Ný þörf verður til

Höfundur: Þóra Kristín Þórsdóttir

Talið er að um tíu íslensk pör hafi nýtt sér staðgöngumæðrun í útlöndum, í Bandaríkjunum, Indlandi og Suður Ameríku en engar opinberar tölur eru þó til um það hér á landi í raun hve margir hafi farið erlendis til að eignast barn með þessum hætti.  Félagið Staðganga segir þörfina koma upp hjá allt að tveimur pörum á ári.

Tilvitnunin hér að ofan er fengin úr frétt sem birtist á Vísi þann 5. ágúst (leturbreyting mín) og vakti mig mjög til umhugsunar. Hvernig stendur á því að í dag, árið 2014, sé eðlilegt að tala um staðgöngumæðrun sem þörf og eitthvað sem fólk nýtir sér? Ég held að það hugarfar sem þessi orðræða lýsir og virðist vera samþykkt, byggist á fimm meginhugmyndum sem orðið hafa ráðandi á Íslandi. Þessar hugmyndir eru a) hugmyndin um frelsi einstaklingsins b) mýtan um hamingjusömu staðgöngumóðurina c) rétturinn til að eiga börn d) að eðlilegt sé að vilja eiga sín eigin líffræðilegu börn og síðast en ekki síst e) hugmyndin um börn sem framleiðsluvöru.

Það er óumdeilt að nýfrjálshyggjan hefur verið allsráðandi í Vesturheimi, ekki síst á Íslandi, á undanförnum áratugum. Sú frelsishugmynd sem þar er ríkjandi er neikvætt frelsi, frelsi einstaklingsins frá og baráttumálið að koma í veg fyrir að ríkisvaldi hamli einstaklingnum í að framkvæma. Þannig má tala gegn lögum sem sporna við vændi á þeim nótum að það hamli frelsi kvenna yfir líkama sínum og eins má tala fyrir lögleiðingu staðgöngumæðrunar. Konan á að að hafa frelsi til að ráða yfir líkama sínum sjálf, án afskipta yfirvalda (nema reyndar til að auka þetta frelsi með því að leyfa staðgöngumæðrun).

325930En það er ekki nóg að trúa á frelsi einstaklingsins til þess að verða talsmanneskja staðgöngumæðrunar eða vændis, heldur þarf trúin á hamingjusömu hóruna/staðgöngumóðurina einnig að koma til. Báðar þessar hugmyndir lifa góðu lífi, sama hve oft er bent á rannsóknir sem sýna að það eru verr settar konur sem neyðast til að leigja líkama sinn. Það skýrist því ekki af gagnaskorti um hið andstæða, heldur ber þess frekar vitni hversu sterk tök hugmyndin um að hver sé sinnar gæfusmiður í lífinu hefur á okkur. Þá hefur nytjahyggjan, hagfræðin og síðar nýfrjálshyggjan kennt okkur að fólk er almennt rökrænt (rational) og velur alltaf til að hámarka nyt eða lífsgæði sín. Þar af leiðir að hægt er að nota val fólks sem mælingu á hvað það er sem hámarkar lífsgæði þessa fólks. Velji kona að ganga með barn fyrir aðra, hvort sem það er fyrir greiðslu eða sem velgjörð, má því ganga að því vísu að þannig hámarki hún þau gæði sem hún telur mikilvægust (eða að minnsta kosti að hún hafi í upphafi talið að svo yrði). Ef konan þiggur greiðslu er hún þannig að sjá fyrir fjölskyldunni en ef hún gerir þetta sem velgjörð þá fær hún hámörkun lífsgæða út úr því að stuðla svona að hamingju ættmennis eða vinar. Og af því að gert er ráð fyrir að fólk geri kalt mat á ávinningi miðað við kostnað, og hafi allar upplýsingar til að byggja á, þá er konan búin að gera áhættumat og kostnaðarútreikning og byggir þessa ákvörðun á því. Að loknum útreikningi gerir kona þetta einungis ef ávinningurinn er meiri en áætlaður kostnaður, annars myndi engin kona gera þetta, eða svo segir sagan.

Vandamálin við þessar hugmyndir um hinn rökræna mann eru mýmörg og ekki er rými til að fara út í þau öll hér. Nægir að nefna hér nokkur í tilfelli staðgöngumæðrunar:

Fullkomnar upplýsingar: Dæmigerð keypt staðgöngumæðrun er á milli forréttindafólks og fólks í lægri stöðu, oft í fátækari ríkjum, í gegnum þriðja aðila. Konurnar eru því oft lítið menntaðar og hafa því ekki endilega forsendur til að skilja þær upplýsingar sem þær fá. Þá getur verið hagur þriðja aðila að halda ákveðnum hlutum leyndum þar til búið er að skrifa undir samning og ekki er endilega gengið úr skugga um að konurnar skilji samninginn sem skrifað er undir. Meðganga er alltaf að nokkru ófyrirsjáanleg svo konan getur ekki haft allar upplýsingar um ferlið fyrir, jafnvel þó hún hafi gengið með barn áður. Að lokum veit enginn hvernig hann eða hún mun bregðast við áfalli, og því getur konan ekki vitað fyrirfram hversu erfitt það verður fyrir hana að gefa frá sér barnið eða hver tilfinningalegu eftirköstin verða. Og þá eru skilin eftir vandamál eins og það hvort að væntanlegir uppeldisforeldrar taki við barninu osfrv. Mörg sömu vandamál eru fyrir hendi þegar um er að ræða staðgöngumæðrun sem velgjörð með þeim fyrirvara þó að þar, í prinsippinu að minnsta kosti, er um að ræða tengda einstaklinga. En er þá alveg óhugsandi að verr settari konur verði frekar beðnar?

Frjáls einstaklingur: Til að hugmyndin gangi upp þarf konan að vera frjáls og því er ekkert rými fyrir aðstæður eins og þær að konan sé kúguð af eiginmanni sínum eða öðrum ráðandi aðila til að ráða sig í staðgöngubransann eða að meðvirkni hennar sé nýtt í fjölskyldunni í þágu ófrjós ættingja.

Rétturinn til að eignast börn

Í staðgöngumæðrunarumræðunni dúkkar alltaf upp aftur og aftur sú hugmynd að fólk eigi rétt á að eignast börn. Þetta er grundvallarmisskilningur, enda er hvergi kveðið á um þennan rétt. Það eru hins vegar kveðið á um það, meðal annars í Mannréttindayfirlýsingu SÞ, að allir fulltíða einstaklingar eiga rétt á að stofna til hjónabands og fjölskyldu og að samfélaginu beri að vernda fjölskylduna (16. gr.). Ríkinu er þar með óheimilt að koma í veg fyrir hjónaband eða barneignir, og þar með er mannréttindabrot að skylda konur í fóstureyðingu eða banna pörum að ganga í hjónaband. Ríkinu er hins vegar ekki skylt að tryggja fólki afkvæmi frekar en það ber ábyrgð á því að allir landsmenn gangi út.

DNA-by-Christoph-Bock-Max-Planck-Institute-for-Informatics-Creative-Commons

Eigin börn og annarra

Önnur hugmynd, sem tengist sterkt réttinum til að eignast börn og hjálpar til við að gera staðgöngumæðrun ásættanlega er að grundvallarmunur sé á líffræðilega skyldum börnum og öðrum og því eðlilegt að fólk vilji frekar leggja það á aðra konu að ganga með barn sem samsett er úr frumum þess sjálfs en að ættleiða barn sem að þegar hefur orðið til. Þunginn er settur á líffræðilegan skyldleika, sem kannski er tengt þeirri hugmynd að „manninum sé eðlislægt að vilja koma erfðaefni sínu áfram“ en tengist einnig því að talin er meiri áhætta fylgja því að ættleiða þar eð þá er ekkert vitað um erfðaefnið. Ekki er spurt að hagsmunum verðandi barns, enda á alveg eftir að finna hugtök yfir þær tilfinningaflækjur sem fylgja því væntanlega að komast að því að foreldrar þínir hafi keypt aðra konu til að ganga með þig eða fengið fátæka frænku þína til þess.

Börn sem framleiðsluvara eða neyslugæði

Eins og vikið er hér að ofan er hvergi í umræðunni litið á málið út frá hagsmunum hins mögulega verðandi barns og á því er einföld skýring. Í þessari mynd er barnið nefnilega ekki einstaklingur heldur vara, sem kannski er keypt og seld, en í öllu falli framleidd í öðrum líkama og svo fengin öðrum til lífsfyllingar. Þetta er auðvitað skýrast í tilfelli keyptrar staðgöngumæðrunar þar sem umrædd kona fær ekki aðeins greitt fyrir að ganga með barn fyrir annað fólk og allt sem því tilheyrir, heldur gerir að öllum líkindum einnig samning sem tryggja á gæði vörunnar, þar sem skilgreint er hvað hún má og á að setja ofan í sig og hvað ekki, hvort og hvernig hún hreyfir sig og svo framvegis. Ef allt gengur að óskum og barnið fæðist er svo konan háð því að foreldrarnir séu sáttir við vöruna, því annars getur hún átt það á hættu að þeir neiti að taka við barninu. Mörg sömu vandamálin geta komið upp þó um sé að ræða velgjörð en eitt vandamál á þó við um velgjörðarstaðgöngu sem ekki á við um keypta staðgöngu: Tengsl haldast á milli staðgöngumóður og uppeldisforeldra, sem getur auðvitað verið jákvætt fyrir alla aðila en getur líka þýtt að ef einhverjir erfiðleikar koma upp verði það rakið til staðgöngumóðurinnar sem fær að kenna á því. Og nei, það er ekki svo fjarstætt ef hugsað er til þess hve algengt það er að fólk deili illilega út af erfðamálum og að ekki eru allir yfir það hafnir að beita börnum sínum til að hefna sín á fyrrum maka.

The New Normal - Season PilotHjálp berst að vestan

Það er svo þegar allar þessar hugmyndir koma saman: Frelsi einstaklingsins til að velja, hamingjusama staðgöngumóðirin, rétturinn til að eignast eigin börn og börn sem framleiðsluvara, sem hægt er selja að með lagasetningu um staðgöngumæðrun sem velgjörð „verði Ísland fyrst Norðurlanda til að móta lagaumgjörð um staðgöngumæðrun sem almennan valkost barnlausra til að eignast börn“ svo vitnað sé í heilbrigðisráðherra (úr munnlegri skýrslu um væntanlegt lagafrumvarp um staðgöngumæðrun, 29. Janúar síðastliðinn – leturbreyting mín). Þá hjálpar ekki lítið til að allir þeir sem eitthvað fylgst með fréttum frá Hollívúdd vita að hjá stjörnunum hefur staðgöngumæðrun notið vaxandi vinsælda á undanförnum árum. Ekki þarf heldur að hafa horft mikið á bandarískt sjónvarpsefni til að hafa fengið sinn skammt af hamingjusömu staðgöngumóðurinni því frá því að Phoebe í Friends gekk með þríburana fyrir bróður sinn hefur hugmyndin  að fá sér staðgöngumóður  skotið æ oftar upp kollinum í bandarísku skemmtiefni (til að mynda Grey’s Anatomy og Private Practice) og hafa jafnvel verið búnar til heilu þáttaraðirnar um hamingusamar staðgöngumæður, sbr. þáttinn The New Normal. Hollívúdd hefur þar með gagngert unnið að því að gera staðgöngumæðrun eðlilega, sem gengur alla vega nógu vel til að á Íslandi eru einhverjir farnir að tala um þörf fyrir staðgöngumæðrun.

——–

Forsíðumyndin er fengin af vef BioEdge.

4 athugasemdir við “Ný þörf verður til

 1. Þetta er fín grein, en ansi hvöss – finnst mér. Mér finnst ekki mikið rými fyrir ‘debat’ þegar þeim sem nýta/nota staðgöngumóður er stillt upp við hlið vændiskaupenda, sem mér finnst gert í þessari grein. (t.d. hér: „það er ekki nóg að trúa á frelsi einstaklingsins til þess að verða talsmanneskja staðgöngumæðrunar eða vændis, heldur þarf trúin á hamingjusömu hóruna/staðgöngumóðurina einnig að koma til. „)

  Þetta eru alveg „valid“ sjónarmið í sjálfu sér, en ég er ekki sammála þeim. Ég held að það sé einfaldlega rangt að allar staðgöngumæður, sér í lagi á vesturlöndum, séu á einn eða annan hátt tilneyddar til að fara út í þetta, og þess vegna finnst mér „mýta um hamingjusömu staðgöngumóðurina“ bara ekki eiga við. En kannski er Þóra Kristín einfaldlega búin að gera upp hug sinn og vill vinna sinni skoðun brautargengi, frekar en að opna á „debat“ við fólk eins og í félaginu Staðgöngu.

  Ég hef sjálfur nokkuð velt fyrir mér og skrifað um notkun (nýtingu?) á gjafakynfrumum, og mælt gegn þeim valkosti sem nú er í boði að nota órekjanlegar gjafa-sæðisfrumur. Alls ekki alveg sambærilegt við staðgöngumæðrun, en siðferðilega óútrætt mál finnst mér. (Skrifaði um þetta nokkrar greinar á Smugunni, sem eru því miður ekki lengur auðfundnar. Kem þeim aftur á framfæri við tækifæri!) Ég kýs sjálfur að ræða slík mál með ekki of gildishlöðnu orðavali.

 2. Sæll Einar,
  Takk fyrir athugasemdina.
  Markmiðið með greininni er að reyna að skýra hvernig það verður eðlilegt að tala um þörf fyrir staðgöngumæðrun, sem ég held að sé niðurstaða samsuðu þessarra fimm hugmynda. Þegar ég set saman staðgöngumæðrun og vændi þá er ég að vísa til fyrri málsgreinar um trúna á frelsi einstaklingsins og yfirráð kvenna yfir líkama sínum. Sú hugmynd er notuð til þess að réttlæta bæði vændi og staðgöngumæðrun, en hún nægir þó ekki því þú þarft líka að trúa því að til séu hamingjusamar konur sem velji að gera viðkomandi hlut. Við það má bæta að til þess að styðja vændi eða staðgöngumæðrun nægir heldur ekki að trúa því að einhverjar konur einhvern tímann geti hamingjusamlega valið sér vændisiðnaðinn sem starfsvettvang eða gengið með barn fyrir einhvern annan. Þú þarft líka nefnilega að trúa því að þær hamingjusömu séu í meirihluta.

 3. Annars vona ég að þú takir aftur upp pennann og skrifir meira um órekjanlegar gjafa-sæðisfrumur, það væri áhugavert að lesa.

 4. Sæl Þóra Kristín.

  Takk fyrir svarið. Ég skil hvað þú átt við. Mér finnst raunar að ÁÐUR en við ræðum um það hvort stagöngumæður séu „hamingjusamar“ (taki að sér staðgöngu að fúsum og frjálsum vilja) þurfi að ræða betur hver „Á“ barn sem enn er í móðurkviði.

  Mér finnst ótækt að líta svo á að ófætt barn geti á einhvern hátt verið barn annarrar konu en þeirrar sem gengur með það. Kona sem gengur með barn er móðir barnsins, að minnsta kosti framyfir fæðingu!

  Þetta tengist reyndar umræðu um gjafakynfrumur. Við lítum almennt ekki svo á að kona sem gengur með barn sem getið er með gjafakynfrumu (sæði og/eða eggi) sé á einhvern hátt minni móðir ófædda barnsins, heldur en kona sem er ófrísk eftir hefðbundinn getnað.

  Ég reyndi að útskýra þetta með smá dæmisögu í ársgömlum pistli: Systur, mæður, dætur (http://patent.blog.is/blog/patent/entry/1319831/)

  Hulda og Ragnheiður eru sem sagt báðar óléttar. Í hvorugu tilfelli er barnið orðið til úr þeirra eigin kynfrumu. Hulda gengur með barn sem er getið úr eggfrumu systur sinnar og Ragnheiður gengur líka með barn sem er getið úr eggfrumu systur sinnar. Bæði ófæddu börnin eru jafnskyld mæðrunum sem ganga með þau.

  ….

  Ég vil meina að við getum ekki litið svo á að ófætt barn í móðurkviði sé ekki barn móðurinnar sem gengur með það. Uppruni kynfrumna breytir því ekki.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.