The Empire Strikes Back, eða hugleiðingar um skeggjaðar konur og föðurlandsást

Höfundur: Hafdís Erla Hafsteinsdóttir

 

Andreas Gabalier í fullum Alpaskrúða

Andreas Gabalier í fullum Alpaskrúða

Austurríska Alparokkarann Andreas Gabalier þekkja sem betur fer fáir utan hins þýska málsvæðis, enda er hann best geymdur þar. Í Gabalier sameinast flest það hallærislegasta við þýsk/austurríska dægurmenningu;  lederhosen, Týrólahattar, léleg þjóðlagatónlist, bjór í lítrakrúsum, húmorsleysi og pylsur.

Þann 22. júní síðastliðinn var þessi ágæti söngvari, sem nýtur þokkalegra vinsælda í heimalandi sínu, fenginn til þess að syngja austurríska þjóðsönginn við upphaf austurríska Formúlu 1-kappakstursins. Ekki fór betur en svo að Gabalier gerðist brotlegur við gildandi lög um flutning lagsins, þar sem hann notaðist við eldri útgáfu af textanum. Sú útgáfa er, samkvæmt lögum sem tóku gildi 1. janúar 2012, ekki lengur formlegur þjóðsöngur Austurríkis og þar með hálfpartinn ólögleg.

Lögin um nýja þjóðsönginn frá 2012 eru afrakstur meira en þrjátíu ára baráttu við kerfið, eða öllu heldur kaþólska íhaldssemi, um að breyta einni línu textans. Nánar tiltekið fjórðu ljóðlínu fyrsta vers þar sem, í ákalli ljóðmælanda til Alpalýðveldisins,  kemur fram að landið tilheyri hinum miklu sonum. Dæturnar eru hinsvegar víðs fjarri. Þetta hefur eðlilega farið fyrir brjóstið á mörgum í gegnum tíðina og það væri efni í heilan greinaflokk (og ekki mjög skemmtilegan) að gera þeirri baráttu skil, baráttu sem loksins bar árangur þegar nýi textinn var kynntur til sögunar, þar sem fram kemur að landið tilheyri nú bæði hinum miklu sonum og dætrum, en ekki bara sonunum sem höfðu fengið að vera einir um hituna allt frá stofnun lýðveldisins til ársins 2012.

Auðvitað fékk Gabalier orð í eyra þegar hann söng um hina miklu syni Austurríkis en skildi dæturnar eftir úti í kuldanum. Og að sjálfsögðu voru rökin hin sömu og allar karlrembur norðan og sunnan við Dóná grípa til við nákvæmlega þessar aðstæður: Jú, þeir meina náttúrulega ekkert með þessu og syngja bara gamla lagið því það lærðu þeir í skóla, það er svo erfitt að kenna gömlum hundi að sitja og þar fram eftir götunum. Hér er rétt að taka fram að Gabalier er nýorðinn þrítugur.

Gabriele Heinisch-Hosek með textann að austurríska þjóðsöngnum

Gabriele Heinisch-Hosek með textann að austurríska þjóðsöngnum.

Ein af þeim sem sagði Alparokkaranum til syndanna var einn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar, Gabriele Heinisch-Hosek, sem birti mynd á Facebook og Twitter þar sem hún heldur á útprentuðum texta þjóðsöngsins með umræddri textalínu um hina miklu syni og dætur letraða með rauðu. Og það er hér sem hið eiginlega umfjöllunarefni þessarar greinar byrjar, en þegar Heinisch-Hosek birti myndina opnuðust hlið hins stafræna helvítis og kvörtunum, fúkyrðum og jafnvel morðhótunum rigndi yfir ráðherrann í áður óþekktu magni.  Jafnvel hálfum mánuði eftir að Heinisch-Hosek birti myndina voru netverjar enn að pósta miður smekklegum athugasemdum um gasklefa, útrýmingarbúðir og fleira í þeim dúr.  Innlendir fjölmiðlasérfræðingar hafa keppst við að reyna að útskýra af hverju ráðherrann fékk yfir sig þessa holskeflu úr holræsum  austurrískrar þjóðarsálar, en hafa hingað til ekki verið sérstaklega sannfærandi í útskýringum sínum. Það er fyrst og síðast magnið af athugasemdum sem hefur vakið athygli, en því er haldið fram að þetta sé umdeildasta færsla austurrísks stjórnmálamanns á netinu hingað til. Íhaldssama hægrið, sem og hægri öfgaflokkar á borð við Frelsisflokkinn (FPÖ, flokk Jörgs heitins Haiders, ef einhver man enn eftir honum) hafa notað tækifærið sem þetta moldviðri skapaði  til að rísa uppá afturlappirnar og gjamma um hve óskaplega óréttmæt þessi breyting á þjóðsöngnum hafi verið, hún hafi verið ólýðræðisleg og það þyrfti að skella henni í þjóðaratkvæði. Aftan í þessar kröfur var svo hnýtt  slagorðum um að „alvöru“ konur þyrftu ekki á svona sérákvæðum að halda og var þá kröfunni um að afnema kynjakvóta spyrnt saman við kröfuna um að varpa dætrum þjóðarinnar fyrir róða í texta þjóðsöngsins. Því næst komu fullyrðingar um að „alvöru“ konur væru ekki að væla yfir svona smotteríi og ættu frekar að styðja við bakið á konum í Arabalöndunum, „alvöru“ konur væru kvenlegar, „alvöru“ konur væru ekki með skegg og ekki með typpi. Alls ekki!

Og þarna glittir í kjarna málsins, sem flestum hinna velmeinandi hvítu, gagnkynhneigðu, cís-kynjuðu og karlkyns fjölmiðlasérfræðingum Austurríkis hefur yfirsést. Í öllum þessum hafsjó af statusum, lækum, deilingum, hatursskilaboðum, myndum og áróðri íhaldsaflanna hefur nefnilega ímynd ákveðinnar konu með skegg verið mjög áberandi.

Það er óhætt að segja að sigur Conchitu Wurst í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í maí síðast liðnum hafi komið svolítið flatt uppá þjóðina. Fyrir keppnina var austurríska ríkisútvarpið gagnrýnt harðlega fyrir að velja Conchitu til keppninnar án undangenginnar forkeppni, en í ljósi þess að framlög Austurríkis til keppninnar undanfarin ár hafa verið með afbrigðum léleg var ekki að furða að ríkisútvarpið skyldi hafa látið forkeppnina flakka.  Eftir því sem líða tók að keppninni og ljóst var að laginu var spáð þokkalegu gengi sljákkaði í gagnrýnisröddunum og ríkisútvarpinu var jafnvel hrósað fyrir hugrekkið. Það er samt sem áður óhætt að segja að þátttaka Frau Wurst hafi vakið upp úlfúð í heimalandinu. Austurrískir þjáningabræður Gylfa Ægis voru fljótir uppá lagið og einhverjir minniháttar spámenn fengu jafnvel  pláss á síðum götublaðanna til að lýsa því yfir að Conchita ætti fremur heima á sjúkrastofnun en uppi á sviði. En allt var þetta gleymt og grafið á nóinu þegar Conchita varð „Queen of Europe“ eins og einn kynnir keppninar orðaði það, á einni nóttu.

Werner Feymann, kanslari Austurríkis, alveg eldhress með Conchitu

Werner Feymann, kanslari Austurríkis, alveg eldhress með Conchitu

Í sigurvímunni næstu daga mátti sjá glitta í samfélag sem varla er til í villtustu draumum hinsegin femínista  Austurríkis. Smástelpur máluðu á sig skegg og mættu í flugstöðina til að taka á móti henni Conchitu sinni, ellilífeyrisþegar fjölmenntu á útikonsert á Ráðhústorginu og varla varð þverfótað fyrir kynusla í fjölmiðlum; Conchita og forsetinn eitthvað að sprella yfir kaffibolla, Conchita og kanslarinn hress á kantinum í stjórnarráðinu, kennarar Conchitu úr grunnskóla að lýsa því yfir hvað fjölbreytileikinn væri mikilvægur í skólastarfi og þar fram eftir götunum – á meðan andstæðingar hennar átu Týrólahattinn sinn  í laumi. Fjölmargir stjórnmálamenn, þeirra á meðal kanslari Austurríkis, lýstu því yfir að Conchita væri fulltrúi hins nýja Austurríkis þar sem frelsi, mannréttindi og fjölbreytileiki væru í fyrirrúmi.  Conchita og fönixinn hennar væru tákn nýrrar Evrópu sem, með Austurríki í broddi fylkingar, hefði umburðarlyndi og virðingu að leiðarljósi.

En þrátt fyrir háfleygar yfirlýsingar er raunveruleikinn nokkuð frábrugðinn þeirri glansmynd sem var riggað upp í einhverju flippuðu bjartsýniskasti eftir Eurovisionsigurinn. Lesbían Ulrike Lunacek, sem er fyrsti hinsegin þingmaður Austurríkis, varpaði þeirri spurningu til ríkisstjórnarinnar hvort henni hugnaðist nú ekki að standa við stóru orðin og reyna að skapa það umhverfi sem þeir kepptust við að lýsa? Innleiða ein hjúskaparlög? Veita rétt til ættleiðinga samkynhneigðra og bæta réttarstöðu transfólks?  Og fleiri tóku undir, hvað með kynbundna launamuninn (sem er einn sá mesti í Evrópu), já og hómó- og transfóbíu, hvað með kynjamisrétti, útlendingahatur og gyðingahatur? Stendur til að taka á þessum málum?

Lítið hefur heyrst frá hinum háu herrum eftir að sigurvíman tók að renna af þeim og fátt bendir til þess að hin fallegu orð Conchitu um „hina óstöðvandi einingu“, sem hún lét falla þegar hún tók við verðlaunum í söngvakeppninni, hafi náð nokkuð lengra en að verða hashtag á samfélagsmiðlum.

Eins innilega og margir Austurríkismenn samsama sig við þá mynd af Austurríki sem sigur Conchitu tókst að draga fram sýnir stafræna óveðrið sem Heinisch-Hosek náði að magna upp að það er stór hópur fólk innan landamæra Alpalýðveldisins sem kærir sig hreint ekkert um þetta nýja Austurríki og er tilbúið að skjóta þennan fönix á færi ef hann skýtur upp kollinum. Heinisch-Hosek virðist vera hið nýja skotmark þeirra sem hafa þráð að komast á fönixaskytterí síðan í maí. En er það ekki þannig með fönixa almennt að þeir rísa alltaf upp aftur ef þeim er komið fyrir kattarnef? Við verðum allavega að vona það …

 Höfundur er búsett í Vínarborg og stundar meistaranám í sagnfræði.

2 athugasemdir við “The Empire Strikes Back, eða hugleiðingar um skeggjaðar konur og föðurlandsást

  1. Bakvísun: LA MANIF POUR TOUS VERÐUR TIL | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.