Hið föðurlega ímyndunarafl

Höfundur: Arngrímur Vídalín

 

Gisli_thorlaksson

Ég hef mikinn áhuga á hugmyndum um aðra, jafnt á fyrri tímum og á líðandi stund. Aðrir eru þá þeir sem ekki teljast tilheyra viðmiðssamfélaginu, það er „okkar samfélagi“, eða standast viðmið þess að öðru leyti. Fólk hefur á öllum tímum verið framandgert út frá slíkum viðmiðum og alþekkt er að slíkt sé gert í pólitískum tilgangi, til dæmis eftir árásina á Tvíburaturnana 2001 þar sem gildin sem verja átti voru vestræn eða kristin, andspænis ótilgreindum „hinum“ sem voru hryðjuverkamenn og múslimar. Svo annað dæmi sé tekið voru Þjóðverjar í síðari heimsstyrjöld gjarnan kenndir við staðalmyndir um mataræði sitt; bandamenn kenndu þá við súrkál en Danir nefndu þá pølsegnaskere. Lögð er áhersla á hið undarlega og óvenjulega til að aðgreina „þá“ frá „okkur“.

Það er ærið forvitnilegt hefur mér fundist að skoða breytilegar hugmyndir um konur í gegnum aldirnar — og má lesanda nú vera ljóst að í ýmsum litteratúr fyrri alda tilheyra konur einmitt einu af mörgum sniðmengjum „hins-hópsins“. Innan mengisins „við“, tökum sem dæmi það fólk sem býr á Íslandi, eru nefnilega einnig til mengi jaðarhópa sem falla síður að gildum samfélagsins, svo sem transfólk, en þó betur en aðrir sem standa utan við samfélagið, til dæmis ímyndaður hópur mannæta á Borneó, og á ólíkum tímum í samfélögum sem helst hafa miðast við sjónarhól karla hafa konur einmitt þótt framandlegri en hið æskilega viðmið og þannig hefur mátt pæla í undarlegu og jafnvel yfirnáttúrulegu eðli þeirra innan samfélags; þær eru framandlegar en samt tilheyra þær sama samfélagi. Konur í slíku samfélagi eru með öðrum minna framandlegar en mannætur á Borneó, en framandlegar þó, og það má vel ímynda sér að mannætukonur séu þá jafnvel enn framandlegri en mannætukarlar.

Það er í karlmiðuðu samfélagi sem þessu þar sem til verða hugmyndir um „móðurlegt ímyndunarafl“ (e. maternal imagination). Sú hugmynd var mjög í tísku í vestur-Evrópu á sextándu öldinni en ég hef raunar fundið sömu hugmynd í 14. aldar Biblíuritinu Stjórn sem ritað var á Íslandi og þar er hún sögð koma frá Hippókratesi. Það gæti skýrt hvers vegna hún var eins vinsæl og raun ber vitni meðal lækna á Endurreisnartímanum í Evrópu en ég á eftir að staðfesta það að hugmyndin komi þaðan.

Ef lesandi er viðkvæmur fyrir hryllingssögum af fæðingum þá fæst hér tækifæri til að líta undan og hætta að lesa stykkið.

Hið móðurlega ímyndunarafl fólst í því að kona gæti getið barn í líkingu einhvers sem hún hefði séð eða ímyndað sér meðan á meðgöngu stóð. Þannig fæddi vesalings kona ein í Frakklandi kafloðna ófreskju og var víst eitthvað fátt um skýringar í fyrstu, eða þar til það kom upp úr kafinu að móðirin hafði séð apa á fimmta mánuði meðgöngu, en farandsýningar á dýrum, raunverulegum og uppdiktuðum, áttu töluverðum vinsældum að fagna í Evrópu á þessum tíma. Konan í Stjórn var ekki eins óheppin en hún fæddi barn sem var dökkt á hörund og kom í ljós að hún átti einhverja þess lags líkneskju heima hjá sér og þaðan prentaðist myndin á fóstrið sem lá í mótun í kvið hennar.

Þetta eru aðeins tvö dæmi af fjölmörgum sem til eru skrásett en fleira var það sem konur skyldu varast; það væri kapítuli út af fyrir sig að velta fyrir sér þeim áhrifum sem talið var að kynlíf meðan konur hefðu á klæðum gátu haft á fóstrið yrðu þær óléttar fyrir vikið. Einnig var talið að ef geðsjúklingur gerði óléttri konu hverft við væri hætta á því að sjokkið næði alla leið í legið og að barnið yrði geðveikt af þeim völdum.

En þegar sjálft ímyndunaraflið er haft af konum og þær þannig gerðar ábyrgar fyrir öllu misjöfnu sem hent gæti börn sín í móðurkviði er erfitt að sjá hvað þeim leyfðist yfirleitt. Þannig er framandgerving konunnar prýðilegt stjórntæki í karlmiðuðu samfélagi, rétt eins og einföldun sannleikans og framandgerving annarra eru hvor tveggja orðræða hinna valdameiri; það eru þeir sem valdið hafa sem skilgreina hver „við“ erum andspænis „hinum“, og þegar konum er gert að lúta þeirri staðreynd að það er beinlínis fyrir þeirra óábyrgu tilstuðlan að „aðrir“ geti fæðst inn í „okkar“ samfélag, þá hefur sama valdatæki verið beitt inn á við. Það valdatæki myndi ég vilja nefna „hið föðurlega ímyndunarafl“ ef ekki væri fyrir hið ágæta orð kúgun.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.