Buddubréf

Höfundur: Sigrún Bragadóttir

Hver er munurinn á buddu og píku?  Er það Hörgárdalurinn eða hárið?

Opið bréf til bókaútgáfunnar Óðinsauga vegna bókanna Líkaminn hennar Söru og Líkaminn hans Jóa

10687201_10152710184610861_7858802137568070185_n
Mig langar til að byrja á því að segja ykkur gamlan brandara. Hann er um 40 ára gamall, eða síðan Ómar hafði hár. Samt er þetta eiginlega ekki brandari, því þetta er dagsatt. Tengdamamma vinkonu minnar var að leita að peningabuddunni sinni sem hún var búin að týna. Í leit sinni talaði hún um ,,budduna” sína. Ein tveggja ára, sem var í heimsókn hjá ömmu sinni, klappaði á píkuna sína og sagði hneyksluð: ,,Mín er hér!” Kannski var sú stutta að norðan því á Akureyri eru píkur víst nefndar buddur, en peningabuddur heita víst eitthvað allt annað.

10513375_10152710184585861_7910088030896530781_n

En hvað greinir þá buddu og píku að, svona annað en Hörgárdalurinn? Er það þegar píkan verður kynþroska og fær hár? Eða erum það við fullorðna fólkið, sem förum í kleinu og þorum ekki að nefna líkamshluta sínum réttu nöfnum? Það vill nefnilega þannig til að ytri kynfæri stúlkna og kvenna heita píkur en vegna þess hve gildishlaðið orðið„píka“ er á margt fólk í stökustu vandræðum að tala um þennan líkamshluta. Kannski er það ekkert skrítið því fáir líkamshlutar hafa verið jafn niðurlægðir í gegnum tíðina, brotið á þeim, hrækt á þá eða þeir uppnefndir á viðurstyggilegan hátt. Af því leiðir líklega að í viðleitni til að tala fallega um píkur eru iðulega dregin upp hin furðulegustu gælunöfn á borð við dúlla, blúnda, kjallari, kisa, stína, klobbi, pjása, rifa og……BUDDA!

10743523_10152786562189509_212258675_n

Það er staðreynd, því miður, að oft bíður sjálfsmynd, sjálfstraust og líkamsímynd stúlkna hnekki þegar þær komast á kynþroskaaldurinn. Líkami þeirra tekur miklum breytingum og kynhár fara að vaxa. Eru þær þá enn með dúllublúndubuddupjásu eða eru þær komnar með píku? Til að sporna við þessu verður það að gerast snemma á lífsleiðinni. Líkamsvitund og sjálfstraust stúlkna verður að styrkja og það er m.a. hægt að gera með hjálp bóka. Því skiptir máli að rithöfundar séu meðvitaðir um ábyrgð sína og hlaupi hvorki í kekki með orðin sín né fari í vörn ef þeim er bent á ábyrgðarhlutverk sitt.

Að mínu mati eru bækurnar um börnin Söru og Jóa dæmi um sérkennileg skilaboð til barna um þeirra eigin líkama. Þetta á við um margt, allt frá stellingunum sem börnin eru sett í til að sýna líkamsparta sína, til þeirrar staðreyndar að Sara virðist vera með ívið færri líkamshluta en Jói.
10670241_10152710184590861_2354605515462883020_n

Sara er með enni en Jóa skortir augnhár. Kannski er hann með sjálfsofnæmi en rúsínan í pylsuendanum er sú að Sara er með buddu á meðan Jói er, auðvitað, með TYPPI (og kinnar). Í raun virðist drengurinn vera með lufsulega totu hangandi neðan á lífbeininu því hann er ekki með neinn pung. En mikið ofboðslega er hann ánægður með totuna sína, það sjáum við á valdmannslegri líkamsstöðunni hans. Aftur á móti tekur Sara eftir „millifótabuddunni“ sinni, alveg óvart, er hún spígsporar létt í lundu. Svona „…,,svei mér þá, hvað er þetta þarna á milli læranna á mér? Nei, er það ekki bara buddan sem ég hef leitað að svo lengi! Hjúkkit, hún er fundin!“
10321623_10152718940990861_6379895323522440166_o

Þó svo að Akureyringum myndi aldrei detta í hug að nota orðið budda yfir peningaveski finnst mér algjör óþarfi að nota orðið budda yfir píku í barnabókum sem gefnar eru út árið 2012 og 2013. Buddur geyma klink, píkur geyma t.d leg og eggjastokka. Í buddur má troða ýmsu smálegu drasli en ekki í píkur, það getur verið hættulegt. Börn eru ekki kjánar. Tölum um líkama þeirra af virðingu og raunsæi.
Í 17. grein barnasáttmála SÞ segir að börn eigi rétt á áreiðanlegum upplýsingum úr ýmsum áttum, m.a. bókum. Einnig segir þar upplýsingarnar eigi að vera auðskiljanlegar og gagnlegar.

Hversu gagnlegt er það fyrir líkamsímynd og kynverund stúlkna að fá þau skilaboð að þær séu með buddu í klofinu?

Ein athugasemd við “Buddubréf

 1. Við hjá bókaútgáfunni Óðinsauga höfum greinilega misst af þeim fundi allsráðandi tungumálafrömuða þar sem sú ákvörðun var tekin að aðeins eitt orð megi nota um kynfæri ungra stúlkna. Að héðan í frá sé eitt „ríkisorð“ og noti höfundar okkar önnur áður góð og gild orð úr íslenskri tungu verði þeir fyrir aðkasti á opinberum vettvangi. Nei, þetta er vitaskuld óhæft. Minnir þetta á myrkar fornaldir þar sem öfgafullir hópar hafa kúgað fólk til að haga sér eftir þeirra höfði, einskonar nornaveiðar, þar sem hópur fólks ræðst að þeim sem ekki eru sama sinnis…

  Málið er einmitt það, að bækurnar eiga að ýta undir umræðu um líkama og kynfæri. Opinská umræða, með öllum þeim regnbogans nöfnum sem ná yfir líkamshlutana, er af hinu góða. Læðupúkagangur, þar sem aðeins eitt orð er stimplað nógu gott, en hin séu smánarleg, er ekki til þess fallinn að styrkja sjálfsmynd ungra stúlkna.
  Pjalla, budda, klobbi og fleiri góð og gild orð hafa verið notuð yfir kynfæri ungra stúlkna og þessi orð eru öll að mínu mati jákvætt gildishlaðin. Að úthrópa þau sem eitthvað blúndupjatt er alls ekki til þess að styrkja sjálfsímynd ungra stúlkna. Það er er beinlínis frekt af hópi fólks sem hafa komið sér saman um að þessi orð séu eitthvað óhæf í íslenskri tungu, að ráðast að þeim sem eru ekki sömu skoðunar. Þröngsýni virðist hér spila inn í og veit undirritaður að það verður ekki komið við vörnum með umræðu, það hef ég reynt að ræða við fáeinar konur sem hafa komið að máli við mig með ekki lítið dónalegum bréfaskrifum. Hótuðu þær því að fara í fjölmiðla, sem varð svo raunin þegar útgáfan neitaði að láta undan þrýstingi. Ein grein birtist í Fréttablaðinu og talaði höfundur hennar um að „gubba nánast upp í sig“ en hvernig á maður að svara manneskju málefnalega sem skrifar svona texta? Bara vegna þess að undirritaður notar annað orð yfir kynfæri stúlkna en akkurat það sem viðkomandi kýs sjálfur að nota? Í þeirri grein talar hún Sigga Dögg um að það eigi ekki að vera geðþóttaákvörðun höfundar hvaða orð sé notað, en hvers geðþóttaákvörðun á það þá að vera? Er það ákvörðun Siggu Daggar og annarra skoðanasystra hennar sem ber að hlýta? Það mun reynast erfitt að ræða þessi mál við fólk sem virðist skorta þroska til að virða skoðanir annarra og málfrelsi og „gubbar nánast upp í sig“…

  Mörg orð hafa fleiri en eina merkingu, og flest skynsamt fólk skilur merkingu orðanna í því samhengi sem þau eru notuð. Má til að mynda nefna að í kínversku hefur sama orðið fjórar merkingar, bara eftir framburði.
  Píka er líka gamalt orð yfir fiskvöðva (jafnvel fisktegund skv. fræðimanni sem ég ræddi við) en engum dettur í hug að fara að rugla saman reitum þegar orðið er notað yfir kynfæri stúlkna og tala um að þarna sé verið að gefa í skyn einhverja tengingu milli kynfæra og fisksins í sjónum eða jafnvel fiskislors? Eða hvað? Vitaskuld ekki, engum heilvita manni dettur í hug að vera með svona þvælu og orðið budda í samhengi við kynfæri stúlkna hefur ekkert að gera með peningaveski. Það eru barnaleg rök til að geta hrópað hátt upp með einhverri fyrirlitningu.
  Það er hætt við því að þetta sé meira vandamál þeirra fulorðinna kvenna sem hrópa hvað hæst, að píka skuli það heita og ekkert annað. Ég hef fylgst með talsmáta ungra stúlkna í kringum dóttir mína, og þar er aldrei notað orðið píka. Á að þröngva því upp í orðanotkun? Fyrst einhver hópur kvenna er jú búinn að ákveða það! Slá krakkana á fingurna því þeir nota annað orðaleg en hópur feminista vill? Smá keimur hér af ofríki… en ég trúi á frelsi einstaklingsins og að krakkar megi vel nota þau orð sem þau nota í dag… (læt Norður-Kóreu eftir að handstýra því hvaða orð megi nota í tungumálinu.)

  Það að hefta tjáningarfrelsi höfunda, vegna hreyfingar sem telur sig hafa fundið hið eina sanna orð yfir kynfæri stúlkna/kvenna, er ekki á dagskrá útgáfunnar. Við fögnum fjölbreytileika tungumálsins. Á meðan orðin eru góð og gild og jákvætt gildishlaðin, þá förum við ekki að ráðskast með orðanotkun höfunda. Það væri nú ansi fátæklegt ef aðeins mætti nota orð úr skólabókum (sbr. píka sé notað í einhverjum læknisritum o.s.frv.). Óðinsauga mun ekki láta undan þrýstingu um að takmarka orðanotkun í bókmenntum, á meðan orðin eru góð og gild íslensk orð sem hafa verið notuð á jákvæðan hátt.
  Höfundur notar þann orðaforða sem honum er tamur. Hann er fæddur á Akrueyri og alinn upp í fjölskyldu þar sem orðið budda er notað af virðingu um kynfæri ungra stúlkna. Sem höfundur verksins er það eðlilegt að hann noti þann orðaforða sem honum er tamur. Bókin er ekki líffræðibók frá Námsgagnastofnun, heldur rit til að ýta undir umræðu heima fyrir um líkamann. Budda er fallegt orð í huga höfundar, enda er hugur hans ekki fullur af neinum sóðahugmyndum hvað það varðar.
  Það sama á við um fleiri orð, sem hann notar í ritum sínum. Hann notar orðið Augabrýr í stað orðsins Augabrúnir, þar sem honum er það tamt, en BÆÐI eru orðin rétt.

  Hvað varðar bækurnar Líkaminn hans Jóa og Líkaminn hennar Söru þá eru bækurnar einfaldar í sniðum, gerðar til þess að foreldrar ræði um líkamshlutana við börnin sín. Það að Sara tilviljanakennt hafi færri merkta líkamsparta inn á síðurnar hefur ekkert með gagnsemi bókanna að gera. Þær eru einfaldlega verkfæri sem foreldrar nota eftir hentugsemi. Að grafa ofan í einhverjar duldar merkingar um líkamsstöðu barnanna er full langt gengið. Börnin eru að sprikla um á síðunum og þá algjörlega óviljandi gert af listakonunni sem teiknaði myndirnar, sé verið að lesa í að þarna sé stúlkunni gert að standa óviðeigandi.
  Það er svo vitaskuld hugmyndin með bókunum að foreldrar lesi þær með börnum sínum og ræðu um líkamann og börn öðlist meiri sjálfvitund. Foreldrarnir nota þau orð sem eru þeim töm, og vonandi að það séu öll þessi orð sem lifa áfram, píka, pjalla, budda og klobbi, því undirritaður hefur ekki sömu ör á sálinni og þeir sem sækja að útgáfunni, að þurfa að finnast einhver þessarra orða skammarleg. Stúlkur eiga ekki heldur að þurfa að skammast sín fyrir þessi viðurnefni kynfæra, frekar en fyrir orðið píka, sem sé notað jöfnum höndum. Vonandi að þessir einstaklingar geti unnið sjálfir úr þeim særindum sem þeir glíma við, og lofað svo opna og jákvæða umræðu um kynfæri ungra barna. Það er mun heilbrigðara….
  Unglingsstúlkur ganga án efa í gegnum sálarþrengingar og það sama á við um unglingssstráka. Breytingaskeyðið er erfiður tími, en undirritaður hafnar því að það tengist þessum orðum. Það er eitthvað mun dýpra og þvert á móti tel ég bækurnar geta hjálpað til við að auka umræðu um kynfæri (þið sem viljið nota orðið píka getið skrifað það inn í bækurnar, þetta eru jú líka litabækur).

  Höfundurinn Huginn Þór hefur lagt mikinn metnað í að skrifa bækur sem hjálpa börnum, þroska þau og hvetja til umhugsunar um ýmis mál. Hann skrifaði bókina Blómlegt fjölskyldulíf til að aðstoða skilnaðarbörn. Hann skrifaði bókina Kanínan sem fékk aldrei nóg til að kenna börnum hófsemi og vekja til umhugsunar um græðgi. Hann skrifaði bókina Skýjahnoðrar til að ýta undir umhverfisvitund barna. Hann skrifaði bókina Ormur gutti og litli indjáninn til að vekja börn til umhugsunar um fjölþjóðlegan margbreytileika en jafnframt hvernig við erum öll á margan hátt lík, óháð því hvar við fæðumst í veröldinni. Við erum ekki í nokkrum vafa um að höfundurinn hafi lagt meira til sjálfsstyrkingar barna en þessi barnalega umræða um orðanotkun gerir. Væri þá nær að styrkja börn í hugmyndum þeirra um kynfæri, hlaða orðin jákvæðari gildum og hætta að ráðast að fólki sem er að vinna að því að vekja upp umræðu um líkama barna…
  Það er kappsmál höfundar að skrifa texta af virðingu fyrir einstaklingum og á því var engin undantekning með þessari bók.

  Ekki ætlum við að ráðast út í áframhaldandi net-stríð við þá sem eru á öðru máli, hér takast hreinlega á ólíkar skooðanir og ber að virða það,
  Má nefna að langflestir höfundar útgáfunnar Óðinsauga eru kvenkyns og munum við ekki stýra orðanotkun þeirra frekar en annarra höfunda hjá útgáfunni. Píka er líka hið ágætasta orð, því erum við sammála, og vonandi að greinarhöfundur finni hjá sér þroska til að virða það að fleiri góð og gild íslensk orð eru til yfir kynfæri stúlkna.
  Ræktum frekar með okkur umburðarlyndi, heldur en að ráðast í nornaveiðar…

  Með vinsemd,
  Huginn Þór Grétarsson

   • Það góða er jú, að þú hefur val um það hvaða bókmenntir þú lest fyrir börnin þín, líkt og ég hef val um það hvaða orð ég nota í bækurnar sem ég skrifa. Það væri frekt af mér að ætlast til að þú læsir ákveðnar bækur fyrir börnin,… og á sama hátt finnst mér frekt að fólk ráðist að mér þegar ég nota orð sem hefur verið notað á jákvæðan hátt um kynfæri ungra stúlkna (jafnvel þó sumir hafi ekki notað það). Frelsið er jú yndislegt… og kýs ég að beygja mig ekki undir ofríki þess hóps sem virðist ekki geta hamið reiði sína, sem hlýtur að byggja á dýpri grunni en orðanotkun yfir kynfærunum…

  • Nú er ég líka frá Akureyri og var alin upp við orðið klobbi. Samt kannski meira að þetta væri bara naflaust fyrirbæri sem ekki ætti að nefna.

   Auðvitað er þér frjálst að nota þau orð sem þú villt í þínar bækur en mér finnst bara sorglegt að það sé ekki almenn sátt um hvað eigi að kalla kynfæri kvenna á 21. öldinni! Það væri svo gott ef það væri ekki notað ólíkt orð í hverri einustu barnabók um þetta efni og ef foreldrar þyrftu ekki að taka ákvörðun um það þegar þau eignuðust dóttur hvað þau ættu að kalla píkuna á henni. ,,Klobbi, pjalla, pulla, budda, píka – eigum við kannski bara að draga eitt úr hatti?“

 2. Ég vil vekja athygli á að budda er ekki opinbert heiti yfir kynfæri kvenna. Þó að það hafi tíðkast í vissum landshlutum að tala um píku sem buddu hér áður fyrr þá er fráleitt að slíkum viðhorfum sé haldið að krökkum í dag.

  Mér finnst mjög alvarlegt að það sé verið að gefa út bók þar sem píka er kölluð eitthvað annað en sínu rétta nafni þegar typpi er bara typpi í sömu bók.

  Af hverju er typpi gott og gilt orð yfir kynfæri stráka?
  Af hverju fær typpi að heita sínu opinbera nafni (sama og er notað í kennslubókum) en píkan ekki?

  með vinsemd

   • ég bendi á orð Siggu Daggar kynfræðings

    „Þetta er ekki spurning um að banna önnur orð heldur að kenna rétta orðið. Auðvitað eru til gælunefni en það verður að hafa réttnefni með og kenna muninn þar á. Er mín skoðun (og annarra sérfræðinga).“

    og hvet fólk til að lesa svar Hildigunnar.

  • Budda er eitt þeirra orða sem hafa verið notuð yfir kynfæri stúlkna og typpi er eitt þeirra orða sem hafa verið notuð yfir kynfæri stráka (þó það sé til fátæklegra úrval orða yfir kynfæri stráka). Bæði orðin eru góð og gild og höfundur hefur alist upp við notkun þeirra. Píka hef ég ekki heyrt eins oft og t.d. pjalla og budda, yfir kynfæri stúlkna, en eflaust er það nafn eitthvað notað í kennslubókum. Það gerir orðið þó engu rétthærra en önnur.
   Ég veit ekki til þess að það sé skrá til yfir „opinber heiti“ hlutanna, en það er til líforðasafn og þar er orðið píka ekki notað skv. minni uppflettingu.
   Eins og ég segi, þá eru þetta allt orð sem ég tel góð og gild.

 3. Huginn ég held ekki að neinum þyki orðið budda sóðalegt. Það er hins vegar í huga langflestra landsmanna vikorð og notað þegar fólk vill komast hjá að nota orðið píka. Það orð ER gildishlaðið og hefur lengi og mikið verið notað á niðrandi hátt – við viljum gjarnan að það breytist en það mun ekki gerast meðan fólk veigrar sér við að nota það og otar einhverjum misskilið fegrandi orðum að börnum. Hvað sem þau eru nú góð og gild og íslensk.

  Mér þykir orðið budda satt að segja lítillækkandi um kynfæri kvenna. Það að það sé algengt orð á einhverjum takmörkuðum stað á landinu hjálpar ekkert til nema ef það á eingöngu að selja bókina þar.

  • Sæl Hildigunnur,
   Orðið Budda er í raun bara samheiti yfir orðið Píka, eða öfugt, og þar af leiðandi enginn munur á notkun þessarra tveggja orða að mínu mati. Píka er eflaust þekktara, en ég er ekki viss um að það orð sé endilegra í meiri notkun en t.d. Pjalla, Budda eða Klobbi. (Ég spurði dóttir mína hvaða orð þau noti í skólanum og það er Klobbi).
   Vissulega er hentugast að nota orð sem eru hvað mest útbreidd í svona rit, en ég treysti líka foreldrum vel til að velja þau orð sem þau telja best henta við lestur bókarinnar. Þetta eru bækur fyrir ólæs börn, og foreldrar nýta bækurnar sem verkfæri til að ræða um líkamann og geta hagað þeim málum að vild. En ég er ekki sammála að ekki megi gefa út bækur fyrir alla Íslendinga, sem notast við „mállýsku“ að norðan eða frá austurlandi o.s.frv. Það er ansi fátæklegt ef allar bækur þurfa að styðjast við orð sem mest eru notuð hér á höfuðborgarsvæðinu, og til þess gert að önnur orð deyi út. Þegar ég nota orðið Budda, er ég ekki að forðast að nota orðið Píka. Mér er einfaldlega náttúrulegra að nota það orð sem allir í minni fjölskyldu hafa notað og það á mjög jákvæðan hátt. En umræðan er góð, og ég vona að öll þessi ágætu orð fái jákvæða gildishlaðningu, í stað þess að gera sum þeirra „tabú“ sbr. Budda, Pjalla o.s.frv. Það er enginn í dómarasæti til að ákvarða hvaða orð sé rétthærra en annað, það mun samfélagið gera með tímanum, en þangað til, eru þetta allt orð sem eiga rétt á sér.

 4. Ég átta mig ekki alveg á vandamálinu. Ég ólst hvorki upp við að kalla kynfæri mín píku né buddu og mun ekki nota þau orð, þó það trufli mig ekkert að aðrir geri það. Er það að höfundur noti orðið budda yfir kynfæri kvenna framyfir önnur orð eitthvað öðruvisi en að hann valdi að kalla kynfæri drengsins typpi frekar en limur eða reður?

 5. Budda er náttúrulega ekki orðið yfir þetta líffæri, það sjá allir nema greinilega Akureyringar. Hinsvegar finnst mér óeðlilegt að þröngva einhverju orði, eins og píka, upp á fólk ef það er komið með neikvæða merkingu. Sjáum t.d. „mongólskur fávitaháttur“ sem breyttist í „mongólíti“ þaðan í „Downs heilkenni“. Fáviti varð fötlun og er núna þroskahömlun. Ljótur þýddi einu sinni ljós eða bjartur. Orð breytast með samfélaginu eins og við öll og það er eðlilegt annars töluðum við öll forn norsku.

 6. Ég er ein þeirra sem hef fengið nóg af krúttorðunum og þeirri skömm sem margir vilja klína á píkuna og hefði þótt eðlilegast að tala um píku og typpi. Hefði einhverjum þótt eðlilegt að tala um bibba í stað typpis?

  • Sæl Kolla.
   Ég ítreka bara það sem ég hef skrifað áður. Þau orð sem eru notuð innan minnar stór-fjölskyldu og eru mér töm, eru budda yfir kynfæri stúlkna og typpi yfir kynfæri ungra stráka. Hefði orðið „bibbi“ verið notað, hefði ég eflaust skrifað það, þar sem ég reyni að vera trúr eigin málfari í stað þess að skrifa þvingaðan texta/orð.
   Það er leiðinlegt að hópur kvenna finnist þetta orð ekki henta, en staðreyndin er sú að þetta er í notkun og hefur ekki neikvæða merkingu. Ekki á neinn hátt er verið að klína einhverri skömm á orðið píka. Það orð er samt á engan hátt rétthærra í íslenskri tungu en önnur orð yfir kynfæri stúlkna, þó það sé orð sem þú þekkir og notir og met ég það. Ekki mun ég veitast að þér og krefjast þess að þú hættir að nota það orð, þó sumum finnist það „subbulegt“. Ég ítreka þó, að mér finnst ekkert athugavert við þau orð sem ég hef talið upp áður, pjalla, budda, píka og klobbi. Klobbi er reyndar það orð sem ég heyri oftast og hefði kannski betur notað það i bókinni. Mikilvægast finnst mér í þessari umræðu, að tala á jákvæðan hátt um öll þessi orð, og að umræðan styrki sjálfsmynd ungra stúlkna. Orðin mótast af okkur sjálfum, og finnst mér þessi neikvæða umræða um orð sem hafa verið notuð á jákvæðan hátt, ekki góð. Ég tel, þegar uppi er staðið, óháð því hvaða orð ég notaði í barnabókina, að sú umræða sem bækurnar geta skapað milli foreldra og barna þeirra, vera gagnlega og til þess gerða að styrkja stúlkur í vitund þeirra um eigin líkama….

   • Píka er píka. Kunta er frekar harkalegt orð og pjalla er ljótari útgáfa af orðinu píka (finnst mér). Budda er lítillækkandi/krúttlegt orð yfir píku og ég er nokkuð viss um að flestar konur gætu verið sammála um það. Ég er einnig nokkuð viss um að flestum konum þyki ekki viðeigandi að talað sé um kynfæri þeirra sem buddu, pjöllu eða kuntu í formlegu máli… og þess vegna ætti það ekki að vera viðeigandi í barnabókum sem fræða ungar stúlkur sem seinna verða konur að eðlilegt þyki að nota slanguryrði yfir kynfæri þeirra í bókmenntum. Píka er orð sem einungis er notað yfir kynfæri kvenna og er það orð sem er notað yfir þennan líkamspart bæði riti og tali. Budda hefur nokkrar merkingar og ég held að við getum verið sámmála um að þegar maður talar við lækni um kynfæri kvenna þá notar maður orðið píka en ekki budda. Ef þú værir að skrifa Bachelor eða Mastersritgerð um píkur þá þori ég að gefa mér það að orðið sem þú myndir velja að nota væri píka en ekki budda, vegna þess að budda er eins og ég er að reyna benda á SLANGURYRÐI… og flestir gera sér grein fyrir því að slanguryrði er aldrei viðeigandi í fræðilegu riti.

    Þótt að bækurnar þínar eru ætlaðar fyrir börn þá eru þau fræðirit fyrir þennan aldurshóp hvort sem þú viðurkennir það eða ekki. Það er ekkert sem réttlætir það að þú kjósir að nota slanguryrði í staðinn fyrir fræðilega heitið yfir kynfæri stúlkna en notar hinsvegar fræðilega heitið yfir kynfæri stráka. Það er ekki sanngjarnt og ýtir undir ójafnrétti.

    Ég skora því á þig að hugsa þinn gang og breyta orðavalinu þínu yfir kynfæri stúlkna í næstu útgáfu bóka þinna. Þú getur líka kannað sjálfur álit almennings varðandi orðaval yfir píku með því að gera ókeypis skoðanakönnun á netinu og deila henni áfram… ef niðurstöðurnar yrðu þannig að flestum þætti budda gott og gilt orð í fræðilegu riti þá er náttúrulega öll ástæða til að halda áfram að verja persónulegt orðaval þitt í bókum sem gegna því hlutverki að fræða börn um kynfæri.

  • Landlæknisembættið hefur þurft að taka ákvörðun um hvaða orð þeir nota. Það þýðir samt ekki að þetta „ríkisorð“ sé það eina rétta. Vissulega er píka í almennri notkun, en ég hef líka séð orðin klobbi og rifa notuð í bækur um líkamann. Það þýðir heldur ekki að þau séu þau „réttu“. Mörg orð hafa verið notuð yfir kynfæri stúlkna, og á meðan það er á jákvæðan hátt, tel ég það bara af hinu góða.

 7. Ég er karlmaður, og faðir tveggja stúlkna og eins drengs. Einhvertíma hefði mér þótt eðlilegt að tala um pjöllu eða buddu, en á seinni árum hef ég orðið fyrir vakningu hvað þetta varðar og tala núorðið eingöngu um píkur. Ástæðan fyrir því er sú að mér finnst ekki rétt að tala um kynfæri þeirra á annan hátt þegar þær eru barnungar eða þegar þær eru orðnar kynþroska og svo fullorðnar. Ég fór að spyrja mig spurninga eins og. “Af hverju má ég segja typpi við son minn án þess að það sé nokkuð athugavert við það, þó hann sé þriggja ára? Og af hverju er það álitið eitthvað dónalegt að segja píka við 3 ára gamla stúlku? af hverju finnst mér það dónalegt?. Svarið kom til mín eftir smá skoðun á þessu. Helvítis píkan þín. þú ert nú meiri píkan. djöfuls píka geturðu verið! Smápíka! þú ert nú meiri smápíkan!. Ekki hef ég heyrt að fólk sé kalla typpi og þaðan af síður helvítis typpi.

  Mér þykir miður ef við þurfum að nota einhver onnur orð en munu vera notuð í framtíðinni hjá börnum um kynfæri þeirra. Ég vona allavega að dóttir mín fari ekki í kvenskoðun og læknirinn segi: “jæja eigum við að líta í budduna þína”

  Huginn Þór, þú getur nú hætt að tala um nornaveiðar eða hóp kvenna í þinni varnarræðu fyrir starfi þínu sem rithöfundur þar sem að minnsta kosti einn karlmaður er komin í hóp þeirra sem vilja tjá sig um umrætt rit Óðinsauga.

  Ef þú þolir ekki opinbera umræðu á bók sem gefin er út opinberlega þá ættirðu kannski bara ekki að gefa út bækur opinberlega. Þú gætir þá notað orðið budda og gefið bókina út fyrir fjölskyldu þína á Akureyri?

 8. Eins og vill gerast þegar fólk er gagnrýnt, þá hrekkur það í vörn og tiltekur fjöldamargar ástæður fyrir því afhverju hin gagnrýnda hegðun (í þessu tilviki að nota orðið budda í stað orðsins píku) sé sko alls ekkert slæmt.

  Ég er viss um að höfundi sem og bókaforlaginu gekk sannanlega ekkert illt til. Kannski er þeim tamt að nota orðið budda, og kannski vildu þau einmitt nota orð sem er hvorki umdeilt né sjokkerandi, heldur sætt og þægilegt. Og auðvitað er þeim frjálst að gera það, það er engin að banna þessa orðnotkun. En þegar maður birtir hluti opinberlega þá má maður búast við gagnrýni. Málfrelsi virkar nefnilega þannig að þú mátt segja flest það sem þér þóknast, en málfrelsi felur líka í sér að fólk megi gagnrýna það sem þú segir. Þó maður sé gagnrýndur þá þýðir það auðvitað ekki að maður verði að skifta um skoðun, en mér finnst hinsvegar eðlilegt og skynsamlegt að hlusta á gagnrýnina og reyna að skilja, út á hvað gagnrýnin gengur, og hverju fólk sé í raun að gagnrýna.

  Nú get ég að sjálfsögðu ekki talað fyrir aðra, en eftirfarandi er mín skoðun, og eftir að hafa lesið umræðurnar hér að ofan, þá sýnist mér þetta vera gegnumgangandi punktur hjá þeim sem gagnrýna orðanotkunina budda.

  Á íslensku, samkvæmt orðabók sem og málvenju Íslendinga, heita kynfæri kvenna píka. Píkur hafa oft verið kallaðar ýmsum gælunöfnum, að því er virðist af því að orðið píka þykir dónalegt. Ástæðan fyrir því að við getum samþykkt að píka sé sannanlega ‘rétta’ orðið yfir kynfæri kvenna, er af því að allir Íslendingar, af öllum landshornum, vita að píka er nafn á kynfærum kvenna. Þó að píka sé kölluð budda á Akureyri, þá er orðið budda sannanlega ekki orðið yfir kynfæri kvenna í íslenskri tungu. Til að mynda hefði mér ekki dottið í hug að einhverjir kölluðu píku buddu. Budda er semsagt ekki orð sem við erum öll sammála um að sé orð yfir kynfæri kvenna. Budda er gæluyrði sem er notað í staðin fyrir orðið píka.

  Auðvitað er þér frjálst að nota orðið budda, þó að mörgum kunni að þykja það skaðlegt eða kjánalegt. En það er svolítið annað að gefa út bók um líkamann sem kenna á börnum hvað líkamspartarnir þeirra heita, og nota þar gælunafn í staðin fyrir raunverulegt heiti yfir kynfæri kvenna.

  Til samanburðar skulum við ýminda okkur að ég myndi skrifa bók um fólkið sem hefur gegnt embætti forseta Íslands. Þetta væri hugsuð sem barnabók sem myndi á einfaldan og aðgengilegan hátt kynna forsetana okkar fyrir börnum. Í bókinni myndi ég svo nefna alla forsetana sínum réttu nöfnum, nema Ólaf Ragnar Grímsson. Ólaf Ragnar myndi ég kalla Óla grís. Auðvitað vita flestir hvern ég á við þegar ég segi/skrifa Óli grís, og ef börnin vita það ekki, nú þá er bókin hugsuð þannig að börnin lesi þau með foreldrum sínum og foreldrarnir geta þá útskýrt fyrir börnum sínum að þegar ég nota ‘Óli grís’ þá sé ég að tala um Ólaf Ragnar Grímsson.

  Einhvernvegin held ég að fólki þætti ekki spurning að það væri sannanlega óviðeigandi að ég myndi nefna alla forsetana með sínum réttu nöfnum, en ég myndi tala um Ólaf Ragnar Grímsson sem Óla grís.

  Munurinn er reyndar sá að Óli grís er ívið neikvæðara en Ólafur Ragnar Grímsson, en höfundi ‘Líkaminn hennar Söru og Líkaminn hans Jóa’ virðist þykja orðið budda jafn jákvætt ef ekki jákvæðara en orðið píka – en eins og ljóst er þá er fólk ekki endilega sammála höfundi þar.

  Við getum líka ímyndað okkur að einhver skrifi bók sem á að kynna femínisma á Íslandi á einfaldan og aðgengilegan hátt fyrir ungmennum. Allir þeir femínistar sem eru tilteknir eru nefndir með sýnum eigin nöfnum, en ég væri ekki kölluð Elín heldur lilla. Þeir sem þekkja mig vita að ég er oft kölluð lilla, sem og öðrum ‘þú ert svo lítil og lágvaxin’ gælunöfnum. Mér þykir afskaplega vænt um gælunöfnin mín sem fólk hefur gefið mér og mér finnst sannanlega ekki niðrandi að vinir mínir kalli mig lillu. Þrátt fyrir það fyndist mér ekki í lagi að allir aðrir íslenskir femínistar væru nafngreindir með sínum réttu nöfnum en ég kölluð lilla. Í því samhengi væri nefnilega skrítið, óviðeigandi, rangt og jafnvel niðrandi að tala um mig sem lillu.

  Og það sama á við um buddur og píkur. Ég heiti Elín en ekki lilla, núverandi forseti Íslands heitir Ólafur Ragnar Grímsson en ekki Óli grís, og kynfæri kvenna heita píka en ekki budda. Í þínu einkalífi er þér er að sjálfsögðu frjálst að tala um mig sem lillu, forsetann sem Óla grís, og píkur sem buddur. En í bók sem á að hafa einhverskona fræðilegt gildi fyrir börn er ekki við hæfi að nota slík gælunöfn.

 9. Ég á ekki eitt orð til yfir hrokanum og yfirgangssemi ykkar sem fullyrðið að píka sé eina rétta orðið. Hvað sem þið þenjið ykkur og talið um feimni í kringum píkuorðið er píka svo langt frá mínum kynfærum og frekast má vera. Ég hef buddu, það hefur líka dóttir mín, móðir mín og systur. Við munum aldrei hafa píkur nema í munni afturhaldsfólks sem heldur að þeirra orðtæki séu þau einu réttu. Voru það fífl sem þróuðu mitt tungumál en vitringar sem þróuðu ykkar? Budda er ekki meira „gæluorð“ en píka.
  Píkur voru vinnustúlkur og var það notað líka í neikvæðri merkingu um stúlkur, samanber afturhaldspíkur, lágstéttarpíkur o.s.frv. Buddu orðið notaði gamla fólkið gjarna yfir lágvanar „hnellnar“ konur og stúlkur. Hvert er gæluorðið í þessu?
  Ef þið viljið tala hreina rétta íslensku eins og þið prédikið, þá ættuð þið að tala um kvensköp!! Kennið litlu stúlkunum ykkar að þær hafi Kvensköp eða ytri kynfæri kvenna, þá ættuð þið að vera öruggar um þar fari ekki gæluorð.

  • Sæl Heiða
   Ég veit nú ekki hver er með hroka hér en þú virðist sjá býsna vel flísina í auga náungans en gætir ekki að bjálkanum í þínu eigin auga. Nú hefur fólk sem lagt hefur orð í belg verið vænt um að vera á nornaveiðum, að vera öfgafullt, yfirgangsamt, afturhaldssamt ofl í þeim dúrnum fyrir það eitt að finnast þetta furðulegt orð yfir píku í einhveskonar fræðsluefni fyrir börn. Í mínum bókum er typpi og píka svipuð orð í sama kassa. Af hverju ætti þá að vera nota eitthvað gælunafn yfir píku en ekki typpi?

   • Víst er typpi gælunafn, það er komið af orðinu toppur eða tappi – hinsvegar, eins og bent hefur verið á, er píka það líka, og komið af danska orðinu pige (=stelpa). „ég er að fara í húð&kyn að láta tékka á stelpunni“. Ha? Láta tékka á litlu stelpunni? Ef það er ekki að „dúlla hana upp“ þá veit ég ekki hvað. Budda er líka „dúlluorð“ yfir hana. Heitir þetta ekki bara sköp? Enda eru þau notuð til að skapa t.d. nýtt líf. Limur er svo nánast útlimur og getur bara heitið því nafni.

 10. Orðið budda er einmitt ekki gæluyrði og er pottþétt ekki bara notað á Akureyri. Það hefur alltaf verið almenna nafnið. Píka er ekki íslenskt orð frekar en budda. Það vita flestir að orðið píka er komið af danska orðinu pige sem þýðir stelpa. Margir kalla brjóst stelpur…. er það ekki gælunafn??
  Málið er það bara að það hefur aldrei verið neitt fræðilegt orð notað í gegnum tíðina í læknaritum eða skólabókum (tepruskapur??), eins og td vagina sem er notað í mörgum öðrum löndum, og píka hefur allt of oft verið notað í niðrandi merkingu í almennu tali. Það má segja að það sé komið óyrði á það, rétt eins og á feminismann, því miður.
  Fyrst sumum í höfuðborginni finnst að það megi ekki nota aðrar „mállýskur“, á þá ekki að banna norðlendingum að nota hart T og K líka?? 😉

 11. Þetta eru áhugaverðar umræður fyrir margra hluta sakir um það að „kalla hlutina réttum nöfnum“. Hér er rætt um það hvað rétta nafnið sé á kynfærum kvenna og höfundur segir það vera píku: „Það vill nefnilega þannig til að ytri kynfæri stúlkna og kvenna heita píkur.“

  Sjálf efast ég stórlega um gildi „réttra orða“ og tel að þau hafi ekki endilega alltaf verið jafnréttisbaráttunni til framdráttar. Orðaforði tekur breytingum og orð taka við af öðrum vegna þess að þau henta ekki lengur eða eru ekki í takt við tímann.

  Ég fletti upp í ritmálssafni Háskóla Íslands og skoðaði dæmi um orðið í ritmáli. Elstu dæmin eru frá sextándu öld þar sem orðið píka er fyrst og fremst notað um konur. „ungar og gamlar píkur“. Þessi málsháttur frá sautjándu öld er varðveittur í ritmálssafninu: „Þad er ill píka, sem lastar sína eiginn kuntu“. Mér finnst kunta hið ágætasta orð og dugar bæði fyrir kynfæri lítilla stúlkna og fullorðinna kvenna. Og svo elska ég Vagínumónólóginn hennar Eve Ensler þar sem hún kemur til varnar „the cunt“.

  Mér finnst sumsé ekkert að því að til séu sérstök orð á Norðurlandi, Austurlandi og í Reykjavík fyrir kynfæri kvenna. En hins vegar er sjálfsagt að gagnrýna orð og efast um gildi þeirra. Mér finnst spurningin sem höfundur varpar fram í lok greinar sinnar um það hvort það sé gott fyrir stúlkur að hugsa um kynfæri sín sem buddur góð og gild.

  Það er allt í lagi að efast um orð og skipta út orðum. Það þarf ekki endilega að bera vott um öfgahreintungustefnu, 101pólitískarétttrúnaðarstefnu eða fasisma eins og ýmsir hér á kommentaþræðinum virðast halda fram.

  Svo þakka ég fyrir umræðurnar og athugasemdir sem mér þótti gaman að lesa.

  Kveðja frá einni með kuntu,
  Sigríður Guðmarsdóttir

 12. Tekið úr íslenskri samheitaorðabók.

  Kvensköp: Blygðun, budda, burðaliður, fuð, fæðingarstaður, gaman, gás, gæs, kráka, kússa, láfa, leika, ónefna, píka, pjatla, pjása, pussa, runta, skauð, skuð, skömm, sneypa, snýta, tuðra, tussa.

  Í læknisfræði er talað um Vaginu líka hjúkrunarfræði

  Persónulega tala ég um beeferinn á mér af því að mér finnst það bara skemmtilgt , í góðra vina hóp hef ég líka talað um Ginungagap og hlegið mikið að eiginn fyndni.

  Samt er það nú bara þannig að þegar það er verið með typpa og píku tal þá nota ég sjaldnast orðið píka þar sem að mér finnst það hljóma slepjulegt og fremur ógeðfelt. Telst ég seint vera tepra sem þorrir ekki að tala um hlutina hef meira að segja haft orð á mér að segja of mikið og vera óhefluð.

   • Er svo hjartanlega sammála þér með það sem þú hefur skrifað. Skil engan vegin þetta væl yfir því sem ég tel sakleysislegt orðaval, finnst þetta frekja og dónaskapur, já og þröngsýni að sjá ekki að það er hægt að nota mörg orð um sama hlutinn.
    Ég ólst upp við orðin budda og rifa og hlaut engan skaða af. Píka virkar á mig eins og að segja tussa svo ég vil ekki nota það orð við mína dóttur, en líklega kemur að því þó að mér fari að þykja það voða hversdagslegt þar sem margir eru farnir að nota þetta orð og það finnst mér bara gott og blessa.
    Enda er það þeirra val og ég held að því fleiri orð sem við notum því betra, því ef okkur finnst engin orð yfir þennan líkamshluta ljót og niðrandi verður erfðara að tala illa og niðrandi um blessuðu budduna ekki satt? 😉
    Börnin mín eiga bækur eftir þig og ég mun örugglega kaupa fleiri því mér finnst þær góðar, vandaðar og skemmtilegar og börnunum mínum líka. Takk fyrir góðar bækur og haltu ótrauður og stoltur áfram.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.