Aldrei áður hef ég skynjað jafn sterkt að ég er kona

Höfundur: Leanne Gale

Aldrei hef ég skynjað það jafn sterkt að ég er kona og núna.

Ég stóð á miðju Zíontorgi og litaðist um. Fyrir framan mig voru einkennilegir atburðir að gerast. Karlar úr hópi bókstafstrúaðra [e. orthodox, innsk. þýð.] gyðinga, bæði nútímalegir bókstafstrúarmenn og Haredar, stóðu þar í stórum hópum andstæðis nokkrum vinstrisinnuðum körlum, ísraelskum gyðingum. Miðað við ofsafenginn múginn sem hafði fyllt torgið kvöldið áður virtust þessir gaurar ekki sérlega hættulegir. En þeim lá hátt rómur.

„Þið skiljið þetta ekki! Arabarnir hata okkur af því að við erum gyðingar. Við hötum Arabana af því að þeir eru morðingjar!“

Frá mótmælafundi á vegum Kahanista

Frá mótmælafundi á vegum Kahanista

Nú fór ég að óttast um öryggi vina minna þar sem þeir stóðu þarna einir, umkringdir reiðum Kahanistum. Hópurinn þéttist smám saman um þá. Ég bað þess að ekki kæmi til stympinga. En sem kona fannst mér ég útilokuð frá þessum karlasamskiptum.  Í þessum hópi var ekkert rými fyrir konu til að tjá sig. Ég gat ekki annað en spurt sjálfa mig: Ef þessir menn ráðast á vini mína, get ég þá einhvern veginn notfært mér það að ég er kona til að skakka leikinn?

Þegar við ætluðum að láta okkur hverfa byrjaði einn af Haredunum á ný að þrátta við vin minn. Ég stóð þarna  hjá, þögul, örugg í krafti stöðu minnar sem áhorfandi. Þá sneri hann sér allt í einu að mér og sagði:

„Heyrðu, ég man eftir þér! Þú ert með svona dæmigert, óþolandi vinstrisinnafés, kommatíkin þín!“

Ég stóð andartak kyrr og var hræðilega brugðið. Ég hafði ekkert sagt til að verðskulda þetta en líklega fannst honum nóg að ég væri í slagtogi við vinstrisinnaða karlmenn. Ég reyndi að nota „Ég-setningar“ þar sem ég talaði í fyrstu persónu, og aðrar aðferðir sem ég hef lært til að draga úr spennu í átakasamskiptum á borð við þessi.

„Ja, mér finnst þú móðga mig með því að segja þetta. Ég sagði bókstaflega ekki orð við þig … og mér finnst fésið á þér mjög fallegt.“

„Sko, ef þér finnst svona gott að ríða Aröbum skaltu bara fara til Gaza.“

Þarna gerðist það aftur, ég var útilokuð úr samtali um stjórnmál vegna þess að ég er kona. Þessum manni fannst hann verða að tengja saman vinstrisinnaðar skoðanir mínar og upplifun hans af mér sem kynveru. Og honum fannst hann hafa rétt á að tjá aðdróttanir sínar um kynlíf mitt upphátt, í því skyni að móðga mig. Að því ógleymdu að það fyrsta sem hann sagði við mig tengdist útliti mínu. Feðraveldið í hnotskurn, og það er ógnvekjandi.

Auðvitað hef ég lengi vitað að móðganirnar sem ausið er yfir vinstrisinnaðar konur í landinu mínu hafa alltaf miklu kynferðislegra yfirbragð en það sem sagt er við karlana. Karlarnir eru kallaðir „svikarar“ en konurnar eru gjarnan „druslur“ sem vilja „ríða Aröbum“. Nema þegar karlarnir eru móðgaðir með því að líkja þeim við konur.

Ég gekk áleiðis heim í Nachlaot [hverfi í miðborg Jerúsalem, innsk. þýð.] með Jacob, sem er afar hávaxinn vinur minn. Hópar Kahanista eru á ferli á götunum á kvöldin og Jacob reyndi að finna og rífa niður límmiðana sem þeir setja upp hér og þar og líma í þeirra stað upp slagorð um frið á ljósastaura og veggi. Ég hef oft gert þetta sjálf, og það um hábjartan dag, en nú fannst mér myrkrið og ofbeldið sem lá í loftinu ógnvekjandi.

Límmiðar á vegg í Jerúsalem: "Kahane hafði rétt fyrir sér"

Límmiðar á vegg í Jerúsalem: „Kahane hafði rétt fyrir sér“

Í hvert sinn sem Jacob reif niður límmiða með áletruninni „Kahane hafði rétt fyrir sér“ eða áróðri gegn blöndun kynþáttanna tók hjartað í mér kvíðakipp. Ég skimaði sífellt í kringum mig og reyndi að hafa augun alls staðar, af ótta við vandræði. Í fyrstu gekk allt vel.

Smám saman varð ég rólegri. Við komum auga á límmiða niðri við gangstéttina og beygðum okkur niður til að rífa hann burtu. Þegar ég reif miðann af með berum höndunum leið mér eins og ég væri að biðjast fyrir. Þá var sparkað harkalega í handlegginn á mér.

Unglingsstrákur úr hópi Kahanistanna stóð yfir mér. Hann hafði sparkað í handlegginn á mér. Nú steig hann beint ofan á límmiðann. Ég varð hrædd og þokaði mér fjær en Jacob hvikaði hvergi af gangstéttinni.

„Af hverju ertu að taka þennan límmiða niður?“

„Vegna þess okkur finnst hann ógeðfelldur,“ sagði Jacob.

„Heyrðu, mér finnst þið ógeðfelld! Þú hatar gyðinga!“

„Veistu, ef þú hatar mig þá ert þú líka gyðingahatari!“ Ég leit beint í augu þessa reiða unglings.

„Veistu hvað mér finnst ógeðfellt? Mér, sem konu, finnst mjög óþægilegt að þú skulir hafa snert mig án þess að fá samþykki frá mér.“

„Já, er það? Kærðu mig bara. Ætli það sé ekki öllum skítsama.“

Hrollvekjandi. Það er hrollvekjandi til þess að vita að karlmenn sem beita ofbeldi vita mæta vel að samfélagið mun slá hring um þá, þegar eða ef þeir ráðast á konur. Það er hrollvekjandi að þessi karlmaður skyldi grímulaust hafa notað þá fullvissu til að slá vopnin úr hendi mér.

Ég lagði af stað í burtu og benti Jacob að elta. Þegar pilturinn gekk sjálfur af stað öskraði hann: „Ég hata ykkur!“ Ég æpti á móti: „Það er ekki gagnkvæmt!“ En ég held varla að hann hafi greint orðið gegnum lætin á götunum. Ég vildi eiginlega að ég hefði getað sagt honum að mér þætti vænt um hann. Ég veit að það hljómar kannski einkennilega.

3.

Áróður frá Lehava: "Ekki einu sinni hugsa um ... konur!"

Hótanir á arabísku frá Lehava: „Ekki einu sinni hugsa um gyðingakonur!“

Ég ákveð að ganga fram hjá Zíontorgi á leið heim úr vinnunni. Klukkan er orðið 10 að kvöldið þegar ég legg af stað … það hefur verið mikið að gera. Ég veit að Kahanistar og aðgerðasinnar úr Lehava hafa hist á torginu á hverju kvöldi undanfarið og mig langar að sjá hvað þeir eru að bauka. Ég veit líka að vinstrisinnaðir aðgerðasinnar hafa verið á rölti á svæðinu svo lítið beri á (og stundum svo mikið beri á!) til að reyna að forða uppþotum og ofbeldi. Sumir hafa farið eftirlitsferðir á nóttunni og fram undir morgun til að reyna að vernda þá ógæfusömu Palestínumenn sem kynnu að þurfa að fara um Vestur-Jerúsalem að næturlagi. Lögreglan hefur auðvitað ekki lyft litlafingri. Lehava eru samtök sem hafa að markmiði að „hindra blönduð hjónabönd“ gyðinga og Palestínumanna. Þeir klína límmiðum á arabísku upp um alla veggi í austur- og vesturborginni þar sem stendur „þú skalt ekki einu sinni hugsa um gyðingakonur“. Þeir reka neyðarlínu fyrir gyðingakonur sem þeir fullyrða að séu „fangar“ í samböndum þvert á trúarhópa og fyrir fólk sem vill „tilkynna“ gyðingakonur í fjölskyldunni eða vinahópnum sem eiga í ástarsamböndum við Palestínumenn. Þeir segjast geta aðstoðað fólk í slíkum „vanda“. Og Lehava hefur verið einn mest áberandi hópurinn í Jerúsalem undanfarna daga, þeir selja stuttermaboli á götunum sem á er letrað „Gyðingar elska gyðinga“ og þeir skipuleggja götumótmæli. Margir félaganna eru Kahanistar. En þeir vilja alls ekki kannast við að vera kynþáttahatarar.

Inni á Zíontorgi sé ég að Lehava hefur komið upp sölubás með bæklingum, límmiðum og stuttermabolum. Ég kem auga á vin minn. Hann kemur til mín og segir: „Nei, sko, fasistarnir hafa opnað sjoppuna!“ Undir glensinu heyri ég reiðina og sársaukann í röddinni. Ég færi mig nær, ætla að ná mér í dreifiblað. Þegar ég nálgast borðið réttir einn Lehavagaurinn mér miða. Á honum stendur: „Ísraelskar konur fyrir ísraelsku þjóðina“. Ég þakka honum brosandi fyrir.

Það sem mig langar að segja er „Hvers vegna heldur þú að líkami minn sé þín eign?“

Og ég veit að ég er komin á hættusvæði. Ég veit að líkamar kvenna hafa frá öndverðu verið notaðir til að afmarka félagsleg og pólitísk landamæri. Að karlar hafa fengið útrás fyrir ótta sinn við félagslegar breytingar með því að reyna að stjórna kynverund kvenna. Þegar kvenhatur verður áberandi í lagasetningu og samfélagi, þegar reynt er að skerða sjálfsákvörðunarrétt kvenna, er það til marks um yfirvofandi upplausn og sjálfsmyndarvanda í samfélaginu. Svo ekki sé nú minnst á það kerfislæga ofbeldi sem það hefur í för með sér gagnvart konum.

4.

Hópur ungra kvenna og karla kemur saman fyrir utan lítt þekktan hverfisbar. Við höfum skipulagt aðgerðir: Við ætlum að rífa niður feðraveldislímmiðana í Nachalot-hverfinu. Og ef þörf krefur límum við yfir þá með femínískum slagorðum. Við erum orðnar leiðar á að geta ekki gengið um hverfið okkar án þess að vera áreittar og niðurlægðar fyrir fataval okkar. Fatnaður og líkamar kvenna eru ekki eitthvað sem á að ráðskast með opinberlega og nú ætlum við að endurheimta göturnar okkar.

Ég hef mælt mér mót við konuna sem leigir með mér og systur hennar og ég býð annarri ísrelskri konu að slást í för með okkur. Við förum um allt hverfið og tætum niður þessa svokölluðu „siðgæðismiða“. Okkur líður eins og femínískum skæruliðum og þessi valdeflandi tilfinning gerir okkur svolítið örar. Þetta er í fyrsta sinn all þessa viku sem mér finnst ég ekki valdalaus og máttvana vegna þess að ég er kona.

Við erum að festa femínistalímmiða á ljósastaur rétt hjá markaðstorginu (Hvernig er ég klædd? Hringdu í 118-Kemur-þér-ekkert-við) þegar ung kona nálgast. Hún starir á okkur og spyr svo hvort hún megi líka fá einn svona miða. Við brosum enn breiðar, bjóðum henni að velja sér. Ein okkar útskýrir verklagið.

„Ef þú til dæmis sérð Lehava-límmiða og getur ekki rifið hann niður er hægt að setja svona miða yfir.“

„Hvað hafið þið á móti Lehava?“

Æ, andskotinn. Nú er allt komið í kaldakol. Það kemur á daginn að þessi unga kona situr í stjórnarnefnd – framkvæmdastjórn? Lehava. Hún þverneitar að kannast við að Lehava sé andfemínísk eða rasísk samtök.

„Samtökin vilja bara vernda gyðingakonur fyrir arabískum karlmönnum, er það ekki bara fínt?“

„En ég þarf enga vernd gegn þeim,“ segi ég.

„Kannski ekki þú, en það eru til konur sem velja sér ranga leið í lífinu.“

„Veistu bara hvað, fyrsti kærastinn minn var Arabi. Ég elskaði hann mjög mikið. Mér fannst ég aldrei þurfa neina vernd fyrir honum.“

Hún lítur á mig, öldungis hlessa. Þegir. Svo snýr hún sér að ísraelsku konunni við hliðina á mér og byrjar að þrasa í henni. Segir ekki aukatekið orð við mig eftir þetta.

Á meðan ég rölti heim hugsa ég um hvað þetta er kolruglað ástand. Miðað við Jerúsalem og það sem hefur gengið á hér undanfarið var ekkert óeðlilegt við þessi samskipti. Aðgerðarsinnar, bæði úr Lehava og Kahanistarnir, hafa verið á sveimi út um allt á degi hverjum. En miðað við lífið í stærra samhengi var þetta EKKERT eðlilegt. Hvað nú ef ég hefði verið í New York og rekist þar á unga konu úr Ku Klux Klan? Sem hefði sagt mér fullum hálsi að hún væri nú enginn rasisti? Jú, það gæti kannski gerst, einmitt í New York. En það væri í skársta falli fáránlegt. Í versta falli óhugnanlegt. Í hvaða veruleika er ég eiginlega stödd?

Aldrei hef ég verið jafn rækilega minnt á að ég er kona. Aldrei fyrr hef ég verið jafn meðvituð um tvöfalda stigmatíseringuna sem fylgir því að vera bæði vinstrisinnaður aðgerðasinni og kona. Ég hef aldrei fyrr verið jafn meðvituð um það hvað þetta getur þýtt fyrir mig, hér í Ísrael.

Á meðan ég tipla í kringum óttann og hrollinn og reyni að botna í því hvað þetta merkir allt rifjast upp fyrir mér dálítið sem mér var einu sinni kennt um fasisma. Í fasískum stjórnmálahreyfingum og fasískum samfélögum leitast yfirstjórnin alltaf við að festa í sessi eða endurreisa hefðbundin kynhlutverk. Karlar eru settir í hlutverk stríðsmanna og konur eiga að sjá um barneignir. Þetta er undirliggjandi í flestum samfélagsgerðum en fasisminn ýkir það og undirstrikar. Það er haft strangt eftirlit með kynverund fólks og refsað er fyrir öll frávik með ofbeldi eða dauða.

Innst í hjarta mér veit ég að það sem ég upplifi í Jerúsalem þessa dagana er undiralda fasismans. Og ég veit að ég verð að hlusta á rödd hjartans. Það er erfitt að vaxa og eflast og elska á stað þar sem ég er alltaf svona hrædd. Oft langar mig mest að þagga niður í rödd minni sem konu, sérstaklega röddinni sem hefur stjórnmálaskoðanir og vill tjá þær.

En þótt röddin skjálfi stundum læt ég hana enn heyrast. Ég tala. Ég skrifa. Ég þarf að segja svo margar sögur.

Leanne Gale er bloggari, aðgerðasinni og femínisti. Þessi færsla birtist fyrst hér og er þýdd og birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

Halla Sverrisdóttir þýddi.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.