Ég og fitan mín

Höfundur: Kristín Jónsdóttir

the f wordEf eitthvað gagn er í því að eiga vini, er það sá eiginleiki vinar að geta til vamms sagt og komist upp með það. Svo ég missi mig í metafórurnar: Góður vinur getur haldið spegli fyrir framan þig og pínt þig til að horfa í hann og sjá allt. Góður vinur getur dregið þig út úr þoku sem þú hefur búið svo haganlega til utan um eitthvað málefni, eitthvað sem þú þyrftir að gera eitthvað í, en hefur ákveðið að sveipa þoku í veikri von um að enginn tæki eftir því. Góður vinur … já, já, ég skal hætta núna og koma mér að efninu.

Vandamál?

Þessi pistill fjallar um persónulegt vandamál. Vandamál sem vissulega má flokka með lúxusvandamálum, en ég veit samt að það snertir marga og að ákveðnar hliðar á því eru nátengdar feðraveldinu og að því er viðhaldið af kapítalískum öflum. Þess vegna þykir mér það nógu femínískt til að ræða það hér á knúz. Ég kem líklega ekki með neinar endanlegar lausnir, nema eitthvað rofi til í kollinum á mér meðan ég skrifa. Ég er aðallega að hugsa um tilraun til að opna á umræðu og svo langar mig líka til að hughreysta þá sem kannski halda að þeir séu einir með sitt vandamál.

Þolmörk

Ég grínast stundum með það að ég taki við hitaeiningunum fyrir hönd allra fjölskyldumeðlima. Við borðum saman kvölds og morgna, og ekki er ég hangandi á hamborgarabúllum í hádeginu, það get ég svarið, en undanfarin ár hef ég fitnað nokkuð stöðugt, meðan þau hin eru öll grönn og spengileg. spegillNú á síðustu mánuðum hef ég náð að þolmörkum mínum gagnvart eigin líkama. Ég á erfitt með að horfa á mig í spegli og ég fer að gráta, að minnsta kosti innan í mér, í hvert skipti sem ég geri tilraun til að kaupa mér föt. Í sumar gekk ég nánast eingöngu í sérstökum fitubollukjól frá dönsku merki. Ég þvoði hann og hengdi upp að kvöldi, til að fara aftur í hann morguninn eftir. Ég tek út fyrir þetta og er farin að ræða þetta opinskátt við vini og kunningja.  Þótt ég svari öllum hamingjuóskum með óléttuna af fyllstu kurteisi, kemur það fyrir að mig langi til að bregðast illa við. Ég þykist oft vera voðalega kúl, gantast með að þessi ólétta sé farin að vera ansi löng og hvort barnið fari nú ekki að poppa út og hahahahæ, voða fyndið allt saman. En innan í mér er ég eftir sem áður lítil og spéhrædd og leið yfir því að geta ekki lengur komist í megnið af fötunum mínum.

Nýlega átti ég svo spjall við vinkonu sem rak spegilinn framan í mig, dró mig út úr þokunni: „Hvernig fer það saman að þú skulir helga mörgum stundum lífs þíns í að hamra á femínisma og berjast gegn útlitsdýrkun, en að svo talir þú sjálfa þig niður sem feita?“ Kæri lesandi, þú skalt ekki halda að ég hafi ekki spurt mig viðlíka spurninga. Ég bara nennti samt aldrei að svara sjálfri mér. En þessi vinkona er ein af mínum bestu og í ofanálag er hún ein af þessum manneskjum sem hefur nánast alltaf verið þybbin og jafnvel bara vel feit. Hún hefur iðulega fengið að heyra það frá mér og öðrum að hún sé bara samt falleg og fín og eigi ekki að vera neitt öðruvísi en hún er. Því er ekki að furða að hún spyrji nú hvers vegna það sem sé í lagi fyrir hana, sé ekki í lagi fyrir mig. Og ég neyðist til að svara.

FEITUR EÐA MJÓR – LÍTILL EÐA STÓR – Ég elska alla jafnt!

Mér finnst óþolandi þegar grannt fólk segir feitu fólki að það sé auðvelt að halda sér grönnum. Það er auðvelt fyrir suma og erfitt fyrir aðra. Alveg eins er það óþolandi að þybbið eða feitt fólk geri lítið úr grönnu fólki. Við þekkjum öll manneskjur sem virðast geta borðað hvað sem er, en eru alltaf hríðhoraðar. Þær manneskjur þurfa oft að þola leiðinda athugasemdir vegna þess. Í fullkomnum heimi ættu allir að hætta öllu svona. Í fullkomnum heimi tekur hver manneskja fulla ábyrgð á sjálfri sér og gefur gott fordæmi en dæmir ekki aðra fyrir að vera öðruvísi. Ég þekki fólk eins og til dæmis ofangreinda vinkonu, sem er þybbin og sem getur í raun ekki verið annað en þybbin. Ég hef séð hana horaða, en það var á hrikalega erfiðu tímabili í lífi hennar og um leið og allt varð betra, kom fallega spikið hennar aftur. Mér finnst í alvöru talað fara henni betur að vera dálítið feit. Ég er ekki að ljúga að henni þegar ég segi það. Ég á svo annan vin sem er feitur núna, en sem var einu sinni grannur. Sú manneskja er ekki að nokkru leyti minna virði í mínum huga, en ég myndi samt alveg vilja sjá hana grenna sig aftur. Líka því ég veit að hana langar það sjálfa. Alveg eins og ég þoli illa þegar fólk er að malda í móinn við mig, ég kann betur við að vinkonur segi við mig hreint út að já, ég hafi fitnað og að það fari mér ekki vel. Ég geri ákveðnar kröfur á sjálfa mig, og nú stend ég ekki undir þeim kröfum.

ÞANNIG MÁ KANNSKI SEGJA AÐ ÉG ELSKI ALLA JAFNT, NEMA EINN?

Ég var með konu um daginn sem mátaði kjól sem huldi ekki alveg fellingarnar undir brjóstahaldaranum á bakinu. Mér fannst ekkert að því. Þessi kona er falleg og fín og þótt hún sé komin með smá spik utan á sig, er hún bara enn fallegri í mínum huga. Hún var hins vegar ekki jafn sátt og talaði um að hún gæti mögulega notað kjólinn undir víðari jakka. Þegar ég fer sjálf í mátunarklefa, flögrar ekki að mér að samþykkja mig í fötum sem sýna þessar sömu fellingar. Ég ríf mig úr slíkum flíkum og langar að kasta sjálfri mér niður í gólfið og hrína þegar ég átta mig á því að ekkert af því sem ég tók með mér inn í klefann nær að hylja mig og minn óásættanlega líkama. Ég þoli sem sagt mjög vel að sjá fellingar á baki, bumbu í strekktum bol eða feita handleggi úr hlírabol, svo lengi sem það er ekki MÍNAR fellingar, MÍN bumba, MITT handleggjaspik. Ég elska sumsé alla aðra nægilega mikið til að láta mér standa rækilega á sama um „misfellur“ sem mér finnst ekki einu sinni vera misfellur, heldur eðlilegur líkami lifandi manneskju. Misfellurnar liggja frekar í skekktri staðalmynd sem búin er til í fundarherbergjum af fólki sem er drifið áfram af græðgi. Það er þeirra hagur að tala niður til okkar. Það felast mikil völd í því að geta stjórnað lýðnum með því að selja honum drasl sem á að sefa vanlíðanina eða kveikir von um lausnir og leiðréttingar á „misfellunum“ ógurlegu.

HVAÐ ER MÁLIÐ MEÐ MIG OG MÍNA FITU?

Fitumál eru svo hrikalega flókin því stundum snúast þau um alvöru heilsufarslegt vandamál, en mjög oft er þetta bara spurning um lúkkið, en spurningin um lúkkið er ekkert annað en angi af útlitsdýrkun. Ég get alveg reynt að segja við fólk að ég vilji grenna mig af heilsufarslegum ástæðum, en ég held að vinkona mín hafi hitt naglann ansi skemmtilega á höfuðið þegar hún tilkynnti að fólk sem vill missa fimm kíló er ekki að tala um heilsuna heldur útlitið. Vanlíðan mín gæti reyndar alveg verið við það að fara að geta flokkast undir heilsufarslegt vandamál og mun að sjálfsögðu gera það ef ég held áfram á þessari braut. Ég er til dæmis farin að finna fyrir óþægindum þegar lærin á mér klessast saman á sumrin þegar ég er bara í kjól en ekki sokkabuxum. Og þessi óþægindi eru alvöru, þegar lærin nuddast saman, getur komið sár. Ég get hins vegar auðveldlega hlaupið mína 5 kílómetra þegar ég hunskast til þess og ég get þrammað um götur Parísar eins lengi og mig lystir án þess að finna fyrir ofþreytu eða mæði eða nokkru því sem offitusjúklingar finna fyrir. Ég er sem sagt í mjög góðu formi og mér líður mjög vel með sjálfa mig að öllu öðru leyti en því að ég lít út fyrir að vera ólétt.

Í sátt

Vandamál mitt væri væntanlega mun auðveldara viðfangs ef fólkið í kringum mig hefði lært þá grunnkurteisisreglu að spyrja konu aldrei um óléttu af fyrra bragði. En ég held samt að ég þurfi sjálf að taka einhvern veginn á þessu. Ég veit ekki ennþá hvort ég verð að missa þessi fimm til tíu aukakíló, eða hvort ég gæti mögulega lært að verða sátt við sjálfa mig og bumbuna mína. Ég dáist takmarkalaust af feitu og hamingjusömu fólki sem hefur náð að vinna bug á okkar inngrónu fordómum gagnvart fitu. Fólki sem berst gegn þessum fordómum, meðal annars með því að birta óforskammaðar myndir af sjálfu sér, jafnvel fáklæddu. Ég er samt ekkert endilega fullkomlega sannfærð um að það fólk sé jafn innilega kúl með sjálft sig og það gefur sig út fyrir að vera. Ég er ekki að meina að þar með sagt sé það ómarktækt, en ég hef það frá fyrstu hendi að það er auðveldara að tala um frelsi allra hinna til að vera eins og það er, en að vera svo sjálfur algerlega sáttur við að uppfylla ekki eigin inngrónu og vel niðurnjörvuðu fegurðarviðmið.

Roseanne Barr

Roseanne Barr

Það er mikil áskorun að geta liðið vel með líkama sinn og mig grunar einhvern veginn að nánast hver einasta manneskja sem ekki líður skort, eigi í vandræðum með það. Sjálf er ég akkúrat núna, meðan ég slæ lokahnykkinn á þennan ruglingslega pistil, alveg staðráðin í að vinna héðan í frá betur í sjálfri mér og reyna að ná því takmarki að líða vel með sjálfa mig. Það eina sem vefst fyrir mér akkúrat núna er: Á ég að stefna að því að verða kúl eins og Eva Longoria, eða kúl eins og Lena Dunham? Kúl eins og Iman Mohamed Abdulmajid eða kúl eins og Roseanne Barr?

Ein athugasemd við “Ég og fitan mín

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.