LA MANIF POUR TOUS VERÐUR TIL

Nous Sommes gaysHöfundur: Kristín Jónsdóttir

Þegar François Hollande tók við forsetaembætti í Frakklandi í apríl 2012, var tillaga um leiðréttingu á hjónabandslögum eitt af fyrstu frumvörpum nýrrar ríkisstjórnar hans, í samræmi við kosningaloforð þar að lútandi. Þótt margir fögnuðu þessum umbótalögum, reis samstundis sterk bylgja gegn frumvarpinu.

Lagafrumvarpið var kallað Mariage pour tous, eða Hjónaband fyrir alla. Í forsvari fyrir því fór dómsmálaráðherra Christiane Taubira og var hún rækilega studd af  François Hollande sem sló á kröfur um þjóðaratkvæðagreiðslu með þeim rökum að þessa lagabreytingu þyrfti ekki að ræða, hvað þá að bera það undir þjóðina, því þetta mál væri leiðrétting á mannréttindabrotum. Ekki samræmist frönskum lögum að setja mál sem varða mannréttindi í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Bylgja mótmæla fæddi af sér samtökin La Manif pour tous, eða Mótmæli fyrir alla. La Manif pour tous eru regnhlífarsamtök ýmissa hópa og félaga sem af ýmsum ástæðum telja það mikla afturför og jafnvel hreinlega stórhættulegt, að gefa samkynhneigðum pörum þau „forréttindi“ að geta gengið í hjónaband líkt og gagnkynhneigð pör mega og hafa mátt í aldaraðir. Já, hér er ekki verið að ýkja, þessi leiðrétting á misrétti var ítrekað kölluð forréttindi af andstæðingum. Þetta er alkunnugt stef í allri jafnréttisbaráttu, að líta á úrbætur og leiðréttingar sem einhvers konar „gjafir“, og að minnihlutahópurinn eða sá undirskipaði hópur sem fær leiðréttinguna sé þá að fá eitthvað „meira“ en hinir sem notið hafa réttindanna lengur en elstu menn muna.

Þessir hópar eru trúfélög ýmis konar og pólitískir hópar sem oftast eru á jaðrinum, öfgahægri og öfgavinstri hópar, sem og þjóðernissinnar. Þessi barátta sameinaði sumsé ýmis öfl sem fram að þessu höfðu ekki verið í nokkrum samskiptum, hvað þá samstarfi. Hjónabandslögin, sem kennd eru við Christiane Taubira (loi Taubira) tóku gildi 23. apríl 2013 og hafa því þegar fagnað ársafmæli sínu. Fjöldi samkynhneigðra para hefur nýtt sér réttinn til að ganga í hjónaband og, líkt og í öðrum löndum sem gengu á undan Frakklandi, hefur samfélagið ekki breyst á nokkurn áþreifanlegan hátt við þetta.

STELPUR ERU STELPUR OG STRÁKAR ERU STRÁKAR – EKKI SKEMMA ÞAÐ!

En samtökin Manif pour tous hafa síður en svo látið sér segjast. Þau halda áfram baráttu sinni gegn ýmsum umbótum sósíalista og ein „grýlan“ er það sem þau hafa í áróðursskyni kallað „la théorie du genre“, sem snara mætti á (dálítið útlenskuskotna) íslensku sem „kynjateóríuna“, sem ku nú kennd í barnaskólum og sé enn ein tilraunin til að brjóta niður grunngildi samfélagsins. Síðasta vetur var sumsé samþykkt að bæta námsefni um kyn, kynáttun, kyngervi og staðalímyndir á námsskrá grunnskólanna. Þetta námsefni miðar að því að ræða og hvetja til jafnréttis og gagnkvæmrar virðingar milli stúlkna og drengja. Að hugsa um og skoða með dæmum, hvernig hugmyndir og skilgreiningar á körlum og konum hafa verið í gegnum tíðina og hver staðan á þessum hugmyndum sé í dag. Vinklarnir eru félagsleg staða kynjanna, sálfræðileg, söguleg og hagfræðileg. Málið snýst alls ekki um að afneita líffræðilegum mun, eins og andstæðingar halda statt og stöðugt fram (sjá viðtal við Olgu Trostiansky forstöðumann Laboratoire de l’égalité í Libération 3. febrúar 2014. Eins og er, hafa grunn- og menntaskólakennarar í nokkrum sýslum í Frakklandi farið á námskeið þar sem þeir fá grunnkennslu í kynjafræðum og leiðbeiningar um það hvernig vekja má umræður í tímum um kynbundnar staðalímyndir og virðingu fyrir fjölbreytileikanum. Ný hreyfing, Journée de retraite de l’école , undir stjórn Faridu Belghoul, boðaði til „nemendaverkfalls“ á þeim svæðum sem tóku þátt í tilraunaverkefninu og náði að sannfæra þó nokkuð af foreldrum um að láta börnin ekki mæta í skólann í fjóra daga sem dreift var á þrjá mánuði á síðustu önn. Þessi átök fengu töluvert rými í fjölmiðlum, og ef farið er inn á vefsíðuna má sjá að hreyfingin er enn virk.

Líkt og ýmsir hafa reynt að benda á, er ekkert til sem heitir kynjateórían. Hins vegar er kynjafræðin vissulega til sem grein á háskólastigi innan hugvísinda og í félagsfræði, og hafa kynjafræðistúdíur í raun teygt anga sína inn í sagnfræði, lögfræði, hagfræði og jafnvel innkirtlafræði eins og Bruno Perreau, prófessor í MIT (Massachusetts Institute of Technology) og í rannsóknarsamstarfi við Cambrigde- og Harvardháskóla, bendir á í Le Monde 22. apríl 2013. Hann segir öll þessi fög hafa látið sig sjálfsmynd fólks varða en kyngervi og kynáttun séu þættir í uppbyggingu sjálfsmyndar einstaklinga.

Með rógburði af ýmsu tagi hefur þetta skref verið útmálað sem  útsmogin leið úrkynjaða vinstri fólksins til að gera öll börn að fríkum, sem væru héðan í frá hvorki „alvöru strákar“ né „alvöru stelpur“. Það er sannast sagna undarleg tilfinning að flakka um vefinn og skoða skrifin um þetta málefni. Hvað þá auglýsingaplakötin sem fólk er hvatt til að prenta út fyrir mótmælafundina. Það er greinilega víðar en á Íslandi sem ranghugmyndir um kynjafræðin og baráttuna gegn staðalímyndum þrífast.

OG NÚ Á BARA AÐ EYÐA ÖLLUM FÓSTRUM! HVERT ER ÞESSI HEIMUR AÐ FARA?!

Sumir telja að barátta La Manif pour tous hafi tvíeflt þann arm hægriflokksins UMP sem áður hafi haldið í við sig og séu þeir nú enn opinskárri með það hve langt til hægri þeir eru, en áður. Það er meðal annars talið sjást á nýjasta fjaðrafoki í tengslum við jafnréttisumbætur vinstri stjórnarinnar. Því að þótt skólinn sé í sumarfríi og lítið fari því fyrir umræðu um kennsluáætlanir, hefur annað mál farið verulega fyrir brjóstið á Manif pour tous, en það er tillaga um breytingar á orðalagi í lögum um fóstureyðingar, sem er hluti af stærra frumvarpi um ýmsar breytingar á lögum til tryggingar á raunverulegu jafnrétti. Tillagan snerist um að breyta 40 ára gamalli setningu um „détresse“ eða vanlíðan, þannig að kona sem óskar fóstureyðingar má nú ein og sjálfstæð ákvarða hvort henni líði nægilega illa til að réttlæta fóstureyðingu. Þessu börðust harðlínumenn úr þingmannahópi UMP harkalega gegn og kærðu til Stjórnarskrárnefndar. Hún úrskurðaði ríkisstjórninni í vil og breytingin hefur verið samþykkt.

o-AFFICHES-ANTIMARIAGE-GAY-570Í fyrirsögn þessa síðasta kafla spyr ég spurningar sem afturhaldssegir allra landa spyrja svo oft: Hvert er þessi heimur að fara? Og málið er, að þótt ég geti hlegið að gömlum skörfum sem svo spyrja, er ég sífellt oftar farin að spyrja mig þessarar spurningar sjálf. Ég nefnilega bara verð að játa að þessi hreyfing sem ég hef reynt að gera skil hér í gegnum þrjú baráttumál, hefur virkilega komið mér á óvart. Styrkurinn, fjármagnið, fjölmennið sem hún virðist hafa á bak við sig hefur komið mér gersamlega í opna skjöldu.

Ég tel virkilega ástæðu til að setjast niður og spá í þetta. Ég veit að ég er sannarlega ekki ein um að hafa áhyggjur og Frakkland er síst eina landið þar sem svona hreyfingar virðast nú blómstra. Nóg er að skoða úrslit kosninga undanfarin ár í ýmsum löndum Evrópu, öfga hægriflokkar hafa náð hvílíku fylgi að það fer illilega um fólk sem enn man hryllilegar afleiðingar síðustu fasistabylgjunnar. Farið var yfir ástandið í Austurríki í nýlegum pistli hér á knúz . Einnig fer töluvert fyrir Teboðshreyfingunni í Bandaríkjunum. Jafnvel á litla krúttlega Íslandi sjást merki um sterkan hljómgrunn með lýðskrumurum sem boða hreinleika og tala gegn öllu því sem að þeirra viti er „framandi“: útlendingum, samkynhneigð, femínistum og öðrum „óþjóðalýð“, jafnvel umhverfissinnar eru farnir að falla í flokk þeirra sem taldir eru vilja sjálfstæði okkar og þjóðlegum einkennum allt illt. Eina leiðin til að koma í veg fyrir að við vöknum einn daginn upp við að fasisminn hafi aftur náð undirtökunum, er að berjast gegn því með öllum tiltækum ráðum. Það er á ábyrgð okkar, fólksins í landinu, í heimsálfunni, á jörðunni, að fylgjast með og taka þátt í stjórn- og félagsmálum. Mér sýnist margir Íslendingar hafa áttað sig á þessu og gleðst yfir góðri þátttöku í ýmsum mótmælaaðgerðum undanfarið, sem hefðu, að ég held, verið óhugsandi fyrir ekki svo ýkja löngu síðan.

Í hvert skipti sem okkur ofbýður eigum við að rísa upp. Í hvert skipti sem við finnum ónotatilfinningu hríslast um okkur, eigum við að tjá hana. Hreyfingar á borð við La Manif pour tous mega alls ekki hafa síðasta orðið.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.