Rjóminn af íslensku menntaskólagríni?

Höfundur: Vigdís Perla Maack

Ég skrifaði statusfærslu á Facebook-síðunni minni sem DV sauð svo grein upp úr án minnar vitundar.  Enda fá fréttir um femínisma marga smelli og athugasemdir frá þeim sem eru virkir í athugasemdum. Færslan fjallaði um skemmtiþátt Verslunarskólanema, Rjómann:

Þátturinn byggist á nokkrum stuttum atriðum, sem eiga að vera brandarar og gaman en einkennast flest af mannfyrirlitningu og ósmekklegheitum.

Ég fór í gegnum atriðin aftur þegar ég var búin að horfa á þáttinn einu sinni og skrifaði hjá mér það helsta sem á alls ekki heima í grínþætti árið 2014.

1. atriði  – 6:57 – Á að gerast árið 1759. Tvær stelpur tala um að mennirnir þeirra vilji sífellt vera að flengríða þeim. Þær ákveða, í staðinn fyrir að neita, að ljúga að körlunum að þær séu á blæðingum, í staðinn fyrir að segja „nei takk, ég vil ekki sofa hjá þér í dag.“
Strákar vilja sem sagt ríða rosalega mikið og endalaust – stelpur geta ekki sagt nei, nema með því að segjast vera á túr. Já, svo ekki sé minnst á að konur hafa ekki gaman að kynlífi og séu sífellt að leita sér leiða til að sleppa við kynlíf.
Og munið – kvenfyrirlitning er ekki minni kvenfyrirlitning þó svo að konur taki þátt í að leika grínið.

2. atriði  – 8:11 – Stelpur sem eru í Kringlunni að versla, eru alltaf ógeðslega leiðinlegar við mennina sína og láta þá bera pokana útum allt. Niðurstaða: Það er alltaf ógeðslega leiðinlegt fyrir stráka að fara að versla með stelpum því þá er þeim breytt í einhverskonar zombía með innkaupapoka.

Og svo kemur auk þess í ljós að atriðið er dulin auglýsing fyrir Hamborgarafabrikkuna, þar sem strákarnir setjast niður, úrvinda eftir þessa hroðalegu meðferð. HA?

4. atriði – 11:30 – Við erum stödd á GAY PRIDE. Það er ógeðslega fyndið að vera hommi og þess vegna spyrja þeir fólk hvort það sé samkynhneigt og hlæja. „Ertu samkynhneigður? Nei. Fílarðu homma? Já, þeir eru snilld. Ertu þá samkynhneigður? HAHAHAHA!“

Er mín kynslóð í alvöru enn á þessu stigi? Ég veit alveg að femínistatussugagnrýnin mín á kynjaða grínið er ekki vinsæl alls staðar, en við hljótum að geta verið sammála að þetta er gamaldags og fordómafullt.

6. atriði – Strákur kemur inn í apótek að kaupa smokka. Hann getur ekki beðið eftir að…. Sjón er sögu ríkari á 16:20.

7. atriði – 18:16 – Strákur og stelpa fara á stefnumót, þau fara í bíltúr, stelpan vill bara spjalla. Hún keyrir svo með hann eitthvert þar sem enginn er og fer úr fötunum og segir „Taktu það sem þú vilt.“ Strákurinn tekur bílinn og skilur stelpuna eftir, nakta.

10. atriði – 23:40 – Stelpa er að selja sig en setur bara alltof mikið upp fyrir það. Djóóóók, hún er að bara að selja rúm í IKEA.

Vændi er SVO fyndið. Eru annars ekki allir að hlæja?

11. atriði – 25:30 – Karlar í jakkafötum eru að monta sig af peningum og bílum en reyna að tala í hálfum hljóðum,  því að sonur eins félaganna á svo bágt, var að koma út úr skápnum.

Annar karlanna segir frá því að sonur hans  hafi boðið vini sínum í tveggja vikna djammferð, því að hann eigi svo mikinn pening. Seinna kemur í ljós að vinurinn er sonurinn sem á svo bágt, þessi sem er hommi. Ó NEI! Þeir voru þá bara í hommaferð að taka hvorn annan í rassinn í heilar tvær vikur!

Ég sem hélt að íslendingar væru komnir lengra í réttindum samkynhneigðra sem og jafnrétti kynjanna. 

Eftir þessa snöggsoðnu lýsingu á efni þáttarins vil ég segja þetta:

Ég geri mér fulla grein fyrir því að þátturinn er aðeins verk einnar fámennrarnefndar í Versló, sem því miður svertir allan skólann. Nefndin er áberandi innan skóla sem utan, svo eðlilegt er að draga þá ályktun að viðhorfin viðgangist innan skólans. Kúl strákarnir haga sér svona og enginn vill vera á móti þeim. Það vilja allir vera með þeim í liði, því að þeir eru kúl. Ég man alveg eftir þessum móral. Það eru bara fimm ár síðan ég var 16 ára.

Ég er ekki að ráðast á ákveðnar persónur eða skólann í heild sinni heldur að gagnrýna þetta „grín“ sem allir hlæja að og fáir þora að tala um að sé mjög, mjög skrítið grín. Gagnrýnin snýst um grínið – frá hugmynd að handritaskrifum að tökum að klippivinnu og að lokaklippi sem sýnt er öllum skólanum, og síðan öllu samfélaginu á internetinu.

Innan nemendafélagsins í Versló starfar feministafélag, sem er frábært. Ég fékk hinsvegar að líta inn í þann hóp og þar var ég rökkuð niður, ég var kölluð öfgafull og sagt að ég þyrfti að róa mig, kynna mér femínisma aðeins betur og horfa svo á þáttinn aftur.

Ég fylgist með því sem gerist í menntaskólum landsins. Ég er ekki fullorðin kona að skipta mér af menntaskólagríni, ég er af sömu kynslóð, ég fylgist með minni kynslóð og ég á vini sem eru enn í menntaskóla.

Örfáir viðurkenndu, í feministafélagi Versló, að það væri margt rétt í því sem ég var að segja. En ég spyr þá: Hvar eru stelpurnar? Stelpur eru nefnilega líka fyndnar.
Stelpur í Rjómann og 12:00 aðalskemmtiþætti Verslunarskóla Íslands 2015!

Femínismi er eldheitt umræðuefni – og ég viðurkenni að ég var smeyk við að skrifa þetta, enda hef ég fengið mikinn skít yfir mig í persónulegum skilaboðum, sem mér finnst best að hunsa en get ekki látið hjá líða að birta þessi dæmi:

Þú ert bara afbrýðissöm þar sem þú komst ekki sjálf inn í versló.”

Þú ert bara bitur undarleg kona sem vælir yfir einhverju bara til að skapa vandræði.

„…ég held þú sért að gera meiri skaða en gagn með þessum yfirlýsingum sem þú hefur látið frá þér í dag varðandi Rjómann í Versló.

Mér fannst að einhver þyrfti að segja eitthvað, svo ég sagði eitthvað. Fullt af fólki er ósammála mér um kvenfyrirlitninguna… en kommon, við hljótum að geta verið sammála um það að þetta hommagrín er bæði gamaldags og lágkúrulegt?

Ég vil einnig benda á að svona grín viðgengst ekki bara í Versló heldur flestum framhaldskólum. Sjálf man ég eftir mörgum lögum með ljótum texta frá MH, MR og fleiri skólum. Þetta viðgengst almennt í framhaldsskólum.

Nú hef ég vonandi vakið einhverja til umhugsunar og vona ég að vitundarvakning verði í framhaldskólum landsins hvað jafnrétti og hugsun varðar í gríni.

Miðað við þau viðbrögð sem ég fékk í kommentum, einkaskilaboðum á facebook og ummælum um mig á Feministafélagssíðu Verslunarskólans, eftir að ég lýsti upplifun minni á gríninu er auðvelt að setja sig í spor menntaskólanema á viðkvæmum aldri sem samþykkja ekki grínið. Maður á greinilega ekkert að gagnrýna gauraháttinn í þessu: Þá er maður femínistatussa með öfga, húmorslaus eða leiðinlegur.

Maður ætti kannski bara að halda áfram að halda kjafti, vera sæt og fara á blæðingar?

12 athugasemdir við “Rjóminn af íslensku menntaskólagríni?

 1. Nú spyr ég þig. Mega þau ekki hafa gaman? Ég er í MH og mér fannst sum af þessum atriðum vera fyndin. Þarf alltaf að vera að fara í einhverja pólítíska og kynréttaumræðu um allt. Maður þorir ekki lengur að gera né segja neitt. Verzló er mjög góður skóli og ég er mjög ósátt með þessi ummæli þín.

  • En hvaða áhrif hefur þessi skemmtilegheit? Með þessum bröndurum er verið að ýta undir meðvitundarlaust að það sé ásættanlegt hlutgera kvennmenn og koma fram við þá eins og þær séu af hinu óæðra kyni. Mannfólk á nefnilega merkielga erfitt með að skilgreina á milli hvað er bara sagt í djóki og hvað er alvara.

  • Er ekki kominn tími til að þú opnir aðeins augun? Heldur þú virkilega að grín hafi ekki nein áhrif á hugsunarhátt fólks?

   Það sem meira er endurspeglar þetta grín hvað unglingar í dag eru með úreltan og hrikalega áhyggjufullan hugsunarhátt gagnvart kvennmönnum. Og það sem verra er þá eru stelpurnar líka orðnar svo bilaðar í hausnum og þær halda að ef þær taki ekki þátt í þessu þá fitti þær ekki inn og eru ekki cool. Það er enginn að banna neinum að hafa gaman og ef þín hugmynd að „gaman“ er að gera lítið úr kvennmönnum og hlægja yfir hvað þær eru óæðri köllum þá vona ég að þú byrjir að hugsa þinn gang sem fyrst.

   Það að þú sért komin með nóg af þessum umræðum sýnir hvað þú ert lokaður/lokuð fyrir hversu mikið áhyggjuefni þetta er. Ef þú ætlar að gera eitthvað fyrir þetta samfélag annað en að vera dauður fiskur í straumnum mæli ég með að þú byrjir að hugsa aðeins út fyrir rammann

 2. Ég er í menntaskóla á fjórða ári og vildi bara segja að ég er sammála þér og er mjög ánægð að þú ákvaðst að skrifa þessa grein og vekja umræðu á þessu! Ég hef oft verið ósammála svona, og eins og þú segir þá þorir maður ekki að segja neitt því ef maður er ekki sammála heildinni þá er maður ekkert nema húmorslaus eða skilur þetta bara ekki og er leiðinlegur.

  • mega þau ekki hafa gaman? hverskonar spurning er þetta í samhenginu? Inntak greinarinnar fjallar engan veginn um ræna fólk gleðinni. Ef þú sérð það þannig hefurðu ekki lesið greinina til hlítar og ættir því ekki að tjá þig frekar, burt séð frá því hvort þú sért í MH eða hvar sem þú ert. Um er að ræða gagnrýni sem á fullan rétt á sér, vegna forneskjulegra staðalímynda kynja og kynferðis, eða eins og greinahöfundur skýrir með eigin orðum: mannfyrirlitning og ósmekklegheit. Þú ert í MH og finnst sum atriðin vera fyndin. OK. ég er ekki í MH og mér finnst sum atriðin fáránleg og verulega ófyndin. Þau birta heimskulega, fordómafulla og niðurlægjandi myndir af konum og hommum og ég á bágt með að sjá húmor í stað heimsku við það. Þarf alltaf að vera að fara í einhverja pólítíska og kynréttaumræðu um allt? uhh… hvað meinarðu? ertu að segja að verslógrínið sé hafið yfir gagnrýni eða skoðanir? allt sem gert er opinbert kallar á gagnrýni og skoðanir. sér í lagi þegar birtingarmynd þess virkar sem léleg og niðrandi gagnrýni á aðra hópa samfélagsins. Mér er líka nákvæmlega sama hvort Versló sé góður skóli eða ekki. Þetta snýst heldur ekki um það, takk.

 3. Fyrst þú fékkst að kikja inna síðuna hja Feministafelagi Verzlunarskolans þa ættiru að hafa seð að lang flestir voru sammala þer og örfair voru a moti þer. Ekki hyfa þig upp með þvi að rakka aðra niður og siðan kvarta þegar aðrir eru að gagnryna þig, serstaklega skrifa blogg um það.

  Það er flott að þu vaktir athygli a þessu og þar sem þu ert ung kona að hugsa um kynsloðina þina er best að vanda orðin betur, kikja aðeins inn i malin og frekar hafa allt a hreinu aður en þu ferð að skapa svona mikla umræðu jafnvel usla.

  Þu ert ekki ein um það að hafa fengið ljot skilaboð a facebook og jafnvel ljota tölvuposta, heldur hafa þessir strakar fengið svoleiðis hraun yfir sig, sem sumum finnst þeir eiga skilið, en þa er spurningin, hvort er betra að gera saklaust grin sem var meint i saklausum tilgang um að gera flottann, fyndinn þatt eða viljandi raðast a nokkra einstaklinga og segja að þeir seu skemmd epli og ættu að vera reknir ur skolanum?!?

  Þessir strakar eru allir yndislegir menn með ju kannski, ureldan, svartann humor en heimurinn er ekki fullkominn, þunert ekki fullkominn, þunert ekki fulkominn og þessvegna eigum við að vera jakvæð að það er alltaf eitthvað hægt að laga Á JÁKVÆÐANN HÁTT.

  Vonandi horfiru a þattinn aftur með aðeins jakvæðari augum, ryna i vinnuna sem þessir strakar settu i þattinn, svefnlausu næturnar sem þeir voru að stressa sig a að allir myndu utskufa þa ef þeir hefðu gert lelegann þatt., sem einmitt gerðist. Þeir munu eflaust gera næsta þatt enn betri vegna þess þeir vilja gera goðann þatt eftir alla gangrynina sem þeir fengu.

  Verum öll saman i liði þvi við getum ekki borist gegn orettlatum mannrettindum og. Kynjajafnretti ef eitt kynið er að raðast a hitt kynið.

  Afram þu og afram þeir afram alliir!

 4. Af hverju misskilja allir tjáningarfrelsið? Það felst í því að STJÓRNVÖLD hafa engan rétt til að reyna að þagga niður í fólki, það þýðir ekki að einstaklingar megi ekki reyna að gera það og það þýðir ekki að fólk sé hafið yfir gagnrýni.

  Ég veit að þetta er lélegt af mér en ég hreinlega nenni ekki að horfa á þennan þátt, því get ég lítið tjáð mig efnislega um málið. Húmor er hinsvegar mjög prívat hlutur og mjög smekksbundinn. Það er lítið varið í húmor nema að það sé allavegana séns á því að hann móðgi einhvern enda er húmor mjög byltingarkenndur hlutur í einræðissamfélögum.

  Það myndi gelda húmor mikið ef maður þyrfti að fara yfir einhvern huglægan lista í hvert einasta skipti sem maður reyndi að vera fyndinn til að vera viss um að hafa nú ábyggilega ekiki sært tilfinningar einhvers. En það er heldur ekki eins og fólk hafi ekki fullan rétt á því að hafa vandlætingu á því þegar einhver reitir af sér brandara sem einkennast af kvenfyrirlitningu, rasisma, hommafóbíu o.s.frv.

  Þá er nú allavega lágmarkskrafa að viðkomandi sé fyndinn.

 5. Það er mjög margt til í því sem þú skrifaðir um þáttinn en þú veist að það er komin stelpa í 12:00 þannig þetta ætti loksins að vera að breytast og bara ef þú myndir skoða rjómaþætti frá síðasta skólaári þá myndirðu sjá að það eru allt öðruvísi sketsar þar sem ættu þá líka að endurspegla andrúmsloftið í versló og ég hvet þig eindregið til að gera það.

 6. Sæl, flott grein og margt rétt í henni.

  Vildi bara benda þér á að það er stelpa í 12:00 eins og er, ef þú hefur ekki séð þáttinn þá mæli ég eindregið með því að þú kíkir á hann 🙂 !

 7. Þegar ég var í Verzló 2004 var Rjóminn alveg stórsniðugur! Sama gilti um 12:00, frumlegir og fyndnir þættir.
  Nú virðast þetta vera tilvalin dæmi um heimskuvæðingu æskunnar. Mjög sorglegt.
  Nauðsynlegt að benda á þetta. Hvar er greindin, frumleikinn og hugmyndaflugið?

  Takk fyrir 🙂

 8. Mjög góð grein og ég er innilega sammála gagnrýni þinni.

  Ég legg stund á kvikmyndanám og er núna í tíma sem snýst um það að læra grínskrif fyrir sjónvarp. Húmor er vissulega mjög einstaklingsbundinn en við erum með þá þumalputtareglu að þegar fleiri hrista hausinn en hlæja þá fórstu yfir strikið. Við erum líka með þá reglu að endurnýta ekki brandara annarra og reyna eftir bestu getu að koma með nýja hlið á gamla, ofnýtta brandara. Það sem mér blöskrar næstmest á eftir kven- og hommafyrirlitningunni í þessum þætti er hreinlega hversu ótrúlega ófrumlegt efnið er. Þessir brandarar komu mér ekkert á óvart, ég hafði lesið þá flesta áður aftast í gömlum eintökum á Séð&Heyrt á meðan ég var í klippingu eða á biðstofu einhvers staðar. Strákarnir í nefnd Rjómans hefðu getað snúið upp á þessa „klassísku“ (lesist: úreltu) brandara og gert þá ferska og fyndna. Þeir hefðu getað notað þá til að gera grín að kven- og hommafyrirlitningu í stað þess að ýta frekar undir slíkt. Þeir höfðu augljóslega gott fjármagn til að gera þennan þátt og mér finnst frekar leiðinlegt að þeir hafi bara sóað því í slík ófrumlegheit.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.