Kynjaðar hliðar ebólunnar

Höfundur: Guðrún Sif Friðriksdóttir

AFRICA Ebola 170869Um þessar mundir geisar versti ebólufaraldur sögunnar í Vestur-Afríku, og hafa fjögur lönd; Gínea, Sierra Leone, Líbería og Nígería, lýst yfir neyðarástandi. Í fjölmiðlaumfjöllun um faraldurinn hefur lítið verið fjallað um hvaða áhrif hann hefur á líf íbúa þessara landa og lítið sem ekkert hefur verið minnst á kynjavinkil ebólunnar.

Þegar fyrri ebólufaraldrar eru skoðaðir (en núverandi faraldur er sá tuttugasti og fimmti í sögunni) koma nokkrir kynjavinklar í ljós. Þar sem veiran berst með dýrum eru það oftast karlar sem veikjast fyrst, þar sem það er venjulega í þeirra verkahring að veiða til matar. Eftir því sem líður á og veiran fer að smitast manna (og kvenna) á milli eykst hins vegar hlutfall kvenna meðal smitaðra, enda eru það oftast konur sem hjúkra hinum veiku og eru því í mestri smithættu. Aðrir áhættuhópar eru heilbrigðisstarfsfólk en þar sem hjúkrunarfræðingar eru nær einungis konur eykst einnig hlutfall kvenna sem sýkist af veirunni þegar ekki tekst að vernda heilbrigðisstarfsfólk.  Einnig kemur það fyrir að sjúkrahús séu vettvangur smitunar en þar eru sjúklingar og þungaðar konur sem koma inn til fæðingar eða í mæðraeftirlit í hættu. Vitað er fyrir víst að þungaðar konur hafi smitast með þessum hætti í Súdan 1976 og í Lýðveldinu Kongó 1995 (WHO, 2007).

Meginhætta á smitun er hinsvegar í heimahúsum þar sem konur sjá um hina sjúku. Dæmi eru um það frá Kongó 2003 að umönnunarskyldur kvenna voru ekki einungis vegna hefðbundinna kynhlutverka heldur vegna þekkingar á smithættunni sem umönnuninni fylgir. Þegar hópur karlmanna var spurður hvernig þeir forðuðust ebólusmit sögðust þeir sjá til þess að konurnar sæju um að hjúkra hinum sjúku (WHO, 2007).

Þegar veikindi vegna veirunnar eru yfirstaðin finna margir fyrrverandi sjúklingar fyrir fordómum í sinn garð, aðallega vegna hræðslu við að fólk geti enn smitast af veirunni, og afleiðingarnar eru útilokun frá samfélaginu. Konur verða að staðaldri frekar fyrir slíkri útilokun og einungis þær verða fyrir algjörri útskúfun eins og að vera reknar til baka í uppvaxtarþorp sín, sem gerðist til dæmis í Úganda 2000-2001 (WHO, 2007).

Því lengur sem ebólufaraldur stendur yfir því meiri verður kynjamunurinn. Tölur eru á reiki um núverandi faraldur en tölur frá Líberíu benda þó til þess að á milli 55 og 75 prósent þeirra sem hafa veikst þar í landi séu konur.

EBOLA-Survivor-CuredEbólufaraldurinn hefur einnig ýmsar aukaverkanir sem að mörgu leyti hafa meiri áhrif á konur en karla. Heilbrigðiskerfi þeirra landa sem nú glíma við faraldurinn voru veikburða fyrir og eru nú nánast í rúst vegna álagsins. Margt heilbrigðisstarfsfólk hefur flúið af hræðslu við ebólu og kerfið er í fyrsta lagi ekki í stakk búið til að takast á við önnur heilbrigðismál og í öðru lagi er almenningur svo hræddur við að smitast að hann forðast sjúkrahúsin. Því er líklegt að aukning verði á dauðsföllum af völdum t.d. malaríu og taugaveiki og einnig að hlutfall mæðradauða hækki enn meir.  Þungaðar konur sem upphaflega voru í meiri áhættu á að smitast af ebólu vegna veru á sjúkrahúsi eru núna frekar í hættu vegna erfiðleika í fæðingum þar sem þær þora ekki að nýta sér þá takmörkuðu heilbrigðisþjónustu sem er til staðar.

Það jákvæða í stöðunni er að öfugt við margar ríkisstjórnir sem áður hafa þurft að berjast við ebólu gera bæði ríkisstjórnir Líberíu og Sierra Leone sér grein fyrir kynjuðum hliðum faraldursins og leggja því áherslu á að vinna með kvennahópum í löndunum. Þar sem lítið traust ríkir til ríkisstjórna í þessum löndum er mjög mikilvægt að fá grasrótina með í baráttuna þannig að þeir einstaklingar sem eru í mestri smithættu fái fræðslu um rétta hegðun frá fólki sem þeir treysta.

Alþjóðasamfélagið virðist loksins vera að taka örlítið við sér vegna ebólufaraldursins í Vestur-Afríku og vonandi líður ekki á löngu þar til íhlutun ber árangur. Þegar baráttan við þetta heilbrigðisvandamál er á enda mun skýrast hvaða efnahagslegar og pólitískar afleiðingar þetta hefur í för með sér og þessi lönd munu þurfa að takast á við. Það er hinsvegar óhætt að segja að afleiðingarnar munu einnig eiga sér kynjaðar hliðar.

Heimild:

WHO [Alþjóðaheilbrigðisstofnunin] (2007). Addressing sex and gender in epidemic-prone infectious diseases. Genf: WHO.
Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.