Höfundur: Hannah Collins
*TW*
Ímyndaðu þér þetta:
Árið er 2014. Þú ert hvít Vesturlandakona. Á morgnana vaknarðu í þægilega rúmgóðu húsi eða íbúð. Þú ert í fullri vinnu eða hlutastarfi sem gerir þér kleift að greiða húsaleigu eða afborganir af húsnæðislánum. Þú hefur gengið í skóla og jafnvel líka lokið grunnnámi eða framhaldsnámi í háskóla. Þú kannt að lesa og skrifa og telja. Þú átt bíl eða hefur ökuskírteini. Þú átt nægilega mikið fé á bankareikningnum þínum til að eiga í þig og á. Þú hefur aðgang að Netinu. Þú hefur kosningarétt. Þú átt kærasta eða kærustu sem þú hefur sjálf valið, getur líka gifst þeim ef þér sýnist svo og eignast börn. Þú gengur eftir götunni í hvaða fötum sem þér sýnist. Þú getur farið á krár og skemmtistaði og sofið hjá þeim sem þér sýnist.
Heimurinn þinn er fullur af frelsi og möguleikum.
Svo grípurðu dagblað eða ferð á Netið. Þú lest um reiða konu sem rífst um kynjamisrétti og ójöfnuð. Þú sérð orð á borð við „nauðgunarmenning“ og „druslusmánun“. Þú hnyklar brýnnar og hugsar með sjálfri þér: „Af hverju eru þær svona reiðar? Það er ekki lengur til neitt kynjamisrétti.“
Ímyndaðu þér svo þetta:
Árið er 2013. Þú ert 25 ára pakistönsk kona. Fyrir nokkrum mánuðum giftistu manninum sem þú elskar. Manni sem þú valdir sjálf. Þú gengur líka með barn hans undir belti. Þú sérð lífið blasa við þér, fullt af von og hamingju. Allt í einu eruð þið maðurinn þinn slitin í sundur. Ykkur er báðum misþyrmt með múrsteinum og kylfum. Þú getur ekki varið þig. Þú getur ekki flúið. Enginn kemur þér til hjálpar. Þú lítur upp með hálfbrostnum augum og horfir beint í augun á einum árásarmannanna: horfist í augu við pabba þinn.

Frá mótmælum gegn nauðgunum í Indlandi. Myndin er sótt hingað.
Árið er 2013. Þú ert 23 ára indversk kona. Þú ert að læra sjúkraþjálfun og þín bíður spennandi starfsævi. Þú situr ein í strætisvagni og ert á leiðinni heim á hlýju desemberkvöldi. Þú horfir út um gluggann á húsin í Nýju Delí þjóta framhjá og ert ánægð með lífið. Allt í einu færðu þungt högg á hnakkann og dettur á gólfið í strætisvagninum. Hópur af ókunnugum karlmönnum stendur yfir þér. Þeir berja þig aftur og aftur og aftur með málmstönginni þangað til eina bragðið sem þú finnur er af blóðinu sem fyllir munninn á þér. Þú biður til guðs að þú fáir bráðum að deyja. Og þú færð það en ekki þá. Þér er nauðgað og þú ert barin og pyntuð hvað eftir annað. Dauðdaginn er hægur og þjáningarfullur.
Árið er 2014. Þú ert 13 ára stelpa frá Níger. Þú átt samt ekki lengur heima þar. Núna býrðu í nágrannalandinu Nígeríu, situr þar ein í lítilli kytru á litlu rúmi í lítilli íbúð hátt uppi í háu húsi í borginni Kano. Þú mátt ekki fara. Maginn á þér er þrútinn af lífi sem enginn kærir sig um en vex þar og stækkar. Þú áttir engra kosta völ. Faðirinn er maður á fimmtugsaldri. Hann er kaupsýslumaður. Hann keypti þig fyrir eiginkonu. Þú varst örsnauð og ómenntuð telpa þegar hann kom að sækja þig. Þú veist ekki um neitt líf sem þú hefðir getað lifað. Ekki fjölskylda þín heldur: nú er bara einum munni færra að metta. Þú hefur enn líkama barns og það reynir mikið á hann af þrýstingnum af barninu innan í þér. Þér finnst þú vera að klofna í tvennt. Þú veltir ekki fyrir þér hvort þú lifir af fæðinguna. Að sumu leyti langar þig ekkert til þess.
Þetta eru skáldaðar frásagnir af raunverulegum atburðum sem komu fyrir raunverulegar konur sem lifa í heiminum okkar í dag. Þær koma í kjölfarið á 250 ára langri baráttu kvenna og karla fyrir því að konur hljóti jöfn réttindi á við karlmenn til að hægt sé að koma í veg fyrir að svona óréttlæti og misþyrmingar á grundvelli kyns sé framið. Á þessu árabili hefur hugsjónafólk – femínistar, bæði konur og karlar – verið læst inni, barið, pyntað og jafnvel drepið fyrir jafnréttisbaráttu sína. Þau börðust með penna og bleki og prentsvertu; þau börðust með röddinni; þau börðust með líkamanum; þau börðust með myndlist og tónlist; þau börðust í réttarsölum og samkomuhúsum og stjórnsýslubyggingum eftir að hafa barist til að komast þar inn fyrir dyr.

Myndin er úr auglýsingaherferð fyrir Agent Provocateur
Þetta gerðu þau til að ekki væri lengur litið á konur sem eign, búfénað, útungunarvélar, kyntákn, boxbolta eða barnalega vanvita. Þau gerðu þetta ekki bara fyrir sig sjálf heldur líka fyrir dætur sínar og dætur þeirra og þeirra dætur í margar komandi kynslóðir. Þau gerðu þetta fyrir konur sem þau myndu aldrei hitta – konur sem bjuggu í öðrum löndum, handan við reginhaf, hinum megin á hnettinum og jafnvel á allt öðrum tíma.
Þau gerðu þetta til að konur eins og ég – hvít Vesturlandakona – geti gengið í skóla og háskóla; lært að lesa, skrifa og hugsa gagnrýna hugsun; öðlist prófgráður; fái vinnu og jafnhá laun og karlmaður í sömu stöðu; og geti setið hér við tölvu sem ég á sjálf og skrifað þetta allt saman.
Femínismi er hreyfing sem berst fyrir frelsi, jafnrétti, valkostum, ást, samkennd, virðingu, samstöðu og menntun. Við þrætum kannski, við erum kannski ósammála, við eigum kannski erfitt með að skilja val og sjónarmið annarra, en þessi kjarni hreyfingarinnar hefur aldrei breyst og breytist aldrei.
Þess vegna er ég femínisti.
Ef þér finnst að þú hafi hingað til getað lifað lífinu án þess að verða fyrir jafnvel lítilfjörlegustu birtingarmynd kynjamisréttis – allt frá því að fara hjá þér þegar karlmaður kallar eitthvað dónalegt á eftir þér á götunni til þess að vera smeyk við að ganga ein heim að kvöldlagi eftir fáförnum götum – og hver einasti karlmaður í lífi þínu kemur fram við þig af ást og virðingu þá segi ég bara eitt við þig: Ég samgleðst þér. Ef þér finnst þú ekki þurfa á femínisma að halda er það sigur fyrir hreyfinguna. Þá hefurðu uppfyllt alla draumana sem allar nauðungarmataðar súffragettur í fangelsum og allar „nornir“ brenndar á báli dreymdi að þú myndir einhvern tímann láta rætast.
En taktu þér samt fáein andartök til að velta fyrir þér lífi pakistönsku konunnar sem var barin til bana af ættingjum sínum fyrir að giftast manni sem hún valdi sér sjálf. Eða lífi indversku konunnar sem var nauðgað, misþyrmt og myrt í strætisvagni af hópi karlmanna. Eða lífi litlu stelpunnar frá Níger sem var seld meira en helmingi eldri karlmanni og neydd til að ganga með barn sem gæti kostað hana lífið að fæða. Þurfa þær ennþá femínisma?
Og taktu þér kannski fáein andartök til að velta þessu fyrir þér líka: Hvernig stendur á því að jafnvel í okkur frjálslynda, vestræna heimi eru konur ekki nema 24% þeirra sem gegna æðstu stjórnunarstörfum? Hvers vegna verða fleiri konur en karlar fyrir heimilisofbeldi eða láta lífið vikulega fyrir hendi karlkyns maka eða fyrrverandi maka? Hvers vegna er ennþá 15% munur (svo dæmi sé tekið af Bretlandi) á launum kvenna og karla sem vinna sömu störf og jafnmarga vinnutíma?
Og hvað með menninguna? Hefurðu einhvern tímann tekið eftir því að í gamanþáttum uppistandara er yfirleitt ekki nema einn kvenmaður á móti 4-5 karlmönnum? Að markaðssetning næstum allra megrunarvara á markaðnum beinist eingöngu að konum? Að mörg dagblöð og auglýsingaherferðir nota kynferðislegar eða klámfengnar myndir af konum til að selja fréttir eða vörur sem tengjast kynlífi ekki neitt?
Eða kannski persónulega: Velurðu að ganga í vissum flíkum af því að þig langar til þess eða vegna þess að þér finnst þú „ókvenleg“ ef þú gerir það ekki? Velurðu að klæða þig mikið af því að þig langar til þess eða vegna þess að þú blygðast þín eða ert smeyk við að karlmaður stari á líkama þinn? Rakarðu á þér fótleggina og hárið í handarkrikunum af því að þig langar til þess eða vegna þess að þú verður „ljót“ ef þú gerir það ekki? Klæddu foreldrar þínir þig í bleikt þegar þú varst lítil af því að þau voru hrifin af litnum eða vegna þess að þú fæddist stelpa? Ætlarðu að eignast börn af því að þig langar til þess eða vegna þess að þú ert kona?
Þegar þú horfir á sjálfa þig í speglinum á morgnana, sérðu þá sjálfa þig með eigin augum eða með augum karlmannanna sem horfa á þig þegar þú gengur út um dyrnar?
Staðreyndin er sú, hvort sem þér líkar það eða ekki, að þú býrð enn í heimi þar sem kyn skiptir máli. Þar sem kyn stjórnar ekki bara allri ævibraut þinni – heldur lífi kvenna um allan heim. Á hverri sekúndu fæðist kvenkyns barn í landi þar sem hún verður ofsótt ævilangt vegna þeirrar líffræðilegu tilviljunar. Þannig að áður en þú veifar andfemínista-skiltinu þínu hreykin í bragði og brosir sátt við mátt þinn og megin skaltu ekki hugsa um hvað femínisminn getur gert fyrir þig heldur hvað hann getur gert fyrir þá litlu telpu. Hún þarf einhvern málsvara. Sá málsvari gæti verið þú.
___
Greinin birtist upphaflega hér og er birt á knuz.is með góðfúslegu leyfi. Magnea Matthíasdóttir þýddi.
Sögur kvennanna sem notaðar eru sem dæmi í greininni eru fengnar af eftirfarandi vefsíðum:
Einstaklega vel skrifuð grein sem segir allt sem ég vildi sagt hafa. Hvet ykkur öll til að deila henni sem víðast. Held að greinin gæti t.d. verið ágætt innlegg í kynjafræðikennslu unglinga.
Takk, takk
Ingunn
Mér finnast andstæðurnar sem þessi höfundur dregur upp óþægilegar. Konur lifa áhyggjulausu lífi á Vesturlöndum en eru kúgaðar annars staðar í heiminum. Æskilegt sé að vestrænar konur aðhyllist femínisma til að bjarga systrum sínum í öðrum heimshlutum því þar er enginn femínismi, gerendahæfni eða barátta (nema vestrænu konurnar komi með hana þangað auðvitað). Þetta er óþægilega líkt gamla góða stefinu frá nýlendumtímanum sem hljómar einhvern veginn svona „Vesturlandabúar eru siðmenntaðir, framfarasinnaðir og móralskir. Fólk í öðrum heimshlutum er ósiðmenntað, aftarlega á merinni og ómóralskt.“ Þessi hugmyndafræði var notið til að réttlæta alls kyns kúgandi og ógeðfelldar gjörðir svo mér þykir mjög óþægilegt að sjá afar svipaðar hugmyndir um heiminn í grein sem er skrifuð í nafni femínisma.
Ég er sammála Írisi hér fyrir ofan. Þessi grein, þrátt fyrir að vera ágæt til síns brúks, lyktar dálítið af etnósentrík/júrósentrík og góða, siðmenntaða norðrinu að bjarga hinu heimska, ómenntaða og barbaríska suðri. Eftir þá gagnrýni sem kom kannski helst með þriðju öldunni, þá finnst mér undarlegt að sjá svona grein á jafn framsækanni og vandaðri vefsíðu líkt og Knúsinu. Hvað með Steubenville? Hvað með mansal kvenna í kynlífsþrælkun, til dæmis í Þýskalandi og í Hollandi? Hvað með hin óteljandi dæmi um atburði sem eru jafn hrikalegir og gerast á hverjum degi í vestrinu, annað en bara kröfur um að falla að staðalímyndum, sem þó á ekki að gera lítið úr. Þörfin fyrir femínsima er mikil alstaðar í heiminum, það þarf að undirstrika og hefur þessi vefsíða verið góður talsmaður í þeirri baráttu, það er þó hægt að gera án þess að ýta undir vestræna hegemoníu og elítisma og neikvæða orðræðu og birtingarmyndir suðursins.
Ég sé ekki þennan nýlenduhroka sem þú sérð út úr þessu Íris. Þessi grein er í besta anda internationalisma sem hélt að væri óðum að lognast út af.
Örlög okkar allra eru samantvinnuð, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Það kemur okkur við þegar fólk er beitt óréttlæti og kúgun annars staðar. Og það skiptir máli að standa vörð um þau réttindi sem hafa áunnist. Of mikið af fólki umgengst þau sem sjálfsagðan hlut. Það þurfti gríðarlega baráttu og fórnir til að öðlast þau og þau eru viðkvæmari heldur en fólk grunar. Það þarf svo lítið til að samfélög sogist aftur niður í miðaldamyrkur kúgunar og óréttlætis.
Klárt það hefði mátt vera eitt vont dæmi af Vesturlöndum en greinin er þýdd og ekki svo gott að bæta við hana. Mér finnst þetta alls ekki vera skot á hvernig annað fólk lifir, mikið frekar skot á fólk sem heldur því fram að heimurinn þurfi ekki femínisma því jafnrétti sé náð. Það fólk sér ekki lengra en eigið nef og eigin litla heim.
Það er líka talað um launamisrétti og heimilisofbeldi í þessari gein sem á við vesturlönd. Og því miður sum af hinum atriðunum eiga við í „okkar“ heimi. Það er enn verið að nauðga og mikið talað um útlitsdýrkun…..Greinin er góð og þörf ábendin. Við vitum allar sem lesum þessa grein að þetta á ekki við alla á Indlandi eða í öðrum hluta heimsins (svo víðlesnar erum við) en þetta er stórt vandamál og okkur veitir ekkert af að tala hátt um það. Því fyrr sem konur fá jafnari rétt sem víðast í heiminum því betri heim fáum við. Það er okkar allra hagur, bæði karlmanna og kvenna.
“Kostir hins smáa og mjúka. Sveigjanleiki og máttleysi sigrast á stífni og hörku. Lifandi eru menn mjúkir og veikburða en stífir og stæltir við dauða. Í heiminum er ekkert jafn mjúkt og veikburða og vatn. Ekkert er samt sigurstranglegra gegn hörku og styrk, enda fær því ekkert haggað. Hið veikburða sigrar hið sterka; mýktin sigrar hörkuna. Kvenleikinn ber einatt sigur af karlmennsku. Í rósemd lýtur hann lágt. Í friðarboðskapi konfúsíanisma mátti vissulega einnig finna áherslu á „mjúk gildi“ en daoistar gengu mun lengra og drógu fram kosti ýmissa þátta í veruleika okkar sem við hneigjumst til að virða að vettugi en eru þó lífinu með öllu nauðsynlegir. Eins og segir að ofan var nálgun daoista nokkuð frábrugðin öðrum skólum. Á tíma blóðugra átaka, stríða og hetjudýrkunar mæltu daoistar fyrir róttækri umturnun gilda í þágu lífsins. Í stað þess að hampa hinu stóra, sterka, harða og karlmannlega (yang) töldu þeir upp kosti hins smáa, veika, mjúka og kvenlega (yin).”- Geir Sigurðsson heimspekingur og dósent í kínverskum fræðum