Gölluð fóstureyðingalöggjöf

Höfundar: Hanna Björg Vilhjálmsdóttir og Hrafnkell Tumi Kolbeinsson

 

Hospital Cloakroom - 11 Jun 2008Ein af þeim mælistikum sem nota má til að greina stöðu kvenna í tilteknu samfélagi er að skoða þær forsendur sem konur hafa til forræðis yfir líkama sínum. Hvaða stjórn hafa aðrir en konan sjálf á líkama hennar? Getur hún t.d. ákveðið hvort hún vill eignast börn eða ekki? Hvernig er aðgengi að fóstureyðingum og hvaða viðhorf ríkja til þeirra í samfélaginu? Núgildandi lög um fóstureyðingar á Íslandi eru gölluð að okkar mati og þau þarf að rýmka til að standast sjálfsagðar kröfur um rétt kvenna til forræðis yfir eigin líkama.

Áður en leyfi til fóstureyðingar er veitt samkvæmt núgildandi lögum þarf konan að fara í viðtöl og í kjölfarið að færa rök fyrir ákvörðuninni sbr. 11. grein laga, en þar segir:

Áður en fóstureyðing má fara fram, verður að liggja fyrir skrifleg rökstudd greinargerð tveggja lækna, eða læknis og félagsráðgjafa sé eingöngu um félagslegar ástæður að ræða, enda sé hann starfandi í viðkomandi heilsugæsluumdæmi.

Íslenska fóstureyðingalöggjöfin er að stofninum til frá 1975 og var sett eftir talsverðar deilur. Má segja að hún sé nokkurskonar málamiðlun. Fóstureyðingar eru í raun bannaðar en undanþáguákvæði veitt sem í framkvæmd hafa verið túlkuð rúmt. Undanþágur sem ekki teljast af læknisfræðilegum orsökum eru veittar vegna félagslegra aðstæðna, en þar sem konum virðist ekki vera neitað um fóstureyðingar hlýtur túlkun félagslegra aðstæðna að vera ansi víð. Í raun mætti segja að konan og heilbrigðisstarfsmaðurinn verði að finna réttlætingu á fóstureyðingunni sem telst fullgild á pappír og þá gildir að nota hugmyndaflugið og rétt orðalag. Mergur málsins er þó alltaf sá að opinber réttlæting á ákvörðun konunnar verður að vera til staðar.

Í lagabókstafnum birtist kvenfyrirlitning. Fóstureyðingar ættu skilyrðislaust  að vera  frjálsar. Þjónusta líkt og viðtöl við félagsráðgjafa og aðra sérfræðinga ætti að vera sjálfsögð en valkvæð. Fóstureyðing getur verið mjög erfið  lífsreynsla sem ólíklegt hlýtur að teljast að nokkur kona fari í af léttúð. Kynlífi fylgir alltaf nokkur áhætta á þungun sama hversu ábyrgt það er stundað. Konur geta verið frjóar í 30 ár eða lengur og auðvitað getur alltaf eitthvað mögulega farið úrskeiðis á þeim tíma, getnaðarvarnir gleymst eða ekki virkað. Hitt er svo annað mál að aðgengi unglinga að getnaðarvörnum er of lítið og þær of dýrar. Kynfræðsla í skólum er um margt gagnrýniverð. Markmið og leiðir þyrftu að vera betur skilgreind, en í dag er alveg undir hælinn lagt hvort, og þá með hvaða hætti, slík fræðsla fer fram. Mörgum ótímabærum þungunum mætti forða með átaki í þeim málum en það er efni í annan pistil.

Við teljum að við séum komin á þann stað í samfélaginu að almennt sé viðurkennt að sjálfsákvörðunarréttur kvenna yfir eigin líkama sé algjör og ennfremur að forsenda þess að fæða barn í þennan heim sé sú að móðirin sé tilbúin til þess og að barnið sé velkomið.

Við gefum okkur þá forsendu að almennur skilningur í samfélaginu sé sá að með fóstureyðingu á fyrstu vikum meðgöngu sé ekki verið að eyða lífi heldur að grípa inn í ferli. Við teljum að núgildandi fóstureyðingalöggjöf sé of þröng og að lítið sé gert úr sjálfsákvörðunarrétti kvenna yfir eigin líkama. Hvaða sjónarmið eru til dæmis á bak við svohljóðandi 16. gr. laganna?

Áður en kona, sem gengist hefur undir fóstureyðingu, útskrifast af sjúkrahúsinu, skulu henni veittar leiðbeiningar um getnaðarvarnir.

Hér er talað niður til kvenna á óþolandi hátt.

Á Íslandi eru framkvæmdar um það bil þúsund fóstureyðingar á ári. Ekki er líklegt að þeim myndi fjölga þótt löggjöfin yrði rýmkuð. Sú varð til að mynda ekki raunin í Hollandi þar sem fóstureyðingar voru gerða frjálsar. Þessum konum myndi þó eflaust mörgum líða betur og þær ekki sitja uppi með þá tilfinningu að hafa eytt lífi og eiga erfitt með að réttlæta skilyrði laga fyrir sjálfum sér eða öðrum. Ástæðurnar kunna að vera allt aðrar en jafn mikilvægar engu að síður. Andi laganna skiptir máli þegar kemur að viðhorfum fólks gagnvart fóstureyðingum og upplifun þeirra sem í slíkar aðgerðir fara. Í samfélagi sem vill jafna stöðu kynjanna, hlýtur krafa um frjálsar fóstureyðingar að vera sjálfsögð.

 

Höfundar eru framhaldsskólakennarar. Greinin birtist fyrst hér og er endurbirt á knúz.is með góðfúslegu leyfi.

3 athugasemdir við “Gölluð fóstureyðingalöggjöf

  1. Fínasta grein.

    „Við teljum að við séum komin á þann stað í samfélaginu að almennt sé viðurkennt að sjálfsákvörðunarréttur kvenna yfir eigin líkama sé algjör“

    Vekur vonandi andstæðinga lögleiðingar staðgöngumæðrunar og vændis til umhugsunar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.