Strámenn og snúðar

Höfundur: Gísli Ásgeirsson
snudur_100212Mér finnst gaman að segja sögur. Þessi verður oft fyrir valinu þegar talið berst að jafnréttismálum, réttlæti tilverunnar og einföldum leiðum til að ná því fram. Fyrir rúmum 40 árum bjó ég hjá ömmu og afa á Ísafirði á leið minni að stúdentsprófi. Þar bjó líka Svenni frændi minn, sem var nokkru yngri en ég og kom okkur misjafnlega saman. Sunnudag einn dró amma fram stóran snúð með súkkulaðiglassúr, rétti mér hníf og bað mig að skipta honum milli okkar. Dreifingin á glassúrnum yfir flennistórt snúðbakið hafði misfarist en með liprum skurði sá ég til þess að á mínum helmingi yrði meira en hjá Svenna. Þetta sá amma og hnippti í mig þegar ég var kominn með betri helminginn í lúkuna: „Sá sem sker, velur ekki.“

Amma kenndi mér margt fleira sem er efni í margar sögur. Ég vil gjarna trúa því að mér hafi gengið vel að skipta snúðum hversdagslífsins eftir þetta og einnig að ég hafi stundum náð hnippa í aðra sem munda hnífinn á sama hátt og ég gerði forðum daga og benda á misskiptingu viðkomandi snúðs.

Víkur þá sögunni að jafnrétti kynjanna þar sem karlar fengu lengi bæði að skera snúðana og velja sér bestu bitana. Á það hafa ömmur (og afar) löngum bent á undanförnum áratugum og viljað breyta. Þar sem hallað hefur á konur er þessi viðleitni kennd við þær og kölluð femínismi. Hin hefðbundna skilgreining er þessi: „Femínisti er karl eða kona sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því.“

Fyrir rúmri viku birtist drottningarviðtal um dólgafemínisma við Evu Hauksdóttur, skáld, aðgerðasinna og pistlahöfund, í Sunnudagsmogganum. Ég hef lengi fylgst með skrifum Evu, haft gaman af og get oft tekið undir með henni, einkum varðandi mannréttindamál, mál hælisleitenda og flóttamanna, svo dæmi séu tekin. Við erum sammála um margt. Bara ekki þetta. Hennar sýn á femínisma er önnur, enda lagt upp með þessa skilgreiningu: „Femínismi er kynhyggja þar sem krafist er forréttinda fyrir annað kynið og hinu kyninu kennt nánast um allt sem miður fer í tilverunni.“

Í þessu sama viðtali eru síðan alhæfingar um dólgafemínista sem að mati Evu hafa vaðið hér uppi undanfarin ár og áratugi. Hún hefur líka talað um femínasista og fasista og valið femínistum ýmis háðugleg heiti. Mörg þeirra er að finna hér. Ég efa ekki að hún telji það réttnefni en bendi á að þótt fjúki framan í mann laufblað á götu er óþarfi að fordæma allan skóginn. Þótt hjólreiðafólk rekist stundum á dólga í umferðinni, verða allir bílstjórar ekki sjálfkrafa að óalandi og óferjandi ruddum sem heimta forréttindi fram yfir aðra vegfarendur. Umferðardólgarnir eru samkvæmt óvísindalegu mati mínu um 3- 5%. Þetta er lítill hópur og ódæmigerður á sama hátt og meintir femínistadólgar sem eru lagðir að jöfnu við heildina. Það er álíka sanngjarnt og að gera skoðanir Gylfa Ægissonar á Gleðigöngunni að viðhorfum þjóðarinnar til samkynhneigðra.

Í viðtalinu er kallað eftir umræðu og skoðanaskiptum. Gerólíkar forsendur og strámannagerð torvelda það. Ég kannast ekki við þessa forréttindakröfu, tek ekki undir hana og því síður þá einföldun að kenna hinu kyninu um allt sem miður fer. Mér finnst þetta óttalegt rugl. En ég gef mér að Eva hafi þetta eftir áðurnefndum meintum dólgum, femínasistum, fasistum eða fasystrum. Ef þetta er viðmiðið, þá væri ekki úr vegi fyrir hana og fleiri að kynna sér viðhorf femínista, jafnvel eiga við þá orðræðu. Meðan allir eru settir undir þennan hatt, er það útilokað. Ef horft er í gegnum rör, sést mjög lítið í einu. Bara yfirgripsmikil vanþekking.

Í síðasta helgarblaði Mbl skrifar Hólmfríður Gísladóttir pistil: „Ævintýrið um vonda femínistann.“ Honum deildi ég á fésbókarvegg mínum og fór síðan úr bænum. Á meðan tjáðu sig margir um téðan pistil og voru sumir virkir í athugasemdum en aðrir frekar málefnalegir. Eva Hauksdóttir leggur þar þessi orð í belg. „Og enn einu sinni er gagnrýninni á feminismann ekki svarað. Ekki orð um það hvernig kynjakvótar geta samræmst hugmyndum um að allir eigi að sitja við sama borð. Ekki orð um gervivísindin og rangfærslurnar sem ég hef margsinnis bent á. Ekki orð um forræðishyggjuna. Ekki orð um baráttuna fyrir öfugri sönnunarbyrði. Nákvæmlega ekkert annað en væl yfir því að einhver skuli voga sér að blaka við kreddufastri hreintrúarstefnu.“

strámenn Umbeðin orð:

 „Ekki orð um gervivísindi.“ Vísindi eru aldrei hlutlaus, um það hafa mýmargir skrifað. Þar af leiðir að vísindamaðurinn er alltaf mótaður af einhverri hugmyndafræði, sem litar það um hvað er spurt, hvernig, og svo hverju er svarað. Kynjafræðingar benda á að vísindamaðurinn þurfi að taka afstöðu og vera meðvitaður um afstöðu sína. Anna Bentína hefur fjallað um þetta. Ég ræddi þessa gagnrýni Evu við Þóru Kristínu Þórsdóttur aðferðafræðing sem sagði (og leyfði mér góðfúslega að vitna í sig):„Evu hefur orðið tíðrætt um meint gervivísindi kynjafræðinnar, og þar með síendurtekið opinberað vanþekkingu sína á aðferðafræði. Fyrir það fyrsta er rangt hjá Evu að aðeins séu notaðar eigindlegar aðferðir (þ.e. aðferðir sem ekki byggja á tölum) í kynjafræði heldur eru kannanagögn notuð þar líka. Í öðru lagi er misskilningur hjá Evu að eigindlegar aðferðir, hvort sem um er að ræða viðtöl eða greiningu á textum eins og fréttum, námsbókum, pistlum eða annað, séu óvísindalegar. Sá misskilningur byggir á því að Eva heldur að markmið allra félags og hugvísinda sé að alhæfa frá úrtaki yfir á þýði. Það er rangt. Í eigindlegum aðferðum er ekki markmiðið að alhæfa frá úrtaki yfir á þýði heldur að skoða fjölbreytileikann og þau ferli sem á bak við tölurnar liggja. Til að mynda vitum við úr kannanagögnum að tíminn sem íslensk hjón verja í heimilisstörf að meðaltali skiptist að meðaltali 65/35 þannig að meirihlutinn fellur á konur. Til þess að átta sig á hvers vegna þetta er svo væri rakið að taka viðtöl við nokkur pör um verkaskiptingu, og nota þær niðurstöður til að koma með tilgátur um tilurð verkaskiptingar. Þær tilgátur væri svo hægt að prófa til að mynda með könnun.

Ekki orð um það hvernig kynjakvótar geta samræmst hugmyndunum um að allir eigi að sitja við sama borð.“ Kynjakvótar hafa kosti og galla en í þessari grein eru nokkrar tölur um ójafnvægi sem kynjakvótar geta lagað. En kannski finnst einhverjum það vera óþarfi.

..Væl…. um kreddufasta hreintrúarstefnu.“ Skilgreiningin ein hnekkir þessari fullyrðingu. Femínismi er margradda. Hugsanlega eins og blandaður kór á þorrablóti á Vestfjörðum.

„Ekki orð um forræðishyggjuna.“ Hún er annars skilgreind svona. „Meginhugsunin í forræðishyggju er sú að almennir borgarar séu almennt ekki færir um að hugsa skynsamlega eða rökrétt, þess vegna þurfi að stjórna og stýra athöfnum þeirra með valdboði til að tryggja það að þeir fari sér ekki að voða eða geri ekki eitthvað sem yrði þeim að til skaða eða öðrum samborgurum.“ Hér hillir undir þann misskilning að gagnrýni jafngildi forræðishyggju. Að öðru leyti er þetta bara fyndið.

Strámaður lagður til hvílu

Ekki orð um baráttuna fyrir öfugri sönnunarbyrði.“ saklaus-uns-sekt-er-sc3b6nnuc3b0 Margir hváðu þegar fullyrt var að þetta væri baráttumál femínista og sumir hófu leit að þeim sem töluðu fyrir svo fáránlegri kröfu en fundu ekkert annað en þetta sem er eitt af mörgum veggspjöldum í umræðuhóp Femínistafélags Íslands.  Ekki yfirlýsing eða baráttumál, ekki stefnumótandi og sameiginlegt markmið allra femínista á Íslandi. Í grein í Mbl. í janúar 2005 ritar Halla Gunnarsdóttir (meintur „dólgafemínisti“) þetta:“ Hugmyndin um öfuga sönnunarbyrði kemur upp af og til. Það þýðir að sé maður ákærður fyrir nauðgun þarf hann að sanna sakleysi sitt í stað þess að sýna þurfi fram á að nauðgunin hafi átt sér stað. Viðmælendur Morgunblaðsins voru einnig sammála um að þessi nálgun sé ekki möguleg í réttarríki enda er það grundvallaratriði að manneskja teljist saklaus uns sekt hennar er sönnuð.“

Þessi strámaður Evu er orðinn frekar snjáður og skraufþurr en samt er krafist umræðu og svara. Þegar til á að taka reynist þessi meinta barátta aðallega vera hugarburður hennar og náði hámarki með yfirlýsingu 2012: yfirlýsing um öfuga sönnunarbyrði

Að lokum Jafnréttið er ekki flókið. Maður þarf ekki að sökkva sér í þrætur um orðalag og túlkun, tittlingaskít og smáatriði, svara fjarstæðum á netinu og kveikja í strámönnum. Jafnréttið á að vera sjálfgildið í tilverunni. Það getur byrjað heima við eldhúsborðið með súkkulaðisnúð og borðhníf. Sá sem sker, velur ekki.

4 athugasemdir við “Strámenn og snúðar

    • Konur og karlar skera og konur og karlar velja. Þetta er almenn brýning til fólks að skipta snúðum lífsins jafnt. Án tillits til kyns 😉

    • Nei, ég er lítið í því. En þessi umræða um öfugu sönnunarbyrðina var nokkur á sínum tíma og þessi tiltekna fullyrðing Evu vakti athygli mína, svo ég skjáskaut og fór síðan að kanna málið nánar, þvi mér fannst þetta forvitnilegt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.