Ritstjórn
Stuttmyndin Stattu með þér! er 20 mínútna löng stuttmynd ætluð nemendum á miðstigi grunnskóla. Myndinni er ætlað að spyrna gegn kynferðisofbeldi og klámvæðingu með sjálfsvirðingu og jákvæðni að leiðarljósi. Stattu með þér! er fyrsta fræðsluefni sinnar tegundar fyrir þennan aldurshóp og standa vonir til að kennarar og foreldrar nýti það til að efla 10-12 ára börn í að standa með sér gegn staðalímyndum og útlitsdýrkun og rækta sjálfsvirðingu í mannlegum samskiptum. Brynhildur Björnsdóttir og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir unnu myndina og er hún sjálfstætt framhald fræðslumyndarinnar Fáðu já! sem þær gerðu ásamt Páli Óskari Hjálmstýssyni. Sú mynd var ætluð börnum í 10. bekk en myndirnar eiga það sameiginlegt að vera forvarnarmyndir gegn kynferðisofbeldi. Smellið hér til að horfa á myndina Stattu með þér! Á sama stað má nálgast ítarefni og kennsluleiðbeiningar tengdar myndinni og Vitundarvakningu um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi.
Knúzið leitaði til þriggja aðila til að fá álit þeirra á myndinni – foreldris, kennara og síðast en ekki síst barns úr markhópnum:
Foreldri segir sína skoðun:
Það var með mikilli eftirvæntingu sem ég settist niður til að horfa á Stattu með þér, og ég varð einfaldlega stórhrifin. Myndin snertir bæði manneskjuna í mér og mömmuna í mér og ég efast ekki um að hún nær til krakkanna einmitt þar sem þau þurfa mest á því að halda. Það er farið alveg jafn langt og nauðsynlegt er í umfjöllun um netklám og netperra, án þess að dregin sé upp einhver hryllingsmynd af netinu og eða þeim eðlilegu samskiptum sem þar er hægt að eiga, og myndin sem sett er upp af yfirvofandi unglingsárum er að þau séu spennandi ferðalag sem geti orðið enn skemmtilegra og áhugaverðara ef krakkarnir gá vel að sér – og standa með sér.
Tengslin á milli netveruleikans og raunveruleikans eru gerð skýr og skiljanleg með fyndnum dæmisögum og áherslan á algera afléttingu ábyrgðar þolanda ofbeldis, hvort sem er í netheimum eða raunheimum, fer ekki á milli mála. Ég á dóttur á ellefta ári sem er einmitt nýbyrjuð að máta sig í margs konar nýjar og spennandi aðstæður; til dæmis eru flestar stelpurnar í vinahópnum og bekknum (og raunar sumir strákanna líka) á Instagram, svo hún fékk að skrá sig líka eftir nokkra umhugsun – og klikkin og lækin fljúga og það þarf að spá í hvað maður vill setja á netið og hvernig mynd maður vill gefa af sjálfum sér og hvernig maður á að gæta að sér. Myndin styður mjög vel við þá umræðu.

Fingur skornir af í myndbandinu við We Can´t Stop með Miley Cyrus
Stelpan mín og krakkarnir í kringum hana hlusta líka á popptónlist og þau eignast uppáhaldslög – og vilja þá sjá myndbandið líka, sem þau kunna öll að gera með einum smelli á YouTube. Og þá blasir stundum við þeim myndmál og myndefni sem er langt fyrir ofan þeirra skilning, myndlæsi og þroska – og getur verið mjög illskiljanlegt, jafnvel óþægilegt. Af hverju er söngkonan sem syngur skemmtilega og grípandi lagið í næstum engum fötum, af hverju er hún að nudda sér utan í vegg eða svo gott sem í sleik við aðra konu, af hverju er einhver (fullklæddur) karl að káfa á henni (fáklæddri) – um hvað fjallar þetta eiginlega? Og myndmálið þarf ekki að vera klámfengið til að vera óþægilegt, því sum tónlistarmyndbönd nota súrrealískt og flókið myndmál sem getur verið ofbeldisfullt þótt enginn sé beinlínis laminn eða hrollvekjandi þótt aðeins sé verið að gefa óhugnað í skyn eða hann sé mjög stílfærður. Þannig eru myndböndin við mörg vinsælustu lögin í raun ekki við barna hæfi – þótt börn séu stór hluti af neytendum efnisins.
Í myndinni Stattu með þér! er fjallað um þetta með mjög skýrum hætti. Ég held því að markhópur myndarinnar – 10 til 12 ára krakkar – sé hárréttur og þörfin fyrir efnið brýn. Myndin færir foreldrum frábært verkfæri og tækifæri til að ræða öll þessi mál við krakkana sína. Og eflaust eiga margir krakkanna eftir að segja „æ, pabbi og mamma eru búin að segja mér þetta hundrað sinnum,“ og eflaust er það líka rétt í mörgum tilvikum – en það skiptir gríðarlegu máli að fá skilaboðin sett fram í svona skýru samhengi á svona samþjappaðan hátt og að fá að meðtaka hann með jafningjahópnum. Og sjálfsagt fyrirfinnast líka krakkar sem aldrei hefur verið rætt við um þessi mál heima eða í skólanum – og sé svo er einfaldlega ekki seinna vænna að þau sjái Stattu með þér!
Kennarinn tekur undir allt sem hér er sagt að ofan. Efnið er skemmtilega sett fram, fyndið og fjörlegt, vekur ótal spurningar sem gott er að taka fyrir í hóp. Myndin skiptist í sjö tengda en sjálfstæða hluta og hver um sig hentar í afmarkaða umfjöllun. Samþættingarmöguleikar eru miklir. Kennsluleiðbeiningar fylgja og því er einboðið fyrir kennara að taka því opnum örmum sem þeim er rétt upp í hendur og hefjast handa. Fáðu Já var löngu tímabær og sama má segja um þetta efni.
Nemandinn segir:
Ég er búin að horfa nokkrum sinnum á myndina. Mér fannst hún skemmtileg og góð fræðslumynd. Hún hentar vel þeim sem virða ekki sjálfan sig og útlit sitt. Hún útskýrir vel hvernig maður á að setja sér mörk og hvað ofbeldi er. Það er sniðugt fyrir börn og foreldra að horfa á myndina saman því þá er hægt að ræða málin enn meira á eftir. Allir sem vilja læra að virða sjálfan sig og að setja sér mörk ættu að horfa á myndina .
Mér fannst Stattu með þér! góð mynd.
Videoið liggur niðri á vef velferðarráðuneytisins. Fúlt. Hlakka til að sjá myndina.