Hjólasmettið

Hjólasmetti eins og þau gerast best: Marianne Vos eftir að hafa tryggt sér gullið í hjólreiðum á Ólympíuleikunum 2012.

Hjólasmetti: Marianne Vos eftir að hafa tryggt sér gullið í hjólreiðum á Ólympíuleikunum 2012. diariodeumacorrida.blogspot.com

Höfundur: Herdís Helga Schopka

Undanfarin ár hefur hjólreiðaiðkun farið mjög vaxandi á Íslandi og er nú svo komið að enginn er maður með mönnum/kona með konum nema hafa hjólað í vinnuna alla vega einu sinni. Sumir hafa jafnvel klárað Tour de Hvolsvöllur eða fengið verðlaun í Tweed ride. Í tilefni af þessu langar Knúzið að benda knöpum, og þá sérstaklega konum, á stórvarasamt ástand sem getur orsakast af hjólaiðkun – hjólasmetti. Hjólasmetti lýsir sér þannig að fólk verður rjótt í kinnum (stundum þó fölt), með herptar varir og dökka bauga undir augunum og almennt þreytulegt. Sumir læsa kjálkunum og hjá öðrum verða augun útstæð og starandi. Almennt er talið að sé hjólreiðum hætt lagist ástandið og andlitið nái fyrri lögun og lit en þó eru sumir sem telja að hjólasmettið geti lagst á fólk til frambúðar.

Hjólasmetti Vikoríutímans

Hjólasmetti Vikoríutímans. http://www.oldbike.eu

Ekki er að fullu vitað hvað veldur hjólasmetti. Sumir telja að þarna sé um að kenna áreynslu, ef ekki beinlínis ofreynslu, við að halda jafnvægi á hjólinu. Aðrir telja að sú staðreynd að fólk hjólar jafnt á sunnudögum sem aðra daga sé skýringin, enda beri að halda hvíldardaginn heilagan. Allir eru sammála um að þó að hjólasmettið geti lagst á alla séu konur í sérstökum áhættuhópi, með hlutfallslega fleiri og alvarlegri tilfelli.

Eins og glöggir lesendur átta sig á er hjólasmettið til – en það er vitaskuld hvorki hættulegt né orsakað af vanhelgun hvíldardagsins. Hjólasmettið er einfaldlega fylgifiskur þess að stunda holla hreyfingu í hreinni náttúru (eða hreinni borg). Í árdaga hjólhestsins, þ.e. á Viktoríutímanum, þótti mörgum hins vegar nóg um að konur væru að nýta sér þennan nýja samgöngumáta til að losa sig undan oki hefða og afkáralegrar fatatísku. Þá var um að gera að finna upp á einhverjum hræðilegum fylgifisk hjólreiðanna – og hjólasmettið varð fyrir valinu. Þetta er einungis eitt af mýmörgum dæmum þar sem feðraveldið reis upp á afturfæturna til að reyna að hindra baráttu kvenna fyrir auknu frelsi og aukinni þátttöku í eigin lífi og samfélaginu.

Hóphjólreiðar á 19. öldinni

Hóphjólreiðar á 19. öldinni. http://www.oldbike.eu

Í dag vitum við að baráttan er gjörsamlega töpuð. Flestar konur hafa náð sér í hjólasmetti einhvern tíma á ævinni og virðast vera hæstánægðar með þau. Hjólreiðar eru vinsælli en nokkru sinni fyrr og konur stunda þær af miklum móð. Hvort sem um er að ræða að rúlla á eins-gírs hjóli út í ísbúð eða þræða hringveginn á 20-gíra kappreiðahjóli á tveimur sólarhringum: Konur hafa gert þetta nú þegar og munu halda því áfram. Munum bara þetta, stelpur, þegar við förum næst út að hjóla: Að hugsa hlýlega til formæðra okkar á Viktoríutímanum, sem settu stoltar upp hjólasmettin og hjóluðu á vit nýrra tíma.

Endursagt og staðfært upp úr vox.com.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.