Ræða Emmu Watson

Í dag hleypum við af stokkunum herferðinni „HeForShe“.

Ég beini orðum mínum til ykkar, því ég þarf ykkar hjálp. Við viljum binda enda á ójafnrétti kynjanna og til að svo megi verða þurfa allir að leggjast á eitt. Þetta er fyrsta herferð sinnar tegundar hjá Sameinuðu þjóðunum. Við viljum reyna að fá sem flesta karla og drengi til að verða talsmenn kynjajafnréttis. Við viljum ekki bara tala um þetta, við viljum líka tryggja að þetta verði áþreifanlegt.

Ég var skipuð talsmaður fyrir hálfu ári og því meira sem ég hef talað um femínisma, þeim mun betur hefur mér orðið ljóst að baráttan fyrir réttindum kvenna hefur of oft orðið að samnefnara fyrir hatur á karlmönnum. Eitt veit ég þó með vissu og það er að þessu verður að linna.

Skilgreiningin á femínisma er þessi: „Sú sannfæring að karlar og konur skuli hafa jöfn réttindi og tækifæri. Þetta er kenning um stjórnmálalegt, efnahagslegt og félagslegt jafnrétti kynjanna.“

Ég byrjaði að vefengja kynbundnar forsendur þegar ég var átta ára og skildi ekki af hverju ég var kölluð „stjórnsöm“ af því mig langaði að leikstýra leikritinu sem átti að sýna foreldrum okkar – en strákarnir fengu engin slík viðurnefni. Þegar ég var 14 ára og ákveðnar gerðir fjölmiðla byrjuðu að gera mig að kynferðislegu viðfangi. Þegar ég varð 15 ára og vinkonur mínar hættu í íþróttum því þær vildu ekki virðast „massaðar“ Þegar ég var 18 ára og strákar sem ég átti að vinum gátu ekki tjáð tilfinningar sínar.

Ég ákvað að ég væri femínisti og það fannst mér ekki flókið. En athuganir mínar undanfarið hafa sýnt mér að femínismi hefur orðið óvinsælt orð. Með því virðist mér vera skipað í flokk kvenna sem tjá sig með of afgerandi hætti, notar of sterk orð, eru of ágengar, einangra sig frá fjöldanum, eru á móti karlmönnum, eru fráhrindandi.

Af hverju er þetta svona óþægilegt orð?

Ég er frá Bretlandi og mér finnst rétt að fá sömu laun og karlleikarar. Mér finnst rétt að ég ráði yfir líkama mínum. Mér finnst rétt að konur komi, fyrir mína hönd, að stefnumótun og ákvarðanatöku í landinu. Mér finnst rétt að ég njóti sömu félagslegu virðingar og karlar.

Því miður get ég um leið fullyrt að ekkert land í heiminum getur hreykt sér af því að þar geti allar konur gert ráð fyrir að njóta þessara réttinda. Í mínum augum eru þetta mannréttindi, en ég ein af þessum heppnu. Ég bý við forréttindi vegna þess að foreldrum mínum þótti ekkert minna vænt um mig fyrir það að ég fæddist stúlka. Skólinn minn setti mér engar skorður vegna þess að ég væri stúlka. Kennararnir mínir gerðu ekki ráð fyrir að ég gæti eða vildi minna vegna þess að einhvern tíma í framtíðinni kynni ég að vilja eignast barn.

Þetta fólk, sem mótaði mig og hafði áhrif á mig, var talsmenn og boðberar þess kynjajafnréttis sem hefur gert mig að þeirri manneskju sem ég er nú. Þau vita það kannski ekki, en þau eru öll femínistar. Við þurfum fleiri slíka. Og ef ykkur gremst enn þetta orð, munið þá að það er það ekki orðið sem skiptir mestu máli, heldur hugsjónin og metnaðurinn sem að baki býr. Því það hafa ekki hafa allar konur notið þeirra réttinda sem ég hef notið. Í raun erum við mjög fáar.

Árið 1997 hélt Hilary Clinton fræga ræðu í Bejing um réttindi kvenna. Því miður er margt af því sem hún vildi breyta enn óbreytt í dag. Það sem mér er þó minnisstæðast er að aðeins 30% áheyrenda hennar voru karlar. Hvernig getum við stuðlað að breytingum í heiminum þegar aðeins hluta íbúanna er boðin þátttaka eða telur sig eiga heima í orðræðunni?

Karlar – mig langar að nota þetta tækifæri til að senda ykkur formlegt boð. Jafnrétti kynjanna er líka ykkar mál. Því ég hef horft upp á það að framlag föður míns sem foreldris sé minna metið í samfélaginu, þrátt fyrir að ég hafi haft alveg jafn mikla þörf fyrir nærveru hans á æskuárunum og ég hafði fyrir móður mína.

Ég hef séð unga karlmenn sárþjáða af geðveiki sem ekki gátuð leitað sér hjálpar af af ótta við að það rýrði karlmennskuímynd þeirra – raunin er sú að sjálfsvíg eru algengasta dánarorsök karla á aldrinum 20-49 ára í Bretlandi; algengari dánarorsök en umferðarslys, krabbamein og hjartasjúkdómar. Ég hef séð hvernig þær bjöguðu og ýktu hugmyndir um velgengni sem karlar þurfa að standa undir í samfélagi dagsins í dag gera þá hrædda og óörugga.

Karlar búa heldur ekki við jafnrétti. Við tölum sjaldan um karla sem fanga staðalímynda, en ég sé að þeir eru það og þegar þeir verða frjálsir mun að leiða til þess að aðstæður kvenna breytast. Þegar karlar þurfa ekki lengur að vera ágengir og sýna af sér árásargirni til að öðlast samfélagslega viðurkenningu þurfa konur ekki lengur að vera undirgefnar. Þegar karlar hætta að þurfa að stjórna mun ekki lengur þurfa að stjórna konum. Bæði karlar og konur eiga að hafa frelsi til að sýna tilfinningar og um leið frelsi til að vera sterk… Það er tímabært að við lítum á kynin sem víðfeðmt róf, ekki sem andstæða póla með mismunandi hugsjónir og markmið. Ef við hættum að skilgreina hvert annað út frá því sem við erum ekki og  förum í staðinn að skilgreina okkur út frá því sem við erum getum við öll orðið frjálsari og um það snýst HeForShe. Um frelsi.

Ég vil að karlar taki þessari áskorun. Ég vil að þeir geri það til þess að dætur þeirra, systur og mæður geti losnað undan oki fordóma, en líka til þess að synir þeirra geti leyft sér að vera viðkvæmir og mannlegir, endurheimt þá þætti í fari sínu sem þeir hafa vanrækt, og geti um leið orðið sannarri og heilsteyptari manneskjur. Kannski hugsið þið: Hver er þessi Harry Potter stelpa? Af hverju er hún uppi á sviði hjá SÞ? Þetta er góð spurning og ég hef spurt mig þess sama. Ég veit ekki hvort ég er hæf til að vera hérna. Ég veit bara að mér er ekki sama um þetta vandamál. Og ég vil bæta úr því. Eftir að hafa séð það sem ég hef séð – og nú, þegar ég hef fengið þetta tækifæri til að segja frá því –  finnst mér það vera skylda mín að tala. heforshe

Enski heimspekingurinn Edmund Burke sagði: „Það eina sem hið illa þarf til að sigra er að gott fólk geri ekkert.“ Þegar ég kveið fyrir að flytja þessa ræðu og fylltist efasemdum sagði ég festulega við sjálfa mig: Ef ekki ég, þá hver? Ef ekki núna, þá hvenær?

Ef svipaðar efasemdir vakna með ykkur þegar ykkur bjóðast tækifæri í lífinu er það von mín að þessi orð geti líka veitt ykkur styrk. Staðreyndin er nefnilega sú að ef við gerum ekkert munu líða 75 ár, eða þar til ég verð orðin næstum 100 ára, þar til konur geta vænst þess að fá sömu laun og karlar fyrir sömu vinnu. 15,5 milljónir stúlkna verða giftar sem barnabrúðir á næstu 16 árum. Og ef svo heldur sem horfir verður það ekki fyrr en 2086 sem öllum stúlkum í dreifðari byggðum Afríku býðst menntun umfram grunnskólastig.

Ef þið trúið á jafnrétti eruð þið kannski, rétt eins og fólkið sem ég minntist á áðan, femínistar án þess að kalla það því nafni eða vera meðvituð um það. Fyrir það eigið þið skilið hrós. HeForShe-talaVið eigum stundum erfitt með að finna orð sem sameinar okkur öll, en góðu fréttirnar eru að nú höfum við eignast hreyfingu sem við getum sameinast um. Sú hreyfing nefnist HeForShe.

Ég býð ykkur að stíga fram, láta sjást til ykkar, taka til máls. Að vera hann fyrir hana. Og spyrja ykkur: Ef ekki ég, þá hver? Ef ekki núna, þá hvenær?

Þakka ykkur fyrir.

Þýðing: Gísli Ásgeirsson/Halla Sverrisdóttir

2 athugasemdir við “Ræða Emmu Watson

  1. Bakvísun: 4chan: ekki fórnarlamb | *knúz*

  2. Það sem Emma Watson sagði ekki.
    Emma Watson’s UN Speech: What She Didn’t Say #HeForShe

    Það er undarlegt að hún skuli ekki hafa í það minnsta ráðfært sig við þá karlahópa sem berjast fyrir jafnrétti fyrir karlmenn. Spurt þá hvað helst brennur þeim í brjósti.

    Og af hverju heitir þetta ekki #HeANDShe ?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.