Femínismi fyrir feður dætra – í orði og á borði

Höfundur: Ariel Chesler

Myndin er sótt hingað

Myndin er sótt hingað

Nýlega birti The Huffington Post pistil eftir Bret Spears sem bar heitið „10 staðreyndir sem gleymdist að segja mér um það að eignast dóttur“ (10 Things No One Ever Told Me About Having a Daughter). Pistillinn vakti mikla eftirtekt og var deilt víða og Tracy Moore, pistlahöfundur hjá Jezebel, brást við honum með því að spyrja sig og aðra: „Af hverju þurfa karlmenn að eignast dætur til að fatta allt í einu að stelpur eru líka fólk?

Í júlí síðastliðnum sló Kat Stoeffel hjá The Cut á svipaða strengi þegar hún fjallaði um „bloggskrifapabbann“ sem fær femíníska vakningu eftir að hafa eignast dóttur, „en hafði virst alls ófær um að hafa samkennd með konum fyrr en nú, þegar hann hefur sjálfur átt beina aðild að sköpun einnar slíkrar.“ Og í ágúst lét Mary Elizabeth Williams einnig í ljós áhyggjur sínar á vefsíðu The Salon, þar sem hún ræddi um nýsprottna fjöldahreyfingu feðra á netinu sem væru skyndilega komnir með brennandi áhuga á lífi og félagslegum aðstæðum dætra sinna. Áhyggjur hennar voru þær að þessir pabbar væru í raun að „klappa sjálfum sér á bakið fyrir að hafa fengið hugljómun um að allur skíturinn sem heimurinn sturtar yfir konur gæti hugsanlega verið eitthvað sem þeim beri að hafa einhvern áhuga á.“ Williams bætti um betur og lagði fram eftirfarandi kröfu: „Sýnið okkur nú að ástæðan fyrir því að ykkur er ekki lengur sama um konur og stúlkur sé sú að þið eruð manneskjur, en ekki bara að þið séuð orðnir pabbar.“

Þessar konur eru gramar yfir því – og mjög skiljanlega – að svo margir karlmenn skuli ekki átta sig á því hvernig það er í raun að vera kvenkyns í samfélagi okkar fyrr en þeir blanda erfðaefni og framleiða úr því dóttur. Og þó, eins og reynslan af harmleiknum í Ferguson og hefndaraðgerðum Elliot Rodgers hefur kennt okkur alveg nýverið, þarf oft að eiga sér stað einhvers konar harmleikur – einhver atburður sem er nægilega hroðalegur til að við skynjum hann sem einstaklingar – til að hrinda af stað umræðum um kynþáttamismunun eða kvenhatur. Þannig ætti það ekki að koma neinum á óvart að vandamálin sem konur og stúlkur standa frammi fyrir, og pólitískt samhengi þeirra, verði ekki raunveruleg í augum margra karla – margra feðra – fyrr en þessi vandamál eru farin að snerta þá og ástvini þeirra persónulega. Þetta risavaxna ský á augum okkar virðist vera æði útbreiddur kvilli, og það þrátt fyrir að allir karlmenn eigi móður eða hafi, í langflestum tilvikum, átt einhver samskipti við konur. Og skýið er þarna á augunum, þrátt fyrir að kvennahreyfing samtímans hafi nú í yfir hálfa öld hamrað á og rætt vítt og breitt um nauðsyn þess að endurhugsa félagsmótun okkar og gera okkur miklu meðvitaðri um inngróna kynjamismunun samfélagsgerðar okkar.

Hvers vegna erum við enn þjökuð af þessari blindni?

Í fyrsta lagi megum við ekki gleyma því að margir drengir eru enn skilyrtir til að líta á stúlkur sem þeim undirskipaðar  og að þeim er ekki leyft að gangast við eigin tilfinningum og fá að þroska með sér og iðka samlíðan og eðlilega tjáningu tilfinninga. En það hangir fleira á spýtunni. Við höfum gert of mikið af að tala og of lítið af því að gera. Nú skal ég skýra þetta betur: Femínistar hafa staðið sig frábærlega í að segja okkur allt sem segja þarf um ofbeldi gegn konum, nauðganir, kynbundinn launamun, um það hvernig stúlkur og konur eru aðeins metnar samkvæmt útliti og um það hvers vegna kynfrelsi og frelsi til barneigna eru grundvallarmannréttindi. En sem samfélag samþykkjum við enn að litið sé á konur sem óæðri samfélagshóp og raunar sýnum við þá afstöðu í verki á öllum sviðum samfélagsins. Það þarf ekki annað en að líta til þess hversu skelfilega fáar konur eru kjörnir fulltrúar hinna ýmsu löggjafarsamkunda eða hve fáar þeirra stjórna fyrirtækjum. Hugleiðið hvernig við tökum á heimilisofbeldi eða kynferðisbrotum í landinu okkar. Eða skoðið hvernig við hömpum og hefjum til skýjanna karlkyns íþróttamönnum og berið það saman við mun lægra skipaðar og verr launaðar konur í keppnisíþróttum  – með örfáum undantekningum. Og gefið ykkur smástund til að hugleiða að í langflestum barnabókum er söguhetjan (hvít) karlkyns og að flestar kvikmyndir eru með karlpersónu sem þungamiðju sögunnar.

Þegar ég hugleiði það uppeldi sem ég naut sjálfur verður mér ljóst að það uppeldi byggðist á því annars vegar að segja mér og hins vegar að sýna í verki og að það leiddi til þess að ég öðlaðist skilning á reynsluheimi kvenna. Ef móðir mín, sem stóð framarlega í kvennabaráttunni, hefði tilkynnt mér einn daginn að „konur væru líka menn“, og látið bara þar við sitja, hefði það ekki endilega dugað til. Að alast upp hjá tveimur mæðrum á mótunarárum mínum gerði gæfumuninn. Það gerði að verkum að ég heyrði og meðtók það sem mér var sagt um konur og gat um leið fylgst með tveimur konum, sem báðar gegndu foreldrahlutverki og voru áhrifavaldar í lífi mínu og sem báðar voru einstaklingar með sína sértæku styrkleika og veikleika, sína einstaklingsbundnu nálgun, ástríðu og nærveru. Mér var með öðrum orðum sýnt í verki að konur eru líka menn. Þetta er auðvitað áhugavert tilraunadæmi en það væri út í hött að leggja til að öll börn ættu helst að alast upp hjá tveimur mæðrum, jafnvel þótt nýleg áströlsk rannsókn bendi til þess að börn samkynja foreldra séu heilbrigðari einstaklingar, þá einkum vegna þess að þau þroski með sér samkennd og læri að meta og fylgja eftir einstaklingsbundnum hæfileikum sínum, færni og áhugamálum, fremur en láta þvinga sig inn í fyrirfram mótaða kassa kynhlutverkanna.

Feðgin í eldhúsleik, 1963. Myndin er sótt hingað.

Feðgin í eldhúsleik, 1963. Myndin er sótt hingað.

Samfélag og menning

Af uppeldi minna eigin dætra hefur mér lærst að það er sama þótt ég haldi hvern fyrirlesturinn á fætur öðrum yfir þeim, þær sækja sinn skilning á kyni og kynhlutverkum til samfélagsins og menningarinnar sem gegnsýrir það annars vegar og af því sem þeim er sýnt í verki hins vegar. Þess vegna hef ég áhyggjur af því að þær gætu liðið fyrir það að eiginkona mín hefur verið heimavinnandi síðustu tvö árin, en ég farið til vinnu á hverjum morgni, og þess vegna fagna ég því að barnalæknirinn þeirra er kona, tannlæknirinn þeirra er kona og kennararnir þeirra eru konur. Ég gæti þess að vekja athygli þeirra á því þegar við mætum kvenkyns lögregluþjóni á förnum vegi eða sjáum konur í hinum ýmsu hlutverkum í daglegu lífi. Mér er auk þess huggun í því að önnur nýleg rannsókn hefur leitt í ljós að með því að sýna þeim að ég tek til morgunverðinn, sé um baðtímann þeirra, versla í matinn og sinni öðrum heimilisverkum stuðla ég að því að dætur mínar setji markið hátt og standi með sjálfum sér og sínum persónulegu markmiðum.

Til að við getum breytt ástandinu í þá veru að pabbar framtíðarinnar þurfi ekki að eignast dætur til að átta sig á því að konur eru mennskar legg ég til að við göngum skrefinu lengra. Að við bjóðum börnunum okkar upp á fjölbreyttara efni í miðlum, þannig að þau sjái konur í aðalhlutverkum en ekki sem aukapersónur sem fylgjast með og styðja við stóra plottið af hliðarlínunni, er ein mikilvægt leið til þess. Við verðum að halda áfram að berjast fyrir jöfnum launum og fullum umráðarétti allra yfir líkama sínum og við þurfum að taka ofbeldi gegn konum alvarlega. Krefjumst jafnréttis kynjanna í íþróttum og atvinnulífi, hættum að refsa konum fyrir að verða mæður og bjóðum fullt aðgengi að leikskólum, alls staðar. En við skulum líka krefjast róttækari breytinga, á borð við þær sem hafa verið gerðar á Íslandi og í Frakklandi, þar sem ákvæði um jöfn hlutföll kynja í ríkisstjórnum* og stjórnum fyrirtækja hafa verið fest í lög. Með þeim hætti getum við sýnt komandi kynslóðum feðra í verki að stúlkur og konur eigi að gegna lykilhlutverkum í lífi þeirra – og það löngu áður en þeir eignast sjálfir dætur.

Greinin birtist fyrst á vefsvæði bandaríska tímaritsins Ms. (sjá hér) og birtist hér með góðfúslegu leyfi. Halla Sverrisdóttir þýddi.

Aths. ritstjórnar: Reyndar er ekki ákvæði um jöfn kynjahlutföll í ríkisstjórn á Íslandi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.