Ekki tröllun: ofbeldi

Höfundur: Elísabet Ýr Atladóttir

**Ég vil vara sérstaklega við hlekkjum í greininni, þar sem efni getur verið triggerandi**

Nú nýlega gaf Anita Sarkeesian, femínisti, mynbandsframleiðandi og tölvunörd, út sitt sjötta myndband í Tropes vs. Women seríunni sinni. Sarkeesian hefur þurft að þola stórfellda áreitni og ofbeldi fyrir það eitt að dirfast gagnrýna hvernig tölvuleikjaiðnaðurinn meðhöndlar konur í leikjunum sem þeir framleiða.

60b43d456442f96ad235091b05f0c621_large

Í kjölfarið á nýjasta myndbandinu, Women as Background Decoration: Part 2, þurfti Sarkeesian að yfirgefa heimili sitt því hún fékk skelfilegar hótanir. Þar sem ofbeldismaðurinn hafði einhvernveginn komist yfir upplýsingar um heimilisfang hennar fannst henni að hún og fjölskylda hennar væri ekki örugg og fór því heim til vinafólks og gerði lögreglu viðvart. En í staðinn fyrir að taka þessa atburðarrás alvarlega og fordæma glæpinn fyrir það sem hann er, þá hefur almenningur og fjölmiðlar kallað þetta “tröllun”.

Það er ekki óalgengt að ofbeldi sem fer fram á netinu, sérstaklega gegn undirskipuðum og minnihlutahópum, sé afsakað eða gert lítilvægt á þennan hátt. Að kalla ofbeldismann “tröll” er eins og að segja að þetta sé einn stór brandari, að hann sé ekki ábyrgur orða sinna og gjörða því í eðli sínu er tröll að “djóka”, að reyna að búa til vandræði og rifrildi og átök. Orðin tröll, tröllari og tröllun komu í kjölfarið á því að margir netnotendur gerðu mikið úr því að þykjast vera aðrir en þau væru til að skapa átök og leiðindi og til að afvegaleiða umræður bara uppá djókið. Þetta er þekkt internetfyrirbæri, og mörgum finnst línan milli tröllunar og ofbeldis vera fremur óskýr.

Þessi lína er samt mun skýrari en fólk vill halda.

Það er ekki erfitt að sjá að það sem Anita Sarkeesian hefur þurft að ganga í gegnum er ofbeldi. Það er mun auðveldara að þykjast að það sé ekki alvarlegt því það “er á internetinu”, eins og internetið sé eitthvað svæði þar sem allt má og ekkert er glæpur og ekkert sem gerist þar hafi margvísleg áhrif á líf fólks og tilveru. Aldrei þurfa gerendur að taka ábyrgð á því sem þau gera, því það er einblínt á hvað þolandi er að gera eða ekki gera. Það er kerfisbundið brotið á tjáningarfrelsi Anitu Sarkeesian með þessu ofbeldi, þessum þöggunartilraunum. Og fólk reynir svo að réttlæta það með aumkunarverðum afsökunum, kenna henni um með útúrsnúningum, eða með því að þykjast að þetta sé einn stór brandari. Bara tröll.

Á sama tíma og Anita Sarkeesian verður fyrir stórfelldum árásum á einkalíf sitt, henni hótað og öryggi hennar ógnað á hverjum degi, kemur bersýnilega í ljós hatrið sem konur fá fyrir það eitt að tala gegn kynjamisrétti. Ofbeldismennirnir eru leystir undan ábyrgð með að kalla þá “tröll”, og virkir í athugasemdum taka þátt í ofbeldinu með að kenna henni um það. “Hún bað um það því hún fékk meiri peninga en hún bað um í gegnum kickstarter. Hún bað um það því hún bannaði komment á youtube myndböndin sín. Hún fær bara fullt af athygli út á þetta, þannig þetta er í fínu lagi. Hún bað um það því hún er ekki alvöru leikjanörd eins og ég. Hún bað um það því ég held að það sé eitthvað stórt samsæri og hún sé örugglega með einhverja vonda svikamyllu sem framleiðir lygar og lætur mér líða illa með sjálfan mig, aumingja ég!”

victimblaming_01

Karlremburnar koma upp um sig allsstaðar. Afsakanirnar verða bara verri og verri. Og alltaf er þemað það sama: hún bað um þetta. Einhvernveginn verða rökhugsandi menn að mjálmandi fávitum þegar málið snýst um konu sem dirfist að tala um kvenréttindi og ímynd kvenna í tölvuleikjum. Og þeir sjá ekki einu sinni kaldhæðnina við þetta allt saman. Í hvert skipti sem hún bendir á vandamálið koma þessir menn og sýna fram á að hún hafi rétt fyrir sér.

Í hvert og eitt einasta skipti.

Netið er ekki tómarúm sem hefur engin áhrif. Orðræða skiptir máli og netið er orðinn aðalsamskiptamáti ótrúlega margra. Ofbeldisfólk og stuðningsfólk þeirra getur ekki falið sig á bak við málfrelsi þegar þeir brjóta á mál- og persónufrelsi þeirra sem þau ofsækja, eða þóst að fyrst að þetta gerðist á netinu þá gerðist þetta í raun ekki. Þau geta ekki búið til heimskulegar afsakanir og ætlast til að fólk taki þau alvarlega. En einhvern veginn gera þau það samt.

Grímurnar falla, fávitarnir ýlfra á tunglið um að allt sé svo ósanngjarnt og hvað þessar kellingar eru að skemma allt það góða í lífinu, og femínistar berjast áfram. Anita Sarkeesian er ekki sú eina sem hefur þurft að þola stórfelldar hótanir og hatur fyrir það eitt að vera kona með skoðanir.

Með að opinbera ofbeldið, fáránlega orðræðu og þolendaskammandi fávita getum við barist gegn þeim. Árin sem internetið var nýtt og ábyrgðarlaust svæði eru liðin og því verðum við að hætta að kalla ofbeldismenn tröll. Hættum að ímynda okkur að internetið sé tómarúm.

3 athugasemdir við “Ekki tröllun: ofbeldi

 1. Þetta minnir nokkuð á ofsóknirnar gegn Salman Rushdie eftir að hann skrifaði Söngva Satans. Þá urðu ansi margir einnig til að rísa upp og segja að þetta væri honum sjálfum að kenna, hann hefði kallað þetta yfir sig, hann væri bara að biðja um athygli o.s.frv. Það virtist ekki skipta neinu máli að höfuðið á ríki hefði boðið fólki peninga í sínu eigin nafni til að myrða rithöfund fyrir að skrifa bók. Rithöfund sem var ekki frá sama landi og höfuðið á ríkinu og sem bjó í London.

  Tröllun er það þegar einhver afvegaleiðir vísvitandi umræður með stælum og útúrsnúningum. Sá sem hótar manneskju ofbeldi er þegar búinn að fremja andlegt ofbeldi á henni og því er það orðið að lögreglumáli. Ég er sammála því að mörkin þarna á milli eru mjög skýr.

  Svo mætti nördakúltúrinn fara að hugsa sinn gang. Ég held að þú finnir hvergi meiri kvenfyrirlitningu, rasisma og hómófóbíu á Vesturlöndum en innan hans.

 2. Íslenzku tröllin eru stærri og skelfilegri (en líklegast heimskari) en hin hálfskaðlausu en illkvitnu smá“troll“ þeirra Engilsaxa þó svo að orðauppruninn sé auðvitað sá sami. Því er tröllun e.t.v. „alvarlegri“ atburður en trolling, hughrifslega.

  En hvað um það. Það er engum málstað til framdráttar að fara í manninn frekar en boltann, að hóta ofbeldi, jafnvel í misheppnuðu gríni, og ef málstaðurinn þolir ekki málefnalega umræðu, þá ætti maður að finna sér eitthvað annað til þess að „berjast“ fyrir, já eða bara sleppa því.

  Myndböndin hjá Anitu eru skemmtilega skelegg, þó svo að þeim hætti til að verða svolítið einstrengingsleg og e.t.v. ekki fyllilega sanngjörn; en það er óþarfi að gera þá kröfur til fólks sem berst fyrir ákveðnum hugmyndum og hagsmunum að taka ítrasta tillit til allra málsbóta mótherjanna, þá verður umræðan oft daufari og óáhugaverðari. En sjónarhornið er upplýsandi og þarft.

 3. Bakvísun: 4chan: ekki fórnarlamb | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.