Skuldafangelsi karlmennskunnar

Höfundur: Kári Emil Helgason

Í gær birti knuz.is pistil eftir Gísla Ásgeirsson sem skrifaður var til að bregðast við grein eftir Margréti Pálu Ólafsdóttur, Gjald karlmennskunnar, í Fréttatímanum. Gísli taldi Margréti Pálu draga upp mynd af liðnum veruleika sem hefði átt betur við fyrir tveimur áratugum. Í dag leggur Kári Emil sitt af mörkunum til þessarar umræðu.
 
mad men

Ég tek undir afstöðu Gísla Ásgeirssonar; ég hef engan áhuga á að greiða gjald karlmennskunnar sem Margrét Pála Ólafsdóttir ritaði um í Fréttatímanum síðasta föstudag. En hvað þýðir það að neita að borga skatta og gjöld? Við því eru viðurlög.

Strámennirnir hennar Margrétar er vissulega ýktir, en þeir er til og þeir eru glettilega algengir. Gísli hittir þá kannski ekki reglulega og það geri ég raunar ekki lengur heldur. En af og til fæ ég innsýn í þennan einkaheim karla í lúxusáskrift og bregður í hvert sinn. Við könnumst öll við þá mynd sem Margrét dregur upp. Ég er fæddur 1988, næstum tveimur áratugum eftir 1970, en ég þekki allar þessar karlmennskuímyndir sem hún lýsir vel úr eigin lífi. Ég hef upplifað þær af fyrstu hendi.

Ég þekki þá pressu að mega ekki gráta, mega ekki lýsa tilfinningum, hrifningu, fegurð. Mega ekki knúsa, mega ekki kyssa, mega ekki leiða. Horfa upp á fótboltastrákana sem almennt voru harðastir í viðhaldi á þessum reglum brjóta þær allar innan samhengis fótbolta.

Það er þægilegt að ímynda sér að hið þrúgandi regluverk karlmennskunnar sé bara til í Mad Men, Masters of Sex eða Downton Abbey. En auðvitað er þetta enn til. Spurðu bara frænda þinn.

Í tíu ár af grunnskóla reyndi ég að forðast gjaldið og mér var haldið í skuldafangelsi alla barnæskuna sem ég hef lýst í knúzgreininni Loftkastalinn sem bráðum springur. Ég á ekki afturkvæmt í heim ofurkarlmennskunnar, enda félagsmótaður frá barnæsku til þess að eiga í flóknu ástar-hatursambandi við hana.

Mengið „Karlmenn“

strámaðurÉg hef tekið meðvitaðar og ómeðvitaðar ákvarðanir um að skorast undan og gagnrýna þessar staðalmyndir. Fyrir mér tákna þessar staðalmyndir, skilningssljóu strámennirnir hennar Margréti Pálu, allt það skaðlega í heiminum. Þær tákna fimmtán ára einelti og ofbeldi. Og á sama tíma er finnst mér þessi „sanna karlmennska“ kynferðislega örvandi. Þversögn? Stokkhólmsheilkenni?

Ég á oft erfitt með að tala við karlmenn. Ég á mun eðlilegri samræður við konur, sem sést á vinahópnum mínum. Þegar ég stend frammi fyrir karlmannlegum, reffilegum mönnum er mér oftast orða vant. Ég stend tafsandi og veit ekki hvað ég á að segja næst. Og ég hugsa með sjálfum mér: Hvað er að mér?

Ég get ekki farið og fengið mér einn kaldan með strákunum yfir leiknum, farið að tékka á sportbílasýningunni uppi í Öskju eða skella mér í World Class að pumpa með sjomla.

Ég er stutthærð brjóstlaus manneskja með skegg og typpi og XY litningapör. Ég borga því óhjákvæmilega lágmarksgjaldið og það gerir Gísli líka. Við höfum kannski ekki aðgang að lúxussetustofunni en við fáum að koma inn í andyrið á einkaklúbbnum og litast um við barinn. Og þessu fylgja fríðindi (og fórnir).

Ég er hluti af mengi sem heitir „karlmenn“ hvort sem mér líkar betur eða verr. Skattheimtan er innifalin í öllum þáttum samfélagsins. Ég fékk þetta óumbeðið í uppeldinu og því verður ekki afsalað úr þessu.

Loftkastalinn stendur þarna ennþá, alltumlykjandi og gríðarstór. Það eina sem við getum gert er að halda áfram að stinga á hann göt og hætta að pumpa í hann.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.