Opið bréf þolanda

Höfundur: Hrafnhildur Ýr Rafnsdóttir

Hrafnhildur ÝrElsku vinir og fjölskylda!

Sumum ykkar kann að líka þessi pistill og öðrum ekki. Ég mun ekki dæma ykkur ef að ykkur líkar hann ekki. Ég mun ekki taka því persónulega, þið verðið að eiga það við ykkur sjálf.

Flest ykkar þekkja mig. Sum afar lítið, önnur vel, mörg nokkuð vel en ég efa að það sé einhver sem þekkir mig mjög vel. Og það er kannski þess vegna sem að ég komst upp með það að þegja þetta lengi yfir leyndarmáli.

Fyrir einu og hálfu ári gerðist það að ég gat þó sagt þetta leyndarmál mitt upphátt. Og ég hefði ekki viljað segja neinum öðrum það fyrst en mínum besta vini og manni Jóni Ólafi. Ég hefði líklegast aldrei sagt nokkrum manni frá því nema af því að ég komst að því að það voru fleiri í sömu stöðu og ég, og það eru konur sem að standa mér mjög nærri. Ég er nefnilega önnur kynslóð þolenda kynferðisofbeldis í minni fjölskyldu og það ekki af völdum sama mannsins. Já, það stal frá mér maður sakleysinu, æskunni, unglingsárunum og svo miklu meiru. Ég var bara 8 ára þegar að ég var misnotuð af mág móður minnar, manni systur hennar, og hefur þetta litað mig alla tíð síðan. Ég veit ekki hvort ég geti sagt að ég hafi verið heppin að það hafi bara hent mig einu sinni. Kannski gerðist það oftar, ég veit það ekki þar sem að ég byggði mjög snemma skjöld og get ekki sagt að ég muni mikið úr æsku minni þar eftir. Ég veit ekki hvort að allir muni eftir þessu en einhverjir gera það þó.

Þetta er  Þingeyrarmálið sem upp kom í febrúar 2013.

En ég er ekki ein og kannski þess vegna hefur skömm og samviskubit nagað mig síðan líka. Ef ég hefði bara sagt frá. Þá hefði hann ekki eyðilagt líf systra minna líka. Hann nefnilega tók lífið frá þeim líka.

Með þessu bréfi skila ég skömminni þangað sem hún á heima.

Við eigum ekki að bera þennan bagga fyrir þig. Þú ert sekur og þú fékkst sama bréf og ég sem að segir að þú sért það og enginn vafi á. Ég hins vegar fæ enga bót á mínu máli þar sem að ég gat ekki opnað mig með þetta fyrr. Þó svo að það hafi ekki verið hugsun mín þegar ég kærði þig. Ég vissi að mál systra minna væru ekki fyrnd og vildi veita þeim styrk og stuðning til að leita síns réttar. Ég hafði ekki hugmynd um það þá að bætast myndu fleiri í hópinn og enduðum við sex með því að kæra, allar úr ólíkum áttum. Svo fólk getur ekki bara gert ráð fyrir að þetta sé einhver tilbúningur. Verst finnst mér að akkúrat það sem að ég óttaðist sem barn, unglingur og fullorðin hefur orðið að veruleika. Já, fólk snýr við manni bakinu og sýnir í raun rétta andlit margra sem að ég hélt að elskuðu mig og stæðu með mér. Myndu hjálpa mér í gegnum þetta. Manneskjur sem segja það upphátt út á við að þær standi með manni en taka svo afstöðu gegn manni og halda að maður viti það ekki. Jafnvel halda áfram að hæla þér. Segja hvað þú sért duglegur að leika við börnin og að hjálpa börnum. Samfélagið sem að þú lifir í núna lætur eins og að ekkert hafi gerst. Börn eru enn að leik í kringum þig, hlaupandi upp tröppurnar heima hjá þér. Mig verkjar í hjartað að vita þetta. Ég ætla ekki að segja upphátt allann hinn viðbjóðinn sem að ég veit um þig enda er það ekki minn staður og þú munt koma til með að standa frammi fyrir því líka. Þá fyrst held ég líka að fólk komi til með að vakna.

seeitstopit

Að standa ekki með fórnarlambinu er að standa með gerandanum og þá í leiðinni að samþykkja verknaðinn.

Ég hefði viljað segja frá mikið fyrr. Það er nefnilega það að sá tími sem að þú hefur til að segja frá er ekki langur miðað við hvað þetta markar mann. Ég gat ekki sagt frá sem barn því ég gat ekki hugsað mér að eyðileggja líf frændsystkina minna og frænku. Ég gat ekki sagt frá sem unglingur því þá áttu þau enn erfiðara með öll þau áföll sem á þau dundu þá. Hvað var ég að ætla svo að eyðileggja líf þeirra enn meir? Nú sem fullorðin, þegar ég hef svo styrkinn, þá er það of seint. Og mér finnst þessi lög alveg hreint fáranleg. Svona mál eiga aldrei að fyrnast.

Þetta eina og hálfa ár eftir að ég kærði hefur verið erfitt, ég er búin að gráta og gráta. Gráta ein með sjálfri mér, gráta á öxlinni á manninum mínum, ég er búin að gráta með systrum mínum, foreldrum, í vinnunni, með ókunnugum, hjá sálfræðingnum og jafnvel úti á götu. En nú græt ég ekki meir, þú átt ekki skilið að marka mig. Ég er hætt að gráta.

Þessi texti hér fyrir neðan er tekinn beint upp úr bréfinu sem að við bæði fengum heim. Það leikur enginn vafi á sekt þessa manns. Ef að þú vilt sjá bréfið í heild sinni skal ég glöð senda þér það og nafn gerandans ef þú vilt. Af virðingu og tillitssemi við fjölskyldu hans hef ákveðið að skrifa það ekki hér. Þó svo að mörg þeirra hafi snúið við mér bakinu. Ef þú ert einnig í svipaðri stöðu eða hefur lent í því sama þá máttu líka bara senda mér skilaboð og spjalla.

Að lokum vil ég bara segja að ég vona að þetta bréf hjálpi einhverjum að finna styrkinn. Við eigum að skila skömminni þangað sem að hún á heima. Við eigum ekki að bera þennan bagga!

„Samkvæmt 108. gr. laga um meðferð sakamála hvílir á ákæruvaldinu sönnunarbyrði um sekt sakbornings og atvik sem telja má honum í óhag.“

Ást og friður.

 

____

Þetta opna bréf birti Hrafnhildur Ýr Rafnsdóttir sem opna færslu á Facebook-vegg sínum í dag, 1. september. Knuz.is endurbirtir það hér með góðfúslegu leyfi og þakkar um leið kærlega fyrir að hafa fengið að deila bréfinu með lesendum sínum.

4 athugasemdir við “Opið bréf þolanda

  1. Elsku elsku blessaða 8 ára barn sem nú er orðin fullorðin, vá styrkurinn sem þú hefur, til hamingju með að stíga út úr skömminni sem enginn kynferðisofbeldisþolandi á að þurfa að vera í en er settur í af brotaaðila .
    Til hamingju með að vera fyrirmynd annara og rísa upp, það þarf styrk og þor.
    Stolt af þér knús

  2. Því miður er þetta alltof algengt, aðjafnvel ættir, vinahópar og heilu þorpin standa með gerandanum. Enginn þorir að rugga bátnum. Þessi stúlka er hetja og ég óska henni og öllum í sömu sporum alls góðs og sendi baráttukveðjur. Enn er langt í land.
    Kærleikskveðja
    Ingunn

  3. Bakvísun: *TW* – *VV* – Saga úr litlu samfélagi | Knúz - femínískt vefrit

  4. Bakvísun: ****TW****VV**** Saga úr litlu samfélagi | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.