Tíminn og húsmæðraorlofið

Höfundur: Þóra Kristín Þórsdóttir

„Margar konur eru þannig settar, að þær hafa enga möguleika til þess að fá orlof, hvíld eða hressingu, jafnvel þótt heilsan sé í veði. Veldur því ýmist fátækt, ómegð, óregla mannsins, eða aðrar ástæður.

Það er þjóðfélagsmál, að fyrir þær konur, sem svo stendur á um, sé eitthvað gert, að þær fái aðstoð til þess að geta við og við fengið orlof, sem öllum er talið nauðsynlegt, eða hvíld frá erfiði sínu.“ (Úr greinargerð orlofsnefndar Kvenfélagasambands Íslands, sem birt er í Húsfreyjunni, 1958, 1. Tbl., bls. 28).

Á sjötta áratugnum hófu íslensk kvenfélög baráttuna fyrir því að ríki og sveitarfélög niðurgreiddu orlof fyrir húsmæður. Huga þurfti að þónokkrum atriðum til að þetta orlof kæmist á. Í fyrsta lagi þurfti að komast á skilningur um að húsmæður ynnu erfitt starf þó ólaunað væri og ættu því skilið að fá orlof eins og aðrir. Í öðru lagi þurfti að tryggja fjárveitingu til að fátækari konur kæmust í orlof (sem varð áherslumál Kvenfélagasambands Íslands). Að lokum þurfti að huga að því að séð væri um heimilið í fjarveru húsmóðurinnar.

Ferill málsins

1954: Ragnheiður Möller flytur framsögu um lögfestingu húsmæðraorlofs á Norðurlöndum og leggur til að nefnd undirbúi málið fyrir landsþing Kvenfélagasambands Íslands.

1957: Í fjárlögum er gert ráð fyrir krónum 40.000 í að styrkja orlof efnalítilla og þreyttra húsmæðra.

1960: Lög um orlof húsmæðra sett.

1972: Lögin endurskoðuð.

1977: Skorað er á Alþingi að hætta að leggja fé til húsmæðraorlofa og ætla sveitarfélögunum fjármögnunina. Það var samþykkt og sett í lög 1978.

2009 og 2012: Samfylkingin leggur til að húsmæðraorlofið verði lagt niður, á þeim forsendum að það gangi í berhögg við jafnréttislögin. Frumvarpið dagar uppi í bæði skiptin.

2012: Kærunefnd jafnréttismála úrskurðar að Kvenfélagasamband Gullbringu- og Kjósársýslu hafi verið í rétti þegar það synjaði karli um að taka þátt í orlofsferð húsmæðra til Slóveníu.

Frá því að orlofið var sett á hafa allar konur sem veita heimili forstöðu án greiðslu átt rétt á orlofi, og var það skilgreint sem að lágmarki 10-14 dagar. Fyrst átti að fjármagna orlofið með fernum hætti: Taka gjald af öllum húsmæðrum landsins á aldrinum 18-65 ára, samtals 10 krónur á hverja. Svo áttu ríki og sveitarfélög að leggja til jöfn framlög (upphæðir ekki skilgreindar), en að auki átti að safna fyrir þessu með frjálsum framlögum og áheitum eða hverju því sem orlofsnefndum og kvenfélögum hentaði. Árið 1972 var svo fallið frá því að taka gjald af húsmæðrunum auk þess sem ákveðið var að ríkissjóður og sveitarfélög skyldu hver um sig greiða 100 krónur á hverja húsmóður í sjóðinn. Þá var sú nýbreytni gerð að heimilt varð að láta orlofsþega greiða allt að 15% af beinum kostnaði. Því hefur verið haldið síðan, en sú breyting var gerð 1978 að fallið var frá greiðslum úr ríkissjóði en sveitarfélögum gert að greiða 100 krónur á hvern íbúa í sjóðinn. Sú upphæð skyldi jafnframt fylgja vísitölu framfærslukostnaðar og hefur haldist fram á þennan dag.

Fyrir hverjar?

Upphaflega hugmyndin var sú að komið yrði á orlofsnefndum sem skipuleggðu húsmæðraorlof sem væri niðurgreitt fyrir þær konur sem á slíkri niðurgreiðslu þyrftu á að halda. Segir í lögunum frá 1960: “Við úthlutun orlofsfjár, er getur numið öllum kostnaði við fullt orlof, skulu orlofsnefndir hafa til hliðsjónar efnahag fjölskyldunnar, barnafjölda og aldur þeirra, húsnæði og heilsufar svo og aðrar ástæður sem að áliti orlofsnefndar ber sérstaklega að taka tillit til.” Í núgildandi lögum er sambærileg klausa, og er því andi laganna enn sá að niðurgreiðsla orlofsins sé ætluð húsmæðrum sem á því þurfa fjárhagslega að halda. Enda var lagt upp með að húsmæður í orlofi mættu draga úr kostnaði með því að nýta opinberar byggingar, eins og skóla, á ferðalögum sínum.

Húsmæðraorlofið hafði margþættan tilgang þegar það var sett á fyrir utan þann augljósasta: þ.e. að gera húsmæðrum kleift að fara í frí. Það jók á virði húsmóðurstarfa og gerði konum kleift að kynnast öðrum í svipaðri stöðu, sem hefur ekki síst skipt máli fyrir konur í dreifðari byggðarlögunum. Síðan hefur margt breyst, og hefur Samfylkingin til að mynda tvisvar lagt til að lög um húsmæðraorlof verði afnumin á þeim forsendum að vera tímaskekkja sem gangi gegn jafnrétti kynja. Raunar hefur reynt á þessa útilokun heimavinnandi húsfeðra fyrir kærunefnd jafnréttismála, sem úrskurðaði að það að orlof húsmæðra sé aðeins ætlað konum sé ekki brot á jafnréttislögum. En þó ekki sé um að ræða lögbrot hlýtu það að vera tímaskekkja að skilgreina húsmæður á þennan hátt sem nauðsynlega konur (og spurningin vaknar: mega heimavinnandi transkonur fara í orlof? Hvar eru mörkin þar?).

Þá hafa ferðirnar breyst. Eins og sjá má á heimasíðu Orlofsnefndar húsmæðra í Reykjavík er margt í boði fyrir orlofsþyrstar húsmæður en nefndin hefur skipulagt þrjár innanlandsferðir og fimm utanlandsferðir fyrir árið 2014. Blankar húsmæður geta þó ekki nýtt sér þessi tilboð því þriggja daga innanlandsferð kostar tugi þúsunda og utanlandsferðin vel á annað hundrað þúsund. Þannig hefur niðurgreidda húsmæðraorlofið fjarlægst mjög upprunalegt hlutverk sitt og er í sjálfu sér orðið tímaskekkja. Ekki aðeins hefur þeim heimilum fækkað mjög sem hafa efni á því að hafa aðeins eina fyrirvinnu, heldur hlýtur að mega draga þá ályktun að ef heimilið hefur efni á því að hafa annan aðilann heimavinnandi hefur það líka efni á því að heimavinnandi aðilinn fari í óniðurgreitt frí.

En þó húsmæðraorlofið eins og það hefur þróast sé tímaskekkja og núverandi fyrirkomulag sé komið langt frá upprunanum er  niðurgreiðsla orlofs fyrir tekjulágt fólk í sjálfu sér enn frábær hugmynd sem ber að nýta. Það eru nefnilega sjálfsagt ýmsir hópar sem gætu nýtt þetta betur en þær (að mestu leyti eldri) húsmæður sem efni hafa á að fara í núverandi orlofsferðir. Má til að mynda nefna þar tekjulágar fjölskyldur og lífeyrisþega. Því ef við gátum einu sinni, sem samfélag, ákveðið að blankar húsmæður ættu skilið niðurgreitt frí hljótum við að geta ákveðið að aðrir tekjulágir hópar eigi slíkt líka skilið. En grundvallaratriðið hlýtur að vera að niðurgreiðsla orlofs sé aðeins í boði fyrir þau sem þess þurfa, og niðurgreiðslan sé nægilega há svo að fólkið sjálft þurfi ekki að bera þungan kostnað. Með slíkri endurskoðun og meiri tekjuviðmiðun væri líka tryggt að fleiri eldri húsmæður, sem eru vegna núverandi lífeyriskerfis með takmarkaðan lífeyri, kæmust í orlofsferðir. Þannig myndi útvíkkun orlofsins til annarra tekjulágra hópa, meðfram meiri tekjuviðmiðun og hærri niðurgreiðslu fyrir þau sem þess þurfa, færa orlofshugmyndina nær upprunalegum tilgangi sínum.

 

2 athugasemdir við “Tíminn og húsmæðraorlofið

  1. Húsmæðraorlofið er tímaskekkja á þessum tímum jafnréttis, enda mismunar það fólki þ.e. einungis konur eiga rétt á því.
    Í greininni er greinarhöfundur ekki aðeins að mælast til þess að þessu kerfið verði viðhaldið, heldur útvíkkað til annarra hópa kvenna, nefnilega eldri kvenna.

  2. og þetta er ástæða þess að ég ber ekkert traust til kærunefnd jafnréttismála….

    Hvernig er hægt að komast að þeirri niðurstöðu að þetta standist jafnréttissjónarmið ?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.