Ert þú femínisti?

Höfundur: María Rós Kaldalóns

 

Ljósmyndin er eftir Atla Arnarsson

Ljósmyndin er eftir Atla Arnarsson

 

Síðastliðið vor áttum við í 10. bekk Hagaskóla að gera samfélags­- og stærðfræðiverkefni þar sem við áttum að vinna með tölfræðilegar upplýsingar. Mér var svolítið brugðið þegar ég fór yfir verkefni félaga míns og hans hóps, en hann var að rannsaka viðhorf Hagskælinga til femínisma. Hópurinn spurði 120 nemendur tíu spurninga. Ein spurninganna var       þessi: „Ert þú femínisti?“ Þeirri spurningu svöruðu aðeins 40% játandi, en 11% svöruðu því til að þau væru það, en fyndist þau ekki geta sagt það opinberlega.

Femínisti er skilgreindur sem karl eða kona sem gerir sér grein fyrir því að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því. Ég hreinlega neita að trúa því að aðeins rétt rúmlega helmingur allra þessara krakka telji sig falla undir þessa skilgreiningu, og enn erfiðara finnst mér að trúa því að 11% þeirra finnist að þau geti ekki viðurkennt það opinberlega. Af hverju í ósköpunum ætti einhver að vera hræddur við að viðurkenna það eitt að hann eða hún styðji jafnréttisbaráttu kynjanna?

Það er einmitt málið: að allt of margt fólk tengir femínisma við neikvæða hluti. Ég get tæpast talið hversu oft ég hef heyrt manneskju viðurkenna að hún sé femínist, en neita aftur á mótí að kenna sig við hann. Þetta er í mörgum tilfellum vegna fordóma og ranghugmynda sem fólk hefur um femínismann. Eins og við vitum flest eru fordómar fyrst og fremst byggðir á fáfræðinni og fordómar gagnvart femínistum eru engin undantekning á því. Fæstir þeirra sem kalla sig jafnréttissinna, en vilja ekki kalla sig femínista, vita nákvæmlega hvað það þýðir að vera femínisti.

Ég segi ekki að þetta eigi við um alla, vegna þess að það er til fólk sem heldur því fram að bæði lögum samkvæmt og að á huglægan hátt ríki fullkomið jafnrétti milli kynjanna. Staðreyndirnar sýna hins vegar að svo er ekki. Það verður seint hægt að sanna huglægt ójafnrétti, það er að segja skoðanir og viðhorf fólks, en við gerum okkur vonandi flest grein fyrir því að allt of víða ríkir mikil kvenfyrirlitning og að staðalímyndir kynjanna eru langt frá því að eiga sér stoðir í raunveruleikanum. Þótt ég geti ekki sannað hið huglæga ójafnrétti, þá get ég sannað það að sums staðar í heiminum er er ekki komið eins fram við konur og aðrar manneskjur og að fyrir því eru lagaheimildir í þeim löndum. Það eru til lönd þar sem konur skortir réttindi sem við á Íslandi teljum vera sjálfsögð mannréttindi, sem þau eiga auðvitað að vera. Það að segja: að fullkomið jafnrétti ríki milli kynjanna í heiminum er því ekki gild skoðun, vegna þess að það er einfaldlega ekki rétt. Það er svo sem gild skoðun að það jafnrétti sem ríkir í dag sé nóg, en finnst fólki virkilega í lagi að það séu til staðir þar sem konur njóta ekki grundvallarmannréttinda? Staðir þar sem konum er nauðgað og svo refsað fyrir það, staðir þar sem konur eru grýttar fyrir það eitt að hafa skoðun? Er þetta virkilega ásættanlegt ástand? Það finnst mér svo sannarlega ekki.

Það er þörf fyrir femínismann í okkar samfélagi, en það er alltaf hægt að fara út í öfgar með allt. Þegar manneskja sem kennir sig við femínismann heldur því fram að annað kynið ætti að vera hinu æðra, stígur sá hinn sami út fyrir merkingu hugtaksins í eðli sínu. Það að til dæmis mótmæla því að jólasveinarnir séu karlkyns er í sjálfu sér alls ekki tengt femínisma. Það að þú sért femínisti þýðir ekki að þú sért á móti öðru hvoru kyninu, það þýðir ekki að þú viljir afnema kynbundin orð í tungumáli okkar, það þýðir ekki endilega að þú sért með kynjakvótanum í Gettu Betur, heldur þýðir það aðeins að þú gerir þér grein fyrir því að kynin eru ekki jöfn, og að það sé eitthvað sem þarf að bæta. Ekki láta ringlaðar kvenrembur skemma fyrir okkur femínismann, myndum okkar eigin skoðanir út frá staðreyndunum.

Kæri lesandi, ef þú telur þig enn ekki vera femínista eftir að hafa lesið þetta stangast siðferðiskennd þín svo sannarlega á við mína.

Þessi pistill birtist fyrst hér, í vefritinu Þrívídd. Hann er endurbirtur með góðfúslegu leyfi höfundar og Þrívíddar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.