Höfundur: Halla Sverrisdóttir
*VV/TW*
Emma Watson veit mæta vel til hvaða verkfæra þeir sem vilja bregða fæti fyrir konur eru líklegastir til að grípa fyrst. Hún hefur fylgst með starfssystrum sínum þola slíka meðferð, nú síðast Jennifer Lawrence – og tjáð sig opinberlega um það . Og hún hefur reynt það áður á eigin skinni að setið sé um líkama hennar og kynverund og allt kapp lagt á að smætta hana sem manneskju niður í líkama, kyntákn, hlutgerða konu – eins og hún reyndar minntist á í rómaðri ræðu núna um helgina:
I started questioning gender-based assumptions when at eight I was confused at being called “bossy,” because I wanted to direct the plays we would put on for our parents—but the boys were not.
When at 14 I started being sexualized by certain elements of the press.
– Emma Watson, í ræðu hjá Sameinuðu þjóðunum. Texta ræðunnar má lesa hér.
Nú, örfáum dögum eftir að hún talaði við Sameinuðu þjóðirnar og heiminn allan með ræðu sem einkenndist af mannvirðingu, eldmóði, sannfæringu og trú á málstaðinn sem hún berst fyrir, hafa þeir sem virðast líta á það sem einhvers konar tómstundagaman að reyna að niðurlægja konur, vígbúist. Gagnsóknin er hafin.
Þetta skjáskot er tekið 22. 9., kl. 22:30 eða þar um bil, af vefsíðunni http://www.emmayouarenext.com – síðu sem er talin hafa verið sett upp af notendum vefsvæðisins 4chan, sem eins og margir vita sérhæfir sig í að birta nektarmyndir af konum og stúlkum, stundum allt að barnungum, án leyfis eða vitundar. Og skilaboðin eru skýr: Nú á Watson yfir höfði sér svipaða útreið og Jennifer Lawrence, og raunar fjölmargar aðrar konur, hafa þegar hlotið.
Klukkan tifar. Emma, þú ert næst!
Nú hlýtur þetta að vera orðið gott og meira en það. Getur það virkilega talist boðlegt, á 21. öldinni, að líkami konu, hvort sem hann er klæddur eða nakinn, ljósmyndaður með leyfi eða í heimildarleysi, sexí eða ósexí, í frottéslopp eða silkinærkjól, með lítinn rass eða stóran, gervibrjóst eða ekta, píkuhár eða ekki, langa leggi eða stutta …. að sá líkami sé notaður sem vopn til að þagga niður rödd þeirrar konu? Til að þurrka út orð hennar, smætta nærveru hennar og persónuleika niður í tiltekið magn af holdi, af blóði, af hári, beinum og tönnum?
Því öll erum við ber undir fötunum og að það er auðvitað alveg einstaklega hlálegt að gefa „lekahernum“ vald með því að samþykkja vopnin þeirra sem hættuleg.
Setjum sem svo að síðan www.emmayouarenext.com sé ekki gabb. Setjum sem svo að eftir rúmlega fjóra daga verði nektarmyndum af Emmu Watson, teknum í leyfisleysi og af fullkomnu virðingarleysi, dreift á netinu. Hvað gerist þá?
Gleymast þá sterk og einlæg og merkingarhlaðin orð hennar úr ræðupúlti Sameinuðu þjóðanna núna um helgina? Hættum við að sjá baráttukonu, hugsuð, þroskaða og greinda, unga konu með hugsjónir og erindi við okkur öll – og þó einkum og sér í lagi þá sem hún ávarpaði sérstaklega í ræðu sinni, það er að segja unga karlmenn?
Munu þeir ungu karlmenn gleyma því að Emma Watson ávarpaði þá sem manneskjur og bregðast við myndum af líkama hennar eins og róbotar, eins og skilyrtar maskínur – eins og nauðgarar?
Það kemur í ljós.
En væri ekki hugmynd að við sammæltumst öll um að segja að þetta sé orðið gott? Að nekt kvenna, líkamar þeirra, brjóst, rassar og píkur, séu einfaldlega ekki lengur svona óheyrilega spennandi, svona forboðin og um leið svona aðgengileg í bannhelgi sinni, svona niðrandi, svona skammarleg, svona óendanlega mikið merkilegri en hugsanir þeirra, orð og gjörðir?
Að við hættum að hugsa, sjálfrátt eða ósjálfrátt: hvers konar bjáni er manneskjan, af hverju þurfti hún að eiga af sér nektarmyndir? Er hún fífl?
Þá sláum við vopnin úr höndum hryðjuverkamannanna, þá hlæjum við að aumlegum tilburðum slíkra manna til að slá skjaldborg um eigin misskildu, meintu karlmennsku. Þá verður þetta ekkert merkilegt lengur og ekkert vopn lengur. Vegna þess að við ákveðum að það bíti ekki.

Steinsúlan, eftir norska myndhöggvarann Gustav Vigeland. Sjá nánar hér.
Ég á mér draum: Að milljón konur, hvaðanæva úr heiminum, taki sér stöðu fyrir framan spegilinn með farsímann sinn og taki mynd af sér allsberar. Setji svo á netið. Yrði þessu þá ekki bara sjálfhætt?
Þarna stæðum við allar – á Svanfríðinni, á túttunum, á rassinum. Bara svona eins og við erum – ekki eins og gluggagægirinn vill sjá okkur, ekki eins og nauðgarinn vill nauðga okkur, heldur við eins og við erum og eins og við viljum. Þá væri þetta ekkert merkilegt.
Þetta mun ekki gerast í dag. Og ekki á morgun. En kannski bráðum. Og kannski getur heimsfræg, merkileg, greind og mikilvæg kona þá opnað á sér munninn, hugsað heila hugsun í friði, talað við okkur, leikið fyrir okkur, sungið, dansað eða tjáð sig við okkur, án þess að eiga á hættu að vera nauðgað á netinu.
Einstaklega vel mælt. Hugsið ykkur, það er árið 2014 og ástandið er svona. Heimurinn þarf á fleira fólki eins og Emmu að halda. Við öll þurfum að taka þátt í baráttunni og þagga niður í netnauðgurunum.