Mansal og vændi eru óaðskiljanleg

Ríkisstjórn Þýskalands hefur hafið endurskoðun á gildandi og mjög umdeildum lögum um vændi frá 2002. Markmið þeirra laga var m.a. að bæta réttarstöðu vændisfólks og minnka félagslega einangrun þess með því að skilgreina vændi sem þjónustustarf. Óhætt er að segja að þau markmið hafi ekki náðst. Þess í stað hefur fórnarlömbun mansals í vændi fjölgað gríðarlega í Þýskalandi og bæði öryggi og starfsskilyrði vændisfólks versnað til muna. Manfred Paulus þekkir rauðu hverfin vel. Í 30 ár stjórnaði hann lögregluteymi í Ulm sem rannsakaði vændi og mansal. Áður en hann fór á eftirlaun sendi ESB hann sem sérfræðing til heimalanda kvennanna sem lenda í vændishúsum, vændisíbúðum og í götuvændi í Þýskalandi. Paulus ferðaðist allt frá Hvítarússlandi til Rúmeníu og kynnti sér hvernig varan Kona er flutt til Þýskalands. Í eftirfarandi viðtali við þýska tímaritið Emma lýsir Paulus reynslu sinni.

Manfred Paulus í Tirana, Albaníu

Manfred Paulus í Tirana, Albaníu

E: SPD leggur áherslu á að nauðsynlegt sé að greina milli vændis og mansals.

MP: Í dag eru nærri 100% vændiskvenna í Þýskalandi útlendingar. Það ætti að vera flestum ljóst að hvítrússnesk kona frá Chernobyl-svæðinu eða Rómakona úr fátækrahverfum Rúmeníu kemst ekki af sjálfsdáðum til Þýskalands til að byrja þar að stunda vændi. Konur í þeirri aðstöðu eiga enga peninga, þekkja engan og hafa engan samastað. Konunum er smyglað inn í landið, yfirleitt af skipulögðum glæpasamtökum. Þessi glæpasamtök halda atvinnugreininni í greipum sér. Að tala um þessi tvö náskyldu fyrirbæri eins og þau séu tveir aðgreinanlegir hlutir býður hættunni heim.

E: Hverja telur þú vera skýringuna á því að fólk hafi svona óraunhæfar hugmyndir?

MP: Þarna er greinilega fólk á ferðinni sem þekkir bransann ekki nægilega vel og hefur látið sannfærast af goðsögn lobbýistanna um hamingjusömu hóruna og hreina vændið. Mér sýnist þetta hafa verið orðið útbreitt viðhorf strax árið 2001, þegar SPD og Græningjar settu núgildandi lög um vændi. Í þessum lögum má m.a. finna ákvæði sem gefur vændishúseiganda rétt til að skikka vændiskonur til starfa [t.d. að þær verði að þjónusta kúnna sem þær vilja ekki þjónusta – aths. þýðanda]. Við erum líklega eina landið í heimi þar sem eigendur vændishúsa hafa svo mikinn rétt yfir konum.

E: SPD stóð nýlega fyrir sérfræðingafundi þar sem „Landssamtök fyrirtækjaeigenda í kynlífsiðnaði“ áttu sæti við borðið, svo og Landssamtök starfsfólks í erótískri og kynlífstengdri þjónustu. Þessi samtök eru málsvarar innan við 1% starfsfólks í geiranum en halda því engu að síður statt og stöðugt fram að stór meirihluti vændisfólks vinni þessi störf af fúsum og frjálsum vilja og að einungis í undantekningartilfellum sé fólk þvingað í vændi.

MP: Ég er á sömu skoðun og margir samstarfsmenn mínir: 98% vændiskvenna í Þýskalandi stunda vændi vegna þess að einhver annar ákvað að þær ættu að gera það. Eini staðurinn þar sem ég hef hitt vændiskonur sem eru í bransanum af eigin hvötum er í sjónvarpsviðtölum. Þar hitti ég í fyrsta sinn, eftir að vinna við málaflokkinn í 30 ár, konu sem átti sér þann draum heitastan frá barnæsku að gera karlmenn hamingjusama, og hafði auk þess aldrei séð melludólg. Annars eru áhrif orðanna af frjálsum vilja göldrum líkust. Þegar kona stundar vændi af frjálsum vilja eru öll vandamál úr sögunni fyrir vændishússeigandann, fyrir bareigandann, fyrir kaupandann. Og þá hafa öll vopn líka verið slegin úr höndum lögreglunnar, réttarkerfisins og stjórnmálanna. Þess vegna er fjöldinn allur af fólki afskaplega hrifinn af þessum orðum, en raunveruleikinn er allt annar. Mér finnst mjög kaldhæðið að ræða um frjálsan vilja í þessu samhengi.

E: Hvað þarf þá að koma fram í nýjum lögum um vændi?

mótmæli mansal Þýskaland

Amnesty International mótmælti mansali með þessari aðgerð á flugvelli í Þýskalandi fyrir nokkrum árum.

MP: Það er mjög mikilvægt að réttur vændishúsaeiganda til að skikka konur til hvaða verks sem þeim sýnist verði felldur á brott og að vændi verði einungis leyft sem sjálfstæður atvinnurekstur. Það er líka mjög mikilvægt að lágmarksaldur til að mega stunda vændi verði 21 ár, því flest fórnarlömb mansals eru yngri en það. Það er mikilvægt að konur tilkynni til viðeigandi yfirvalda þegar þær hefja störf í vændi og þegar þær hætta og að aftur verði boðið upp á læknisskoðanir. Lögreglan þarf að endurheimta aðgengi að vændishúsunum. Í raun þurfa allir punktarnir sem CDU/CSU hafa lagt fram að standa í nýjum lögum. Það dugar engan veginn að krefjast þess að vændishúsin sæki um starfsleyfi og að einhverjar smávægilegar reglur verði settar hér og þar. Það myndi í raun gera illt verra.

E: Er það af því að vændishúsin hefðu þá nokkurs konar gæðastimpil ríkisvaldsins fyrir starfsemi sinni?

Í einu af útibúum þýsku vændishúsakeðjunnar Paradies

Í einu af útibúum þýsku vændishúsakeðjunnar Paradies

MP: Já, einmitt. Vændishús í dag eru glæsileg og allt þar er úr marmara og ryðfríu stáli. Það þýðir samt ekki að melludólgarnir og einhver „Group“ eða „ehf“-fyrirtæki séu ekki skammt undan. Og þegar við skoðum hvað býr að baki þessum skúffufyrirtækjum finnum við kannski albönsku mafíuna, rússamafíuna eða Vítisengla. Til að brjóta upp svona skipulagða glæpastarfsemi þarf meira en bara að láta eiganda vændishússins sækja um leyfi. Hann gæti hæglega verið leppur fyrir eitthvað allt annað batterí. Það má ekki gerast að endurskoðun laganna misfarist, þannig að enginn sé betur settur nema þeir sem á endanum græða á vændinu.

E: Þú segir í bókinni þinni að fólk í útlöndum hristi hausinn yfir þýsku vændislöggjöfinni.

MP: Nýlega ræddi ég við ítalskan saksóknara í Palermo sem hefur barist gegn ítölsku mafíunni. Hann botnaði ekki neitt í neinu og spurði, „sjáið þið í alvörunni ekki hvað er að gerast hjá ykkur? Eruð þið ekki enn tilbúin að innleiða önnur lög?“ Það sama heyri ég í Rúmeníu og Búlgaríu. Ég held að þrýstingur frá upprunalöndum kvennanna á þýska stjórnmálamenn muni vaxa. Í heimalöndum þeirra er vel vitað hvað verður um þessar konur og samlandar þeirra fyrirlíta okkur fyrir að gera ekkert í málunum. Það sem við hér köllum frelsi er alger ánauð fyrir óteljandi konur sem hafa hafnað í kynlífsþrælkun.

E: Ríkislögreglustjóraembættið tekur fram í skýrslu sinni um stöðu í mansalsmálum að árlega komist upp um í kringum 700 tilfelli. Þetta er notað sem sönnun fyrir því að mansal sé ekki sérlega stórt vandamál í Þýskalandi.

MP: Í mínum huga er þarna ekki um að ræða skýrslu um ástand heldur frekar skýrslu um stórkostleg mistök í pólitískri stefnumörkun! Það eru hundruð þúsunda kvenna hér í Þýskalandi sem eru margar hverjar útsettar fyrir alvarlega glæpi í umhverfi sínu. Það að ríkislögreglustjórinn komi einungis upp um 500-700 tilfelli mansals á ári sannar ekkert nema að gríðarlega stór hluti vandamálsins er kyrfilega falinn. Í fyrsta lagi er skilgreiningin á mansali sem glæp mjög flókin og sönnunarbyrðin er gríðarlega þung. Í öðru lagi er réttarkerfið veikt: Vændisiðnaðurinn hefur náð ótrúlegum árangri í að stöðva framgang mála fyrir rétti. Lögmenn úr rauðljósahverfinu eiga það t.d. til að fara fram á að fá sönnunargögn frá Hvítrússlandi, Úkraínu eða Absúrdistan. Á endanum neyðist rétturinn til að gera dómssátt, sem er yfirleitt hinum seka í vil og veldur bæði þolenda og rannsakanda hugarangri. Svo skála glæpamennirnir í kampavíni í réttarsalnum. Það er ekkert skrýtið að þessar örfáu konur sem þora að bera vitni í svona málum dragi framburð sinn til baka þegar málsmeðferðin er með þessum hætti.

E: Enn hefur Þýskaland ekki innleitt viðmiðunarreglur ESB um baráttu gegn mansali frá 2011.

MP: Nei, og það sýnir að skipulagðir glæpir eru ekki litnir nægilega alvarlegum augum hérlendis. Er yfirhöfuð hægt að vinda ofan af þessu? Við breytum þessu ekki frá einum degi til annars, enda eru skipulögð glæpasamtök orðin mjög rótgróin í rauðu hverfunum. Við getum hins vegar reynt að stemma stigu við frekara vexti þessara glæpasamtaka með því að gera lögin um vændi aðeins minna gerendavæn. Lögin frá 2002 undirbjuggu jarðveginn fyrir gerendurna. Það má næstum segja að við höfum lokkað þá til okkar. Það spurðist út hvað það var einfalt að stunda viðskipti með konur í Þýskalandi. Og ef við tökum nú U-beygju með þetta frelsi fyrir gerendurna, þá mun það spyrjast út líka.

E: Hvað finnst þér þá að þurfi að gerast næst?

MP: Samstaðan má ekki bresta vegna þrýstings frá nokkrum lobbýistum! Við eigum eftir að þurfa að lifa lengi með nýju vændislögunum. Og ef við ætlum aftur að byrja að gera málamiðlanir munu dólgar allt frá Odessu til Búkarest hlæja sig máttlausa að okkur.

Viðtalið birtist upphaflega í september-hefti Emmu (www.emma.de) sem er eitt elsta og útbreiddasta femíníska tímarit Þýskalands. Greinin er þýdd af Herdísi Helgu Schopka og birt með góðfúslegu leyfi útgefanda.

Viðbót þýðanda: Hér fylgja nokkrir hlekkir á ítarefni um vændi í Þýskalandi, svo lesendur geti betur áttað sig á samhenginu sem Manfred Paulus og vændisfólk í Þýskalandi starfa í. Unprotected: How Legalizing Prostitution Has Failed – spiegel.de Screwball – foreignpolicy.com Prostitutionsgesetz – de.wikipedia.org, á þýsku

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.