4chan: ekki fórnarlamb

Höfundur: Elísabet Ýr Atladóttir

Ég vil vara alveg sérstaklega við efni greinarinnar, þar sem hún fjallar um 4chan og ógeðið sem hefur komið frá þeim í gegnum tíðina. Þetta er ekki tæmandi listi (viðbjóðurinn er endalaus), en efnið er gróft og getur verið „triggerandi“ fyrir þolendur kynferðisofbeldis, stalkera, barnaníðs og hefndarkláms og svo þau sem berjast við eða hafa barist við átröskun og sjálfsmeiðingar.

Ég mun líka nota ensk hugtök sem eru illþýðanleg á íslensku eða missa merkingu þegar þau eru þýdd. Ég set tengla á skýringar þar sem það á við, eða stjörnu, sem þýðir að það er útskýring neðst í greininni.

**TW/VV**

Nýlega kom upp mál, alvarlegt mál og mjög áberandi á öllum miðlum, sem snerist um leikkonuna Emmu Watson og ræðu hennar fyrir hönd UN Women. Eftir að Watson kom fram hjá Sameinuðu þjóðunum og sagði þar, skýrt og vafningalaust, að hún væri femínisti og að hún vildi að karlmenn tækju meiri þátt í baráttunni fyrir jafnrétti en verið hefur, kom upp umræða á vefsíðunni 4chan um hvað ætti nú að gera við þennan femínista (allt eitthvað ógeðslegt), og svo til samtímis fór upp síða með yfirskriftinni “Emma you’re next”. Þessi hótun var skýr, þar sem hún kom í kjölfarið á víðtækum þjófnaði á nektarmyndum frá frægum konum og ólöglegri dreifingu þeirra, sem var (og er enn) stórkostlegur glæpur gegn kynfrelsi þessara kvenna.

Það þurfti ekki mikið til fyrir Emmu Watson, hún þurfti ekki annað en að segjast vera femínisti og halda fremur hæversklega orðaða ræðu um hún óskaði þess að karlmenn gerðu sér grein fyrir óréttlætinu og hjálpuðu til við að berjast gegn því. Um leið og hótunin kom varð internetið, vægast sagt, brjálað. Vinsælar fréttaveitur kepptust við að birta greinar um málið og allt í einu stóð fólki ekki á sama. Þetta var greinilega of snemmt, 4chan tók þarna feilskref, eldar fóru að kvikna, athyglin var öll á þeim.

Eða hvað? Til allrar lukku kom vefsíðan Rantic.com 4chan til bjargar með að lýsa sig ábyrga fyrir hótuninni og klæða hana í íburðarmikinn skrautbúning: Sagt var að þetta hefði nú allt verið gert til að beina athyglinni að því hversu hræðilegur glæpur það væri að dreifa stolnum nektarmyndum af konum. Sagt var að “celebrity publicists” hefðu beðið Rantic um að gera þetta, og minnst var á að það þyrfti að eyða 4chan og setja upp ritskoðun á öllu internetinu svo að þetta gerðist ekki aftur. Tilfinningar og öryggi Emmu Watson skiptu ekki máli, allt var það bara ásættanlegur fórnarkostnaður fyrir góðan málstað.

ranticyfirlysingÍ alvörunni? Finnst einhverjum þetta trúverðugt?

Þetta væri ekki í fyrsta skipti sem 4chan hleypur í ótal hringi til að fela slóð sína eða til að gera “málstað” sinn trúverðugri. Í raun er hér, með þessari yfirlýsingu, verið að fría 4chan ábyrgð, gera 4chan að fórnarlambinu, beina kastljósinu að þolendum ofbeldis 4chan, draga athyglina frá hótuninni sjálfri sem var sett fram gegn Emmu Watson og gera femínista tortryggilega, allt í einum snyrtilegum pakka. Það var lagið.

En netið gleymir engu. Og þetta lyktar ennþá rækilega af 4chan, þrátt fyrir allt. Þeir hafa lengi verið í virkri hatursherferð gegn femínisma og til þess að hafa eitthvað að segja hafa þeir sett upp alls konar ofbeldisherferðir, árásir, lygar, falska prófíla og hasstögg til að skapa hjarðhegðun og gera femínista tortryggilega, sem og til að etja femínistum á móti hvert öðru. Þar að auki virðist Rantic.com og systursíður þess svæðis, þar á meðal upphafsmaður síðunnar virðist ekki vera það sem það þykjast vera, eða er allavega undarlega leyndardómsfullt og illa skrifandi fyrir eitthvað sem kallar sig markaðssetningarfyrirtæki. Um það eru mýmörg dæmi.

T.d. má nefna hvernig 4chan átti stóran þátt í herferðinni gegn tölvuleikjaframleiðandanum Zoe Quinn, sem mátti þola hatrammar árásir á persónu sína og einkalíf, því hún átti fyrrverandi kærasta sem var afbrýðisamur og reiður fáviti. Hann ákvað að skrifa heilu ritgerðirnar um ástarlíf þeirra og meint framhjáhald hennar, bull um að hún hefði sofið hjá tölvuleikjadómara til að nýi leikurinn hennar fengi betri dóma og annað í þeim dúr, og skreytti sögurnar enn frekar með kjaftæði svo kallbörnin sem hanga á 4chan í kjallaranum hjá mömmu og pabba yrðu nú örugglega alveg brjáluð. Allt þetta hratt af stað einhverri stórkostlegustu hatursherferð gegn konu í langan tíma, herferð sem snerist öll um einkalíf hennar og hversu mörgum hún hefði nú sofið hjá, en hreint ekki neitt um tölvuleiki og siðferði fréttamiðla sem einbeita sér að tölvuleikjum. 4chan-notendur stofnuðu meira að segja töggin #GamerGate og #NotYourShield, en klæddu það í búning siðgæðisvarðar og dulbjuggu sem alvarlega umræðu um tölvuleikjafréttamennsku, og bjuggu til aðganga sem PoC* og konur til að fela þá staðreynd að aðallega voru hvítir gagnkynhneigðir gaurar að væla um hvað Zoe Quinn væri mikil drusla. Í raun var þetta einungis gert til að dreifa ofbeldinu enn frekar og fela slóð 4chan. Það versta er að fólk kokgleypti þetta kjaftæði, og er enn að reyna að verja þessi tögg undir fölskum siðferðisstimpli, þótt það sé búið að koma upp um þetta mál í smáatriðum. Meðal þess sem Quinn þurfti að þola voru linnulausar morð-, ofbeldis- og nauðgunarhótanir, doxing, nektarmyndum af henni var dreift, vinum hennar og fjölskyldu var hótað og ráðist var á þau ásamt öllum sem voguðu sér að koma henni til varnar.

317638_v1

„Hunsaðu þetta bara, þá hættir þetta“ – segir fólk sem hefur aldrei fengið morð- og nauðgunarhótanir.

Við skulum heldur ekki gleyma því hvað 4chan átti stóran þátt í ofbeldinu gegn Anitu Sarkeesian, myndbandsframleiðanda og femínista, með því að koma af stað svipaðri hatursherferð gegn henni fyrir það eitt að dirfast tala um hlutgervingu kvenna í tölvuleikjum. Hún hefur komið fram og talað opinskátt um ofbeldið sem hún hefur þurft að þola, þar á meðal á TEDxWomen 2012. Nýlega þurfti hún að flýja heimili sitt því hótanirnar urðu enn alvarlegri eftir nýjasta myndbandið í myndbandaröðinni Tropes vs. Women. Ofbeldismennirnir hafa reynt að setja þetta allt í búning “siðferðisgæða”, þar sem þeir mála hana sem vonda kallinn sem stal öllum þessum kickstarter peningum fyrir verkefnið sitt, að hún sé alltaf að ljúga og sé almennt vond manneskja og eigi allt þetta ofbeldi skilið. Þetta er allt undir yfirskininu að þeir séu góðu kallarnir í baráttu við vondu femínistana sem ætla að skemma allt gott í heiminum. Þetta er allt leikur. Þetta er allt bara “tröllun”.

317626

Hjartnæm skilaboð til Anitu Sarkeesian í gegnum twitter.

Svo getur ofbeldið náð óraunverulegum hæðum. Þeir réðust líka á 11 ára stelpu (á þeim tíma), sem hét Jessica Leonhardt (í dag heitir hán Damien). Árásina kölluðu þeir því sprenghlægilega nafni  “Jessi Slaughter”, en þeir doxuðu hán, hringdu og hótuðu háni og fjölskyldu háns og dreifðu nektarmyndum af háni um allt internetið. Á tímabili varð þetta svo slæmt að hán þurfti lögregluvernd. Gleymum því ekki að 4chan er ein helsta gróðrastían fyrir hefndarklám. Myndirnar eru enn í umferð, sem þýðir að ofbeldið er enn í gangi.

Þeir voru líka svo jafnréttissinnaðir einu sinni að eftir morðið á Trayvon Martin þurfti 4chan að toppa sig í rasismanum með því að pósta tölvupóstsaðgangnum hans, ásamt aðgang hans að samfélagsmiðlum, til að “sanna” að hann hefði nú ekki verið góður drengur því hann reykti stundum maríjúana með vinum sínum og hefði því bara átt þetta skilið. Fjöldi fávita fór að pósta undir nafni Trayvon og senda tölvupóst með netfanginu hans, bara svona til að vera örugglega jafn ósmekklegir og ógeðslegir og mögulegt er. Fólk auðvitað gleypti við þessu öllu saman, sérstaklega hvítt fólk, því það er miklu þægilegra að hugsa sem svo að svartir strákar séu almennt vondukallar en að neyðast til að sjá fyrir sér að hvítur virðingarverður karlmaður sé morðingi.

Þá er það líka eftirminnilegt þegar 4chan fannst rosalega fyndið að taka myndir frá skelfilegu bílslysi þar sem hin 18 ára Nikki Catsouras lést, senda þær á fjölskyldu hennar og dreifa þeim síðan um netið í miklu lulzfjöri*. Réttarlæknirinn hafði upprunalega ekki viljað leyfa fjölskyldu hennar koma til að bera kennsl á líkið þar sem hún var svo illa farin, en 4chan fannst mjög fyndið að senda myndirnar samt á þau, meira að segja í tölvupósti með titlinum “Woohoo Daddy! Hey daddy, I’m still alive.”. Fjölskylda Nikki fékk nóg, svo þau lokuð algerlega fyrir alla internetnotkun á heimili sínu og til að vernda yngstu dóttur sína ákváðu þau að taka hana úr skóla og kenna henni heima. Tilefnislaus hatursherferð gegn syrgjandi fjölskyldu, en 4chan notendur afsökuðu þetta eitthvað með því að það væri verið að minna á skaðsemi aksturs undir áhrifum (engar sannanir liggja fyrir um að Catsouras hafi verið undir áhrifum) og að hún hafi keyrt of hratt. Semsagt: Nikki Catsouras og fjölskylda hennar áttu þetta skilið.

Á tímabili tók 4chan sig til og fór í hasstagg-herferðir, aðallega til að fara í taugarnar á femínistum eða til að “eyðileggja” allt sem femínistar stæðu fyrir. Allavega var það takmarkið, að femínismi myndi hverfa. Púff. Og allir myndu fagna, því þá myndu femínistakunturnar hætta þessu jafnréttisvæli og karlmenn fengju að rúnka sér alveg í friði yfir klámi og konum í tölvuleikjum. Ég mæli með góðum slatta af tortryggni þegar fáránleg tögg trenda.

Þeir t.d. tóku fyrir #SolidarityIsForWhiteWomen, hasstagg sem byrjaði upprunalega sem gagnrýni WoC (Women of Color) á hvíta femínista fyrir forréttindablindu, og sneru út úr tagginu svo úr varð hreint rugl, sem náði einhverri útbreiðslu og náði að skapa einhvern usla. Eftir dálítinn tíma var orðið erfitt að sjá hvað var raunveruleg gagnrýni og hvað var bara þetta bull. Þetta er frábært tagg, og ég mæli með að lesa það vel, en vera um leið á varðbergi fyrir þekktum 4chan-frontum.

Svo var það #WhiteEnough, þar sem 4chan-notendur stunduðu grimmt að búa til aðgang að twitter og pósa sem WoC* og tweeta á WoC*-notendur að þau væru “nógu hvít” til að geta “lifað sem hvítt fólk” og þar af leiðandi væru þau í forréttindastöðu. Þetta var sérstaklega gert til að etja WoC-notendum gegn hver annari og magna upp vantraust og reiði.

#WhiteCantBeRaped er líka þeirra sköpunarverk. Markmiðið var að gera vinsæla þá uppgerðarskoðun að hvítt fólk byggi við svo mikil forréttindi miðað við aðra að það væri ekki hægt að nauðga þeim. Tilgangurinn var eflaust að sá hatri á milli WoC og hvítra femínista, en þetta varð aldrei trend og komst aldrei langt.

#BikiniBridge náði hins vegar talsverð flugi, trend þar sem líkamsskömmun náði hámarki, en takmarkið í því trendi átti að vera að vera nógu grönn til að líkaminn væri með svokallaða “bikini bridge”, eða bíkíní-brú. Þetta breiddist nægilega hratt út til að það kæmi mörgum í opna skjöldu, þar á meðal femínistum, en enn í dag eru “thinspiration” blogg og vefsíður að deila þessu. Semsagt: Þetta hafði raunveruleg áhrif á fólk sem er berskjaldað fyrir þessum boðskap.

enhanced-buzz-19265-1402923587-18

#CutForBieber hafði að markmiði að því að fá táninga (þá sérstaklega stúlkur) sem eru aðdáendur poppsöngvarans Justin Bieber til að stunda sjálfsmeiðingar “til stuðnings” Bieber, og til að stoppa eiturlyfjaneyslu hans. Fæstir þurfa víst að spyrja sig hvað er ógeðslegt við þetta, og þeir sem finnst þetta fyndið þurfa alvarlega að líta í eigin barm, en að hvetja börn til að skera sig bara “for the lulz” er ekki bara viðbjóður, ég er nokkuð viss um að það er ólöglegur viðbjóður. En hey, allt fyrir grínið.

#EndFathersDay átti nú að sýna öllum hvað femínistar væru miklar tussur með því að búa til falska prófíla og láta þetta trenda. Fólk, aðallega fólk sem var þá þegar tilbúið til að trúa öllu því versta upp á femínista, kokgleypti lygina og þetta trendaði í einhvern tíma, fékk meira að segja athygli einhverra fréttamiðla á tímabili. En engar áhyggjur krakkar, femínistar ætluðu sér alls ekki að skemma Feðradaginn –  þetta var bara 4chan sem langaði til að sanna fyrir ykkur hvað femínistar eru illa innrættir. Með því að…ljúga upp á þau.

709

#EndFathersDay plottað.

#FreeBleeding kom upp til að sýna hvað femínistar væru nú ógeðslegar kellingar með að pósta myndum af konum með túrblóð lekandi niður lærin á þeim. Trendið bjó sér til það gervi að það væri róttæk hreyfing femínista sem væri á móti heilsuvörum kvenna, eins og til dæmis dömubindum og túrtöppum, því þær væru birtingarmynd feðraveldisins á einhvern hátt. Neibb, ég er ekki að djóka.

Kannski nægir þetta í bili. En Emmu Watson-málið væri ekki fyrsta dæmið um að 4chan beitti ofbeldi og kenndi einhverjum öðrum um það með skrautlegu bulli. 4chan er gróðrarstía haturs  -haturs á konum, PoC*, fötluðum, hinsegin fólki og öllum þeim sem eru ekki hvítir gagnkynhneigðir ófatlaðir karlmenn. Ekki misskilja mig, hvítir gagnkynhneigðir karlmenn hafa iðulega orðið fyrir barðinu á 4chan í gegnum tíðina. Þeim finnst sérstaklega gaman að beita þá ofbeldi sem þeir úthrópa sem  “white knights”, eða riddara á hvíta hestinum, karlmenn sem taka svari þeirra sem 4chan nýtur að beita ofbeldi (konur, PoC*, fatlaðir, hinsegin fólk – það má alveg tala fyrir málstað annars karlmanns, en bara ef hann er hvorki hommi né femínisti).

Þeir gera þetta „for the lulz“. Þeim finnst þetta fyndið. Láttu samt ekki blekkjast, það þýðir svo sannarlega ekki að þeim sé ekki alvara. Hversu langt má brandari ganga áður en hann hættir að vera brandari? Hvernig stendur á því að algengustu viðbrögð fólks við þessu eru að hlæja eða segja: “Ekki taka þessu alvarlega” eða  “Ekki svara, þá versnar þetta”? Haltu kjafti og vertu sæt, annars eltir internetið þig uppi og eyðileggur líf þitt.

Ég ætla ekki að trúa því alveg strax að rantic.com hafi verið höfuðpaurinn í þessum ömurlega ofbeldisgjörningi. Ekki fyrr en óyggjandi sönnunargögn koma fram. 4chan hefur gert þetta áður, þeir hafa komist upp með þetta áður. Ég mun aldrei sætta mig við það að 4chan og notendum þess sé stillt upp sem fórnarlömbum, ekki þegar vitað er að þeir hafa oft og mörgum sinnum beitt ofbeldi „bara uppá djókið“, eða sett af stað persónulegar herferðir gegn fólki og málað sig svo sem hetjur og siðferðisverði. Ein aðaluppistaða 4chan er klám –  því ofbeldisfyllra og ógeðslegra, þeim mun betra. Því oftar sem þau segja n-orðið, þeim mun betra. Því meira sem þeir niðurlægja konur og femínista, þeim mun betra. Vertu eins ógeðslegur og mögulegt er, þá færðu klapp á bakið og internet* í verðlaun. Þeir dreifa hefndarklámi af barnungum stúlkum og stundum karlmönnum, og þær vefsíður sem hafa skotið upp kollinum af og til, þar sem íslenskir perrar safnast saman til að biðja um og dreifa myndum af ungum stúlkum, gera það með 4chan sem fyrirmynd. Barnaníðingar koma á þessa síðu til að sækja klámið sitt, jafnvel þótt 4chan þykist banna barnaklám. Klám, klám og meira klám, ofbeldi og hatur, en hey, þeir eru Nice Guys*.

4chan er ekki bara djók. Þetta er raunverulegt samansafn níðinga. Að taka þátt í lulzinu* er að taka þátt í ofbeldinu. Meme-in verða oft til á grundvelli raunverulegrar þjáningar raunverulegs fólks. Nokkur góðverk eða nokkrir raunverulega góðir brandarar stroka ekki út þjáninguna og hatrið sem notendur 4chan hafa orsakað, og sem 4chan í heild sinni hefur falið eða ýtt undir eða hlegið að.

Við þurfum enga helvítis ritskoðun, það þarf ekkert að leggja niður 4chan. Fólk þarf bara að sjá það fyrir það sem það er, og hætta að taka þátt í kjaftæðinu. Hætta að afsaka ofbeldið og hætta að hlæja að því í þessari ömurlegu meme-hjarðhegðun.

Og ef Rantic var raunverulega höfuðpaurinn í þessu, þá er það helvíti út af fyrir sig. En það breytir samt engu um 4chan. Það strokar ekkert út sögu Nikki og Damien og Trayvon, Zoe og Anitu og allra þeirra sem hafa orðið fyrir hatursherferðunum.

Hver er svo tilgangurinn með þessu öllu? Ekki trúa öllu sem þú sérð. Sérstaklega ekki ef 4chan hefur komið upp í umræðunni. Þá skaltu vera vel á varðbergi, því kjaftæðið er mjög sennilega ömurlegra og víðtækara en þú upprunalega hélst.

*PoC stendur fyrir “People of Color”. Þar sem engin þýðing er til á þessu orðasambandi á íslensku sem kemur merkingunni nægilega vel til skila nota ég ensku.
*WoC stendur fyrir “Women of Color”. Þar sem engin þýðing er til á þessu orðasambandi á íslensku sem kemur merkingunni nægilega vel til skila nota ég ensku.
*”Internet” er eitthvað sem maður fær “í verðlaun” ef  maður er nógu fyndinn. „You win the internet“ er vinsælt til að annaðhvort lýsa yfir ánægju með þráðinn eða kaldhæðnislega ýja að því að þú sért fáviti.
*Lulz, eða “for the lulz” er mikið notað og var gert vinsælt af 4chan á sínum tíma. Semsagt: allt í gríni, allt er fyndið, gerðu allt til að vera fyndinn og búa til lulz.
*Gaur sem segist vera Nice Guy er líklega einhver sem þú þarft að forðast. Týpan sem skilur ekki af hverju konur vilji ekki ríða honum, þar sem hann er nú svona „næs gæi“. Vælir endalaust yfir því hvað hann fær ekki nóg að ríða og hvað konur eru miklar druslur þar sem þær vilja bara vonda stráka og hunsa þar af leiðandi typpið á góðu gæjunum. Almennt fávitar.

Ein athugasemd við “4chan: ekki fórnarlamb

  1. Mjög mikið af fólki misskilur út á hvað netfrelsi, ritfrelsi og málfrelsi gengur út á. Það þýðir ekki að þú hafir leyfi til að breiða út óhróður um annað fólk, dreyfa af þeim myndum sem það vill ekki að fari í dreyfingu, hóta því beint eða óbeint, hóta vinum þeirra og ættingjum o.s.frv.

    Frelsinu fylgir ábyrgð. Ef þú hefur frelsi til orða berðu jafnframt ábyrgð á því sem þú segir. Ég hef að því er ég best veit aldrei farið inn á 4chan en miðað við lýsingarnar er þetta afar ógeðfelldur félagsskapur. Eins ógeðfellt og það er að segja „You are one dumb cunt, I mean that sincerely from the bottom of my heart“ þá fellur það undir málfrelsi af því í þessu felst ekki hótun.

    En margt annað og verra ógnar beint lífi og heilsu þeirra sem í því lenda og því væri það ekki dæmi um netritskoðun ef ráðist yrði á 4chan, það lagt niður og forsprakkar þess handteknir. Endanlega er þetta spurning um hugarfarsbreytingu hjá ansi mörgum eins og þú sagðir (þú getur ekki sagt hvað sem er á bak við skjöldinn að þetta sé bara grín, þó sumir vilji skilgreina það of vítt fyrir minn smekk) en samt sem áður fyndist mér sjálfsagt að elta uppi forsprakka 4chan og ganga milli bols og höfuðs á þeim.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.