Konan sem fann upp hjólið

Höfundur: Gísli Ásgeirsson

Samkvæmt heimildum er elsta teikning af reiðhjóli frá 1493 og eignuð nemanda Leonardo Da Vinci. Aðrar og óáreiðanlegar heimildir fullyrða að reiðhjólið hafi verið fundið upp í Kína fyrir um 2500 árum en þar sem hvorki eru til teikningar né ljósmyndir, verður það ekki staðfest. Ítrekaðar tilraunir höfundar með aðstoð miðils til að ná sambandi við kínverska reiðhjólahönnuði frá þessum tíma hafa engan árangur borið og hugsanlega má skrifa það á tungumálaörðugleika og slæmt samband austur.

Kínverjar nútímans  þykja misgóðir uppfinningamenn. Þeir eiga það til að stæla og líkja eftir vörum frá Vesturlöndum, klína á þær kínverskum nöfnum og fullyrða blákalt að um kínverskt hugvit sé að ræða. Á myndinni er að sögn kínverska útgáfan á 2500 ára gömlu reiðhjóli.
maður á tréhjóli

Þetta er fimmtugur hermaður sem telur sig hafa fundið upp hjólið. Aftur. Frumgerðin var höggvin í stein. Þetta er að mestu úr timbri. Framhjólið er fimmhyrnt og afturhjólið þríhyrnt og fyrir vikið er gripurinn svo hastur að eigandinn er með ólæknandi rasssæri eða kominn með svo mikið sigg á punginn að hann getur hjólað með viðeigandi ánægjusvip. Meintur sársauki við hjólreiðarnar er þó aukaatriði því hann er stoltur af hjólinu sínu en eins og allir forhertir hjólarar vita er hjólið oft ofar í virðingarröðinni en maki og börn. Vegna augljósra hönnunargalla á kínverska hjólinu er mér til efs að eigandinn sé frjór eftir notkun þess. Eftir situr þessi áleitna spurning: Hver fann upp hjólið?

Það þykir góður samkvæmisleikur að spyrja fólk hvaða fræga einstaklinga úr fortíðinni það vill helst hitta og taka tali. Nefna þá margir Vilhjálm Sjeikspír, Jóhönnu af Örk, Gandhi, Hitler, Maríu mey, da Vinci og Marilyn Monroe. Þetta er smekksatriði og segir meira um viðkomandi en margt annað. Ég hef fengið þessa spurningu og svaraði á þá leið að ég vildi helst hitta konuna sem fann upp hjólið.

Hefðbundnar söguskýringar ganga út frá því að karlmaður hafi fundið upp hjólið vegna hyggjuvits síns og ofurgreindar en hvort tveggja eru eiginleikar sem ku fylgja því að hafa tippi. Þó voru karlmenn fyrri tíma þekktari fyrir meira strit en vit og í krafti feðraveldisins létu þeir konur sínar og börn um aðalskítverkin, svo sem að draga eða bera heim eldivið, mó, hey og annað sem þurfti í lífsbaráttunni í þá daga. Það gefur auga leið að skynsöm kona hefur einhvern tíma  ákveðið að slíta baki sínu ekki út að óþörfu og fundið upp hjól til að festa á burðargrind eða vögur. Framhaldið þekkja allir og meðan við geysumst um stíga og götur á karbónfákum okkar eigum við að hugsa hlýtt til konunnar sem fann upp hjólið.

Höfundur er áhugamaður um hjólreiðar og alvöruleysi. Þessi pistill birtist upphaflega á vefsíðunni bjartur.org árið 2011 og endurspeglar ekki stefnu knuz.is gagnvart fríverslunarsamningi við Kínverja, Kínverjum almennt og hjólreiðafólki. Allar athugasemdir verða ritskoðaðar af fullri hörku og geta tekið breytingum í meðferð ritstýringarráðs.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.