Þeir sem þurfa að skammast sín

Höfundur: Júlía Margrét Alexandersdóttir

JenniferVanityÞótt að myndir af hálfnakinni leikkonunni Jennifer Lawrence sem birtust í nýjasta hefti Vanity Fair hafi verið teknar mánuði áður en hennar prívat nektarmyndum var dreift, felast mikilvæg skilaboð í birtingu þeirra, bæði til brotamannanna sem dreifðu myndunum af henni sem og fólks almennt.

Skilaboðin eru þau að það er stór munur á því að gera eitthvað sjálfviljugur og ráða hverjir sjá eins og leikkonan gerir með myndatökunni í tímaritinu – og að láta aðra neyða mann til að bera sig almenningi. Líkami okkar er jú okkar yfirráðasvæði.

Þessi umræða á fullt erindi við ungmenni í dag en eins og fram kom í viðtali við Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur, handritshöfund stuttmyndarinnar Stattu með þér!, forvarnamynd gegn kynferðisofbeldi, sem birtist í Morgunblaðinu fyrir skemmstu, tíðkast hjá krökkum, allt niður í 12 ára, að senda nektarmyndir sín á milli og er orðinn viðtekinn hluti af daðri hjá unglingum. Það versta sem hægt er að gera er að sitja bara og dæma þau.

Þórdís Elva benti á að bæði þyrfti vissulega að fræða þau um ábyrga kynhegðun, hvernig þau verja sig fyrir því að einn daginn séu komnar nektarmyndir af þeim inn á internetið en ef gert er gert, myndir er þar að finna, þurfa þau að finna aðrar leiðir en sum ungmenni erlendis hafa farið sem hafa hreinlega svipt sig lífi af skömm. Þau munu bara leita til okkar ef þau upplifa sig ekki sem glæpamenn heldur fórnarlömb brotamanna sem stunda það sem kallað er hefndarklám en hefndarklám snýst um að nektarmyndum er dreift gegn vilja þess sem sést á þeim.

Krakkarnir okkar eru ótrúlega klárar tækniverur, við teljum okkur samkvæmt rannsóknum vita hvað þau aðhafast á netinu en stór hluti okkar veit það alls ekki þrátt fyrir að standa í þeirri trú. Eiginlega ætti að senda okkur öll í nokkrar tölvukennslustundir og láta okkur svo gangast undir próf svo að við séum fær um að vera uppalendur, við fylgjum þeim eftir í alls kyns tómstundastarfi og látum okkur annt um hvernig félagsskap þau eru í en internetið er eins saklaust og þau séu að fletta Andrésblaði.

Því stundum ber svo við – „Hvaaa, hefur þetta ekki alltaf verið svona, perrar út um allt?“ Svarið er nei, þetta hefur ekki alltaf verið svona. Það er að segja; það er mun meira og auðveldara aðgengi að fórnarlömbum allan sólarhringinn fyrir níðinga. Þeir þurfa ekki annað en að kveikja á tölvunni.

Segjum krökkunum okkar að ef eitthvað kemur fyrir af þessu tagi geti þau alltaf leitað til okkar og þeir sem séu fíflin í málinu séu ekki þau heldur vitleysingarnir sem dreifðu. Alveg eins og Jennifer Lawrence segir okkur núna; Hún roðnar ekki og neitar að láta sem hún þurfi að skammast sín.

Þessi grein birtist upphaflega í Morgunblaðinu og er endurbirt á knuz.is með leyfi höfundar.

Ein athugasemd við “Þeir sem þurfa að skammast sín

  1. Mér finnst að það megi líka taka fram að ALLIR sem hlóðu niður myndunum og skoðuðu þær eru að brjóta gegn fórnarlömbunum. Það skiptir ekki máli hvort það hafi verið bara örstutt, hvort þetta séu gagnkynhneigðar konur, samkynhneigðir karlar, eða að þetta hafi bara verið til að svala forvitninni en ekki með neitt kynferðislegt í huga. Með því að kíkja á þessar myndir er verið að margbrjóta á brotaþola og skapa eftirspurn eftir fleiri myndum. Og fólk sem tók þátt í þessu verður að endurskoða hvar það stendur.
    Ég var svo hissa hvað ég fékk að heyra margt vel meinandi fólk segja „hvenær ætti ég annars að geta séð J-Law nakta? Það er ekki eins og ég hafi runkað mér yfir þessu“. Þetta má líka algerlega yfirfæra á daglegt líf unglinga. Ef einhver sýnir þér mynd af einhverjum, þá ert þú að brjóta á þeim bara með því að horfa.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.