér augljóst að bannið beri vott um þá miklu íslamafóbíu sem er til staðar í Evrópu í dag. Franska ríkisstjórnin heldur því reyndar staðfastlega fram að búrkubannið hafi ekkert með fordóma að gera. Hún bað Mannréttindadómstól Evrópu að vísa málinu frá, á þeim forsendum að banninu væri ekki beint gegn búrkum eða slæðum sem múslimar bera, heldur gegn öllum mögulegum gerðum þess að hylja andlit sitt á almannafæri.   Persónulega þykir mér hæpið að ríkisstjórnin sé að segja alveg satt. Í fyrsta lagi eru það nánast eingöngu múslimskar konur sem hylja andlit sitt, og í öðru lagi get ég ekki séð hversvegna frönsku ríkisstjórninni þótti skyndilega mikilvægt að banna fólki að ganga með lambhúshettur og grímur sem hylja hluta andlitsins. Við vitum jú að mörgum þykja búrkur og niqab vera birtingarmynd kúgunar múslimskra kvenna og í ljósi þess er lagasetningin kannski skiljanleg, þó ég sé sannarlega ekki sammála henni. En ég get engan veginn skilið afhverju frönsku ríkisstjórninni hefði skyndilega átt að þykja mikilvægt að banna lambhúshettur, en rökin voru þau að bannið auðveldaði frönskum borgurum að búa saman. Ég verð þó að játa að mér finnst ólíklegt að frönskum múslimskum konum þyki auðveldara að búa í sátt og samlyndi með samborgurum sínum, nú þegar þeim er bannað að klæða sig eins og þær lystir. En hvað veit ég, kannski hefur borgaralegt samlífi Frakka stórbatnað eftir að fólk hefur verið neytt til að losa sig við allar lambhúshettur, sem voru kannski aðal vandamálið eftir allt saman.

Fordómar og forræðishyggja

Mér þykir augljóst að banninu í Frakklandi sé beint gegn konum sem klæðast búrkum eða niqab. Þrátt fyrir að heiminum virðist þykja ósegjanlega skemmtilegt að segja konum hvernig þær eigi að klæða sig, held ég þó ekki að slæðu- og búrkubannið sé einvörðungu sprottið af þeirri undarlegu þörf. Ég held að margir sem styðja slæðu- og búrkubannið séu sannfærðir um að múslimskar konur séu kúgaðar og að þær séu neyddar til að klæðast búrkum eða slæðum.

Ef við erum raunverulega áhyggjufull yfir því að konum sé gert að klæða sig á ákveðinn máta þá þykir mér augljóst að við eigum ekki að hegða okkur eins, sem er akkúrat það sem franska ríkisstjórnin er að gera. Með þessum bönnum hafa þau meira að segja gengið skrefinu lengra og búið til lög sem neyða konur til að klæða sig á ákveðinn máta. Hvernig getur fólki þótt betra að þvinga konur með lögum til að klæða sig á einn hátt, en þótt að sama skapi verra að konur séu mögulega undir samfélagslegum þrýstingi til að klæða sig á annan hátt? Þetta þykir mér augljós mótsögn.

Ef fólk er raunverulega þeirrar skoðunar að konur sem ganga með slæðu eða íklæðast búrkum séu kúgaðar, hvernig á þessi lagasetning þá eftir að hjálpa hinum kúguðu konum? Ef stór hluti kvenna í Evrópu eru raunverulega kúgaðar, þá er það vandamálið sem við þurfum að takast á við. Ekki hvernig hinar kúguðu konur klæða sig, þar sem klæðaburður þeirra er ekki nema möguleg birtingarmynd þeirrar kúgunar sem þessar konur ku búa við. Við stoppum ekki kúgun kvenna með því að segja þeim að klæða sig öðruvísi. Slík lagasetning neyðir þær einfaldlega til að klæða sig á annan máta, eða neyðir þær til að halda sig heima við.

Ef einhverjar af þessum konum eru raunverulega kúgaðar heima hjá sér og neyddar til að ganga í búrku, þá neyðir umrædd lagasetning þær einfaldlega til að halda sig inni við. Þær eru þá kúgaðar heima fyrir, þær geta ekki farið út úr húsi, og þær eru líka kúgaðar af ríkisstjórn sem bannar þeim að klæða sig á ákveðinn máta. Ef menn eru að kúga konur, þá felst lausnin ekki í því að segja konum hvernig þær eiga að klæða sig. Vandamálið er ekki klæðaburður kvennanna, heldur eru menn sem kúga konur vandamálið.

Búrkubann og  íslamafóbía?

Það er alls ekki ólíklegt að til séu konur sem velja sér að ganga með slæðu eða íklæðast búrku eða niqab. Þessar konur geta ekki lengur klætt sig eins og þær vilja án þess að brjóta lögin, og afhverju? Lögin virðast ekki hjálpa neinum, svo mér sýnist að eina ástæðan fyrir því að þessum konum er meinað að klæða sig eins og þær lystir, er af því að hvítum Evrópubúum þykir klæðaburður þeirra óþægilegur ásýndar. Mér finnst ósegjanlega sorglegt að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi dæmt Frakklandi í hag. Ég fæ ekki betur séð en að búrkubannið sé einfaldlega birtingarmynd hinnar óþolandi forræðishyggju yfir konum, í bland við fordóma gagnvart múslimum.

 

6 athugasemdir við “Franska slæðubannið

 1. Ég er algjörlega ósammála efni þessarar greinar. Hún kristallar í hnotskurn þann menningarlega masókisma sem hefur heltekið róttæka vinstrimenn og ákveðinn part af „liberals“ á seinustu 10-15 árum.

  Í mörg hundruð ár hefur það verið merki um vináttu, virðingu og velvild í Evrópu að fólk sýni hvort öðru andlitið á sér þegar það hittist. Enginn hópur ætti að vera undanskilinn þessum reglum. Það eiga að vera ein lög í landi sem ganga jafnt yfir alla. Því er það bein ógnun við opið lýðræðislegt samfélag ef fólk neitar að sýna andlitið á sér. Það var í raun löngu orðið tímabært að frönsk stjórnvöld bönnuðu öll trúartákn í skólum enda ganga þau í algjört berhögg við aðskilnað ríkis og kirkju í Frakklandi. Það sama hlýtur að ganga yfir alla, hvað sem öllum samsæriskenningum lýður um að lögin mismuni múslimum. Krossar og önnur kristileg tákn hljóta að vera bönnuð í skólakerfinu einnig. Ef svo er ekki þarf að sjálfsögðu að kippa því í liðinn.

  Ég er ekki á móti því að múslimskar konur gangi um með hijab eða chador á almannafæri. Ég sætti mig hins vegar ekki við niqab eða burqa. Bæði út af því sem ég talaði um að ofan og einnig því þessir tveir búningar eru kúgunartæki gegn konum, notaðir af valdakörlum í þeim samfélögum sem þær koma frá og eiga sér enga réttlætanlega stoð í Kóraninum.

  Af hverju í ósköpunum ættu vestræn samfélög að sætta sig við niqab eða burqa þegar opin múslimsk samfélög eins og Túnis eða Tyrkland gera það ekki? Eigum við alltaf að miða við lægsta samnefnara svo við særum nú ábyggilega engan? Við erum svo hrædd við að vera ásökuð um einhvern ímyndaðan rasisma (skrýtið, því ég hélt að Islam væru alþjóðleg trúarbrögð og hefðu ekkert með „kynþætti“ eða litarhaft að gera) að við erum tilbúin að líta fram hjá alls konar hlutum. Síðan er þessu heimskulega orði islamófóbíu skellt á alla þá sem benda á þá gettóvæðingu sem á sér stað meðal múslima á Vesturlöndum með tilheyrandi kúgun innan þeirra, t.d. umskurði, heiðursmorðum, niqab og burqa, barnungar stúlkur seldar gömlum körlum o.s.frv. Allt þetta er komið til Vesturlanda. Ég vil persónulega sporna við þessari þróun.

  Það vilja flestir múslimar einnig gera. Það er óþolandi að það ágæta fólk fái aldrei neinn stuðning frá þeim sem ættu að vera þeirra helstu stuðningsmenn, vinstrimenn og liberals. Í staðinn heldur fólk eins og þú, í barnalegri einfeldni, að verstu afturhaldsöflin meðal múslima séu einhvers konar talsmenn fólksins og því eigi að fylgja þeirri línu sem þeir setja. Það er skelfilegur misskilningur.

  Aðskilnaður ríkis og kirkju er löngu tímabær hér á landi. Þegar það gerist myndi ég einnig vilja banna öll trúartákn á opinberum stöðum, þar með talið niqab, burqa, krossa o.s.frv.

 2. Sæll Sveinbjörn Hjörleifsson

  Það kom kannski ekki nægilega vel fram í greininni hjá mér að ég skil sannarlega afhverju fólk heldur að búrkubannið hjálpi konum, sumum röksemdafærslunum er ég jafnvel sammála.

  Ég geri mér líka fulla grein fyrir því að búrkur eru upphaflega menningarlegs eðlis en ekki beinlínis trúarlegs eðlis. Þessi hefð virðist hafa komið til af því að konur áttu að hylja andlit sitt til að koma í veg fyrir að ‘vekja upp girnd hjá mönnum’. Persónulega finnst mér fáránlegt að konur hafi verið gerðar ábyrgar fyrir mögulegum girndum manna, og í framhaldinu skikkaðar til að hylja sig til að koma í veg fyrir að mönnum liði svona eða hinsegin. Ég er líka fullkomlega meðvituð um að búrkur hafa verið notaðar sem kúgunartæki gegn konum, og að þær eru sannarlega frá feðraveldinu komnar. Mér fyndist því gott ef spornað yrði við útbreiðslu niqab og búrka, en mér finnst alrangt að gera það með lagasetningu.

  Í fyrsta lagi er ég er ekki sannfærð um að allar konur sem ganga í niqab eða búrku í Evrópu séu skikkaðar til þess að íklæðast þeim. Í öðru lagi þá tel ég að jafnvel þó svo væri, þá sé glæpavæðing klæðaburðs ekki rétta lausnin á þeim vanda.

  Að lokum þá langar mig að leiðrétta þann miskilning þinn að ég haldi “í barnalegri einfeldni, að verstu afturhaldsöflin meðal múslima séu einhverskonar talsmenn fólksins og því eigi að fylgja þeirri línu sem þeir setja.” Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég og islamskir íhaldsmenn séum sammála um að ekki eigi að banna búrkur. Ég held þó ekki að íhaldssamir múslimar séu talsmenn múslima, og ég geri mér þar að auki grein fyrir því að það eru að öllum líkindum afskaplega ólíkar ástæður fyrir því afhverju ég vil ekki láta banna búrkur, og afhverju þeir vilja ekki láta banna búrkur. Þó við séum sammála um þetta eina málefni, og það af afskaplega ólíkum ástæðum, þá þýðir það ekki að við séum sammála um nokkuð annað, né að ég styðji íhaldsama múslima, eða að ég telji þorra múslima vera jafn íhaldssama.

  Að lokum finnst mér gagnrýni þín á notkun hugtaksins íslamafóbía heldur óvægin. Í það minnsta nota ég hugtakið ísamafóbía sannarlega ekki um fólk sem gagnrýnir umskurð barna, heiðursmorð, eða mannsal á kornungum stúlkum. Hinsvegar finnst mér alveg ljóst að íslamafóbía er mjög útbreitt vandamál í Evrópu, og að afskrifa það vandamál sem “ýmindaðan rasisma” held ég að sé afskaplega hættulegt.

  Þetta málefni er mjög flókið og ég bjóst ekki við öðru en að margir yrðu ósammála mér. Í rauninni fagna ég því að við séum ósammála, enda þróast hugmyndir ekkert áfram nema að fólk takist á um þær.

  • Sæl vertu Elín.

   Ég þakka þér kærlega fyrir svörin og framsetninguna á þeim. Ég skal viðurkenna að ég bjóst við meiri slagsmálum. Ætli ég sé ekki orðinn of vanur óvægni og persónulegum svívirðingum í íslenskri „umræðu“. Það er því hreinlega hressandi að fá svona vel orðuð, vel rökstudd og kurteisleg svör til baka.

   Það breytir hins vegar ekki skoðun minni á nokkurn hátt. Ég efast ekki um að þú sért með hjartað á réttum stað en rökhugsunin er úti í móa. Það er algjörlega ólíðandi að fólk sem vill sjá opið og frjálst samfélag sem víðast verði skoðanabræður eða systur manna sem taka alla sína hugmyndafræði frá 7. öld og vilja reka allt samfélagið út frá „heilagri bók“. Andrea Dworkin gerði sjálfa sig til dæmis að ómerkingi um alla framtíð þegar hún hljóp í eina sæng með kristnum hægriöfgamönnum í Bandaríkjunum út af því að bæði vildu banna klám.

   Að taka þessa umræðu, á opnum vettvangi í íslensku þjóðfélagi er mjög mikilvægt. Ég vona því að hún breiði úr sér. Vonandi hefur þú það ekki á móti mér að ég vil sjá skoðanir ákveðinna aðila skíttapa þeirri umræðu, hvort sem það eru innlendir rasistar í boði Framsóknarflokksins eða móralskir og masókískir menningarafstæðishyggjumenn.

   Góðar stundir

 3. Það er fullmikið sagt að verið sé að neyða konur til að klæða sig á ákveðinn máta.

  Það er verið að banna búrkur sem bæði margir múslimar og Mannréttindadómstóllinn sögðu að tengdist ekki trúnni.
  Margir múslimar hér á landi vilja að sett sé búrkubann hér áður en búrkukonur flytjast til landsins, það myndi einfalda hlutina. Fólk vissi fyrirfram að hér væru búrkur ekki leyfðar.
  En „frjálslyndir“ jafnaðar og jafnréttissinnar komu því miður í veg fyrir það.

  Þó svo að þetta bann afnemi ekki kúgun kvenna þá er það að öllum líkindum skref í þá átt. Kúgunin á sér margar myndir sumar sýnilegar og aðrar ekki svo sýnilegar. Það á samt ekki að koma í veg fyrir baráttu gegn þeirri sýnilegu.

 4. Kalla ný/breytt lög fram samfélagsbreytingar? Eða öfugt: knýja samfélagsbreytingar á um ný/breytt lög? Þetta er sama gamla togstreitan um hænuna og eggið. Og líklega er það jafn hættuleg einföldun að halda því fram að bannið sé til marks um pjúra íslamófóbíu — nú setta í lög — eins og að halda því fram að það sé bráðnauðsynlegt skref í femínísku baráttunni.

  En að því gefnu að við (lesist: lauslega skilgreint mengi ólíkra einstaklinga) mótumst öll, litumst og lyktum að einhverju leyti af menningu okkar, sérstaklega þeirri menningu sem stendur okkur af einhverjum ástæðum næst (og samanstendur af flókinni blöndu trúar-, stjórnmála-, efnahags- og heimspekilegra þátta, svo eitthvað sé nefnt), er beinlínis patróníserandi að þykjast tala fyrir hönd allra þeirra kvenna sem játast tilteknum trúarbrögðum — hvað þá allra þeirra kvenna sem yfir höfuð búa við tiltekin trúarbrögð — og segja klæðaburð þeirra fyrst og fremst til marks um kúgaða og raddlausa stöðu þeirra. Stöðu sem brjóta þurfi — og hægt sé að brjóta, sé hún sönn — á bak aftur með pennastrikum og stimplum, fjársektum og fangaklefum ríkisvaldsins.

  Mætti þá ekki, út frá alveg sömu lógík, banna með lögum allan þann klæðnað sem innan femínísku kanónunnar þykir til marks um klámvæðinguna títtnefndu? Kúga kúgunina burt með aukinni lagasetningu? Eða er það kannski í höndum þeirra „sem lengra eru komnir“ í jafnréttisbaráttunni að setja barbörunum leikreglurnar — í höndum hinna „þróuðu“ að frelsa hin „vanþróuðu“?

  ____________________________________________

  Þessu til viðbótar — óviðkomandi femínískum átökum um merkingu slæðuburðar múslimskra kvenna — er þetta almenna bann við því að fólk hylji andlit sín alveg sérstaklega hættulegt. Og þeim mun sorglegra að sjá fólk kaupa þessa kardimommubæjarklisju um að það, að hylja ekki andlit sitt, sé forsenda einhverrar samfélagssáttar — og til marks um velvild og virðingu. Hef ég ekki rétt til að hylja andlit mitt fyrir lögreglunni? Fyrir eftirlitsmyndavélum á vegum ríkisvaldsins, fyrirtækja, stofnanna eða einstaklinga? Fyrir hverskyns kúgandi inngripum utanaðkomandi afla í líf mitt? Jú, að sjálfsögðu. Og ríkið og/eða samfélagið hafa engan rétt á því að setja mér skorður í þeim efnum — sama hvaða „sátt“ þau fýsir að troða upp á mig.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.