Höfundur: Jón Thoroddsen
**VV – varúð, váhrif**

Myndin er hluti af Skiltaherferð Druslugöngunnar 2014 og er birt með góðfúslegu leyfi frá Sigtryggi Ara Jóhannsssyni og DV
Í fyrradag rakst ég á þessa grein á Herðubreið, grein sem fólk hefur verið að deila sín á milli. Greinin fjallar um það að Egill Einarsson skuli enn vera einn helsti fánaberi nauðgunarmenningarinnar. Það ætti svo sem ekki að koma neinum á óvart. Það er mjög erfitt að aðskilja karakterinn Gillz frá Agli, eins og er ágætlega rakið í þessari grein á Knúzinu. Karakterinn Gillz hefur svo sannarlega aldrei veigrað sér við að styðja nauðgunarmenninguna eða að tala hreinlega fyrir nauðgunum beint. Hann hefur iðulega kallað konur „ílát“. Einn áhangandi hans átti kærustu sem vildi ekki stunda munnmök. Gillz gaf honum það ráð að binda og nauðga henni. Svo eru margfrægar yfirlýsingar hans um að það þurfi að nauðga ákveðnum femínistum.
Þannig að það á ekki að koma neinum sérlega á óvart að Egill skuli, undir eigin nafni, lýsa aðdáun sinni á Ryan Giggs með því að segja að Giggs „ríði hverjum sem hann langar til“.
Það sem gæti hins vegar komið einhverjum á óvart eru tiltekin viðhorf greinarhöfundar, Karls Th. Birgissonar, sem skína í gegn í greininni hans.
Ég held að Karl Th. telji sig standa með konum gegn kvenfyrirlitningu. Það að hann skrifaði þessa grein bendir eindregið til þess. Hann vill vekja athygli á viðhorfum Egils og að þau viðhorf séu ekki í lagi. Hann hefur reyndar mestar áhyggjur af að ummæli Egils séu heimskuleg og Agli til háðungar og honum finnst slæmt að Egill hafi ekkert „lært af þeim hremmingum að hafa verið kærður fyrir nauðgun“.
Það sem Karl gerir hins vegar jafnframt því að fordæma viðhorf Egils er að opinbera þau ómeðvituðu viðhorf sjálfs síns og samfélagsins að þolendur ljúgi til um nauðganir. Hann segir orðrétt:
Saksóknari vísaði málinu frá og í minni orðabók þýðir það bara eitt: Egill Einarsson var ranglega kærður fyrir nauðgun. Punktur.
Hvað þýðir þessi setning? Hvað stendur eiginlega í orðabók Karls? Það er ekki hægt að lesa þetta öðruvísi en að sá aragrúi þolenda sem kæri og hverra máli er vísað frá séu að „kæra ranglega fyrir nauðgun“. Viðhorfið sem birtist þarna er að rúm 70% þeirra sem kæra nauðgun séu að „kæra ranglega“. Hvað segir það um þjóðfélag okkar að þeir sem telja sig standa gegn kvenfyrirlitningu opinberi slík viðhorf?
Það sýnir sig reglulega að við búum í þjóðfélagi þar sem gerendavorkunnin er algjör. Þolendum er hrósað fyrir að segja frá að þeir hafi „lent í nauðgun“. En um leið og einhver þolandi dirfist að kæra eða benda á þann sem nauðgaði snýst þjóðfélagið gegn honum. Líka góða fólkið. Það sem þolendur læra af þeim „hremmingum“ sem það sannarlega er að kæra nauðgun er nefnilega þetta: að enginn trúir þeim. Við erum gegnsýrð nauðgunarmenningu.
10% þolenda nauðgana kærir brotið. Af þeim málum er langflestum, eða 70%, vísað frá. Jafnvel þótt það séu vitni. Jafnvel þótt það séu áverkar. Það að stúlka taki það fram í yfirheyrslum að hún sé ekki að ljúga er notað gegn henni fyrir rétti. Sameinuðu þjóðirnar hafa séð ástæðu til að gagnrýna íslenska ríkið fyrir hversu frámunalega illa er tekið á nauðgunarmálum hér á landi. Svo koma karlar sem hafa aldrei upplifað nauðgun og aldrei farið gegnum þá hakkavél sem kerfið er fyrir þolendur og skrifa á útbreiddan vefmiðil að í sinni orðbók merki orðið „frávísun“ að sakborningur hljóti að vera saklaus.
Druslugangan 2014 er gengin til þess að vekja athygli á þessu ömurlega kerfi og ömurlegu viðhorfum sem við búum við hér á landi. Þessari menningu þar sem fólk lítur á þá sem kæra sem lygara þangað til nauðgarinn er sakfelldur og oft þrátt fyrir sakfellingu líka. Mætum við Hallgrímskirkju kl. 14 á laugardaginn kemur. Köstum rotinni orðabók Karls Th. Birgissonar út í ysta hafsauga.
Takk fyrir þetta! Ég las einmitt þessa grein á Herðubreið í gær og stoppaði við þessa sömu setningu. Ég var að mestu leyti sammála því sem höfundur var að reyna að segja, en þessi setning stakk mig illilega. Þetta svar hér fyrir ofan er eins og talað út úr mínu hjarta! Mjög mikilvægt að koma þessu á framfæri, takk.
las líka greinina og fannst ef satt skal segja umrædd setning vera speglun á sama fáránleika og rætt er um hér að ofan. En áfram druslur… Gangi ykkur vel.
Frávísun þýðir bara að það séu ekki næg sönnunargögn, ekki að atburðurinn hafi ekki átt sér stað eins og þolandi lýsir honum. Ég hnaut einmitt um þessa söm setningu í greininni og mæli með að höfundur kynni sér betur hvað orðið þýðir. Þetta er bara eins og að horfa á einhvern stela hjólinu þínu en gerandinn er ekki kærður því að þú getur ekki sannað það.