Höfundur: Elísabet Ýr Atladóttir
Það gerist oft að þegar rætt er um kynferðisofbeldi, heimilisofbeldi, fátækt, kynþáttahatur og vændi kemur ævinlega upp einhver vitleysingur sem hendir fram orðinu “val”. Þau “völdu” að búa í gettóinu, þau “völdu” að hætta í skóla og fara beint á láglaunavinnumarkað, þau “völdu” að selja líkama sinn til að ná endum saman, þau “völdu” að fara aftur til ofbeldisfullra maka, þau “völdu” að fara á djammið þetta kvöld og fara heim með þessum aðila. Þetta stórkostlega val litar umræðuna og þaggar niður í öllum þeim sem vilja benda á raunverulega vandamálið. Það setur sökina á þolanda, í stað þess að horfa gagnrýnum augum á hvar vandamálið liggur og hvernig er hægt að vinna gegn því.
Það þarf ekki mikið til að sjá í gegnum þetta frjálshyggjubull, en í allt of mörgum tilfellum nær þetta orð, val, að þagga niður í öllum þeim sem höfðu eitthvað við umræðuna að bæta. Ótrúlegt en satt gera fáir sér grein fyrir því að val er eitthvað sem ekki öllum er gefið frjálslega, og velmeinandi fólk vill frekar halda að allir hafi val á milli vondra og góðra kosta en að heyra að í raun var valið á milli kúks og skíts. Leyfa ókunnugum körlum beita sig ofbeldi og borða, eða gera það ekki og deyja úr sulti. Frábært val.
Þegar fólk í forréttindastöðu talar um “val”, þá er það í besta falli kjánalegt, versta falli stórskaðlegt. Það er nefnilega aldrei talað um val ofbeldismannsins í sambandinu, af hverju valdi hann að beita maka sinn ofbeldi? Af hverju valdi maðurinn á djamminu að nauðga? Af hverju velja menn að kaupa líkama kvenna? Af hverju velur fólk að viðhalda rasisma með rasistabröndurum og stereótýpum? Af hverju velja stórfyrirtæki framleiðsluafl sem notar þrælavinnu? Mér þykir stórundarlegt að það er einblínt á val þolanda, sem hefur ekkert val alveg frá byrjun. Það rífur umræðuna frá því að horfa á geranda, á vandamálið sjálft, og beinir orkunni í að finna eitthvað að því sem þolandi var að gera eða ekki gera.
Að horfa gagnrýnum augum á “val” er auðvitað enginn brandari. Þetta er flókinn heimur, forréttindi eru flókin og valkostir hanga yfirleitt saman við hversu mikil forréttindi þú hefur. Hvítur karlmaður sem lifir undir brauðlínunni hefur ekki sömu valkosti og hvítur karlmaður í millistétt með ágætis vinnu. Það virkar ekkert að segja manninum sem er að svelta að hann hafi bara valið þetta ástand því hann gat ekki fundið vinnu. Kannski er hann bara ekki nógu duglegur? Já já, hann hefur valið að vera latur og svelta. Það er mun auðveldara að sjá leti en að heyra hann segja söguna af því hvernig hann getur ekki unnið því hann þjáist af gríðarlegu þunglyndi, og samfélagið hefur svo mikla fordóma gagnvart því að hann fær enga hjálp frá heilbrigðiskerfi eða nánasta samfélagi. Það er auðveldara að segja að eitthvað sé að honum og hann velji að gera ekki neitt í málunum, en að horfa gagnrýnum augum á fordóma samfélagsins og ástæður þess að honum er ekki veitt nein hjálp. Þetta stigmagnast svo því neðar í forréttindastiganum þú ert, hversu blint samfélagið er á vandamálið, og hversu blint það vill vera á vandamálið.
Hugmyndin um hið fullkomna val er vond, því það gefur fólki afsakanir til að kenna fólki um aðstæður sem þau höfðu enga stjórn á, gefur fólki afsakanir til að horfa framhjá ofbeldi og hætta að hlusta og lifa í þægilegu forréttindasápukúlunni sinni. Það gefur fólki tólin til að dæma úr fjarlægð, til að hunsa neyð og óréttlæti og kalla það réttmætt, óhjákvæmilegt eða skiljanlegt. Orðið “val” hefur enga merkingu í umræðu um ofbeldi, kúgun og óréttlæti. Ekki nema þú sért að tala um val geranda. En af einhverjum ástæðum vilja fæstir tala um það. Enda eru gerendur yfirleitt með forréttindi sem þolendur hafa ekki.
Næst þegar þú vilt einblína á val þeirra sem þurftu að þola ofbeldi og óréttlæti: þú hefur raunverulegt val til að halda kjafti og hlusta. Ólíkt þeim, sem voru beitt ofbeldi eða óréttlæti, þá hefur þú val.
Bakvísun: Þess vegna er vændi nauðgun | Knúz - femínískt vefrit