Er búningurinn viðeigandi?

Höfundur: Alda Villiljós

Hrekkjavaka er á leiðinni og því er við hæfi að minna fólk á hversu auðvelt það er að falla í þá gryfju að velja óviðeigandi búning. Í vestrænu samfélagi eru kynþáttafordómar svo djúpt grafnir í huga okkar að við tökum oftast ekki einu sinni eftir þeim. Það er í raun algerlega eðlilegt, ef maður hefur alist upp í jafn hvítu og vernduðu samfélagi og Ísland hefur verið, að hugsa ekki sérstaklega um, og hvað þá verða var við kynþáttafordóma í kringum sig – þeir eru orðnir svo góðir í að fela sig í minnstu hlutum og hugsunum! Þeir leynast best í svokallaðri menningarlegri misbrúkun (e. cultural appropriation).

Til þess að skilja hvað það er, þurfum við að skoða aðeins sögu Evrópu. Sú saga einkennist að miklu leyti af því að fara til annarra menningarheima og taka yfir þá, þröngva okkar sjónarhornum upp á þá og taka svo heim með okkur tilviljanakennda hluta af menningunni og sýna þá sem “exótíska” og “spennandi”. Í grófustu dæmum má benda á dýragarða og fjölleikahús sem sýndu frumbyggja Afríku, Ástralíu eða Ameríku sem fávísa villimenn, en í saklausustu dæmum má nefna hluti eins og klæðnað sem ber menningarlega merkingu í heimalandi sínu en hefur verið farið með sem fyndinn eða kynæsandi búning eftir að hann kom til Vesturlandanna. Það eru mörg dæmi um þetta seinna sem eru enn við lýði í dag og koma alltaf upp í kringum hrekkjavöku (og, á Íslandi, öskudag). Meðal þeirra eru höfuðföt indjána, förðun í anda mexíkanskra skreyttra höfuðkúpa (e. sugar skull, mex. calavera), arabar (sérstaklega þegar búningurinn er merktur sem “terrorista búningur”), höfuðföt múslima, förðun sem á að láta þig líta út fyrir að vera af öðrum kynþætti (e. blackface) og ótal margt fleira.

búningar1

Auðvitað er það ekki ætlun neins að virðast niðrandi með búningnum sínum, en eins og áður sagði er þessi minotkun á menningu annarra orðin svo pikkföst í okkar eigin menningu að það er ótrúlega algengt að átta sig hreinlega ekki á því að það sé nokkuð móðgandi við það. Staðreyndin er þó sú að manneskja úr menningu eða af kynþætti sem búningurinn á að líkjast getur séð það sem fyrirlitningu, fordóma og það getur haft alvarleg áhrif á sjálfsmynd viðkomandi. Þess vegna vil ég vara ykkur öll við fyrirfram, svo að þið gerið ekki þau leiðu mistök að gera óvart lítið úr menningarheimum annarra. Þumalputtareglur til að hafa í huga:

 • Er auðvelt að tengja búninginn þinn við sérstakan menningarheim?
 • Er auðvelt að tengja búninginn þinn við sérstakan kynþátt?
 • Er auðvelt að tengja búninginn þinn við neikvæða staðalímynd?

Ef svarið við einhverri af þessum spurningum er já, þá er líklegast öruggara að velja þér einhvern annan búning. Á myndunum  hér að ofan geturðu séð dæmi um búninga sem eru mjög óviðeigandi, en sem betur fer er úr nógu öðru að velja! Hér koma nokkrar handahófskenndar hugmyndir af netinu sem eru algerlega öruggar með það að gera ekki lítið úr neinum. Tryggðu það að allir geti skemmt sér á hrekkjavöku og að enginn fari heim með minna sjálfsálit bara vegna búningsins þíns!

búningar2búningar3 (2)

6 athugasemdir við “Er búningurinn viðeigandi?

 1. Nornabúningur
  Gerir ekki nornabúningurinn lítið úr grasakonum og hómópötum og menningu fólks sem er hlynt náttúrulækningum?
  Eru ekki skv. staðalímyndum nornir yfirleitt hvítar og verða því tendar við hvíta kynþáttinn?
  Eru skv. staðalímyndum nornir ekki vondar (borða börn, hafa mök við djöfulinn o.s.frv.) og líka konur, þ.e. vondar konar? Er verið að flytja þau boð að konur séu vondar?
  Fellur nornabúningurinn því ekki á öllum prófunum þremur sem talin voru upp?

  Sjóræningjabúningur
  Er ekki auðvelt að tengja sjórán a.m.k. nútímasjórán við menningarheim Sómala? Þeir stunda þau a.m.k. af nokkru kappi.
  Tengjum við ekki sjóræningja (í fortíð) yfirleitt við hvíta kynstofninn, nema sem er sædsjóv? En sjóræningja í nútíð við svarta kynþáttinn?
  Eru sjónræningjar ekki blóðþyrstir morðingjar sem ræna og drepa saklausa sjófarendur og strandbyggja? Og eru ekki nánast allir sjóræningjar karlar? Er ekki staðalímynd sjóræningja þá karlmaður? Vondur karlmaður. Er verið að flytja þau boð að karlar séu vondir? Hvað með þau særindi sem slíkur búningur getur valdið Vestmannaeyingum, en fyrrv. borgarstjóri Ólafur F. Magnússon lagðist m.a. gegn moskubyggingu á grundvelli þess að slíkt myndi særa Vestmannaeyinga sem eru enn í sárum eftir Tyrkjaránið sem voru sjóræningjar gerðir út af múslimum.
  Búningurinn fellur því væntanlega á prófunum þremur.

  Ef menn vilja missa sig í pólitíska rétthugsun, er erfitt að draga línuna einhvers staðar.

  • Er hryðjuverkamaður ekki starfsvið? Eða Geisha?
   Þegar ég var í indjánaleik í gamla daga, þá var það af virðingaskyni við hina hraustu stríðsmenn i Ameríku. Ef að börn mega ekki sækja sér fyrirmyndir í aðra menningu þá er eitthvað sorglegt í gangi.

   Og hvað gerir nú annars meira en að viðhalda staðaímyndum en strumparnir. Hreinræktað feðraveldi (yfirkarlinn er meira segja með skegg), þar sem karlar vinna vinnuna og hafa sérhæfingu og eina kvenkynið þjónar fyrst og fremst einhvers konar trophy hlutverki og var ekki tekin í sátt fyrr en hún varð falleg.

 2. Hryðjuverkamaður er vissulega starfssvið. Ég hef ekkert út á þá að setja (nema hvað mér finnst einstaklega ósmekklegt að klæða sig upp sem manneskja sem beitir ofbeldi) en oftar en ekki er svokallaður „hryðjuverkamannabúningur“ búningur af „araba.“ Ég vona þú sjáir muninn og af hverju það skiptir máli.

  „Indjánaleikurinn“ er því miður leikur eftir skaðlegum stereótýpum sem frumbyggjar sjálfir hafa beðið um að séu ekki leiknir – þeim finnst það ekki vera neitt sérstaklega mikil virðing. Ég kýs að hlusta á það.

  Vissulega viðheldur strumpaheimurinn ýmsum skaðlegum stereótýpum. En það er annað umræðuefni. Málið er að strumpar eru ekki alvöru þjóð/þjóðflokkur/hópur sem verður fyrir skaða af því að fólk heldur að það séu einhverjar fantasíuverur og hefur því gaman af að klæða sig í þannig búning – rétt eins og mikið af frumbyggjum finnst að sé komið fram við sig þegar fólk klæðir sig í „indjánabúning“ og með þvi setur það undir sama hatt og hafmeyjur og einhyrninga.

 3. „sem frumbyggjar sjálfir hafa beðið um að séu ekki leiknir – þeim finnst það ekki vera neitt sérstaklega mikil virðing.“

  Og erum við ekki byrjuð að tala niður til fólks og/eða menningar þegar við gerum ráð fyrir að úr því fólkið sé indjánar þá hljóti það allt að hafa sömu skoðun og tilfinningar? Er ekki einmitt stór hluti af af „business“ margra af þessum þjóðflokki að gera út á steríótýpuna? Sumum sárnar allt, aðrir eru uppteknir af því að vera sífellt að móðgast fyrir annarra hönd. Sárnar þér t.d. þegar þú sérð fólk í kjánalegum víkingabúningum? Eða er þér e.t.v. bara nokkurn veginn sama? Og ef að þér sárnar ekki, en gerir ráð fyrir að öðrum menningum sárni, verður að velta fyrir sér af hverju það er. Að sú menning sé minni máttar? Ekki eins fín? Að fólk hafi eitthvað til þess að skammast sín fyrir út af upprunanum? Að ekki megi minna það á uppruna sinn?

  En hvernig í ósköpunum getur „jafnrétti“ komist á þegar alltaf þarf að tipla á tánum í kringum vissu hópa af krónískum ótta við að þeim kunni að sárna eitthvað? Dagurinn þegar það má segja negrabrandara, verður dagurinn þegar við viðurkennum að það sé nákvæmlega ekkert sem fólk þarf að skammast sín fyrir eða að sárna yfir að vera með annan húðlit en fölt. Rétt eins og flestir Hafnfirðingar komast ógrátandi í gegnum daginn þó svo að þeir heyri einhvern segja Hafnfirðingabrandara.

  Og hvernig fellur sjóræningjabúningurinn ekki undir starf sem einkennist af miklu ofbeldi og grimmd? Og sjaldan sjáum við ljóshærða sjóræningja, þeir eru yfirleitt frekar dökkir útlists, gjarnan úr barbaríinu, þ.e. arabar. Hins vegar eru víkingar mjög oft sýndir ljóshærðir, og því einhvers konar „árás“ á okkur hánorræna fólkið.

  Puntkurinn hjá mér eru ekki útúrsnúningar, heldur vandlæting á vanlæturunum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.