Hinsegin og þessegin – af tvenndum og tvíhyggju, usla og formfestu

Höfundur: Kári Emil Helgason

Blank signpost 2 (clip path)Orðið „hinsegin“ hefur rutt sér rúms á síðastliðnum árum sem hin viðtekna íslenska leið til að ræða um það fólk sem er ekki gagnkynhneigt og/eða ekki cís. Á ensku máli er yfirleitt talað um LGBT, sem stendur fyrir lesbian-gay-bisexual-transgender, en einnig queer sem þýðir upprunalega „skrítinn, furðulegur, grunsamlegur, tortryggilegur“. Því á íslenska orðið hinsegin meira skylt við queer en LGBT.

LGBT sem hugtak varð til í þeim tilgangi að taka með í reikninginn aðra en bara homma og lesbíur, sem gjarnan falla í skuggann, nefnilega tvíkynhneigða og transfólk. En það er ekki nógu yfirgripsmikið, því hvað með intersex fólk? Hvað með með ókynhneigða (asexual)? Hvað með fólk með blæti (fetish)? Hvað með fjölelskendur (polyamorous)? Hvað með tvísála fólk (two-spirit)? Listinn yfir litbrigði mannkyns er endalaus og það eru bara 26 bókstafir í enska stafrófinu. Því eru margir sem kjósa orðið „queer“, því það vísar ekki beint í neina ákveðna flokka, heldur einfaldlega alla þá, sem upplifa sig ekki sem hluti af gagnkynhneigða regluverkinu. Og þess vegna notum við orðið hinsegin á íslensku.

Eiginlega liggur beint við að halda að það hljóti að vera til andheiti við hinsegin – til dæmis orðið þessegin – sem myndi þá vísa til allra þeirra sem ekki rúmast í menginu hinsegin. Gagnkynhneigt fólk sem hefur aldrei upplifað vandamál með kynferði sitt mætti því kalla þessegin. En erum við komin á villigötur þegar við sköpum svona tvíhyggju? Hvar njörvast þessegin niður? Það er næsta víst að enginn passar 100% í þær fyrirframgefnu skilgreiningar sem við höfum búið til þegar vel er að gáð. En á sama tíma er stór hluti fólks sem upplifir ekki mótlæti vegna kyns síns og langana, og á ekki í neins konar stríði við sjálft sig vegna kynóra eða kynhvatar sinnar. Og þetta fólk nýtur forréttinda, og það er alltaf gagnlegt að vera meðvitaður um forréttindi sín.

Öllum er frjálst að skilgreina sig sem hinsegin. Það eru engar reglur. Ef það er eitthvað sem réttindabarátta hinsegin fólks hefur kennt okkur, þá er sýnileiki mikilvægasta vopnið í baráttunni gegn fáfræði og fordómum. Það á að vera til rými fyrir alla að draga þá þætti sjálfsmyndar sinnar fram í dagsljósið sem hafa áhrif á það. Ísland á langt í land þegar kemur að opinskárri umræðu um málefni transfólks, intersex fólks, tvíkynhneigðra, ókynhneigðra, fólks utan tvíhyggju kynjakerfisins, fólks sem verður ástfangið af mörgum í einu og fólks með blæti og hlutkenndir. Feðraveldið gerir ekki ráð fyrir að neitt af þessu sé til.

Við eigum orðið alla þessa flokka og ýmis misruglingsleg hugtök en þegar rýnt er í þá eru allir flokkarnir og öll orðin gölluð, og enginn þeirra er hafinn yfir gagnrýni, því margbreytileiki fólks verður ekki smættaður í orð. Og þess vegna er „hinsegin“ svo skemmtilegt af því þótt það feli í sér ákveðna samfélagslega öðrun – hinsegin á móti þessegin – þá er það líka afar yfirgripsmikið. Það sameinar okkur sem höfum þurft að ganga á móti vindi til að fá að vera það sem við erum. Og kannski kemur sá dagur að við erum ekki lengur hinsegin – öllum er orðið sama og enginn reynir að varpa sinni sjálfsmynd ofan á upplifun aðra – en sá dagur er ekki kominn og hann er langt undan. Þangað til verðum við að standa saman; halda áfram að læra um fjölbreytileikann og hjálpast að við að skilja hvert annað. Halda áfram að vera hinsegin.

6 athugasemdir við “Hinsegin og þessegin – af tvenndum og tvíhyggju, usla og formfestu

 1. Ég auglýsi eftir öllu þessu fólki sem aldrei hefur upplifað vandamál með kynferði sitt og sem hefur aldrei upplifað mótlæti vegna kyns síns og langana. Ég hélt að líf í þessu stórgallaða kynjakerfi sem við sitjum uppi með þýddi að við ættum flest í óttalegu basli með kynferði okkar frá vöggu til grafar. Það er meðal annars það sem femínismi gengur út á að reyna að laga.

  Þegar mér er sagt að ég sé hæstánægð í mínum þesseginkassa líður mér nákvæmlega eins og þegar strákarnir sögðu mér í leikskólanum að ég ætti að vera í dúkkukróknum með stelpunum þótt mig langaði ekkert þangað.

 2. Ég ætti kannski að bæta því við að það er alls ekki meiningin hjá mér að gera lítið úr baráttu og erfiðleikum þeirra sem hafa orðið fyrir ofsóknum og alls kyns öðru mótlæti vegna kynhneigðar, kynídentítets o.s.frv. En mér finnst ekki rétt að stilla hlutunum þannig upp að við hin sem höfum ekki átt í akkúrat þeirri baráttu séum öll í svona svakalega gúddí fíling með kynjakerfinu. Til dæmis hafa eiginlega barasta allar konur heims upplifað einhvers konar mótlæti vegna kyns síns og ég held að við eigum meira og minna öll í mesta basli við að uppfylla þessar skorður sem kynjakerfið setur okkur og upplifum alls konar konflikta þar að lútandi.

  • En er það ekki einmitt þess vegna sem við höfum bæði femínisma og hinseginbaráttu? Til að fylla upp í eyðurnar hjá hvoru um sig? Femínismi horfir á heiminn í gegnum linsu kvenna, hinseginbarátta í gegnum linsu hinseginfólks. En af ástæðum, sem er mér að minnsta kosti augljósar, er ekki hentugt eða gagnlegt að flokka *allar* konur sem hinsegin, ekki frekar en að flokka allt svart og brúnt fólk sem hinsegin, þótt konur og óhvítir verði fyrir sínu eigin mótlæti. Og eins og ég tek fram í greininni er þér velkomið að flokka þig sem hinsegin ef það er eitthvað við þitt kynídentítet sem veldur usla, hvort heldur hjá þér sálrænt eða í þínu daglega lífi í samskiptum við aðra.

 3. Punkturinn hjá mér var fyrst og fremst sá að mér finnst það gera lítið úr femínískri baráttu að gefa í skyn að allir þeir sem ekki flokkast sem hinsegin séu svona ofboðslega sáttir við kynferði sitt. Femínismi gengur jú einmitt út á það að konur séu ekki sáttar við kynferði sitt og/eða alls konar hluti sem því fylgja. Og það er bara alveg svakalega mikið af fólki sem á í vandræðum með að uppfylla alls konar kynjastaðla, eða kærir sig ekki um að uppfylla þá, hvort sem það tekur þátt í femínískri baráttu eða ekki eða hefur yfirleitt áhuga á því og sem fellur kannski engan veginn að því sem við erum vön að sé kallað hinsegin.

  Punkturinn var ekki að femínismi og hinseginbarátta ættu endilega að fara fram á sama hátt eða saman, það má sjálfsagt hugsa sér alls konar útfærslur á því. En það hlýtur að vera skýrari leið til að skilgreina hinsegin en að láta eins og hinseginfólk hafi einkarétt á að vera á skjön við kynjakerfið. Annars hljótum við að sjálfsögðu nánast öll að vilja vera hinsegin og þá verður hugtakið eiginlega merkingarlaust. Ég meina kommon, hvaða ferkantaða Stepford-lið er sátt við að láta skilgreina sig sem venjulegt, „þessegin“ og sátt við kynjakerfið? Af hverju þarf að láta eins og þetta meingallaða kynjakerfi sé svona frábært fyrir alla hina sem ekki falla undir hinseginskilgreininguna?

 4. Já og smáviðbót: Ein af ástæðum þess að ég myndi ekki flokka mig sem hinsegin (svona fyrir utan að ég hef ákveðnar efasemdir um slíkar flokkanir — sem er önnur og miklu lengri saga) er að sem manneskja sem lifir í sambandi með aðila af gagnstæðu kyni og með alla ytri markera sem segja „rétt“ til um kynfæri, litninga o.s.frv. þá fyndist mér ég vera að skreyta mig með stolnum fjöðrum. Svona svipað og ef ég færi að kalla mig svarta.

 5. Ég sé ekki að það að vera þessegin feli endilega í sér sætti einstaklingsins við kynjakerfið. Það þýðir bara að manneskjan fellur í grófum dráttum að því mynstri sem kerfið ætlast til af henni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.