Frelsi til getnaðarvarna

Pælingar um getnaðarvarnir:

Þegar kona er einhleyp og getur ekki nýtt sér eða vill ekki nýta sér hormónagetnaðarvarnir þá er smokkurinn einfalt val. Hann ver jú líka gegn kynsjúkdómum og er eina slíka getnaðarvörnin sem nálgast má á auðveldan hátt (kvensmokkurinn ver líka gegn kynsjúkdómum en það er erfiðara að útvega þá).

Kona í sömu stöðu sem er í föstu sambandi hefur ekki mikið val. Hringurinn, smá-lykkjan og stafurinn losa lítinn skammt hormóna og nýjar gerðir pillunnar eru líka með lægra magni hormóna en þekkst hefur en samt fá sumar konur aukaverkanir af hormónagetnaðarvörnum og/eða geta ekki hugsað sér að nota þær.  Koparlykkjan er að vísu án hormóna og ódýrari en hormónalykkjan en á móti kemur að hún veldur oft óþægindum (m.a. auknum blæðingum og meiri líkum á sýkingum) og hún hentar frekar konum sem hafa eignast barn. (Uppfærðar upplýsingar).

Smálykkja pilla og hringur BjK

Smá-lykkjan, pillan og hringurinn eru allt hormónagetnaðarvarnir [Mynd tekin héðan]

Kannski man einhver eftir að hafa heyrt um hettuna í kynfræðslu? Hettan er gúmmískál sem komið er fyrir í leggöngunum ásamt sæðisdrepandi kremi yfir leghálsinum og látin skorða sig við lífbeinið. Fyrir konu sem er vön að nota álfabikarinn (t.d. Keeper, Meluna eða Femicup) til að taka við tíðablóði hljómar hettan eins og ákjósanleg getnaðarvörn.

Engir hormónar fylgja hettunni, engar rannsóknir styðja það að sæðisdrepandi kremið sé nauðsynlegt ef hettan er notuð á réttan hátt [heimild] og umhverfisáhrifin eru minni en af smokkum af því að hettan er margnota og má nota í fleiri ár. Til þess að fá hettuna þarf að mæla hvaða stærð hentar best og fá leiðbeiningar hjá kvensjúkdómalækni um rétta uppsetningu hennar.

MD001946

Hefðbundin gerð hettunnar er til í mismunandi stærðum [Mynd tekin héðan]

En þar kom babb í bátinn. Við stutta heimsókn til kvensjúkdómalæknis kom fram á örfáum sekúndum að hettan væri ekki í boði lengur á Íslandi vegna lítillar eftirspurnar (?!) og við tóku nokkrar mínútur af tilraun til að sannfæra konu um að prófa víst aftur hormónagetnaðarvörn af einhverju tagi. Sú sem hefur upplifað allar aukaverkanirnar af hormónagetnaðarvörnum á eigin skinni skilur vel að það sé ekki fýsilegur kostur.

Kona fór því 3000 krónum fátækari heim eftir 5 mínútna spjall hjá kvensjúkdómalækninum (sem náðarsamlegast gaf 50% afslátt af 6000 krónu gjaldi fyrir spjallið) og las sér til á internetinu. Þar kom í ljós að búið er að hanna nýja hettu af stærð-sem-hentar-öllum og kostar innan við 6000 krónur í Þýskalandi, auk þess sem það að mæla hvaða stærð henti best virðist ekki vera svo flókið ef kona vill halda sig við eldri gerðir hettunnar.

Caya grein BjK

Caya er ný gerð af hettu þar sem ein stærð hentar flestum konum og ekki þarf að mæla fyrir stærð hennar [Mynd tekin héðan]


Aðrar hormónalausar leiðir voru að fylgjast með egglosi og öruggum tímabilum með því að skrásetja nákvæmlega tíðahringinn, mæla hita á hverjum morgni og fylgjast með þykkt og gerð útferðar frá leggöngum. Til að gera þetta á sem nákvæmastan hátt eru í boði ýmis smátæki (t.d. Pearly, Persona eða Cyclotest) sem gefa til kynna hvort kona sé frjó eða ekki. Það sem þessi tæki eiga flest sammerkt er að þau eru afar dýr og þykja ekki jafnörugg og aðrar aðferðir. Í raun væri öruggara að kaupa ódýran hitamæli, leggja á sig vinnuna við að fylgjast nákvæmlega með egglosi og nota smokk á frjóum dögum.

Þróun getnaðarvarna hefur verið ótrúlega hæg og frekar miðuð við þægindi karlmanna en kvenna. Til að mynda hefur helstu tilraunum til að gera pillu fyrir karla, hvort sem hún byggist á hormónum eða ekki, verið hætt jafnvel þótt sumar þeirra hafi reynst vel við fortilraunir og sömuleiðis þrátt fyrir það að líffræðilega sé auðveldara að hafa áhrif á sæðisfrumur heldur en egglos. Ástæðurnar sem oftast eru nefndar fyrir því að getnaðarvarnarpilla fyrir karla er ekki þróuð frekar er sú að karlar muni ekki vilja taka pilluna og að konur muni ekki treysta körlum til að taka hana. Lyfjafyrirtækin einbeita sér frekar að hugmyndum sem beinast að kvenlíkamanum á borð við það að þróa örflögur sem stýra magni hormóna að ósk konunnar.

Það er undarlegt að hormónalausar getnaðarvarnir á borð við hettuna séu ekki í boði á Íslandi. Það er í raun líka undarlegt að einungis sé hægt að nálgast smokka á auðveldan hátt – til þess að fá flestar getnaðarvarnir þarf að hitta lækni, fara í mælingu eða jafnvel leggja á sig aðgerð. Þarf það virkilega að vera svona flókið að stjórna barneignum?

Höfundur óskar nafnleyndar.

6 athugasemdir við “Frelsi til getnaðarvarna

 1. Ég er svo innilega sammála þessari grein. Fyrir utan það að vera pirripú yfir því hvað það þykir sjálfsagt að konur láti sig hafa aukaverkanir sem körlum þykja ekki bjóðandi þá er ég ein þeirra kvenna sem get ekki notað hormónagetnaðarvarnir og hef verið frekar bit yfir því að hettan fáist ekki hér á landi og læknar ljúgi því blákalt að manni að hún sé úrelt getnaðarvörn. Sem vitanlega sýnir fram á galla þess að lítið samfélag treysti á hina ósýnilegu hönd markaðarins. Þess má svo geta að sæðisdrepandi krem fæst ekki heldur lengur hér á landi.

 2. Ég er sammála mörgu hér í greininni. Það er ótrúlega pirrandi hvernig fókusinn hefur verið á að stjórna kvenlíkamanum þegar það kemur að vörnum þegar ég þekki fleiri fleiri karlmenn sem væri fegnir að fá að stjórna sínum líkama sjálfir. Ég er líka mjög fylgjandi tvöfaldri vörn, þannig að báðir aðilar gætu verið á tryggri vörn.

  Mér finnst hinsvegar fremur strangt til orða tekið þegar höfundur kallar það „aðgerð“ að koma fyrir lykkju í konum. Ég fór sjálf í gegn um það, þetta var eins og að fara í skoðun til kvennsjúkdómalæknis, nema í þær 10 sekúntur sem læknirinn var að koma henni fyrir inn í leginu, þá var það soldið sárt, en síðan bara allt búið.
  Það hefur reyndar hingað til verið erfitt að fá lækna til að gera þetta fyrir konur sem hafa aldrei orðið óléttar. En þegar ég bjó erlendis sagði læknirinn mér að nýjustu ritin tali um að þetta sé hægt fyrir allar konur, líka þær sem ekki hafa orðið óléttar. Ég get síðan vottað það því ég hef aldrei orðið ólétt. Ég veit samt ekki hvort læknar hér á landi séu farnir að gera þetta, en þeir ættu alveg að geta það.

 3. Ég get staðfest það að læknar hérlendir eru tilbúnir til þess að koma koparlykkjunni fyrir þótt kona hafi ekki orðið ólétt. Ég endaði á þeirri lausn í samráði við minn kvensjúkdómalækni. Að hans sögn er ástæðan fyrir því að þessari lausn er ekki haldið að konum sem ekki hafa átt börn sú að uppsetning í gegnum legháls hjá konu sem ekki hefur fætt barn er sársaukafyllri en ella. Vitanlega erum við misjafnar, ég er almennt talin hörkutól en það leið yfir mig af sársauka í bekknum og aftur á leið út í bíl, svo mikið var sársaukasjokkið. Fimm árum síðar, þegar kom að því að taka skipta lykkjunni út fyrir aðra bauð læknirinn mér að fá það gert í léttsvæfingu sem ég þáði. Mér fannst lykkjan góð að því leyti að hún bauð upp á hormónalaust öryggi en mér fannst ókostur að blæðingarnar urðu mun meiri og lengri hjá mér en áður hafði verið.

 4. Takk fyrir góða umfjöllun.
  Þessar pælingar og svekkelsið að geta ekki fengið hettuna aftur urðu einmitt til þess að ég fór að flytja Caya sjálf inn og dreifi hana í gegnum vefverslunina mína.
  http://litlaljosid.is/konur/hetta

  Alveg eins með MeLuna tíðabikarnum, sem er til í fjórum stærðum, tveimur stífleikum og nokkrum litum og kostar mun minna en starfsbræður hans í heilsubúðum.
  http://litlaljosid.is/konur/meluna

  Það er ávallt velkomið að hafa samband við mig, góð ráð og fræðsla fylgja með kaupum eins lengi og varan er notuð.
  elena@litlaljosid.is

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.