Markaðsvætt ofbeldi gegn konum – ræða Tönju Rahm II

27. ágúst 2014 hélt Tanja Rahm ræðu í Finnlandi þar sem hún talaði opinskátt um vændisheiminn og menninguna sem heldur honum á lífi. Hún er meðlimur og ein opinberra talsmanna SPACE International, sem eru samtök fyrir þolendur vændis. Ræðan er hér þýdd og birt með góðfúslegu leyfi hennar. Þetta er seinni hluti af tveimur.

**TW/VV**

 

Dönsk götumynd: Reiðhjól og vændi

Dönsk götumynd: Reiðhjól og vændi

Í Danmörku er vændi álitið samfélagslegt vandamál. Við bjóðum vændiskonum upp á útgönguleiðir, úrræði til að hjálpa þeim að hætta í vændi og byrja að lifa eðlilegu lífi. Þá á ég við að hjálpa þeim með sálfræðimeðferð, meðferð við margs konar fíknisjúkdómum og aðstoð við menntun og fjárhagsvandamál. Danska ríkisstjórnin leggur 46 milljónir danskra króna í þetta. Erum við með „útgönguleiðir“ fyrir önnur störf í Danmörku? Nei, það erum við ekki. Og hvers vegna skyldi það vera? Það er vegna þess að við vitum, í hjarta okkar, að fólk verður fyrir skaða af vændi. Á meðan við hunsum þá staðreynd að vændi er skaðlegt, og veitum fólkinu sem skaðar vændiskonurnar vernd samkvæmt, getum við ekki verndað þau sem verða fyrir ofbeldi, þau sem eru misnotuð og höfð að tekjulind annarra í vændi.

Eina leiðin til að hjálpa vændiskonum er að ríkisstjórnin ákveði að taka á málinu. Að yfirvöld glæpavæði fólkið sem heldur vændiskonum í viðjum þessa iðnaðar. Og þess vegna er engin önnur leið fær en að glæpavæða fólkið sem kaupir vændi. Það er sama hvernig þeir sem eru hlynntir löglegu vændis nálgast málið, það eru allt of margar hliðar á þessum iðnaði sem eru í raun ofbeldi. Og það er það sem þið þurfið að skilja, að ofbeldi í vændi er flókið. Það er ekki bara að vera lamin, að sparkað sé í þig eða þér sé nauðgað. Ofbeldið er svo miklu meira en það.

Ofbeldið er andlegt og munnlegt

Það getur birst sem uppnefni, móðganir, niðurlæging, ógnun, ógnandi hegðun, ógnandi líkamstilburðir og óþægileg og skyndileg umbreyting úr því að vera góður og umhyggjusamur yfir í það að vera ruddalegur og ógnandi. Það getur líka birst í því að opinbera uppruna þinn.

Ofbeldið er líka líkamlegt

Það getur verið að þér sé ýtt eða togað sé í þig, skyrpt á þig, hlutum hent í þig, þú lamin eða að það sé sparkað í þig, rifið í hárið á þér eða þú tekin hálstaki.

Ofbeldið er kynferðisofbeldi

Það getur verið að það sé bitið í eyrað á þér, vörina, kinnina eða geirvörturnar. Ofbeldið getur verið það að kyssa þig, sleikja á þér andlitið, taka smokkinn af, setja fingurna inn í þig, gera meira eða annað en samið var um fyrir fram, það getur verið það kúnninn þrýsti sér svo fast inn í þig að það er líkamlega vont, að þú getir ekki gengið á eftir, skeint þér eftir klósettferðir eða jafnvel farið í buxur.

Ofbeldið getur líka verið efnislegt

Kannski rífur hann nærfötin þín í tætlur, rífur sokkabuxurnar þínar eða slítur hálsmenið þitt viljandi af þér.

Ofbeldið er jafnvel fjárhagslegt

Kannski vill hann ekki borga verðið sem upp var sett og ýtir þér þannig meðvitað út í að gera eitthvað sem þú vildir ekki gera, eða þrýstir á þig að veita afslátt. Því þú veist, fyrir honum ertu ekki manneskja. Þú ert varningur. Og eins og þú veist reyna allir að fá afslátt af verði fyrir varning, ef það er mögulega hægt. Það versta er samt þegar hann er fullur eða í fíkniefnavímu og getur ekki fengið það og kennir þér um það. Kallar þig skítuga mellu og vill fá peningana sína til baka. Þegar þú liggur þarna, nakin, og finnst þér ógnað er auðveldara að láta hann bara fá peningana, frekar en að hætta á að vera lamin.

Vændiskonur þjóna stétt karla, en þær tilheyra svo sannarlega ekki sömu stétt og þeir, því karlmenn vilja ekki vera bendlaðir við það að hafa keypt þær. Þeir vilja þekkja konur í sínu samfélagslega lífi, en karlmenn sem kaupa vændi hafa engan áhuga á að byggja og næra sambönd við vændiskonur því þeir vita að það sem þeir gera er siðferðislega óásættanlegt. Ef þeim þætti það ásættanlegt, myndu þeir þá ekki segja fólki frá því? Myndu þeir ekki hrópa það stoltir á torgum að þeir hefðu keypt sér vændiskonur? Væru þeir ekki búnir að segja eiginkonum sínum, börnum og fjölskyldum frá því? Eða jafnvel samstarfsfélögum og vinum?

Þeir vita að það sem þeir gera er rangt. Það er ástæðan fyrir því að kúnnar verða oft svo árásagjarnir. Það sprettur af skömminni, og af öllu því sem vændiskonan táknar og sem minnir hann á það sem hann er að gera. Og sú tilfinning getur leitt til gremju, reiði og ofbeldis.

Þegar þér verður ljóst hversu flókið ofbeldið er í raun muntu skilja að vændi getur aldrei orðið venjuleg starfsgrein, að það eina sem þú getur gert er að glæpavæða þá sem skipuleggja vændi, halda því við og misnota vændisfólkið. Í þeirra hópi eru að sjálfsögðu þeir sem borga fyrir að beita því kynferðislega ofbeldi sem vændi er.

Vændi er eins alls staðar í heiminum og skaðinn sem það veldur er líka alls staðar sá sami. Mennirnir sem kaupa kynlíf eru líka þeir sömu. Þeir sem höfðu ferðast til Danmerkur frá Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Þýskalandi, Englandi, Skotlandi, Bandaríkjunum, frá Kína eða Japan eða hvaða landi sem, og keyptu kynlíf með mér komu mér nákvæmlega eins fyrir sjónir og þeir dönsku karlmenn sem keyptu mig. Það er enginn munur á milli landa. Að kaupa kynlíf er í raun að kaupa aðgang að því að fróa sér inn í aðra manneskju, manneskju sem er bara þarna vegna þess að hún þarfnast peninganna. Og það er ofbeldi.

Eins og ég sagði hafa margar konur, víða um heiminn, reynt að segja sannleikann um vændi og það sem fer fram innan vændisiðnaðarins. En sá sem talar gegn vændisheiminum tekur mikla áhættu. Sú manneskja á á hættu að verða fyrir hótunum, vera hötuð, vera sagt að hún hafi ekki verið nógu töff, sé of veiklynd, að vændi sé ekkert fyrir alla, að vera sagt að hún megi ekki tala um það sem hún varð fyrir þegar hún seldi sig, að fyrst hún tók við peningum fyrir vændi verði hún alltaf hóra. Það sem stuðningsfólk vændisiðnaðarins reynir að gera er að hræða konur frá því að segja sannleikann um upplifanir sínar af vændi til að aðrir muni aldrei fá að heyra sannleikann um það.

Forsíða leiðbeiningabæklings fyrir byrjendur í vændi

Forsíða leiðbeiningabæklings fyrir byrjendur í vændi

Þið heyrið sjaldan frá þessum konum, en það er ekki vegna þess að þær séu ekki til. Það er vegna þess að þær eru ekki tilbúnar til að standa frammi fyrir samfélagi sem hefur engan áhuga á að heyra um reynslu þeirra. Fyrir utan að það tekur ótrúlega langan tíma að átta sig á því með hvaða hætti vændiskerfið hefur skilyrt þær til að halda að þeim þætti í raun alveg frábært að láta menn rúnka sér inn í sig fyrir peninga. En þessar konur eru þarna. Og eins og þið munið sjá munu fleiri og fleiri konur snúa bökum saman, um allan heim, til að berjast fyrir jafnrétti og fyrir réttinum til að vera annað og meira en kynferðislegt viðfang sem getur gengið kaupum og sölum.

Ég steig fram opinberlega fyrir þremur og hálfu ári. Þá var ég 33 ára gömul og hafði verið laus úr vændisiðnaðinum í 11 ár. Það tók mig þau 11 ár að púsla mér saman, með ærinni fyrirhöfn. Ég þrælaði mér í gegnum níu ár af meðferð, bara til að vera viss um að þegar ég kæmi fram með mína sögu myndi ég geta það án tára, án þess að finna fyrir vott af eftirsjá eða hatri og með þeim styrk sem þyrfti til að þola þá mótstöðu sem ég vissi að ég myndi fá, og aðallega frá körlum. Og ég veit að aðrar konur eyða mörgum árum að berjast fyrir því einu að geta lifað eðlilegu lífi. Sumum þeirra mun aldrei takast það. Sumar þeirra eru áfengissjúklingar og vímuefnafíklar, aðrar berjast við áfallastreituröskun, kvíðaraskanir, þunglyndi og sjálfsmorðshugsanir og enn aðrar eru nú þegar dánar.

Svíþjóð varð fyrsta landið í heiminum til að glæpavæða vændiskaupendur. Svíþjóð er aðdáunarverð fyrirmynd. Það sem þau lög gerðu var að efla réttindi kvenna, ekki réttinn til svokallaðs „valfrelsis“ heldur rétt þeirra til að vera ekki hlutgerðar. Sænsk yfirvöld ákváðu að berjast gegn vændi vegna þess að þau sáu það sem svo fáir vilja sjá – að vændi er ofbeldi sem beinist einkum gegn konum. Með þessum lögum tryggðu sænsk yfirvöld að það væri óásættanlegt fyrir karlmenn að kaupa annað fólk til að seðja kynferðislegar langanir. Með lögunum var verið að reyna að stöðva fólk í að kaupa kynlíf og fækka þeim sem sæta misnotkun í vændi. Einnig var dregið verulega úr gróðavoninni af því að reka hóruhús og stunda mansal. Noregur fylgdi í kjölfarið og tók upp sænsku leiðina. Í þessum mánuði var gefin út matsskýrsla um virkni laganna.

Leyfið mér nú að segja ykkur frá því hvaða áhrif þessi lög hafa haft í Svíþjóð og Noregi:

Mansal hefur minnkað stórkostlega, samanborið sambærileg ríki.

Vændiskonum finnst lögin hafa fært þeim aukið vald yfir aðstæðum sínum því þær vita að lögreglan er með þeim í liði, og að þær geta látið yfirvöld vita ef manneskja sem er að kaupa þær ógnar þeim.

Lögin hafa gert vændiskonum auðveldara að komast úr vændi og fá þá hjálp sem þær þurfa til þess.

Ekkert bendir til þess að ofbeldi gegn vændiskonum hafi aukist. Norskt og sænskt lögreglufólk og götuvændisfólk staðfestir það mat.

Það eru heldur engin merki um að vændi eða rekstur hóruhúsa sé faldari en áður.

Götuvændi í Svíþjóð hefur minnkað um helming og í Noregi hefur vændisstarfsemi minnkað um 45%.

Lögin hafa dregið úr skipulagðri glæpastarfsemi.

Í annarri skýrslu er áætlað að fjöldi mansalsþolenda í Evrópu sé um 270.000 manns, og Þýskaland og Holland hafa verið flokkuð meðal fimm stærstu „blindsvæðanna“ (blackspots) hvað þetta varðar.

Og þetta er það sem karlkyns hóruhúseigandi sagði í heimildarmynd um vændi í Þýskalandi, þegar hann var spurður að því hvort hann yrði sáttur við að dætur hans tvær kæmu til starfa á hóruhúsinu hans:

„Óhugsandi, óhugsandi. Spurningin ein veldur mér sárri angist. Ég vil ekki móðga vændiskonur en ég reyni að ala börnin mín upp þannig að þau fái fjölbreytt starfstækifæri. Fæstar vændiskonur fá slík tækifæri. Þess vegna eru þær í þessu starfi.“

Ég veit hvað hann meinar. Þegar ég steig inn í vændisheiminn trúði ég því ekki að ég hefði val um neitt annað. Ég hélt að það eina sem ég gæti og kynni væri að þjónusta kynlanganir karla. Ég væri einskis virði. Og mér fannst ég þurfa að gera mig ánægða með að ég hefði þó þetta tækifæri til að þéna alla þessa peninga með því að gera eitthvað sem ég hafði verið heilaþvegin til að halda að væri fullkomlega eðlilegt. Í raun varði ég það „val“ mitt að starfa í vændi með að segja að allir aðrir væru bjánar sem þræluðu alla vikuna og fyrir innan við helminginn af mínum launum. Það sem ég vissi ekki þá var að það sem ég var að selja átti aldrei að vera falt.

Ég seldi sæmd mína, sjálfsvirðingu og stolt. Ég seldi traust mitt á karlmönnum, og vonina að það væru til karlmenn sem væru traustsins verðir, sem gætu litið á mig sem manneskju. Það sem ég lærði í vændi var að ég gæti ekki treyst karlmönnum. Þeir væru ótrúverðugir lygarar, þeir leyndu ljótum eiginleikum sínum. Allt það versta í þeim fékk ég að sjá sem vændiskona, alla ofbeldisórana, reiðina, fyrirlitninguna á mér sem vændiskonu. Hvernig þeir reyndu ekki einu sinni að leyna því sem þeim fannst um mig. Margir þeirra sögðu mér það berum orðum. Reyndu aftur og aftur að fara yfir mörkin mín, bara því að þeir gátu og máttu. Bara til að sýna mér hversu litla virðingu þeir báru fyrir mér.

Mér hefur verið nauðgað á hóteli, ég hef ótal sinnum verið í aðstæðum þar sem ég var hrædd við að biðja karlana um að hætta því ég vissi að það gæti gert þá ofbeldisfyllri og harkalegri. Í eitt skiptið tók kúnninn mig hálstaki á meðan hann tók mig, annar reyndi að brenna niður hóruhús á meðan ég var þar inni, annar elti mig svo ég var hrædd við að fara heim, því þá myndi hann vita hvar ég bjó. Leigubílstjóri misnotaði mig í leigubíl þegar hann sá að heimilisfangið sem ég gaf honum var hóruhús. Aldrei nokkurn tíma sýndi hóruhúseigandinn mér neina samúð eða stuðning.

Í leiðbeiningabæklingi fyrir byrjendur frá Samtökum starfsfólks í kynlífsþjónustu í Danmörku eru eftirfarandi ráð sem fylgja á þegar maður fær kúnna sem maður vill ekki vera með:

„Segðu honum að þú bjóðir ekki upp á það sem hann vill. Gefðu honum upp hærra verð, verð sem þú veist að hann vill ekki borga. Segðu honum að þú sért nýbúin að fá bókun frá öðrum kúnna (getur kennt konunni sem tekur við pöntunum um fyrir að hafa gleymt að láta hann vita).“

Úr leiðbeiningum fyrir byrjendur í kynlífsþjónustu, frá www.s-i-o.dk/

Úr leiðbeiningum fyrir byrjendur í kynlífsþjónustu, frá http://www.s-i-o.dk/

Og af hverju áttu að ljúga að honum? Af hverju máttu ekki bara segja honum að þú laðist ekki að honum, viljir ekki vera með honum? Ég held þið vitið það öll, en ég segi það samt: Það er vegna þess að það eru allar líkur á að hann verði reiður yfir að hafa verið hafnað af „helvítis hóru“.

Í sömu leiðbeiningum segir líka: „Gefðu manninum tækifæri“. Þannig að það var það sem þú gerðir. Gafst fullt af kúnnum tækifæri, þótt þú vildir þá ekki. En þú varst of hrædd við að hafna þeim. Þetta var það sem ég upplifði í þrjú ár í vændi. Það tók mig níu ár að læra að treysta karlmönnum aftur, jafnvel þótt ég vissi að allar verstu hliðar þeirra geymdu þeir fyrir vændiskonurnar.

Þegar ég var vændiskona vann ég á sumum af fínustu hóruhúsunum í Danmörku. Flottum klúbbum með gufubaði og lúxus sem kaupsýslumenn sóttu, hóruhúsum sem voru með biðlista fyrir konur sem vildu vinna þar. Ég var líka dýr fylgdarkona, og á þeim tíma sannfærðum við okkur sjálfar um að það sem við værum að gera væri svo miklu skárra en það sem götuvændiskonurnar og konurnar í verri hóruhúsunum gerðu. En í raun vorum við að allar að gera nákvæmlega það sama, að stunda gervikynlíf fyrir peninga. Það skipti engu máli þótt lakið væri hreint. Það voru karlarnir og það sem þeir gerðu sem gerði þetta ógeðslegt og óþægilegt. Karlarnir voru alltaf eins og það sem þeir gerðu var alveg eins. Í raun er ég nokkuð viss um að því meiri peninga sem þeir höfðu, þeim mun verri og stjórnsamari urðu þeir, því hærri sem fjárhæðirnar voru, þeim mun oftar reyndu þeir að stíga yfir mörkin, ískaldir og fullir hroka á meðan.

Ef við glæpavæðum ekki vændi munu konur upplifa enn frekari hlutgervingu. Ef við sendum ekki þau skilaboð að vændi skaðar fólk mun almenningur trúa því að hver sem er geti verið vændiskona, og koma fram við allar konur á þann hátt. Konur eru nú þegar beittar ofbeldi og nauðgunum. Því meira sem þær eru hlutgerðar, þeim mun verra verður ofbeldið, þeim mun fleiri verða nauðganirnar.

Vændi auglýst í dönsku dagblaði

Vændi auglýst í dönsku dagblaði

Að sjálfsögðu dugar glæpavæðingin ekki til ein og sér. En til að geta tekið tjónið sem hlýst af vændi alvarlega þarf maður að geta séð vandamálið eins og það er í raun. Glæpavæðing vændis gerir kröfu um að komið verði á fót úrræðum fyrir vændiskonur. Þær munu þurfa fría meðferð, aðstoð við fjárhagsvanda og allan þann stuðning og alla þá hvatningu sem þær þurfa, jafnvel þótt þær hafi ekki borgað skatta. Karlmennirnir sem geta ekki lengur keypt kynlíf munu þurfa ráðgjöf með nafnleynd, þar sem þeir geta lært um aðra valkosti. Það verður að leggja áherslu á forvarnir, það verður að mennta ungt fólk um skaðann af vændi og um afleiðingar vændis. Það þyrfti að leggja mun ríkari áherslu á að fræða unglinga, þá sem eru berskjaldaðir, þá sem eiga á hættu að „velja“ að stunda vændi, til að tryggja þeim öruggara líf. Og svo þarf að kenna lögreglunni hvernig á að vernda vændiskonurnar. Lögreglufólk þarf að læra hvernig á að mynda traust og jákvæð tengsl við vændiskonur svo að þeim sem þurfa áfram að selja sig líði ekki eins og þau sæti ofsóknum, heldur upplifi að þau séu vernduð af lögreglunni.

Svíþjóð hefur náð árangri, Noregur hefur náð árangri. Ísland og Frakkland munu finna fyrir þessum árangri. Tökum næsta skrefið og stöndum saman til að berjast gegn misnotkun og ofbeldi gegn konum.

Oft er ég spurð: „Hefði allt verið öðruvísi fyrir þig, ef það hefði verið ólöglegt að kaupa vændi?” Svar mitt er já! Þá hefði ég vitað að það sem þessir menn voru að gera var rangt. Árum saman tíma kenndi ég sjálfri mér um. Hugsaði  sem svo að þetta væri allt mér að kenna. Ég „valdi“ að vera vændiskona. Ég gaf mönnum tækifæri á að kaupa mig. Ég tók við peningunum. Hvernig gat ég kennt þeim um? Ja …  ég bað svo sem ekki um ofbeldið og kynferðisofbeldið. En ég fór á þetta hóruhús tvisvar í viku. Hvernig gat ég kennt einhverjum öðrum um?

En ég gat það og get það enn. Ríkisstjórnin hefði átt að vernda mig með lögum gegn ofbeldismönnunum. Lögin hefðu átt að tryggja að ég gæti fengið hjálp til að komast út þegar ég vildi og þurfti á því að halda, eftir fyrsta árið í vændinu. Með því að gera vændi löglegt og með því að horfa fram hjá því sem fer fram samhliða og með vændi er verið að segja að vændi sé skaðlaust. En ég hef verið þarna, og ég veit. Það er skaðlegt.

Ég vona að þessi dagur muni færa okkur nýjar hugmyndir og viðhorfsbreytingar, sem vonandi leiðir til þess að fleira fólk grípi til aðgerða og krefjist glæpavæðingar þeirra sem kaupa kynlíf.

Þakka ykkur kærlega fyrir.

Elísabet Ýr Atladóttir þýddi.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.