Um nauðganir og „fórnarlömb“ fjölmiðlanna

Höfundur: Þórdís Elva Þorvaldsdóttir

Í tilefni þess að fyrirsögn forsíðufréttarinnar sem og leiðari Fréttablaðsins í dag innihalda hugtakið „fórnarlömb nauðgana“ vil ég koma eftirfarandi hugleiðingu á framfæri:

Við erum stödd í útjaðri Rómar á heitu síðdegi, 665 árum eftir Krist. Maður heldur á fallegu lambi niður sólbakaðan stíg. Mjúk, hrokkin ullin strýkst við vanga hans. Lambið jarmar ámátlega. Það brýst um í fangi mannsins en fætur þess eru bundnir með reipi. Skyndilega staðnæmist maðurinn við heimatilbúinn kross. Ryðgaður nagli heldur saman tveimur fjölum sem mynda þetta helga tákn. Maðurinn leggur lambið á jörðina. Hann dregur hníf upp úr vasa sínum, fer með hljóða bæn og mundar gripinn. Ámátlegt jarmið ágerist. Með snöggri hreyfingu sker maðurinn lambið á háls. Það gefur frá sér slitrótta hryglu þegar lífskraftur þess fjarar út í rauða mold.

 10617747_10152589382905240_1002001719_n

Það eru örlög fórnarlambsins að vera svipt lífi í nafni einhvers sem það fær aldrei skilið.

Orðið „fórnarlamb“ er notað yfir fólk sem kemst í hann krappan og fær enga björg sér veitt. Það er átakanlegt og gegnsætt orð, sem minnir á þjáningu, sársauka, dauða og tortímingu. Dregin er upp mynd af bundnu lambi með brostin augu. Í orðinu „fórnarlamb“ felst ekki upphefð. Fátt er styrkjandi við það að vera líkt við dauðvona ungviði „skynlausrar“ skepnu sem hefur enga stjórn á aðstæðum sínum. Í umræðunni um ofbeldi tíðkast að tala um fórnarlömb, jafnvel mörgum árum eftir að ofbeldið átti sér stað.

Ég hef áhyggjur af þessari tilhneigingu.

Andri Snær Magnason skrifaði eftirfarandi orð fyrir leikgerðina á metsölubók sinni, Draumalandinu: „Orð skipta máli. Heilinn flokkar hluti með orðum. Orð aðgreina liti. Orð aðgreina stærðir. Orð aðgreina grundvallarþætti í umhverfi okkar. Við höfum samheiti, andheiti. Við höfum orð sem aðgreinir bíl og rútu. Orð sundurgreina og skilgreina veröldina í hárfínum blæbrigðum. Orð skipta máli. Þau skipta öllu máli.“

Sé sannleikskorn í þessu hjá Andra Snæ er kominn tími til að endurskoða afstöðuna gagnvart „fórnarlömbunum“ á meðal okkar. Staðreyndin er sú að sé eitthvað sagt nógu oft, stimplast það inn í undirmeðvitundina. Ég er óviss um ýmislegt í lífinu en ég er nokkuð viss um að „Goði skapar góðu stundirnar“. Í Diet kók er „ein stök kaloría“ og Mount Everest er hæsta fjall í heimi. Þetta veit ég því þetta hef ég heyrt aftur og aftur í mörg herrans ár.

Ímyndum okkur hvaða áhrif það hefur á sjálfsmyndina að vera kallaður „fórnarlamb“ ár eftir ár. Getur verið að það sé nógu mikið lagt á herðar þeirra sem verða fyrir ofbeldi án þess að þeim sé statt og stöðugt líkt við deyjandi dýr? Hvar liggur styrkurinn í því? Er hægt að styrkja sjálfsmyndina og bera höfuðið hátt sem fórnarlamb? Er ekki kominn tími til að uppfæra orðaforðann?

Orðið sem ég kýs að styðjast við er brotaþoli. Þolandi brotlegs athæfis, afmarkað í tíma og rúmi. Brotaþolinn skýtur fórnarlambinu ref fyrir rass, því sá fyrrnefndi hafði þetta af. Þoldi álagið sem fylgdi brotinu.

Ég er ekki að finna upp hjólið. Orðið brotaþoli er oft á tíðum notað í umræðunni um kynferðisofbeldi. En ekki nógu oft. Fórnarlömbin eru ennþá dregin í dilka í umræðunni.

(Upprunalega birtist hugleiðingin í bókinni Á mannamáli – leiðarvísir að réttlæti bls. 16-18 en birtist hér í nokkuð styttri útgáfu Þórdísar)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.