Píkan mín

Höfundur: Sigríður Nanna Gunnarsdóttir

Helvítis píkan mín

Píka 2014

Píka. 2014. Ragga Jóns.

„Mamma, hvað þýðir eiginlega orðið klobbi?“ Spurði tæplega fjögurra ára telpan og mér fannst ég hafa unnið stórsigur, enda hef ég barist við sjálfa mig og pínt mig til að kenna henni rétt orð yfir líkamshluta sinn. Við erum þónokkrar stúlkurnar sem fengum ekki að læra almennilegt orð yfir píkuna okkar. Píka er fallegt orð sem þýðir einfaldlega stúlka. Mér var kennt að nota barnalega orðið klobbi, orð sem komið er af orðinu klof. Vinkonur mínar notuðu sumar enn verri orð; budda, pjása eða pjalla. Vinir mínir í leikskóla voru allir bara með typpi, þó einstaka drengur hafi hlaupið um á sprellanum. Þeir voru yfirleitt ekki í vafa um hvað þeir ættu að kalla kynfæri sín. Þetta varð svo enn vandræðalegra þegar við urðum ungmenni og vissum ekki hvaða orð við ættum að nota í samræðum um sæmræði. Fullorðin kona gat ekki lengur samsamað sig með orðinu klobbi eða pjalla. Hún gat heldur ekki speglað kynfæri sín í orðinu píka. Það hafði þótt of gróft á uppvaxtarárunum, það var á bannlista og var stundum notað á niðurlægjandi hátt um konur. Orðin sem voru notuð opinberlega voru oft fræðilegri og því fjarlægari; sköp, kvensköp, kynfæri kvenna voru orð sem unglingurinn átti erfitt með að tileinka sér.

Hvernig er hægt að ætlast til að kona sem hefur lært að hún sé með smán eða sneypu á milli fótanna, sem einhvern tímann hefur verið kölluð helvítis píka, geti með nokkru móti fundist píka rétta orðið yfir kynfæri sín? Í framhaldi þarf þessi kona, sem eitt sinn var með ónefnu í stað píku, að kenna dætrum sínum orð yfir ytri hluta kynfæra sinna. Margar mæður hafa staðið frammi fyrir þessum vanda. Það er erfitt að að nota þetta orð sem er svo sárt viðureignar, svo skítugt og gróft; helvítis uppnefnda píkan. Það er erfitt að nota það yfir píkuna á saklausum og fallegum líkama barnsins. Ég gerði það samt, ég hafði heyrt aðrar konur kyngja hæsinu og hvísla orðið, mátað það við sjálfa sig og að lokum endurheimt valdið yfir orðinu píka.

Píkan í listinni

Raddir þessara kvenna hjálpuðu mér, en einnig átti hljóðlát miðlun listheimsins eftir að hafa áhrif á okkur allar. Listheimurinn hjálpaði mér líka að ná valdi yfir – og endurheimta orðið sem samfélagið hafði afbakað. Sjálfsmynd konunnar er listakonum oft hugleikin og birtist hún á margvíslegan hátt. Listin hefur þá stöðu að geta tekist á við samfélagsleg mein og á hún það til að segja hið ósagða. Stundum segir hún einfaldlega orðið píka. Við sáum þetta þegar við roðnuðum yfir leikritinu Píkusögum, þegar höfundurinn, Eve Ensler, hversdagsvæddi orðið píka. Henni tókst það fyrir áratug síðan, og á þeim tíu árum sem liðin eru höfum við lært heilmikið. Nú getum við talað nokkuð opinskátt og jafnvel nefnt orðið píka við kvensjúkdómalækninn okkar. Falleg, eldrauð ullarpíka Kristínar Gunnlaugsdóttur hjálpar okkur einnig þar sem hún hangir í Ráðhúsi Reykjavíkur og leiðréttir sýn samfélagsins. Við göngum inn í Ráðhúsið og píkan er á meðal okkar. Hún þegir, en hún er þarna samt og hún hjálpar okkur að hversdagsvæða eigin sýn á fagran líkama okkar. Við göngum svo niður Laugaveg og sjáum svo aðra skemmtilega hversdagsvæðingu á píkunni í prjónuðum klæðnaði frá Ýrúrarí þar sem Ýr Jóhannsdóttir hannar ögrandi og óhefðbundnar flíkur með prjónuðum kynfærum.

Endurheimt

Við verðum að fagna því að listin skuli styrkja okkur með þessum hætti, rétt eins og píkan okkar gerir. Það er í raun skelfilegt að konur geti ekki talað um sjálfa sig vegna skorts á orðum yfir líkamshluta sína. Það að konur séu feimnar við að nota rétt orð yfir líkama sinn stuðlar að ófullkominni sjálfmynd og sá sem gengur með brotna sjálfsmynd verður aldrei heill. Þessu verður að breyta. Byrjum á því að endurheimta orðið píka með því að tileinka okkur það á hversdagslegan hátt. Normalíserum það og höfnum þeim níðingshætti í garð píkunnar sem hún hefur mátt þola. Hættum að skammast okkar, komum í veg fyrir að dætur okkar lendi í sömu erfiðleikum með tungumálið. Kennum þeim að þær séu með píku.

Þessi grein birtist upphaflega í vefritinu Sirkústjaldið og birtist á knuz.is með leyfi höfundar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.