BLEIKA SKILTIÐ

Höfundur: Sigrún Huld

safnahúsið bleiktÞað var kaldur og blautur haustdagur í „bleika mánuðinum“, október. Ekki að ég væri að pæla í bleika mánuðinum, ég er alltof sérlunduð og mikill félagsskítur og hef auk þess alltaf pirrast svolítið á þessu uppátæki: ég meina, af hverju þarf allt tengt konum að vera bleikt? Þó skárra en brjóstabollurnar sem líta má í bakaríum í tengslum við held ég brjóstakrabbamein einhvern árvissan tíma. Mér finnst þær ekki bara viðeigandi. Hvernig ætla menn að hafa myndskreytingarnar þegar árviss blöðruhálskirtils-varnar-dagur tekur sinn sess? Ha? Karlar, þið getið ekki endalaust látið okkur fá sviðið si sona, eins og líkami (eða öllu heldur líkamspartar) kvenna séu miklu merkilegri en ykkar! Komið í snatri upp „bláa mánuðinum“, t.d. apríl (the cruellest of months). Háskólinn blálýstur, Landspítalinn sömuleiðis, kannske sá í Fossvogi með reðurtáknið flotta. Hugsiði ykkur það, blálýst upp til himins. Mögulega bakaríisvöru tengda þessu vil ég helst ekki hugsa til enda.

Svo nú get ég aftur komið að þessu með haustdaginn minn. Það verður að taka það strax fram að ég var venju fremur fúllynd þennan dag. Ég var þreytt og þegar ég verð þreytt þá kemst ég í „vandlætingarstuð“. Vandlæting er ófín í dag. Við eigum öll að vera jákvæð, brosa í spegilinn á morgnana og segja ofurlágt við okkur sjálf „þú ert sæt og góð“ – alveg burtséð frá því að í speglinum blasa miskunnarlaust við pokar og hrukkur, niðurdregin munnvik, gráleitt yfirbragð – um meinta gæsku þarf ekki að tala. Á öldum áður, eftir að upplýsingin kom til, var vandlæting fín. Hún var sama og gagnrýnin hugsun, krafturinn sem átti að draga þjóðirnar út úr miðaldamyrkri, knýja framfarirnar. Hvað segir ekki Jónas, listaskáldið góða, þegar hann sér fyrir hugskotssjónum sínum upplýsingamanninn Eggert Ólafsson stíga endurlífgaðan úr öldum Breiðafjarðar:

Marblæju votri varpar sér af herðu

vandlætishetjan, sterkum búinn gjörðum.

Svo kannske var ég ekkert fúllynd þennan dag, heldur vandlætishetja. Hljómar miklu betur. Strætó kom of seint, svo seint, að það kollvarpaði öllum mínum plönum (voru tæp fyrir). Þetta skeikaði vissulega bara fimm mínútum, en vandlætishetjan í mér vaknaði samt. Það var sem sagt undir þessum kringumstæðum, sem ég sá það. Bleika skiltið frá Krabbameinsfélaginu.

Finnum konurnarÞetta var svosem alveg meinlaust skilti. Það var bleikt – var ég annars búin að nefna það? – og boðskapurinn var greinilega að maður ætti að mæta í leghálsskoðun. Það var nú ekki sagt beint að einungis konur ættu að mæta, í textanum var raunar bara talað um „fólk“. En vonandi ná flestir samhenginu, ef þau hjá Krabbameinsfélaginu lesa þetta og vita betur: alltaf af og til að koma karlar á ýmsum aldri og biðja um leghálsskoðun, „svona til öryggis, þú veist“, þá tek ég leiðréttingu þakklát. Nema ég verði vandlætishetjan þann daginn, þá er aldrei að vita.

En, svo ég fari að tala markvisst hérna, þá komst vandlætishetjan í fulla aksjón við að lesa þennan saklausa texta á bleiku blaði. Skilaboðin voru í sjálfu sér einföld og samanstóðu af tveim fullyrðingum:

 1. Það tekur bara örfáar mínútur að fara í leghálsskoðun
 2. Það er alls ekki eins mikið mál og fólk heldur

Ég gerði snöggan útreikning. Nú bý ég nærri Leitarstöðinni og get labbað þangað. Hins vegar fer skoðunin fram þegar ég er að vinna, en ég vinn líka nærri. Já, humm, gæti tekið leið 18, stoppar rétt hjá, jæja, alla vega ekki langt frá, passa að vita hvenær ég næ honum til baka, en er þetta þá kannske á dauða tímanum þegar þeir ganga á hálftíma fresti, þið vitið þarna um miðjan daginn þegar strætópakkið á að vera að VINNA, ekki frílista sig í strætó…. nú, ég gæti nátla bara hjólað, ég með þetta prýðis fjallahjól. Hjólað – nei, kann ekki alveg við það, allt í lagi til en ekki eins gott frá. Samt sem áður, ég er bara vel sett hvað fjarlægðir snertir. Svo þarf ég að tilkynna mig – og borga – nei, varla borga, það var allavega ekki nefnt á bleika miðanum. Svo bíða, fyrst frammi, síðan íklædd bleikum gopa sem ég held utan um mig innan um fullt af öðrum, álíka klæddum konum. Samt betra en var þegar ég var að byrja að fara, þá var manni vísað inn í skáp, ca. fermeter á stærð og sagt að hátta sig og svo yrði kallað á mann. Og þar beið maður, klæddur eins og fífl, gat auðveldlega verið tíu mínútur. Þegar ég var tuttugu og þriggja fékk ég ber í brjóstið. Ég fór í panik og sá fyrir mér ískalda gröfina skammt undan. Hafði mig samt niður á Leitarstöð, hún var við Suðurgötuna þá minnir mig, en ég gleymi aldrei þessum tíu mínútum í skápnum þar sem ég beið dauðadómsins. Það var verið að lesa útvarpssöguna: Grænn varstu dalur. Góð bók. Á hana. Þekki textann enn sem lesinn var á þessum tíu mínútum.

Svo aftur sé komið að fullyrðingu 1., þá gæti ég alveg sloppið með klukkutíma frá vinnu. En þeir sem koma lengra að – ég meina, hvar er eiginlega næsta leitarstöð?

Hvað er vandlætishetjan annars að nöldra? Mega ekki konur þakka fyrir að þessi þjónusta er fyrir hendi yfirleitt? Jú, auðvitað og auðvitað er sjálfsagt að mæta og ég geri það. Af því að mig langar að deyja úr elli, frekar en krabbameini.

Samt fannst vandlætishetjunni minni skrýtið að þurfa að segja, ja, líklega konum, ég býst við að þær séu þetta fólk, að það sem tekur í reynd minnst klukkutíma tæki fáeinar mínútur. Afhverju þessi afbökun sannleikans?

Númer tvö: Það er alls ekki eins mikið mál og fólk heldur. Aftur þetta fólk. Hæ, strákar, þarna úti! Eruði ekki alltaf að spá í hvort það sé mikið mál að fara í leghálsskoðun? – Nei, gengur ekki upp. Þetta er greinilega konurnar sem er verið að tala til. Svo þær halda að þetta sé mikið mál. Ekki er nú að spyrja að hjartveikinni í kvenfólkinu, hefði Bjartur í Sumarhúsum sagt. Er það kannske eitthvað mál að klöngrast upp í stólinn þarna, sveipa frá sér bleika hýjalíninu svo maður er allsber að neðan og setja svo fæturna í stoðin sem láta mann glenna sig sem best. „Rassinn aðeins neðar“ segir röddin milli fótanna – og maður finnur allt opnast þarna niðri. Framan í ókunnugt fólkið! Núorðið kynna þau sig og eru stundum konur. Ekkert svoleiðis þegar ég var að byrja að fara. Ég tala nú ekki um mæðraskoðanirnar í þá daga. Þarna mætti maður, fölur af ógleði og fyrir löngu hættur að búast við neinu gleðilegu út úr þessu sem hafði tekið líf manns yfir. Upp á bekkinn, sundur með fætur og svo sagði röddin: Jæja, höfum við það ekki gott í dag? Það var greinilega ekki séns á að svara: kannske þú góði, en allavega ekki ég. Maður muldraði kannske eitthvað um ógleði o.fl., og var sagt að það gengi yfir.

Nei, vitiði hvað, konur halda ekkert um leghálsskoðun. Þær VITA. Að hún er mikilvægt skimunartæki. Að ef þær fara ekki þá geta þær dáið fyrir aldur fram, frá börnum, barnabörnum, mökum, vinum, jafnvel foreldrum. Þær vita líka að skoðunin er MÁL fyrir konur. Okkur finnst hún nefnilega óþægileg,  líka mér sem er annars ekki feimin við nekt. Mér finnst hún niðurlægjandi. Þegar ég var ung sagði einn læknir við mig glottandi þegar ég stundi eitthvað yfir því að klífa um borð í píningatækið: „Nú, ég hélt að YKKUR þætti þetta svo gaman“. – Í dag hefði ég samstundis klifið niður aftur, klætt mig og klagað hann í landlækni. En þá var ég ung og illfær um að standa á mínu. Í dag myndi held ég enginn tala svona.

En samt – það renna á mig tvær grímur. Ef  Krabbameinsfélagið getur látið búa til auglýsingu, sem talar til kvenna eins og þær séu óþekk smábörn sem vilja ekki taka Amoxicillin-mixtúruna sína, þótt hún sé sykruð og allt – gæti maður þá ekki bara líka lent í einhverjum sem segði við mann: Komdu hérna ljúfan, þetta tekur enga stund og er miklu minna mál en ÞIÐ haldið!

Svo – af því að þennan dag var ég vandlætishetjan – fór ég að hugsa um allar HINAR auglýsingarnar. Því bak við hverja birta eru endalaust margar mögulegar sem hefðu getað orðið. Nú er ég stödd á hálu svelli, því auglýsingar eru ekki mín sterka hlið. Knappur texti – ja, þið sjáið það sem á undan er farið, ræði það ekki frekar.

En tvær fullyrðingar um leghálsskoðun fyrir FULLORÐNA:

T.d.

Leghálsskoðun getur fyrirbyggt krabbamein í leghálsi

Við tökum vel á móti konum.

– Ég læt auglýsingafólkinu eftir að klæða þennan boðskap í smellna, bleika umgerð, en þetta er boðskapur handa ábyrgu fólki.

Einhver sagði mér að þessi boðskapur væri sérstaklega ætlaður ungu konunum. Þær vissu svo lítið og mættu svo illa.

Halló! Ég á þrjár dætur sem samanlagt hafa átt að minnsta kosti fimm sett af vinkonum sem ég hef kynnst gegnum þær. Ungar konur eru KLÁRAR! Þær eru miklu klárari en við vorum. Ef þær mæta illa í leghálsskoðun er það ekki vegna þess að þær VITI ekki hvort það er mál eða hve mikið mál. Það gæti verið:

 • Blankheit, það varð bankahrun hérna um árið sem bitnaði hart á ungu fólki og rannsóknin kostar, allavega nokkra þúsundkalla
 • Annríki, flest íslenskt námsfólk vinnur með skóla
 • Ungt fólk gerir ekki ráð fyrir að veikjast, síst alvarlega. Það er eins og það á að vera. Svoleiðis er ungt fólk

Svo segið þessum ungu, kláru konum statistik: setjið á skiltið tölur um leghálskrabbamein hjá ungum konum. Línurit með breytingum á tíðni sjúkdóms tengt komum á leitarstöð: komum fækkar, tíðni eykst og öfugt. Og svo framvegis.

Mér er vel við Leitarstöðina. Af því að hún er nauðsynleg. Af því að hún bjargar mannslífum. Lífi ungra kvenna þar á meðal. Ég get fyrirgefið bleika litinn, bara smáatriði. En í guðs bænum – fáið ykkur PR fólk sem talar ekki við konur eins og fimm ára börn.

Og verið þakklát fyrir vandlætishetjurnar. Ef þær væru ekki mynduð þið líklega halda að þessi auglýsing sé bara fín og um að gera að tala við þær „í soldið léttum dúr, þið vitið“.

Ein athugasemd við “BLEIKA SKILTIÐ

 1. Sæl nafna 😉

  Fín pistill. Langaði að benda þér á krabbameinsátakinu sem er/var beint til karlmanna sem hefur einmitt einkennislitinn bláan. Blái naglinn kallast þetta og um tíma var verið að selja bláan nagla sem svona svar við bleiku slaufunni. Mér fannst þetta alltaf eitthvað svo óheppilegt eitthvað…Ein af setningunum var „Vertu nagli – sýndu stuðning“. Skil ekki alveg þessa tilvísun í að vera „nagli“ sem minnir mig bara á að vera „harður nagli“ sem er erfiður, fordómafullur og gildishlaðinn kynjastimpill…bara meiðandi. Þannig að ok…það var verið að breiða út góðan boðskap en á sama tíma að halda góðu lífi í úreltum hugmyndum um karlmennsku. Nema ég hafi misskilið þetta eitthvað…

  Það safnaðist þó slatti af monníngum í gegnum þetta átak til tækjakaupa fyrir LHS og gott um það að segja.

  Fínn pistill annars vildi bara benda þér á þetta

  kv
  Sigrún Huld

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.