Hin þráláta kynjaskipting

Höfundar: Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir og Andrea Dagbjört Pálsdóttir

uglaprofile

Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir

Hver kannast ekki við það að þurfa óstjórnlega mikið að fara á klósettið á almenningsstað? Sem betur fer, í okkar samfélagi að minnsta kosti, eru flestir almenningsstaðir með salernisaðstöðu þar sem fólk getur gert þarfir sínar. Því verður samt seint haldið fram að það sé eitthvað sérstaklega skemmtilegt, snyrtilegt eða góð reynsla að fara á almenningsklósett (nema ef þú ferð á klósettið í Hörpu eða eitthvað – þau eru æði).

andrea

Andrea Dagbjört Pálsdóttir

Oft er lítið pláss, ekkert loft, vond lykt, löng röð, ósnyrtilegt eða samanbland af öllu saman. Þetta stigmagnast svo heldur betur þegar að við komum inn á stór klósett sem eru með svokölluðu básakerfi sem er oftar en ekki opið bæði að ofan og neðan þannig að það er annarsvegar hægt að sjá undir eða yfir hurðina. Fólk verður lítið inn í sér og rifjar upp hörmulegar minningar af fyrri klósettferðum. Hvern langar eiginlega að fara á klósettið vitandi það að allir geta heyrt hvað fer fram? Við vitum ekki með ykkur, en okkur langar bara að geta farið á klósettið í ró og næði án þess að hafa áhyggjur af því hvort við pissum of hátt eða gefum frá okkur prumphljóð.

Svo vandast leikurinn þegar að aðskilnaður karla og kvenna er í hávegum hafður og eingöngu er boðið upp á klósett fyrir karla og konur. Núna eru eflaust mörg ykkar sem að eruð að velta fyrir ykkur hvað sé athugavert við að skipta fólki í karla og konur. Skoðum þetta nú aðeins nánar. Slík kynjaskipting byggir á því kerfi að eingöngu séu til tvö kyn, sem hegða sér andstætt við hvort annað og sé undantekningarlaust hægt að sjá það á hegðun, fasi, klæðaburði, kyntjáningu og öðru í hvorn flokkinn fólk fellur. Ekki er gert ráð fyrir fjölbreytileika mannkynsins og er óneitanlega fólk sem að fellur á einhvern hátt ekki inn í þessa skiptingu. Fólk sem að brýtur á einhvern hátt þessar reglur verður oftar en ekki fyrir einhverskonar áreiti, athugasemdum eða niðurlægjandi lífsreynslu.

Oftar en ekki virðist fólk láta sig mikið varða hver á heima á hvaða klósetti og lendir fólk sem að passar kannski ekki inn í þessar staðalímyndir, t.d. karlmannlegar konur, kvenlegir karlar, transfólk, intersex fólk eða í raun allir þeir sem að uppfylla ekki skilyrði um hvernig karlar eða konur eiga að líta út eða koma fram (e. gender non-conforming), í þessu áreiti á einum eða öðrum tímapunkti. Sumt transfólk og intersex fólk, og þá sér í lagi þau sem að skilgreina sig ekki endilega sem karl eða konu, upplifa því til að mynda mikla skömm, kvíða og stress við það eitt að fara á klósettið. Sömuleiðis upplifa þau líka útilokun vegna þess að þau falla ekki inn í þessa skiptingu. Það að fara á klósettið getur orðið að vígvelli fyrir marga þar sem þau upplifa daglegt áreiti, bæði andlegt og jafnvel líkamlegt áreiti. Ekki er langt síðan, eða í apríl 2012, að það var í fréttum að ráðist hefði verið á transkarl á bar í Reykjavík fyrir það eitt að vilja pissa á klósetti sem samsvaraði hans kynvitund.

Hvenær ætlum við að hætta að standa í þessari forræðishyggju að skipta fólki í karla og konur þegar það er deginum ljósara að þessir flokkar eru óskýrir og alls ekki algildir? Hvenær ætlum við að stíga það skref að gera klósett aðgengileg fyrir alla – þar að ónefndri aðstöðu fyrir fólk með fötlun sem er á langflestum stöðum mjög ábótavön – burtséð frá kynvitund, kyni, útliti, fasi eða einhverju öðru og einfaldlega hafa einstaklingsklósett sem hægt er að loka alveg að sér til að gera þarfir sínar?

Við vitum ekki með ykkur, en við viljum bara að allir geti pissað í friði án þess að það hafi í för með sér einhverjar afleiðingar aðrar en það að losa af sér.

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu og er endurbirt á knuz.is með leyfi höfunda.

Ein athugasemd við “Hin þráláta kynjaskipting

  1. „Því verður samt seint haldið fram að það sé eitthvað sérstaklega skemmtilegt, snyrtilegt eða góð reynsla að fara á almenningsklósett“

    Sú sem þetta skrifar hefur greinilega aldrei sest á setuna í Laugafelli á köldum vetrardegi! 😉

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.