Kísilvinnsla fyrir konur yfir fimmtugu?

Höfundur: Lára Hanna Einarsdóttir

Framtíðarvinnustaður kvenna yfir fimmtugu?

Framtíðarvinnustaður kvenna yfir fimmtugu?

Framtíðin er aldeilis björt hjá öllum atvinnulausu konunum sem rætt er um í nýlegri frétt visir.is.

Ríkisstjórnin ætlar að leyfa byggingu nokkurra kísilverksmiðja og Landsvirkjun segist þurfa að reisa fullt af virkjunum til að sjá öllum verksmiðjunum fyrir raforku. Þetta er svo atvinnuskapandi og eykur hagvöxtinn. Fullt af störfum í boði fyrir alla sem eru atvinnulausir á Íslandi.

Konur yfir fimmtugu líka.

Eða hvað?

Réttlæting ríkisstjórna á Íslandi fyrir mengandi stóriðju og náttúrufórnum vegna virkjana hér og þar á landinu er ævinlega sú að „skapa störf“. Minnka atvinnuleysi. En aldrei er talað um hve margir eru atvinnulausir hér eða þar og af hvaða kyni eða aldri.

Aldrei er minnst á að konur yfir fimmtugu séu meirihluti þeirra.

Allir muna eftir Kárahnjúkum og álbræðslunni á Reyðarfirði. Framkvæmdir voru boðnar út samkvæmt lögum og reglum – Impregilo fékk Kárahnjúka og Bechtel fékk álbræðsluna. Innflutt vinnuafl sem farið var með eins og þræla og Íslendingar klóruðu sér í kollinum og horfðu á í forundran. Hellisheiðarvirkjun var líka að mestu reist með innfluttu vinnuafli.

Ekki konum yfir fimmtugu.

Íslendingar eru einfaldlega ekki nógu margir í svona verkefni, hvað þá svona mörg verkefni.

Jafnvel þótt atvinnulausar konur yfir fimmtugu séu taldar þar með.

Svo fá allar verksmiðjurnar ívilnanir – sem þýðir að íslenskir skattborgarar og útsvarsgreiðendur sveitarfélaganna bæði punga úr milljörðum til að fá verksmiðjurnar til landsins og tapa stórfé í formi ýmiss konar skatta og gjalda í áratug(i).

Líka konurnar yfir fimmtugu.

Unga fólkið í sveitarfélögunum og á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki nokkurn áhuga á að vinna í mengandi verksmiðjum (eða hvað, ungir Húsvíkingar?) svo stóla þarf á nægt framboð af innflytjendum.

Gagnast þær kannski atvinnulausum konum yfir fimmtugu?

Flutningur Fiskistofu norður mun kosta stórfé. Í Vikulokunum um daginn var Grímur Atlason búinn að taka nokkra kostnaðarliði saman og var kominn í tæpan milljarð. Tæplega eitt þúsund milljónir. Þónokkrar konur yfir fimmtugu munu missa vinnuna því það er ekki einfalt mál fyrir þær að kýla á hreppaflutninga.

Þær þurfa þó að borga fyrir flutninginn með sköttunum sínum, þessar konur yfir fimmtugu.

Myndin er fengin héðan

Myndin er fengin héðan

En hverjum er ekki sama um konur yfir fimmtugu? Svo virðist sem samfélagið líti svo á að þær séu búnar að skila sínu hlutverki, fjölga sér og þjóna makanum sem er skilinn við þær fyrir aðra yngri. Þær eru afgangsstærð í samfélaginu og ungu þjónarnir á kaffihúsunum horfa í gegnum þær. Störfin þeirra um allt land eru lögð niður. Þær missa vinnuna af því nýju, ungu yfirmennirnir þola ekki fólk með þekkingu og reynslu (andverðleikasamfélagið) eða þeir vilja yngja upp til að hafa sætar stelpur til að fitla við og blikka.

Ekki konur yfir fimmtugu.

Ég þekki dæmi um þetta allt og fleira til. Konur yfir fimmtugu eru vanmetnasti hópur samfélagsins þrátt fyrir að vera líklega besti vinnukrafturinn. Manneskjur með mikla reynslu á flestum sviðum mannlegrar tilveru – líka í atvinnulífinu. Þær hafa til að bera visku og þekkingu sem öllum fyrirtækjum er nauðsynleg.

Það er ótrúlegt að þessi hópur samfélagsins skuli ekki fá vinnu við sitt hæfi. Óskiljanlegt. Bara af því þær vinna síður í byggingavinnu/vegagerð/gangnagerð/við virkjanasmíð/í mengandi verksmiðjum eða við aðra stóriðju.

Fyrir hverja er verið að skapa þessi rándýru störf? Væri ekki skynsamlegra að verja peningunum í annars konar atvinnustarfsemi?

Þá ættu konur yfir fimmtugu kannski séns.

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.