Flogið undir „gaydarnum“

Höfundur: Árni Ísak Rynell

Myndin er fengin hér.

Myndin er fengin hér.

Ég hef aldrei gert mikið veður út af kynhneigð minni, aldrei gefið út neina opinbera yfirlýsingu um það mál, eða neinar aðrar yfirlýsingar af neinu tagi. Ég hef sagt fólki sannleikann í þau skipti sem málið hefur borið á góma eða það hefur virst viðeigandi. Í rauninni hefur það afskaplega sjaldan gerst, en undanfarið hefur mér fundist kominn tími til að gera þetta opinbert, til að koma út úr skápnum: Ég er tvíkynhneigður. Það er merkimiðinn sem kemst næst því að lýsa mér. Ég hef átt í miklu fleiri samböndum við konur en karlmenn. En ég hrífst einnig af karlmönnum og hef haft náin kynni af karlmönnum, sem í einu tilviki urðu náið samband við karlmann.

Fyrir mér er kjarni málsins þessi: Ég hef aldrei upplifað það að vera alveg fráhverfur öðru kyninu, á þann hátt sem einkynhneigðir eru. Einkynhneigður einstaklingur, fyrir þá sem þekkja ekki hugtakið, er einstaklingur sem hneigist aðeins til eins kyns; með öðrum orðum, er annað hvort samkynhneigður eða gagnkynhneigður. Mér er þessi óbeit á öðru kyninu framandi. Innst inni hefur mér alltaf þótt það mjög undarlegt að finnast tilhugsunin um náið samband og líkamlegt samband við annað kynjanna óhugsandi, jafnvel ógeðfellt. Og þó er litið á það sem eðlilegan hlut!

Ég er samt alls ekki að dæma neinn; sumir bestu vina minna eru einkynhneigðir, ég giftist meira að segja einkynhneigðum einstaklingi. En þegar öllu er á botninn hvolft finnst mér þessir merkimiðar bara hreint ekkert svona mikilvægir.

Það eru hins vegar jafnræði og virðing. Þess vegna finnst mér mikilvægt fyrir tvíkynhneigða, og þá sérstaklega fyrir tvíkynhneigða karlmenn, að láta í sér heyra. Í þeirri sögulega fordæmalausu og ótrúlega árangursríku réttindabaráttu sem hommar og lesbíur hafa háð  síðasta áratuginn hafa tvíkynhneigðir, og raunar allir aðrir sem ekki passa inn í þessa tvískiptingu í samkynhneigð/gagnkynhneigð, svolítið gleymst.

Tvíkynhneigðir karlmenn sérstaklega eru næstum ósýnilegir. Hversu marga karlmenn getur þú nefnt sem eru þekktir eða áberandi í samfélaginu, hér eða erlendis, og eru opinberlega tvíkynhneigðir? Allt í lagi, David Bowie er þarna, en reynum að finna einhvern sem er ekki rokkstjarna. Reynum að finna karlkyns persónu í vinsælum sjónvarpsþætti sem er yfirlýst tvíkynhneigður. Hvað getum við nefnt marga tvíkynhneigða stjórnmálamenn? Vissirðu að Malcolm X og Christopher Hitchens voru tvíkynhneigðir? Það er aldrei talað um það.  Og hvað þekkirðu marga karlmenn persónulega sem eru tvíkynhneigðir og fela það ekki? Líklega eru þeir fáir.

felubúningurÞað er löngu tímabært að tvíkynhneigðir karlar fá að flagga í sínum réttu fánalitum og ég verð raunar að játa á mig að hafa verið svolítill hræsnari sjálfur. Ég hef, rétt eins og svo margir aðrir, leyft mér þann munað að sjást ekki á „gaydarnum“. Sem tvíkynhneigður karl býðst okkur hinn fullkomni felubúningur – hvað gætum við verið annað en gagnkynhneigðir, við eigum unnustur og eiginkonur! Margir okkar, og þar með talinn ég, höfum ekki neinn þeirra dæmigerðu eiginleika sem flestir tengja við staðalímyndina af hommalega gaurnum. Við erum, með öðrum orðum, ósýnilegir og til þess að vera það áfram notfærum við okkur þá fordóma sem margir hafa gagnvart okkur.

Ég verð hins vegar sífellt sannfærðari um að þetta ástand er okkur gagnlegt á svipaðan hátt og reipið sem heldur uppi hinum hengda. Það er kominn tími til að afklæðast felubúningnum. Ég er tvíkynhneigður og ég er stoltur af því. Ég er ekki „hommi-sem-vill-bara-ekki-viðurkenna-það“, ég er ekki í einhverri tilraunamennsku og ég er ekki athyglissjúkur. Ég er ekki gagnkynhneigður, ég er ekki hommi og ég er ekki að ljúga. Ég laðast að báðum kynjum, ég hef vitað þetta síðan ég varð kynþroska og ég hef aldrei hætt að laðast að báðum kynjum. Hérna hafið þið það: Ég er opinberlega tvíkynhneigður karlmaður.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.